Fara í efni

Sýningar og gallerí

234 niðurstöður

Hespuhúsið

Árbæjarveg, 816 Ölfus

 Hespuhúsið er opin jurtalitunarvinnustofa þar sem gestir geta kíkt í litunarpottana og fræðst um þetta gamla handbragð. Hægt er að slaka á í setustofunni og skoðað gamla muni tengda handverki eða gömlum tímum en þar er vísir að litlu safni. Á vinnustofunni er jurtalitað band til sölu og pakkningar með uppskriftum að ákveðnum verkefnum með bandi.  

Opnunartímar eru auglýstir á heimasíðunni en enginn tími er heilagur og geta gestir kíkt við hvenær sem er ef þeir láta vita á undan sér með tölvupósti eða í síma.  

Norræna húsið

Sturlugata 5, 101 Reykjavík


Norræna húsið
Open daily: 10:00 – 17:00 

Móttaka
Open daily: 10:00 – 17:00 

Bókasafn
Open daily: 10:00 – 17:00
Sími: 551 7090 

AALTO Bistro
Sun - þri: 11:30 - 17:00
Mið - lau: 11:30 - 21:30
Sími: 551 0200

Höfði

Félagstún 1, 105 Reykjavík

Höfði á sér merkilega sögu sem tengist samskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir. Húsið var reist á Félagstúni fyrir franska konsúlinn, Jean Paul Brillouin. Það var hannað í Austur-Noregi og flutt tilsniðið til Íslands. Í byggingunni má sjá áhrif frá júgendstíl, klassísku nýbarrokki og norskri þjóðernisrómantík. Reykjavíkurborg keypti húsið árið 1958 og var það endurbætt og fært til fyrri glæsileika. Frá árinu 1967 hefur Höfði verið vettvangur fyrir gestamóttökur á vegum borgarinnar. Frægur er leiðtogafundur Reagans og Gorbatsjovs í Höfða í október 1986, sem talinn er marka upphafið að endalokum kalda stríðsins. Húsið er ekki opið almenningi.

Akranesviti

Breiðargata, 300 Akranes

Akranesviti er opinn allt árið um kring. Útsýnið frá toppi vitans er stórfenglegt allan hringinn, frá Reykjanesskaga, yfir höfuðborgina, Faxaflóann og út að Snæfellsjökli. Á veturna getur norðurljósadýrðin við vitana verið alveg einstök upplifun í góðum veðurskilyrðum. Tónleikar og listsýningar eru í vitanum á opnunartíma.

Opnunartími:

Virkir dagar: 10:00-16:00

Helgar: 12:00-15:00


Kakalaskáli

Kringlumýri, 561 Varmahlíð

Í Kakalaskála í Kringlumýri, Skagafirði, er sögu- og listasýning með hljóðleiðsögn frá átakatímum 13. aldar með áherslu á líf Þórðar kakala. Sýninguna prýða 30 listaverk sem unnin eru af 14 listamönnum frá 10 þjóðlöndum. Jón Adólfs Steinólfsson, myndhöggvari, var listrænn stjórnandi sýningarinnar.

Sturlungaöldin einkenndist af miklum átökum milli helstu höfðingjaætta Íslands um eignir og völd. Skagafjörður varð miðpunktur þessara átaka og þar voru háðar nokkrar af stórorrustum Sturlungaaldar. Meðal þeirra var Haugsnesbardagi sem fram fór þann 19. apríl 1246 og er hann mannskæðasti bardagi sem háður hefur verið á Íslandi.

Við Kakalaskála er að finna stórt útilistaverk, Sviðsetningu Haugsnesbardaga 1246 (Grjótherinn). Verkið var sett upp af Sigurði Hansen.

Hægt er að kaupa app (smáforrit) þar sem Sigurður býður upp á leiðsögn um sviðsetningu Haugsnesbardaga þar sem hann segir frá tilgátu sinni um aðdraganda og atburðarrás bardagans. Sjá nánar á https://www.kakalaskali.is/appid 

Í Kakalaskála er hlýlegur, timburklæddur salur sem nýtist undir ýmiskonar viðburði og veislur. Þar hefur verið boðið upp á fyrirlestra sem tengjast sögu og menningu, ráðstefnur, málþing og tónleika.

Á staðnum er Vinnustofa Maríu þar sem er að finna handverk og ýmislegt gamalt og nýtt.

Opnunartími sögu- og listasýningar: 

Alla daga frá kl. 13-17 frá 1. júní - 31. ágúst nema mánudaga. 

Utan þess tíma eftir samkomulagi: 8992027 (Sigurður), 8658227 (María), 6708822 (Esther)

Aðgangur: 3000 kr. / Eldri borgarar 2500 kr. Frítt fyrir yngri en 12 ára

Opnunartími Sviðsetningar Haugsnesbardaga (Grjóthersins):
Alltaf opið, Frítt inn

Opnunartími Vinnustofu Maríu: Fylgir opnunartíma sögu- og listasýningar: 8658227 (María)

Hótel Leirubakki

Landsveit, 851 Hella

Hótel Leirubakki leggur áherslu á góða og persónulega þjónustu og kappkostar að mæta kröfum hvers og eins.
Mjög falleg og hlýleg setustofa er í hótelinu og heitir pottar við húsvegginn, auk þess sem saunabað og stærri laug, Víkingalaugin, standa gestum til boða.
Veitingahúsið í sal Heklusetursins er í hæsta gæðaflokki og þar fer saman glæsilegur salur og frábært útsýni þar sem Hekla og Búrfell blasa við augum.

Mjög góð aðstaða er til funda- og ráðstefnuhalds og einnig hefur starfsfólk okkar mikla reynslu í að skipuleggja brúðkaupsveislur, óvissuferðir, hvataferðir, ættarmót og hvers kyns samkomur.
Leirubakki er í aðeins 100 km fjarlægð frá Reykjavík á góðum, malbikuðum vegi alla leið. Staðurinn er miðsvæðis á Suðurlandi og flestir sögustaðir og náttúruperlur  þessa landshluta eru í innan við klukkustundar akstursfjarlægð frá Leirubakka.

Hótel Leirubakki og Heklusetrið bjóða gesti velkomna allt árið.  Staðurinn er þekktur fyrir mikla náttúrufegurð og gott veður. Glæsilegt útsýni er til allra átta og fátt er betra en að njóta slökunar í heitum laugum staðarins hvort heldur er í miðnætursól á sumrin eða við skin norðurljósa og stjarna að vetrinum.

Tjaldsvæði eru opin frá maí og út september.

Víkingaheimar

Víkingabraut 1, 260 Reykjanesbær

Víkingaheimar í Reykjanesbæ er glæsilegt sýningahús sem hýsir nú fimm áhugaverðar sýningar þar á meðal víkingaskipið Íslending sem sigldi til Ameríku árið 2000. Húsnæðið er hannað af hinum margverðlaunaða arkitekt Guðmundi Jónssyni. Nútímaleg hönnun þess undirstrikar fegurð Íslendings.
Aðgengi að safninu er góður fyrir fólki sem á erfitt með gang eða háð hjólastól/göngugrind.  Gjafavara, ráðstefnu- og móttökusalir fyrir öll tækifæri og útisvæði fyrir víkingahátíðir eru einnig til staðar.

Opnunartími er 10 - 16 alla daga og hægt er að bóka morgunmat fyrir stærri hópa. 

Sýningar:

Örlög guðanna
Sýning um norræna goðafræði og goðsögur. Gesturinn er leiddur í gegnum þennan forna hugmyndaheim og goð og goðheimar birtast ljóslifandi á myndrænan og nýstárlegan hátt þar sem myndlist, frásögn og tónlist fléttast saman í eina heild. Sýningin er samin og unnin af viðurkenndum íslenskum samtímalistamönnum og norrænufræðingum sem þarna leiða saman hesta sína til að skapa glæsilegt og nútímalegt listaverk um fornan menningararf.

Víkingar Norður-Atlantshafsins
Sýning um siglingar og landnám norrænna manna og þátt þeirra í landafundum Norður-Ameríku. Sýningin var unnin í samstarfi við Smithsonian stofnunina í Bandaríkjunum.

Víkingaskipið Íslendingur
Skipið er nákvæm eftirgerð af Gaukstaða skipinu, níundu aldar víkingaskipi og sigldi árið 2000 yfir Atlantshafið til að minnast ferðar Leifs Eiríkssonar til Nýja heimsins þúsund árum fyrr.

Landnám á Íslandi
Merkar fornleifar af Suðurnesjum. Minjar um elstu byggð á Reykjanesi, nánar tiltekið frá Vogi í Höfnum og Hafurbjarnarstöðum.

Söguslóðir á Íslandi
Kynning á helstu söguslóðum Íslands unnin í samstarfi við Samtök um sögutengda ferðaþjónustu. Rúmlega 30 staðir, söfn, sýningar, minjar, hátíðir, mannvirki og slóðir ákveðinna sagna er kynnt hér.

Nánari upplýsingar á www.vikingaheimar.is eða í síma 422-2000.

Gamli bærinn Laufási

Laufás, Grýtubakkahreppi, 601 Akureyri

Laufás er sögustaður með mögnuðum menningarminjum og frábæru útsýni. Þar hefur verið búseta frá því að Ísland byggðist og staðið kirkja frá fyrstu kristni.

Þegar þú gengur inn bæjargöngin ferðastu aftur í söguna. Vissir þú að í Laufási var skóli, þar er leyniherbergi og brúðarhús?

Laufás var heimili prestsins, fjölskyldu hans og vinnufólks. Stundum bjuggu þar allt að 40 manns , því margt vinnufólk þurfti til að nytja þessa gróðursælu kostajörð en henni fylgdu mikil hlunnindi.

Búsetu í Laufási má rekja allt aftur til heiðni og hluta gamla bæjarins má finna viði frá 16. og 17. öld. Laufásbærinn var endurbyggður á árunum 1853-1882 í tíð séra Björns Halldórssonar.

Laufásbærinn er stílhreinn burstabær, dæmigerður fyrir íslenska bæjagerð þess tíma, en þó allmiklu stærri. Hann er búinn gripum og húsmunum frá aldamótunum 1900.

Laufáskirkja var byggð 1865 en meðal merkra gripa í henni er fagurlega útskorinn predikunarstóll frá 1698. Við austurgafl kirkjunnar stendur eitt elsta reynitré landsins frá 1855.

Húsin í Laufási eru 13 og mynda mikla rangala. Engin útihús hafa varðveist.

Opnunartími:
1.6.-1.9.: Daglega frá 11-17.

Aðgöngumiðinn Minjasafnið allt árið – gildir í Laufási.

Verð:
Stök heimsókn 2300 kr. fyrir 18 ára og eldri –  Börn 17 ára og yngri ókeypis, Öryrkjar ókeypis. Eldri borgarar 1300 kr.
Miðinn gildir allt árið á Minjasafnið á Akureyri, Nonnahús, Leikfangahúsið, Davíðshús og í Laufási.

Ferðaþjónustan Lýtingsstöðum

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð

Lýtingsstaðir er skagfirskur sveitabær með hrossarækt, staðsettur 19 km frá þjóðveg 1, sunnan við Varmahlíð. Héðan er stutt á Sprengisand og á Kjalveg. Hestatengd ferðaþjónusta hefur verið rekin á Lýtingsstöðum síðan árið 2000.

Boðið er upp á stuttar hestaferðir fyrir vana og óvana. Lágmarksaldur til að fara í reiðtúr er 6 ára en hægt er að teyma undir börn 3-6 ára heim á hlaði og í kringum torfhúsin okkar. Það er líka hægt að koma bara í smá kynningarheimsókn og hestaknús.

Lýtingsstaðir býður upp á gistingu í þremur gestahúsum (20fm og 41fm) sem hýsa 4-6 manns. Í húsunum er sér baðherbergi með sturtu. Einnig lítið eldhús. 

Innblásið af sögu bæjarins var hlaðið gamaldags hesthús, skemma og rétt úr torfi. Torfhúsin eru meistaraverk íslensks handverks og hýsa sýningu með gamaldags reiðtygjum og annað. Hljóðleiðsögn er í boði sem hentar vel frá 6 ára aldri og tekur um það bil 30 mínútur.

Minjastofa Kvennaskólans

Árbraut 31, 540 Blönduós

Minjastofa Kvennaskólans sýnir muni Kvennaskólans á Blönduósi, sem starfaði frá 1879-1978. Margir munanna eru gjafir frá námsmeyjum og velunnurum skólans. Sýningin er verkefni Vina Kvennaskólans. Ennfremur má sjá Elínarstofu með munum Elínar Briem forstöðukonu á tímabilinu 1880-1915 sem erfingjar gáfu.

Opnunartími:
Í júlí er opið alla virka daga 13-17. Einnig er opnað fyrir hópa á öðrum tímum eftir samkomulagi.

Aðgangseyrir:
Kr. 700, innifalin er leiðsögn um Minjastofur og Vatnsdælu á refli.

Rokksafn Íslands

Hjallavegur 2, 260 Reykjanesbær

ROKKSAFN ÍSLANDS - ÓKEYPIS AÐGANGUR

Rokksafn Íslands er safn um sögu popp- og rokktónlistar á Íslandi og er staðsett í Reykjanesbæ. Á safninu er að finna tímalínu um sögu íslenskrar tónlistar á Íslandi allt frá árinu 1830 til dagsins í dag.

Á safninu er að finna lítinn kvikmyndasal þar sem sýndar eru ýmsar heimildarmyndir um íslenska tónlist og hljóðbúr þar sem gestir geta leikið lausum hala og prófað rafmagnstrommusett, gítar, bassa og sungið í sérhönnuðum söngklefa. Þá geta gestir skoðað sögu tónlistarmanna á gagnvirkum plötuspilurum sem voru sérstaklega framleiddir fyrir Rokksafn Íslands.

Á meðal þeirra muna sem eru að finna á safninu er trommusett Gunnars Jökuls Hákonarsonar sem var m.a. notað á meistaraverkinu ...Lifun með Trúbrot, kjól sem Emilíana Torrini klæddist í myndbandinu Jungle Drum, tréskúlptúr af reggí-hljómsveitinni Hjálmum, lúðrasveitarjakka sem Stuðmenn klæddust í myndinni Með allt á hreinu, kjól af Elly Vilhjálms, föt af Rúnari Júlíussyni, jakkaföt af Herberti Guðmundssyni, hljóðnema sem Megas söng í á tveimur plötum og þannig mætti lengi telja.

Byggðasafn Reykjanesbæjar - Stekkjarkot

Fitjar, 260 Reykjanesbær

Stekkjarkot er lítill torfbær byggður fyrir sjómenn og fjölskyldur þeirra. En kotið var fyrst byggt á miðri 19.öld og komið í eyði um 1920. Búsetan var þó ekki samfellt.  Kotið var endurreist á rústum hins gamla Stekkjarkots var opnað almenningi árið 1993. Það samanstendur af tveim húsum, það eldra frá 19. öld með hlóðaeldi og moldargólfi en það yngra frá 20. öld, þá er komin kolaeldavél og baðstofan ef öll þiljuð.

Kotið er í umsjón Byggðasafns Reykjanesbæjar, það er opið eftir samkomulagi, vinsamlegast sendið fyrirspurnir á: byggdasafn@reykjanesbaer.is, og nánari upplýsingar má finna á sofn.reykjanesbaer.is.

Minjasafnið á Akureyri

Aðalstræti 58, 600 Akureyri

Minjasafnið á Akureyri er í elsta bæjarhluta Akureyrar, Innbænum og Fjörunni. Í sýningarsafnsins gefa innsýn sögu íbúa svæðisins með fjölbreyttum og fjölskylduvænum sýningum. Skelltu þér í búðarleik, prófaðu trommusettið eða skelltu þér í búning. Miðinn gildir á 5 söfn og tilvalið að grípa Safnapassa fjölskyldunnar með í ferðalagið. 

Minjasafnið á Akureyri er handhafi Íslensku safnaverðlaunanna 2022.

Sýningar:

  • Tónlistarbærinn Akureyri.
  • Akureyri bærinn við Pollinn.
  • Ástarsaga Íslandskortanna – Íslandskortasafn Schulte 1550-1808. (maí-október)
  • Jólasýning Minjasafnsins (nóvember-janúar)
  • Með lífið í lúkunum. (júní - september)
  • Kjörbúðin - leikrými 

Fyrir framan safnið er einn elsti skrúðgarður landsins,  rúmlega aldargamall, sem er tilvalinn áningarstaður með bekkjum, borðum og stólum og útileikföngum.  Í garðinum stendur Minjasafnskirkjan byggð 1846 sem er leigð út fyrir athafnir og tónleika.

Minjasafnið er á sömu lóð og Nonnahús og einungis  200 metrum frá Leikfangahúsinu.

 Opnunartími:

1.6.-30.9.: Daglega frá 11-17.

1.10-31.5.: Daglega frá 13-16.

Verð:
2300 kr. fyrir 18 ára og eldri –  Börn 17 ára og yngri ókeypis, Öryrkjar ókeypis. Eldri borgarar 1300 kr.
Miðinn gildir allt árið á 5 söfn: Minjasafnið á Akureyri, Nonnahús, Leikfangahúsið, Davíðshús og Laufás. 

Tales from Iceland

Snorrabraut 37, 105 Reykjavík

Tales from Iceland er sýning um Ísland og Íslendinga. Hún er tvískipt, annars vegar er landslagssýning á jarðhæð og hins vegar er fréttasýning á efri hæð hússins.

Landslagssýningin, sem gerð er úr raunverulegum myndböndum ferðamanna, segir ferðasögu nokkurra erlendra gesta og bregður þannig ljósi á hvernig landið og eyjarskeggja koma þeim fyrir sjónir, hvernig þeir upplifðu náttúruna og fólkið sem hér býr.

Fréttasýningin, sem gerð er úr raunverulegum fréttamyndum, sýnir valda atburði úr nútímasögu okkar ástkæru eyju og þeirrar mögnuðu þjóðar sem hana byggir. Fjallað er um listir, íþróttir, alþjóðamál, veðurfar, hafið, tónlist og ýmislegt fleira, skrýtið og skemmtilegt í fari okkar.

Listasafn Árnesinga

Austurmörk 21, 810 Hveragerði

Gæðastundir á gefandi stað! Litríkt merkið endurspeglar fjölbreytta starfsemi safnsins.
Í fjórum rúmgóðum sýningarsölum er settar upp vandaðar sýningar, innlendar og erlendar, sem endurspegla menningararfleifð okkar og mótun hennar í dag. Hverri sýningu er fylgt úr hlaði með sýningarskrá, upplýsingum og fræðslu- og afþreyingardagskrá.

Í safninu má einnig finna notalegt kaffihús og safnbúð með vörum úr heimabyggð og skemmtilegt afþreyingarefni tengt sýningum safnsins hverju sinni. Það er frítt inn og næg bílastæði.

Safnið er í eigu sveitarfélaganna átta í Árnessýslu og er viðurkennt af Safnaráði Íslands.

Listasafn Árnesinga á Facebook

Opnunartími:
maí - ágúst – alla daga: 12:00-17:00
september - apríl – alla daga nema mánudaga 12:00-17:00

Landnámssetur Íslands

Brákarbraut 13-15, 310 Borgarnes

Í Landnámssetrinu er sögð saga Landnámsins og söguþráður Egilssögu rakinn. Gesturinn er leiddur áfram með hljóðleiðsögn sem hægt er að fá á 15 tungumálum auk leiðsagnar á íslensku sem sérstaklega er sniðin fyrir börn frá allt að fjögurra ára aldri. Sýningarnar eru um margt ólíkar en eiga það sameinginlegt að vera einstaklega skemmtileg viðbót við frásögnina í hljóðleiðsögninni.


Keldur á Rangárvöllum

Rangárvellir, 860 Hvolsvöllur

Torfbærinn á Keldum á Rangárvöllum telst vera elsti torfbær á Íslandi og sá eini sinnar tegundar sem varðveist hefur á Suðurlandi. Auk bæjarhúsa og kirkju eru þar skemmur, smiðja,
myllukofi, fjós, hesthús, fjárrétt, jarðgöng o.fl.  

Bærinn á Keldum kemur við sögu í nokkrum af þekktustu bókum Íslendinga, m.a. Brennu-Njáls sögu, Sturlunga sögu og Þorláks sögu en fyrsti ábúandi Keldna var landnámsmaðurinn Ingjaldur
Höskuldsson sem kemur við sögu í Njálu.  

Þar var jafnframt eitt af höfuðbólum Oddaverja. Síðasti ábúandinn í gamla bænum var Skúli Guðmundsson, sem bjó þar til dauðadags 1946. Allar götur síðan hefur bærinn verið hluti af
húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. 

Keldur draga nafn sitt af uppsprettulindum sem koma víða fram undan túninu. Bæjar- og útihúsin eru einstakar menjar um lífið fyrr á öldum.  

Kjarni húsanna er frá 19. öld en í þeim má finna eldra timbur sem skorið hefur verið í til skrauts. Á einum stað í skálanum hefur ártalið 1641 verið rist í syllu. Í mörgum bæjarhúsanna er timburgrindin jafnframt með fornu smíðalagi, svonefndu stafverki. Þá er í bæjarhúsunum að finna búshluti úr eigu fyrri ábúenda á Keldum. Úr skálanum liggja einnig jarðgöng niður að læk og hafa þau líklega verið grafin sem undankomuleið á ófriðartímum á 11.-13. öld.  

Mikil er saga Keldna og er staðurinn og fornbýlið dýrmætur hluti af þjóðararfi Íslendinga. Náttúran hefur sýnt bæjarstæðinu mildi þótt oft hafi ekki miklu mátt muna að Keldur hyrfu úr tölu byggðra býla, og eftir stæði húsalaus rúst horfin í sand. 

Opið er frá klukkan 10-17 alla daga frá 1. júní til 31. ágúst.

Hægt er að kaupa miða hér. 

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn

Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn er þjóðbókasafn Íslands og gegnir jafnframt hlutverki rannsóknarbókasafns Háskóla Íslands. Safnið varð til við sameiningu Háskólabókasafns og Landsbókasafns Íslands árið 1994.

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn hefur að geyma flestar bækur og hljóðrit sem gefin hafa verið út á Íslandi. Þar er einnig stærsta safn erlendra fræðirita á landinu.

Á vef safnsins er aðgangur að fjölda rafrænna tímarita og fræðilegum gagnagrunnum, ásamt margvíslegum upplýsingum um safnið.
Sýningarrými safnsins eru þrjú. Þar eru sýningar árið um kring, bæði úr eigin safnkosti og í samvinnu við aðra.

Til að sjá opunartíma, vinsamlegast smellið hér .

Hótel Laugarhóll

Bjarnarfjörður, 520 Drangsnes

AÐSTAÐA

Hótel Laugarhóll er heimilislegt, sveitahótel í gróðursælum dal á Ströndum, miðja vegu milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Boðið er upp á gistingu í eins, tveggja og þriggja manna herbergjum, með eða án sér baðs. Einnig er tekið er á móti hópum, allt að 40 manns í uppbúin rúm. Á Laugarhóli er að finna notalega setustofu með nettengingu, veitingastað, íþróttasal og gallerí, sundlaug og heitan pott. Skammt frá hótelinu er tjaldsvæði með rennandi vatni og salernum.  Tjaldsvæðið er opið frá 1. júní til 1. september.

 

Utan háannatíma hentar staðurinn einstaklega vel til funda-, námskeiða- og ráðstefnuhalds og ekki síður sem æfingabúðir fyrir kóra, leik- og íþróttahópa, björgunarsveitir eða gönguskíðagarpa,  

 

AFÞREYING

Við hótelið stendur Gvendarlaug hins góða, ylvolg sundlaug, með náttúrulegu heitu vatni (32°C) og náttúruleg heit uppspretta (42°C), vinsæll viðkomustaður hjá lúnum ferðalöngum. Í næsta nágrenni eru fjölbreyttar og fallegar gönguleiðir, silungsveiði, hestaleiga, sjóstangveiði og lundaskoðun, ósnert og víða stórbrotin náttúra og ævintýralegar rekafjörur sem eru eitt helsta tákn Strandasýslu.

 

VEITINGASTAÐUR

Boðið er uppá veitingar í björtum og notalegum borðsal með útsýni yfir sveitina. Þar má gæða sér á bragðgóðum, heimilislegum mat úr héraði í bland við framandi rétti. Á boðstólum er að jafnaði ferskt sjávarfang, heimalagaðar súpur og nýbakað brauð, ásamt grænu salati og kryddjurtum úr garðinum, að ógleymdum girnilegum eftirréttum.

 

KOTBÝLI KUKLARANS

Strandir hafa löngum verið kenndar við galdra og í Bjarnarfirði bjó Svanur galdramaður á Svanshóli sem getið er í upphafskafla Njálu. Kotbýli kuklarans er annar áfangi Galdrasafnsins á Hólmavík og stendur við hlið Gvendarlaugar. Það sýnir vel þær aðstæður sem almúgafólk á Ströndum bjó við á tímum galdrafársins og fátæklegur aðbúnaðurinn útskýrir ef til vill þörf þess til að sækja sér styrk í kukl.

 

GVENDARLAUG HINS GÓÐA

Sundlaugin á sér merka sögu en hún var byggð á fimmta áratug síðustu aldar með sameiginlegu átaki bænda úr hreppnum. Nýleg sundskýli eru við laugina og í anddyri þeirra er sýning sem greinir í máli og myndum frá byggingu laugarinnar.

 

GVENDARLAUG HIN FORNA

Skammt ofan við sundskýlin er Gvendarlaug hin forna, náttúruleg heit uppspretta, blessuð í byrjun 13. aldar af Guðmundi góða fyrrum Hólabiskupi. Hún er talin búa yfir lækningamætti og er nú friðuð og í umsjá Þjóðminjasafns Íslands.

 

STAÐSETNING

Frá Reykjavík er rúmur þriggja stunda akstur (258 km) að Laugarhóli, gegnum Borgarnes og Búðardal til Hólmavíkur. Þaðan liggur leiðin fyrir botn Steingrímsfjarðar og yfir Bjarnarfjarðarhálsinn. Hótel Laugarhóll er við veg nr. 643.

1238: The Battle of Iceland

Aðalgata 21, 550 Sauðárkrókur

Sögusetrið 1238 Baráttan um Ísland segir sögu Sturlungaaldarinnar í gagnvirkri sýningu sem gengur skrefinu lengra en hefðbundnar fræðslusýningar. Með hjálp nýjustu tækni, í miðlun og sýndarveruleika, bjóðum við gestum á öllum aldri að taka þátt og upplifa söguna sem aldrei fyrr.

Áhersla er lögð á þá stóru bardaga sem einkenndu öld Sturluna, einkum Örlygsstaðabardaga, sem fram fór árið 1238. Í anddyri sýningarinnar er einnig rekin minjagripaverslun, upplýsingamiðstöð og veitingastaðurinn Grána Bistró. 

Sumaropnunartími: Opið alla daga 10:00 – 16:00
Vetraropnunartími: Opið mán-lau 10:00 - 16:00


Þið finnið okkur á Facebook

Vakinn

Skaftárstofa – Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri

Klausturvegur 10, 880 Kirkjubæjarklaustur

Skaftárstofa er glæsileg ný gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs við þjóðveg eitt, við Sönghól, í nágrenni Kirkjubæjarklausturs. Þar er jafnframt upplýsingamiðstöð fyrir Skaftárhrepp. Á meðan unnið er að nýrri fræðslusýningu um þjóðgarðinn í rýmið býðst gestum að skoða sýningu Jöklarannsóknafélags Íslands, Vorferð. Sýningin var gerð í tilefni af 70 ára afmæli félagsins og varpar meðal annars ljósi á sögu félagsins, segir frá skálabyggingum, vorferðum á jökli, sporðamælingum, rannsóknarverkefnum, jöklabakteríunni og tímaritinu Jökli.

Stuttmyndir:
Eldgosið í Grímsvötnum 2011
Vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs

Opnunartímar gestastofu

Þátttakandi í VAKINN - gæða og umhverfiskerfi íslenskrar ferðaþjónustu.

Safn Ásgríms Jónssonar – heimili listamanns

Bergstaðastræti 74, 101 Reykjavík

Heimili listamanns

Ásgrímur Jónsson (1876-1958) er einn brautryðjenda íslenskrar myndlistar. Hann ánafnaði íslensku þjóðinni öll verk sín og eigur eftir sinn dag. 

Safnið hýsir vinnustofu listamannsins og heimili og litlar sýningar. Safnið er í göngufæri frá Listasafni Íslands á Fríkirkjuveginum.

Opnunartími:
1. maí - 30. september: daglega kl. 10 - 17
1. október – 30. apríl: þri. – sun. kl. 10 – 17  

Gallerí Snærós

Fjarðarbraut 42, 755 Stöðvarfjörður

Á Stöðvarfirði starfrækja myndlistarmennirnir Ríkharður Valtingojer og Sólrún Friðriksdóttir, Gallerí Snærós, í tengslum við vinnustofur sínar.  Þau fluttu til Stöðvarfjarðar árið 1985 og stofnuðu galleríið árið 1988 og var það þá eitt af fáum galleríum utan Reykjavíkur.  

Í galleríinu og í tengslum við það hafa verið haldnar margar myndlistarsýningar þar sem bæði innlendir og erlendir myndlistarmenn hafa sýnt verk sín.
Grafíksetrið er jafnframt rekið á sama stað og er öll aðstaða þar mjög góð.  Mörg námskeið og workshop hafa verið haldin í tengslum við galleríið og Grafíksetrið.

Ríkharður sem er austurrískur að uppruna, lærði silfursmíði og myndlist í Graz í Austurríki og útskrifaðist úr málaradeild Listaakademíunnar í Vín.  Hann fluttist til Íslands 1960  og  starfaði lengi sem kennari við grafíkdeild Myndlista-og handiðaskóla Íslands, seinna Listaháskólann.    

Sólrún útskrifaðist sem myndlistarkennari frá Myndlista-og handiðaskólanum árið 1979 og var síðan við nám í textílhönnun við sama skóla og einnig í Svíþjóð og Austurríki.  Hefur hún verið kennari við Grunnskólann á Stöðvarfirði um árabil og jafnframt kennt víðsvegar á námskeiðum.
Ríkharður og Sólrún hafa bæði haldið margar einkasýningar hérlendis og erlendis og tekið þátt í alþjóðlegum sýningum viðsvegar um heim.
Í galleríinu eru verk þeirra til sýnis og sölu.  Þar gefur að líta grafíkmyndir (litógrafíur,ætingar, mezzótintur, dúk-og tréristur) textílverk, s.s. myndvefnað, batik, tauþrykk og silkimálun. Keramik, rennda og mótaða muni úr jarðleir og steinleir, skartgripi, aðallega úr silfri og íslenskum steinum, glermuni, tækifæriskort o.fl.
Rósa Valtingojer dóttir þeirra hjóna og eiginmaður hennar Zdenek Patak eru ungir hönnuðir sem hafa sest að á Stöðvarfirði. Þau hafa stofnað hönnunarfyrirtækið Mupimup og sérhæfa sig í endurvinnslu í gegnum hönnun. Þau taka nú þátt í rekstri gallerísins og eru þeirra vörur einnig til sýnis og sölu þar. Má þar nefna, leirfugla, teikningar, barnafatnað, leikföng, ljós, tækifæriskort og fl.

Jafnframt því að skoða galleriið geta gestir litið í vinnustofurnar og fylgst með Ríkharði og Sólrúnu að störfum. Galleríið er opð daglega yfir sumartímann en eftir samkomulagi yfir veturinn.

Gallerí Snærós
Fjarðarbraut 42, 755 Stöðvarfjörður
Sími: 475 8931  861 7556
E-mail: info@gallerisnaeros.is solrun@gallerisnaeros.is rosa@mupimup.netwww.gallerisnaeros.is www.mupimup.net

1238: Baráttan um Ísland - Gestasýning

Víkingabraut 1, 260 Reykjanesbær

Sýningin 1238 Baráttan um Ísland segir sögu Sturlungaaldarinnar og með hjálp nýjustu tækni í miðlun og sýndarveruleika bjóðum við gestum á öllum aldri að taka þátt og upplifa átakamestu atburði Íslandssögunnar á einstakan hátt.

Sýningin í Víkingaheimum er gestasýning og býður gestum uppá að upplifa þennan einstaka heim sýndarveruleika sem hefur verið skapaður sýningunni á Sauðárkróki.

Listasafn ASÍ

Freyjugata 41, 101 Reykjavík

Listasafn ASÍ er til húsa við Freyjugötu 41 í Reykjavík. Safnið var stofnað árið 1961 þegar iðnrekandinn og bókaútgefandinn Ragnar Jónsson í Smára gaf Alþýðusambandinu listaverkasafn sitt. Safnið er eign Alþýðusambands Íslands og starfar samkvæmt reglugerð samþykkri af miðstjórn þess.

Opnunartími Virkir dagar: Laugardagar: Sunnudagar:
  13:00-17:00 13:00-17:00 13:00-17:00
Lokað á mánudögum.  Aðgangur ókeypis.

Orka til framtíðar

Ljósafoss, 805 Selfoss

Gagnvirk orkusýning Landsvirkjunar er staðsett á Sogssvæðinu við Úlfljótsvatn og er í um 50 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík. 

Sýningin samanstendur af fjölbreyttum og fræðandi sýningaratriðum sem veita gestum innsýn í heim raforkunnar og hvernig raforkan er framleidd með því að beisla krafta náttúrunnar. 

Líttu við í Ljósafosstöð og upplifðu af eigin raun orkuna sem býr í öllum hlutum. 

Opið alla daga yfir sumartímann kl. 10:00-17:00 og frítt inn á sýninguna.

Hópar með 10 eða fleiri gesti á vegum ferðaskrifstofa, fyrirtækja, stofnana eða félaga eru vinsamlegast beðin um að fylla út þessa heimsóknarbeiðni - https://www.landsvirkjun.is/form/heimsoknarbeidni  


Safnahúsið

Faxatorg, 550 Sauðárkrókur

Í Safnahúsinu á Sauðárkróki eru Héraðsbókasafn Skagfirðinga, Héraðsskjalasafn Skagfirðinga og Listasafn Skagfirðinga. Þar eru haldnar sýningar af ýmsu tagi. 

Samgönguminjasafnið Ystafelli

Ystafell III, Kaldakinn, 641 Húsavík

Samgönguminjasafnið Ystafelli er elsta bílasafn á Íslandi, var opnað 8. júlí árið 2000. Það hefur að geyma bíla og muni sem tengjast samgöngum á Íslandi í 115 ár, elsti hluturinn er af næst fyrsta bílnum sem kom til Íslands, en það var árið 1907. Einnig er þar Delorean árgerð 1981, samskonar bíll og var notaður í "Back to the future" myndirnar. Það eru rúmlega 100 vélknúin tæki innandyra núna.
Safnið er opið á sumrin en veturnir eru notaðir til endurbyggja sýningargripi, mest áhersla hefur verið lögð á varðveita íslenska handverkið, þ.e. íslenskar yfirbyggingar og breytingar á bílum. 

Opið 25. maí - 25. september, alla daga frá 11.00 til 18.00  

Lamb Inn

Öngulsstaðir III, 601 Akureyri

Aðeins 10 km frá Akureyri má finna Lamb Inn á Öngulsstöðum,  í kyrrlátu og notalegu umhverfi. Árið 1996 var fjósi breytt í í fallega gistiaðstöðu með uppábúnum rúmum. Morgunverðahlaðborð er borið fram í hlýlegum sal sem áður var hlaða, þar er áherslan lögð á heimagert góðgæti eins og brauð og kökur, sultur og marmelaði, osta og fleira. Lamb Inn veitingastaður opnaði á Öngulsstöðum 2012. Þar er áherslan á íslenska lambið og einkennisréttur veitingastaðarins er gamaldags eldað lambalæri í heilu lagi, með heimalöguðu rauðkáli, brúnuðum kartöflum, grænum baunum, sósu og rabbarbarasultu. Sá réttur hefur slegið í gegn meðal innlendra sem erlendra ferðamanna. Fiskur er líka á matseðlinum ásamt fleiri réttum. Yfir vetrartímann er eldhúsið ekki opið daglega, en hægt að panta mat með fyrirvara.

Í nágrenninu má finna margskonar afþreyingu við allra hæfi. Fallegar gönguleiðir eru á svæðinu bæði upp til fjalla og niður á engjar, hestaferðir, söfn, kirkjur, golfvöll, kaffihús og krá, sundlaug, gallerí og fleira.

Heitur pottur er við hótelið með frábæru útsýni yfir Eyjafjörðinn og er hann mikið notaður af gestum okkar. Í honum er gott að slappa af eftir ferðalög dagsins eða ánægjulegan dag í Hlíðarfjalli. Hjá okkur er hægt að þurrka skíðaföt og búnað yfir nóttina.

Frír netaðgangur er fyrir gesti hótelsins.

Lamb Inn er frábærlega staðsettur fyrir ferðamenn sem vilja skreppa í dagsferðir um allt Norðurland. Hann er líka tilvalinn fyrir skíðaáhugafólk sem nýtir sér frábæra skíðaaðstöðu á Norðurlandi.

Gamli bærinn á Öngulsstöðum er afar merkilegur í byggingasögulegu tilliti. Hann hefur verið í endurbótum undanfarið og þar hefur verið opnað safn sem hótelgestir geta skoðað án endurgjalds. Hann er vinsæll fyrir smærri móttökur og heimsóknir hópa á ferð sinni um Eyjafjörð.

 

Yfir vetrartímann er góður fundarsalur Lamb Inn nýttur fyrir fundi, námskeið og smærri ráðstefnur. Hann er vel tækjum og búnaði búinn. Það er vinsælt að smærri fyrirtæki og hópar komi í funda- og hópeflisferðir á Lamb Inn og þá nýtist öll aðstaða hótelsins vel.

 

Á Lamb Inn er opið allt árið. Hafið samband og kannið kjör og tilboð sem í boði eru. Bjóðum stéttarfélögum og starfsmannafélögum upp á sérkjör á gistingu.

 

Byggðasafn Húnv. & Strandamanna

Reykir, Hrútafjörður, 500 Staður

Byggðasafn Húnvetninga- og Strandamanna býður ykkur velkomin í heimsókn. Safnið er í eigu sveitarfélaga við Húnaflóa og var stofnað fyrir fimmtíu árum síðan. Á safninu er margt einstakra muna sem geyma sögu og menningu byggðalagsins. Þar er fjöldi merkra báta og skipa og ber þar hæst hákarlaveiðiskipið Ófeig úr Ófeigsfirði á Ströndum. Einnig er inni á safninu baðstofa frá Syðsta-Hvammi við Hvammstanga auk fjölda fallegra og merkra muna sem tengjast lífinu til sjávar og sveita frá seinni hluta nítjándu til fyrri hluta tuttugustu aldar.

Velkomin á safn í sókn!

Þjónustugjald: 1000 kr fyrir fullorðna, 700 kr fyrir öryrkja og eldriborgara. Ókeypis fyrir börn.

Opið alla daga milli 09 og 17. Yfir vetrartímann er opið eftir samkomulagi.

Deiglan

Kaupvangsstræti 23 / Grófargil, 600 Akureyri

Deiglan er fjölnota menningarrými rekið af Gilfélaginu auk gestavinnustofu í sama húsi. Markmið félagsins er að efla menningar- og listalíf í bænum, auka tengsl almennings við listir og koma á samskiptum norðlenskra listamanna við innlenda og erlenda listamenn. Gilfélagið eru félagasamtök rekin af sjálfboðaliðum. 

Í Deiglunni eru m.a. haldnar myndlistasýningar, gjörningar, tónleikar og markaðir.

Opnunartímar eru breytilegir eftir viðburðum, vinsamlegast athugið heimasíðu fyrir nánari upplýsingar.

Grasagarður Reykjavíkur

Laugardalur, 104 Reykjavík

Grasagarður Reykjavíkur er lifandi safn undir berum himni. Garðurinn var stofnaður árið 1961 og er rekinn af Reykjavíkurborg.

Hlutverk Grasagarðsins er að varðveita og skrá plöntur til fræðslu, rannsókna og yndisauka. Í garðinum eru varðveittar um 5000 tegundir plantna í átta safndeildum. Plöntusöfnin gefa hugmynd um fjölbreytni gróðurs í tempraða beltinu nyrðra. Sérhver safndeild gegnir ákveðnu hlutverki, til dæmis að sýna og kynna íslenskar plöntur, trjágróður eða mat- og kryddjurtir. 

Sumardagskráin er viðburðarík og boðið er upp á móttöku hópa árið um kring. 

Hið vinsæla kaffihús Flóran Café/Bístró býður upp á ljúffengar veitingar með áherslu á hráefni úr eigin ræktun. Kaffihúsið er starfrækt í garðskálanum í fallegu og gróðursælu umhverfi frá maí til september.

Facebook: www.facebook.com/grasagardur

Opnunartími:
Sumar: 10:00-21:00
Vetur: 10:00-15:00

Garðskálinn er lokaður 24., 25., 26., 31. desember og 1. janúar.

Náttúrufræðistofa Kópavogs

Hamraborg 6a, 200 Kópavogur

Á Náttúrufræðistofu Kópavogs er ein stærsta sýning uppstoppaðra dýra á Íslandi ásamt fjölbreyttu steinasafni.

Á sýningunni Heimkynni birtist náttúra landsins eftir búsvæðum lífríkisins. Við ferðumst frá sjónum við Íslandsstrendur upp eftir landslaginu og fáum skýra mynd af fjölbreytileika náttúrunnar.

Sýningin Á flekaskilum gerir grein fyrir hinni miklu eldvirkni sem er að finna á Íslandi sem leiðir reglulega til eldsumbrota. Mikið úrval af helstu steindum og bergtegundum Íslands eru til sýnis, ásamt íslenskum steingervingum.

 

Opnunartími:

Virka daga: 8:00 -18:00
Laugardaga: 11:00 -17:00
Sunnudaga: Lokað
 

Hellarnir við Hellu

Ægissíða 4, 851 Hella

Upplifið einstakan ævintýraheim í hellaferð um Hellana við Hellu og heyrið söguna sem ekki hefur mátt segja um landnámið fyrir landnám.​

Fræðandi og heillandi afþreying sem hentar öllum aldri og í hvaða veðrum sem er. Hellarnir við Hellu eru staðsettir við þjóðveg 1 í aðeins um klukkutíma akstursfjarlægð frá Reykjavík.

Tólf fornir manngerðir hellar hafa fundist í landi Ægissíðu við Hellu og fjórir þeirra hafa nú verið opnaðir. Hellarnir eru friðlýstir og þeir sýndir með leiðsögn. Fjölskyldan á Ægissíðu vinnur að því að byggja upp og varðveita umhverfi og sögu hellanna í samvinnu við nærsamfélagið og Minjastofnun Íslands.

Í hellunum má t.d. finna stórmerka krossa, gamlar veggjaristur, myndir, syllur og innhöggvin sæti. Leyndardómur umlykur hellana og öldum saman hefur fólk velt fyrir sér hvort hellarnir séu gerðir af pöpum og hve gamlir þeir séu. 

Byggðasafn Hafnarfjarðar

Vesturgata 6, 220 Hafnarfjörður

Byggðasafn Hafnarfjarðar er minja- og ljósmyndasafn Hafnarfjarðarbæjar. Hlutverk þess er að safna, skrásetja, varðveita, forverja og rannsaka muni og minjar um menningarsögu svæðisins og kynna þær almenningi. Minjasvæði Byggðasafns Hafnarfjarðar er Hafnarfjörður og nágrenni hans.

Opnunartími 1. júní - 31. ágúst:
Alla daga frá 11:00-17:00

Opnunartími 1. september – 31. maí.
Laugardaga og sunnudaga frá 11:00-17:00

Opið fyrir hópa á öðrum tímum eftir samkomulagi.

Aðgangur er ókeypis.

Byggðasafn Hafnarfjarðar miðlar sögu bæjarins með ýmsum hætti, heldur t.d. að jafnaði úti 10 sýningum í 6 húsum auk þess að standa fyrir fyrirlestrum, sögugöngum og ýmsum öðrum viðburðum.

Hús safnsins eru:

· Pakkhúsið, Vesturgötu 6

· Sívertsens-húsið, Vesturgötu 6

· Beggubúð, Vesturgötu 6

· Siggubær, Kirkjuvegur 10

· Góðtemplarahúsið, Suðurgötu 7

· Bookless-bungalow, Vesturgötu 32

· Auk ljósmyndasýninga við Strandstíginn.

Iðnaðarsafnið

Krókeyri, 600 Akureyri

Iðnaðarsafnið á Akureyri geymir muni sem tengjast iðnaði og iðnframleiðslu liðinna tíma. Þar er að finna fjölda véla og tækja sem notuð voru til framleiðslu á allskyns nytjahlutum og iðnvarningi.

Á efri hæð safnsins er sýning á hinni víðtæku fata- og skóframleiðslu sem fram fór á Akureyri á liðinni öld. Hver man ekki eftir Duffys gallabuxum, Skinnu mokkajökkum, Hekluúlpum og Iðunnarskóm?

Opnunartími:

1. júní - 31. ágúst:
10-17 alla daga.

1. sept - 31. maí:
13-16 föstudaga til sunnudaga.
Lokað mánudaga til fimmtudaga.

Samgöngusafnið í Stóragerði Skagafirði

Stóra Gerði, 566 Hofsós

Samgöngusafnið í Stóragerði var opnað formlega þann 26. júní 2004 af Ársæli Guðmundssyni þáverandi sveitastjóra Skagafjarðar. Safnið var þá 600 fm salur með lítilli gestamóttöku. Á nokkrum árum var umfangið á safninu orðið það mikið að stækka þurfti salinn um 800 fm ásamt gestamóttökunni, byrjað var á því haustið 2010 og var full klárað fyrir sumarið 2013. Í dag eru um 100 tæki til sýnis í salnum og má þar nefna bíla, rútu, motorhjól, sleða, búvélar, flugþyt og ekki má gleyma öllu því smádóti sem tengist samgöngusögu Íslendinga. Fyrir utan safnið og í kringum það má svo áætla að séu í kringum 150-200 bílar og tæki í misgóðu ásigkomulagi sem flestum gestum okkar þykir ótrúlega gaman að skoða. Verkstæði safnsins stendur sunnan við safnið og er öll uppgerð á bílum og tækjum unnin þar í dag.  Aðstaðan til að taka á móti stærri hópum jókst til muna þegar aðtöðuhúsið stækkaði og tekur salurinn allt að 70 manns í sæti. Þá er hægt að fá hann leigðan út fyrir alls konar tilefni. 

Stofnendur safnsins voru Gunnar Kr. Þórðarson og Sólveig Jónasdóttir. Gunnar var menntaður bifvélavirkjameistari og Sólveig grunnskólakennari. Gunnar var með brennandi áhuga á samgönguminjum og frá unga aldri safnaði hann sjálfur stórum hluta sýningargripanna. Gunnar gerði upp bæði bíla og vélar og er hægt að sjá afraksturinn á safninu en til að varðveislan væri sem best þurfti að byggja skemmu og var því lítið annað í stöðunni en að opna þetta glæsilega safn fyrir gesti og gangandi. Í febrúar 2019 lést Gunnar eftir harða baráttu við MND sjúkdóminn en afkomendur hans hafa nú tekið við rekstrinum ásamt Sólveigu. Með nýrri hugsjón og framtíðarsýn hefur safnið tekið miklum breytingum ásamt því að margir nýir áhugaverðir safngripir hafa bæst við frá árunum 1980-2000 því synir Gunnars, Jónas og Brynjar, hafa mikinn áhuga á bílum og tækjum frá þessu tímabili. 

Það er svo gaman að segja frá því að eftir að safnið opnaði hafa nokkrir gestanna gefið safninu bíla og vélar í þannig ástandi að lítið eða ekkert hefur þurft að eiga við þá og er það ómetanlegt fyrir safnið. 

Snartarstaðir

V/Snartarstaði, 671 Kópasker

Snartarstaðir hýsa Byggðasafn Norður-Þingeyinga og eru staðsettir í aðeins 1 km. fjarlægð frá Kópaskeri. Safnið var opnað árið 1991 í gamla skólahúsi staðarins og eru þar rúmlega 2000 munir til geymslu, en undirbúning safnsins má rekja aftur til ársins 1950 þegar söfnun á munum og minningum hófst. Einkennist sýningin í húsinu aðallega af annars vegar einstöku safni fjölbreyttra hannyrða sem unnar voru flestar af konum í Norður-Þingeyjarsýslu á síðustu öld, en hins vegar er þar að finna 9000 binda bókasafn hjónanna Helga og Andreu frá Leirhöfn á Melrakkasléttu.

Athygli er vakin á að aðgengi fyrir fólk í hjólastólum er ekki gott.

Opið frá 15. júní til 15. ágúst. Lokað á þriðjudögum. Nánari upplýsingar á heimasíðu: www.husmus.is

Byggðasafn Vestfjarða - Vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar

Hafnarstræti 10, 470 Þingeyri

Byggðasafn Vestfjarða fékk smiðjuna afhenta til varðveislu í byrjun árs 2014.

Inni í smiðjunni verður sjónvarpsskjár þar sem verða sýnd myndbrot úr smiðjunni frá fyrri tímum, auk þess sem maður er á staðnum og fræðir fólk um starfsemina.

Hönnunarsafn Íslands

Garðatorg 1, 210 Garðabær

Hönnunarsafn Íslands er lifandi safn sem eykur vitund, kveikir neista og skapar tækifæri tengd íslenskri hönnun frá árinu 1900 til framtíðar með því að safna, rannsaka, skrá og miðla. Safnið er vettvangur fyrir samfélag sem lætur sig þessa hluti varða og nýtir sér aðgang að þekkingu og aðstöðu safnsins. Þetta samfélag tekur virkan þátt í að móta safnið ásamt starfsfólki og gestum.  

1998 gerðu menntamálaráðuneytið og Garðabær samkomulag um að reka í sameiningu íslenskt hönnunarsafn er safnaði og sýndi listiðnað. Aðdragandinn hafði verið allnokkur en rekja má þá formlegu umræðu sem hafði farið fram um nauðsyn á slíku safni aftur til ársins 1992 þegar félagið Form Ísland setti saman umræðuhóp með fulltrúum hönnuða, menntamálaráðuneytis, Listasafns Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Reykjavíkurborgar um slíkt safn. Í framhaldinu, eftir vinnu hópsins, var þeim tilmælum beint til menntamálaráðuneytis að skipa nefnd  er mæti með hvaða hætti stofna mætti safn er sinnti listiðnaði. Í byrjun árs 1997 var niðurstaða nefndarinnar sú að mikil þörf væri á safni er sinnti listhandverki og iðnhönnun.

Fyrst um sinn var safnið deild í Þjóðminjasafni Íslands en með nýjum samningi við menntamálaráðuneytið, sem undirritaður var í desember árið 2006, tók Garðabær við rekstri Hönnunarsafns Íslands og starfar safnið sem stofnun á vegum bæjarfélagsins. Safnið hafði til afnota lítinn sal við Garðatorg og hélt nokkrar sýningar á ári en skrifstofu og varðveislurými var að finna á öðrum stað. Árið 2009 var safninu valinn staður við Garðatorg 1 og fluttist öll starfsemi safnsins þangað þegar reglubundið sýningahald safnsins hófst í maí 2010. Í safninu starfa forstöðumaður og fulltrúi safneignar ásamt gæslu- og afgreiðslufólki.  

Gestastofan í Kröflu

Kröflustöð, 660 Mývatn

Gestastofan í Kröflu er staðsett í aðalrými stöðvarhússins í Kröflustöð. Gestastofan okkar veitir gestum innsýn þá ótrúlegu krafta sem búa í iðrum jarðar en Kröflusvæðið í Mývatnssveit er eitt frægasta jarðhitasvæði heims. 

Það er opið hjá okkur alla daga í sumar frá 10-17. 

Aðgangur að gestastofunni er gjaldfrjáls og á staðnum er salerni og kaffi.

Ef þú hyggst koma í heimsókn með hóp (10 eða fleiri) þarftu að fylla út heimsóknarbeiðni:
www.landsvirkjun.is/form/heimsoknarbeidni

Magic Ice Bar & Gallery

Laugavegur 4-6, 101 Reykjavík

Michelle Bird Artist - Courage Creativity

Sæunnargata 12, 310 Borgarnes

Listgallerí, hópefli og skemmtun fyrir fyrirtæki, fjölskyldur og saumaklúbba.

Taktu þátt í kraftmikilli listrænni vegferð sem stuðlar að djúpri sjálfstjáningu ásamt því að efla og skerpa samvinnuhæfni. Markmið okkar er að breyta áherslum á frammistöðu og samkeppni innan sköpunar og listasviðsins. Við leiðum þig í gegnum fjöldan allan af bæði áþreifanlegum og huglægum upplifunum. Þetta lifandi umhverfi er hannað til þess að þú náir að komast í flæði.

Það er sama hvort þið eruð vinnufélagar, fjölskylda, félagasamtök eða saumaklúbbur að leita að upplifun til að styrkja samskipti innan hópsins, þessi vinnustofa mun styrkja sambönd og skerpa á ímyndunarafli.

Michelle Bird er listamaður og hún er ástríðufull fyrir því að skapa umhverfi sem dregur fram einstaka listræna tjáningu. Í áratugi hefur hún kennt skapandi hópefli um allan heim í fyrirtækjum, grunnskólum, framhaldsskólum, háskólum, félagasamtökum, vinahópum og jógastúdíóum. 

Lyfjafræðisafnið

Safnatröð 3, 170 Seltjarnarnes

Lyfjafræðisafnið er á Seltjarnarnesi í næsta nágrenni við Nesstofu sem var byggð 1761-1767 til að hýsa fyrsta landlækninn og fyrsta apótekið á Íslandi.

Lyfjafræðisafnið hefur safnað bæði munum, myndum, bókum og skjölum, sem tengjast sögu lyfjafræðinnar og stefnt er að áframhaldandi söfnun. Í safninu eru til sýnis helstu tæki, sem notuð hafa verið til lyfjagerðar,  þó er stærsti  hlutinn frá fyrri hluta síðustu aldar. Einnig eru í safninu sýnishorn af apóteksinnréttingum frá fyrstu tugum síðustu aldar.

Lyfjafræðisafnið er sjálfseignarstofnun í tengslum við Lyfjafræðingafélag Íslands. Í stjórn safnsins eru lyfjafræðingar, kosnir á aðalfundi Lyfjafræðingafélagsins til fjögurra ára í senn. Safnhúsið er skuldlaus eign allra lyfjafræðinga á Íslandi.

Í Urtagarðinum í Nesi er að finna safn urta sem ýmist hafa gegnt hlutverki í lækningum eða verið nýttar til næringar og heilsubótar.

Lyfjafræðisafnið er opið á laugadögum og sunnudögum frá og með 15. júní til og með 18. ágúst kl 13:00 til 17:00 og á öðrum tímum samkvæmt samkomulagi. Aðgangur ókeypis.

Gamla smiðjan Bíldudal

Smiðjustígur 2, 465 Bíldudalur

Gamla smiðjan er ein elsta áþreifanlega heimildin um atvinnusögu Bíldudals, en Pétur Thorsteinsson lét reisa smiðjuna um árið 1895 og útbjó með öllum nýjustu tækjum sem fáanleg voru á þeim tíma. 

Smiðjan gegndi mikilvægu hlutverki í þjónustu við báta og útgerð á staðnum og var rekin í sama húsnæði í yfir 100 ár. 

Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum

Maríutröð , 380 Reykhólahreppur

Báta- og Hlunnindasýningin er gluggi að skemmtilegum heimi fugla, báta og náttúrunytja Breiðafjarðar. 

Sýningin er helguð gjöfum náttúrunnar við Breiðafjörð og nýtingu þeirra, einkum á fyrri tíð en að hluta allt fram á þennan dag. Fuglarnir gáfu egg og kjöt í matinn og æðarfuglinn gaf verðmætan dún í sængur og kodda. Selurinn gaf kjöt og spik og skinnið var notað til klæðagerðar. Meðal annars fá gestir að kynnast æðarfuglinum á sérstakan hátt og fræðast um gömlu súðbyrðingana með breiðfirska laginu.

Á þessari lifandi sýningu er hægt að sjá stuttar og lengri heimildamyndir um lífið í Breiðafjarðareyjum, sem teknar voru um miðbik síðustu aldar.

Í sama húsi er upplýsingamiðstöð ferðamannsins.

Opið frá 1. júní til 30. ágúst frá 11:00-18:00 og eftir samkomulagi að vetri til.

Minjasafnið á Bustarfelli

Bustarfell, 690 Vopnafjörður

Minjasafnið á Bustarfelli - Lifandi safn 

Allt frá árinu 1982 hefur Minjasafnið á Bustarfelli í Vopnafirði verið rekið sem sjálfseignarstofnun en þá gaf Elín Methúsalemsdóttir Vopnfirðingum safnið sem fram að þeim tíma hafði verið sýnt sem einkasafn. Minjasafninu tilheyra allir munir bæjarins og kaffihúsið Hjáleigan. Bæinn sjálfan sér Þjóðminjasafn Íslands um fyrir hönd íslensku þjóðarinnar.

Aðstandendur safnsins hafa lagt metnað sinn í að sýning gripa safnsins sé sett upp á sem raunverulegastan hátt, rétt eins og íbúar hússins hafi brugðið sér frá stundarkorn. Enn fremur er mikið lagt upp úr miðlun gamallar verkþekkingar og sagna með lifandi uppákomum, viðburðum og námskeiðum.

Sérstaða safnsins felst þó að miklu leyti í því hversu glöggt það miðlar breyttum búskapar- og lifnaðarháttum fólks allt frá því fyrir 1770 til þess er hætt var að búa í bænum árið 1966. Til að mynda eru þrjú eldhús í bænum sem öll segja sína sögu og tilheyra sínu tímabili. Eins er um muni safnsins, að þeir tilheyra mismunandi tímabilum. Gaman er að ganga um og sjá hvernig einn hlutur hefur tekið við af öðrum í áranna rás.

Stór hluti muna safnsins er kominn úr búi Methúsalems Methúsalmessonar. Hann hafði snemma áhuga á því að varðveita gamla muni og hóf að safna þeim víðsvegar úr sveitarfélaginu og varðveitti heima á Bustarfelli.  Afraksturs þeirrar forsjálni fáum við öll að njóta góðs af í dag.  Því starfi sem hann hóf hefur Minjasafnið reynt að halda áfram og með velvilja og gjafmildi íbúa sveitarfélagsins berast safninu árlega gjafir sem hafa mikið gildi fyrir þekkingu okkar á arfleifðinni, rótum okkar allra. Kunnum við öllu þessu gjafmilda fólki okkar bestu þakkir fyrir.

Í safninu eru nú yfir eitt þúsund munir sem hver og einn á sína sögu og sína "sál" sem gerir safnið að þeim einstaka fróðleiks- og afþreyingarbrunni sem það er.

Opnunartími: 10 – 17 alla daga frá 1. júní til 31. ágúst.

Verið ávallt velkomin í heimsókn.

 

Byggðasafnið á Garðskaga

Skagabraut 100, 250 Suðurnesjabær

Byggðasafnið á Garðskaga er staðsett í miðri náttúruparadís þar sem fjölbreytt fuglalíf, náttúrufergurð og dýrarlíf skarta sínu fegursta.

Safnið var fyrst opnað 1995 og hefur verið starfrækt síðan. Safnið er alhliða byggða og sjóminjasafn og er sérstaða safnsins einstakt vélasafn þess. 60 vélar eru á safninu sem eru allar uppgerðar af Guðna Ingimundarsyni í Garði, flestar eru þær gangfærar. Safnið hefur til sýnis ýmsa muni sem tengdust búskaparháttum til sjós og lands, elstu munir eru orðnir yfir eitthundrað ára gamlir. Fallegt safn af gömlum útvörpum og ýmsum tækjum og tólum sem notuð voru á heimilum á fyrri árum, skólastofa, skóvinnustofa og verslun Þorláks Benediktssonar svo fátt eitt sé nefnt. Stór hluti af safninu eru sjóminjar, ýmsir hlutir sem notaðir voru við fiskveiðar og til verkunar fisks á landi. Á safninu er sexæringur, níu metra langur bátur með Engeyjarlagi smíðaður 1887.

Opnunartími: Safnið er opið kl. 10-17,  frá 1. maí - 30. sept. 

Frá október til apríl er byggðasafnið opið fyrir hópa sem panta heimsóknir í síma 862 1909,  byggdasafn@sudurnesjabaer.is eða með skilaboðum á Facebook Byggðasafnið á Garðskaga. 

FlyOver Iceland

Fiskislóð 43, 101 Reykjavík

Þú situr í sæti fyrir framan 270 fermetra sveigðan skjá með fætur í lausu lofti. Myndin okkar fer með þig í æsispennandi ferðalag um Ísland og þú sérð landið þitt eins og aldrei áður! Tæknibrellur, þar á meðal vindur, þoka og lykt, ásamt hreyfingum búnaðarins gera þess upplifun ógleymanlega. Þetta verður þú að prófa!

Á staðnum er einnig kaffihús, verslun og aðgengileg salerni. Húsið er rúmgott og byggt til að rúma mikinn fjölda í einu án þess að það myndist of mikil nálægð. Sýningin okkar hefur verið endurskipulögð með öryggi gesta og starfsfólks í huga. Snertifletir sýningarinnar eru sótthreinsaðir eftir hverja sýningu.

Opið er alla daga, ítarlegri opnunartíma okkar má nálgast á heimasíðu okkar!

Valhalla Restaurant

Hlíðarvegur 14, 860 Hvolsvöllur

Í Sögusetrinu er einstök Njálusýning, kaupfélagssafn, myndlistarsalurinn Gallerí Ormur, líkan af Þingvöllum árið 1000, minjagripa & bókaverslun og Söguskálinn – sem er veitinga- og samkomusalur í sögualdarstíl fyrir allt að 100 manns og hægt er að fá leigðan fyrir hverskyns mannfagnað, fundi og veislur.

 

Lífsmynd kvikmyndagerð

Geirsgata 7b, 101 Reykjavík

Í THE CINEMA, í verbúð við Gömlu höfnina í Reykjavík, eru sýndar náttúrulífsmyndir sem framleiddar eru af Lífsmynd kvikmyndagerð ehf. Að baki Lífsmynd stendur Valdimar Leifsson kvikmyndagerðarmaður og fjölskylda en í áranna rás hafa nær allar myndir og sjónvarpsþættir kvikmyndagerðarinnar verið sýndar hjá RÚV.

Kvikmyndasýningar hafa verið í THE CINEMA daglega frá árinu 2010 þar sem sýndar eru  myndir frá mörgum stöðum á Íslandi, myndir um eldgos og eldvirkni á Íslandi sem og um norðurljósin. Fjölskylduvæn, fróðleg og notaleg afþreying og fræðsla. (Sjá nánari upplýsingar um sýningar og myndir á vefsíðunni).  

OPNUNARTÍMI
Allt árið
Samkvæmt auglýstri dagskrá

Íslenskar hestasýningar

Varmilækur, 560 Varmahlíð

Vinsamlegast hafið samband vegna ferða og bókana.

Segull 67 Brugghús

Vetrarbraut 8, 580 Siglufjörður

Segull 67 er fjölskyldurekið brugghús, staðsett á Siglufirði í gamla frystihúsinu sem hefur verið tómt til margra ára. Árið 2015 var hafist handa og gamla frystihúsið fékk nýtt hlutverk. Verksmiðjan sjálf er inni gamla frystiklefanum og smökkunar barinn þar sem fiskurinn var frystur í pönnur og fyrir ofan allt saman var sjálf fisk vinnslulínan. Nú er hægt að taka brugghús kynningu um verksmiðjuna og smakkað á handverks bjórum. 

Verksmiðjan á Hjalteyri

Hjalteyri, 601 Akureyri

Verksmiðjan á Hjalteyri er gömul síldarverksmiðja sem öðlast hefur nýtt líf sem sýningar- og verkefnarými fyrir myndlist, einkum þó með áherslu á vídeóinnsetningar, kvikmyndir og hljóðverk. Í verksmiðjunni fara einnig fram námskeið/vinnustofur fyrir listaskóla.

Saltport

Keflavíkurgata 1, 360 Hellissandur

Saltport er listhús sem býður listamönnum aðstöðu til listsköpunar í skapandi umhverfi. Í húsinu er frábær vinnuaðstaða fyrir einn eða fleiri listamenn og í porti við húsið er einstakt sýningarsvæði fyrir útilist. Í Saltporti verða fjölbreyttar listsýningar bæði inni og úti og góð aðstaða til námskeiðahalds. Húsið er staðsett á sjávarbakka með órofna tengingu við hafið sem hefur sterk og mótandi áhrif á alla listsköpun í húsinu. 

Tækniminjasafn Austurlands

Hafnargata 38b, 710 Seyðisfjörður

Tækniminjasafn Austurlands hefur opnað á nýjan leik með sýningunni

Búðareyri: saga umbreytinga

Lítil landræma með fjölbreytta sögu og mannlíf

Sýningin fjallar um sögu Búðareyrar frá 1880 til dagsins í dag og þær umbreytingar í búsetu, atvinnulífi, samfélagi og náttúru sem þar hafa átt sér stað. Breytingar sem segja ekki eingöngu staðbundna sögu heldur endurspegla jafnframt hluta af mun stærri sögu tækniframfara og mannlífsbreytinga síðustu 150 árin á Íslandi og víðar.

Sýningin er til húsa í og við Vélsmiðju Seyðisfjarðar. Eftir að fyrirtækið hætti starfsemi, hefur húsnæðið verið notað fyrir sýningar Tækniminjasafnsins.

Saga Búðareyrar einkennist af miklum umbreytingum og er fjallað um þær út frá nokkrum þáttum sem þó skarast hver við annan:

  • Upphaf byggðar
  • Vélsmiðjan
  • Samskipti og ritsíminn
  • Hernámsárin
  • Höfnin og fjörðurinn
  • Verslun og viðskipti
  • Náttúrufar og skriðuföll

Opnunartímar

Maí - ágúst
Mánudaga - laugardaga kl. 10 - 17

September

Mánudaga - föstudaga kl. 10 - 16

Október - apríl
Eftir samkomulagi : tekmus@tekmus.is

Aðgangseyrir
Fullorðnir: 1500 kr
Börn: 500 kr
Lífeyrisþegar og nemar: 1000kr

Þingeyrakirkja

Þingeyrum, 541 Blönduós

Ein merkasta kirkja landsins stendur á Þing­eyrum í Austur-Húnavatnssýslu. Kirkjan var vígð árið 1877. Margir góðir gripir prýða kirkjuna og þeirra elstir eru altaristaflan sem er frá því á 15. öld, predikunarstóll og skírnarfontur frá því um aldamótin 1700. Þingeyri var höfðingja­setur um aldir og er nefnt í fornsögum sem dómstaður Húnaþings. Þar má finna leifar af hlöðnum dómhring sem nú er friðlýstur. Munkaklaustur var stofnað á Þingeyrum árið 1133 og stóð það fram til 1550.

Opið 10–17 alla daga

Opið eftir samkomulagi á veturna.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur - Borgarsögusafn

Tryggvagata 15, 101 Reykjavík

Safnið varðveitir um 5 milljón ljósmynda sem teknar hafa verið af atvinnu- og áhugaljósmyndurum á tímabilinu um 1870 til 2002. Um 30 þúsund þeirra eru aðgengilegar á myndvef safnsins. Safnið stendur árlega fyrir fjölbreyttum sýningum með áherslu á sögulega og samtíma ljósmyndun, í listrænu sem menningarlegu samhengi. Á safninu er lítil búð og þar gefst gestum einnig kostur á að skoða ljósmyndir úr safneign á þar til gerðum skjám. 

Ljósmyndasafn Reykjavíkur heyrir undir Borgarsögusafn – Eitt safn á fimm frábærum stöðum.

Opnunartími:
Mán-fim: 10-18
Fös: 11-18
Helgar: 13-17

Byggðasafnið Hvoll

Karlsrauðatorg, 620 Dalvík

Sumarið 2023:
Vegna framkvæmda verður safnið ekki opið almenningi sumarið 2023. Hægt er að hafa samband við Björk Hólm Þorsteinsdóttur, forstöðumann safnsins, í gegnum netfangið: bjork@dalvikurbyggd.is.

Byggðasafnið Hvoll á Dalvík er í senn byggða-, náttúrugripa- og mannasafn. Þar eru ýmis áhöld og innanstokksmunir frá fyrri tíð og haganlega gerðir skrautmunir unnir af hagleiksfólki af svæðinu. Á
náttúrugripasafninu er fjöldi íslenskra fugla og spendýra, þar sem ísbjörninn vekur mesta athygli.

Minningarstofur eru um Jóhann Svarfdæling, sem var um tíma hæsti maður heims og Kristján Eldjárn forseta.

Árið 1934 reið jarðskjálfti yfir Dalvík (6,2 á Richter). Jarðskjálftanum eru gerð skil í sérstakri stofu safnsins.

Opnunartími:
1. júní – 31. ágúst: 10.00-17.00 alla daga
1. september – 31. maí. Lokað .
Opið eftir samkomulagi og við tökum á móti hópum allt árið. Pantanir fyrir hópa fara í gegnum bjork@dalvikurbyggd.is

Jarðhitasýningin í Hellisheiðarvirkjun

Hellisheiðarvirkjun, 816 Ölfus

Jarðhitasýningin

Jarðhitasýningin í Hellisheiðarvirkjun veitir innsýn í virkjun og nýtingu jarðvarma á Íslandi. Á sýningunni er jarðfræði, tækni og saga sett fram á aðgengilegan og skýran hátt með myndum og margmiðlunartækni.

Hellisheiðavirkjun er stærsta jarðvarmavirkjun landsins, og meðal 10 stærstu á heimsvísu, þar sem framleidd eru um 303MW af rafmagni og um 200MW af heitu vatni.

Starfsfólk sýningarinnar búa yfir breiðri þekkingu um jarðfræði, jarðhita, framleiðsluna á svæðinu og nýtingu auðlindastrauma sem nýtast meðal annars til fyrirtækja innan Jarðhitagarðs ON eins og Carbfix, Climeworks, VAXA technologies og GeoSilica.

Opnunartími

Sýningin er opin alla daga fyrir utan Jóladag og Nýársdag
1. nóv - 31. mars kl. 09:00-16:00
1. apríl - 31. okt kl 09.00 - 17.00

Hópabókanir (10 og fleiri), Carbfix túrar og almennar fyrirspurnnir sendist á syning@or.is eða hringja í síma 591-2880. 

Á heimasíðunni www.jardhitasyning.is er hægt að bóka miða fyrir einstaklinga og minni hópa.

Gönguleiðir 

Á Hengilssvæðinu er flest það sem prýðir íslenska náttúru: áhugavert landslag, hvera- og gígasvæði, fjölbreytt gróðurfar, ár og stöðuvötn. Mikil vinna er lögð í frágang og landgræðslu á röskuðum svæðum vegna framkvæmda við Hellisheiðarvirkjun á líkan hátt og gert var á Nesjavöllum á sínum tíma. 

Við bjóðum hópum sem ganga um svæðið velkomna í leiðsögn um Jarðhitasýninguna - https://www.on.is/umhverfid/hengillinn/ 

Sauðfjársetur á Ströndum

Sævangur við Steingrímsfjörð, by road 68, 510 Hólmavík

Sauðfjársetur á Ströndum hefur verið starfandi frá árinu 2002 í félagsheimilinu Sævangi við Steingrímsfjörð á Ströndum. Sauðfjársetrið er safn sem tekur á móti fjölda ferðamanna á ári hverju, auk þess sem íbúar á Ströndum koma margir margsinnis í heimsókn á hverju ári á viðburði eða í veislur. Sauðfjársetrið vinnur auk þess að margvíslegum menningarverkefnum.

Jafnan eru uppi 4 sögu- eða listsýningar á Sauðfjársetrinu í einu. Fastasýning safnsins heitir Sauðfé og sveitafólk á Ströndum. Síðan eru hverju sinni uppi þrjár tímabundnar sérsýningar sem standa
yfirleitt í 1-2 ár. 

Í Sævangi er einnig starfrækt kaffistofan Kaffi Kind þar er í boði heimabakað bakkelsi, súpa, ís frá Erpsstöðum og fleira góðgæti, í Sauðfjársetrinu er einnig lítil handverks- og minjagripabúð. 

Safnið er staðsett 12 km. sunnan Hólmavíkur

Opnunartími 1. júní - 31. ágúst:
Virkir dagar: 10:00-18:00
Laugardagar: 10:00-18:00
Sunnudagar: 10:00-18:00
Opið eftir samkomulagi á veturna.


Duus Safnahús - Menningar- og listamiðstöð

Duusgata 2-8, 230 Reykjanesbær

Duus Safnahús eru lista- og menningarmiðstöð Reykjanesbæjar og hýsa aðal sýningarsali Listasafns og Byggðasafns Reykjanesbæjar. Bæði söfnin hafa hlotið viðurkenningu Safnaráðs. Þar er einng Gestastofa Reykjaness jarðvangs (Geopark) og fleiri sýningar. 

Lokað er á mánudögum. Opið er þriðjudaga til sunnudaga frá kl: 12:00-17:00.

Listasafn Reykjavíkur - Ásmundarsafn

Sigtún, 105 Reykjavík

Listasafn Reykjavíkur er staðsett í Hafnarhúsi, á Kjarvalsstöðum og í Ásmundarsafni. Safnið býður upp á fjölbreyttar sýningar og viðburði og er opið alla daga vikunnar. Þá gildir sami aðgöngumiðinn í öll húsin. Safnið er stærsta listasafn hér á landi og hýsir verk margra þekktustu og ástsælustu listamanna þjóðarinnar.

Ásmundarsafn er helgað verkum Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara, eins af frumkvöðlum höggmyndalistar á Íslandi.  Safnið er til húsa í einstæðri byggingu sem listamaðurinn hannaði að mestu sjálfur. Verk eftir Ásmund prýða garðinn við safnið.

Listahús

Sæunnargata 12, 310 Borgarnes
Michelle Bird er listakona búsett á Íslandi. Hún vinnur á ýmsum sniðum en er nefnilega olíumálari. Þér er velkomið að heimsækja hana á lifandi listastofu hennar, þar sem þú getur keypt list eða bara fengið innblástur. Á Íslandi stofnaði hún Art House Borgarnes sem er vefsíða sem sýnir samstarfsverkefni um félagslega list. Hún var skipuleggjandi Borganes Film Freaks viðburðanna á árunum 2018 og 2017 og var meðframleiðandi heimildarmyndarinnar Pourquoi Pas Borgarnes. Bæði verkefnin fengu styrki. Í Sviss stofnaði og skipulagði hún listviðburðina: Open Doors og Outside Inside. Í 6 ár samfleytt gaf hún út árlega list tímaritið MAP Magazine Artist Professionals í Winterhur.

Verslunarminjasafn Bardúsa

Brekkugata 4, 530 Hvammstangi
 Opnunartími:  Virkir dagar
 Helgar
 1. júní - 1. september
 10:00-18:00  11:00-17:00

Annars opið eftir samkomulagi, sími: 869-6327.

Mjög vandað og flott handverk eftir fólk héðan af svæðinu.

Pakkhúsið

Suðurbraut, 565 Hofsós

Pakkhúsið á Hofsósi er meðal elstu húsa sinnar tegundar á landinu. Það er stokkbyggt bjálkahús með háu skarsúðarþaki. Húsið er talið reist 1777. Geymsluloft er í húsinu og op á efri hæð með hlerum, þar sem vörur voru fluttar um. 

Á Hofsósi við austanverðan Skagafjörð var mikilvægur verslunarstaður á tímum einokunarverslunarinnar 1602-1787. Pakkhúsið á Hofsósi er með elstu timburhúsum landsins, byggt nokku fyrir 1780. Það var flutt tilsniðið til landsins á vegum dansks verslunarfélags, eitt tólf sambærilegra húsa, sem reist voru á athafnasvæði þess. Aðeins eitt annað þessara húsa stendur enn og er það í Jakobshavn á Grænlandi.

Húsið er svokallað stokkahús (bjálkahús) og er hver stokkur um 30 cm á hæð og nærri 20 cm á breidd, nótaður að ofan og neðan og borð í rauf. Á úthornum læsast stokkar saman með sérstökum hætti og ganga stokkendar út fyrir veggbrún. Átta stokkar eru í vegghæð. Að grunnfleti er húsið u.þ.b. 8,2 m á breidd og 12,0 m á lengd (13x19 álnir). Geymsluloft er í húsinu og op á efri hæð með hlerum, þar sem vörur voru fluttar um. Tvöföld borðaklæðning er á þaki og er skarsúð að utan. Veggir eru tjargaðir að utanverðu sem og þakið.

Pakkhúsið var tekið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands árið 1954. Viðgerðir hófust þó ekki fyrr en árið 1986 og var húsið tekið í notkun fyrri hluta ársins 1992. Ýmsar sýningar hafa verið settar upp í húsinu í seinni tíð. 

Leikfangahúsið á Akureyri

Aðalstræti 46, 600 Akureyri

Í elsta bæjarhluta Akureyrar eru húsin nánast eins og dúkkuhús. Einu þeirra hefur verið breytt í Leikfangahús, fullu af leikföngum frá síðustu 100 árum. Bílar, dúkkur, spil, brúður, ofurhetjur… Hver ímyndaði sér ekki að fá að leika sér í leikfangaverslun. Komdu og upplifðu æskuna og taktu krakkana með þér. VARÚÐ! Það gengur oft hægt að fá krakkana út, þið vitið hver þið eruð!

Húsið heitir Friðbjarnarhús eftir Friðbirni Steinssyni sem það reisti og bjó í ásamt fjölskyldu sinni. Í húsinu var Góðtemplarastúka Íslands stofnuð og á efri hæðinni er fundarherbergi hennar.

Leikfangahúsið er 200 metrum frá Nonnahúsi, Minjasafninu og Minjasafnsgarðinum.

Opnunartími:
1.6.-1.9.: Daglega frá 11-17.

Aðgöngumiðinn Minjasafnið allt árið – gildir í Leikfangahúsið.

Verð:
Stök heimsókn 2000 kr. fyrir 18 ára og eldri –  Börn 17 ára og yngri ókeypis, Öryrkjar ókeypis. Eldri borgarar 1000 kr.
Miðinn gildir út árið á Minjasafnið á Akureyri, Nonnahús, Leikfangahúsið, Davíðshús og Laufás.

Listasafn Samúels í Selárdal

Brautarholt, Selárdalur, 465 Bíldudalur

 Samúel Jónsson (1884-1969) hefur verið nefndur "listamaðurinn með barnshjartað". Þegar hann fékk ellilífeyri byggði hann listasafn og kirkju, gerði líkön af fjarlægum merkisbyggingum og málaði listaverk í Selárdal, án þess að hafa notið nokkurrar tilsagnar í myndlist. Að Brautarholti í Selárdal bjó hann til styttur af selum, ljónum, sæhesti, önd með unga sína á bakinu og af Leifi heppna. Ekki nóg með það, heldur reisti hann einn síns liðs heila safnbyggingu yfir verk sín auk kirkju sem hann ætlaði að varðveita altaristöflu er hann hafði málað og sem sóknarkirkjan hafði hafnað. Félag um listasafn Samúels hefur undanfarna tvo áratugi gert við höggmyndir og byggingar Samúels og endurgert íbúðarhús hans að Brautarholti. Safnið er opið gestum yfir sumartímann og allir velkomnir í kaffi í hús Samúels. 

Sögusafnið

Grandagarður 2, 101 Reykjavík

Í fyrsta sinn gefur að líta á einum stað sögufrægar persónur og stórviðburði Íslandssögunnar, frá landnámi til siðaskipta sem standa ljóslifandi fyrir augum okkar með einstökum hætti.

Sögusafnið er safn sem færir þig nær andartaki sögulegra atburða. Safnið endurspeglar þá atburði sem best lýsa sögu okkar, skópu örlög alþýðunnar og sýna forvitnilegar hliðar á landi og þjóð. Í þessu fjölbreytilega og lifandi safni er jafnt íslenskum sem erlendum gestum veitt tækifæri til að kynnast Íslandsögunni á skemmtilegan og fræðandi hátt.

Volcano House

Tryggvagötu 11, 101 Reykjavík

Í Eldstöðinni bjóðum við upp á bíósýningar um gosin í Eyjum og Eyjafjallajökli ásamt kynningu á jarðfræði Íslands, á ensku en einnig á íslensku (sérpöntun fyrir hópa), þýsku og frönsku. Að auki er í húsinu sýning með úrvali steina úr náttúru Íslands, lítil verslun þar sem lögð er áhersla á vörur sem tengjast jarðfræði landsins og upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn. Einnig íslenska!

 Opnunartími  Virkir dagar:  Laugardagar:  Sunnudagar:
 Allt árið  09:00-22:00  09:00-22:00

 

09:00-22:00

Athugið að fyrsta sýningin hefst kl. 10 og seinasta kl. 21

Pakkhúsið

Ólafsbraut 12, 355 Ólafsvík

Pakkhúsið í Ólafsvík er gamalt verslunarhús, byggt árið 1844. Á fyrstu hæð hússins er Útgerðin, hönnunarverslun innan um fallegar listasýningar. 

Byggðasafnið er á efri hæðinni, þar geta gestir upplifað íslenskt alþýðuheimili 19. aldar og skyggnst inn í atvinnu- og lifnaðarhætti sjómanna fyrr á öldum. Í risinu er sýningin "Krambúðarloftið" sem ber íslenskri verslunarsögu vitni. Þar má finna ýmsa verslunarvöru, svo sem saltfisk og gúmmískó, sem höndlað var með forðum.

Í upphafi gegndi Pakkhúsið hlutverki birgðageymslu en síðar var m.a. rekin verslun í húsinu. Þar spurði fólk frétta, skiptist á skoðunum og dreypti á kaupmannsbrennivíni sem geymt var undir búðarborðinu.

Þess má geta að Ólafsvík telst elsti verslunarstaður landsins, en árið 1687 gaf konungur út skipun þar sem hann viðurkenndi Ólafsvík sem verslunarstað.

Opið virka daga frá 11:00-17:00 og um helgar 11:00-16:00

Eiríksstaðir

Haukadalur, 371 Búðardalur

Kíkið til okkar á 10. öldina. Setjumst við eldinn og spjöllum við sagnafólk, sem segir okkur fornar sagnir af búskap og fólki á Eiríksstöðum til forna. Það er hægt að fá að handleika verkfæri, vopn og gripi sem eru eftirgerðir af gripum landnámsaldar. 

Sagnafólkið okkar hefur djúpa þekkingu á sögu bæjarins, ábúendum og á landsnámsöldinni. Leiðsagnir eru í boði allan daginn.

Opið frá klukkan 10:00 til 17:00 alla daga frá 1. maí til 15. október.
    


Safnahúsið Ísafirði

Eyrartún, 400 Ísafjörður

Ísfirskt menningarhús sem hýsir bókasafn, listasafn, ljósmyndasafn og skjalasafn.

Safnahúsið er opið allt árið sem hér segir:
- virka daga kl. 12:00 - 18:00
- laugardaga kl. 13:00 - 16:00

Bókasafnið Ísafirði s. 450-8220 bokasafn@isafjordur.is
Skjalasafnið Ísafirði s. 450-8226 skjalasafn@isafjordur.is
Listasafn Ísafjarðar s. 450-8225 listasafn@isafjordur.is
Ljósmyndasafnið Ísafirði s. 450-8228 myndasafn@isafjordur.is   

Bruggsmiðjan

Öldugata 22, 621 Dalvík

Þó svo að fyrirtækið hafi verið starfrækt í stuttan tíma þá hefur það tekið miklum breytingum frá upphaflegri mynd. Hugmyndina af fyrirtækinu kom frá hjónum á Árskogssandi, henni Agnesi Sigurðardóttur og Ólafi Þresti Ólafssyni. Þau fengu hugmyndina um að opna litla bruggverksmiðju eftir að hafa séð frétt í sjónvarpinu frá lítilli verksmiðju í Danmörku. Viku seinna eru þau komin út til Danmerkur að skoða bruggverksmiðju. Þetta gerist í júní 2005. Í október skrifa þau undir kaupsamninga á bruggtækjum út í Tékklandi. Í desember 2005 var fyrirtækið formlega stofnað. Í byrjun árs 2006 koma síðan aðrir aðilar inn í fyrirtækið. Í dag er Bruggsmiðjan í eigu 15 aðila. Agnes og Ólafur eiga rúm 56%, og 44% skiptast á milli 14 aðila.

 

Þjónusta sem að boðið er uppá hjá Bruggsmiðjunni er m.a. það að við tökum á móti hópum í vísindaferðir. Heimsóknin kostar 2000 kr á mann. Innifalið í því er kynning á fyrirtækinu og starfsemi þess. Boðið er uppá hressingu á meðan á kynningunni stendur, og svo fær fólk að eiga glasið sem það drekkur úr sem er sérmerkt Kalda. Við reiknum með að hver heimsókn taki ca klukkutími, þó svo margir kjósi að stoppa styttra.


Husavik Cape Hotel

Laugarbrekka 26, 640 Húsavík

Cape hótel staðsett í hjarta bæjarins, Húsavík. Frá því er mjög gott útsýni yfir bæinn og höfnina og tekur aðeins um 5 mínútur að ganga t.d. að Hvalasafninu.

Frábær staðsetning til að ferðast um Norðurland og skoða helstu náttúruperlur svæðisins eins og Mývatnssveit, Ásbyrgi, Dettifoss og fleiri staði. 

Vinsamlegast hafið samband vegna verðlista og bókana.

Þingvellir

Þingvellir, 806 Selfoss

Á tjaldsvæði má finna, salerni, sturtur, þvottaaðstöðu, útivaska og kolagrill. Í þjónustumiðstöðinni er kaffi- og veitingaaðstaða. Þar er einnig seld tjald- og veiðileyfi.

Sumaropnunartími (júní-ágúst):
09:00 - 20:00

Vetraropnunartími (september - maí):
Upplýsingahlið gestastofu: 09:00-16:00
Verslun og þjónustumiðstöð á Leirum: 09:00-18:00

Safnahúsið á Húsavík

Stórigarður 17, 640 Húsavík

Safnahúsið á Húsavík er rekið af Menningarmiðstöð Þingeyinga (MMÞ) og hýsir ólíkar safneignir og menningarminjar Þingeyinga. Þar er að finna tvær fastasýningar, annars vegar áhugaverðu byggðasýninguna “Mannlíf og náttúra – 100 ár í Þingeyjarsýslum”, sem unnin er úr safneign Byggðasafns Suður-Þingeyinga og með munum úr Náttúrugripasafni Þingeyinga. Sýningin segir frá samtali manns og náttúru í Þingeyjarsýslum á tímabilinu frá 1850 til 1950. Hin fastasýningin er unnin úr safnkosti Sjóminjasafns Þingeyinga og segir/sýnir frá sjósókn á Skjálfanda og sjóminjum Þingeyinga. Héraðsskjalasafn Þingeyinga er einnig í húsinu, auk safneigna Ljósmyndasafns Þingeyinga og Myndlistarsafns Þingeyinga. Í Safnahúsinu eru jafnframt tvö rými sem eru nýtt undir tímabundnar myndlistar- og sögusýningar en myndlistarsalnum á 3. hæð opna reglulega allt árið um kring sýningar á myndlist í hæsta gæðaflokki. Í húsinu er einnig finna skrifstofur MMÞ og munageymslur. Reglulega eru þar haldnir ýmsir menningartengdir viðburðir á borð við tónleika, námskeið og fræðsluerindi. Að lokum er bókasafn Norðurþings staðsett á jarðhæð hússins. 

Opið allan ársins hring. 

15. maí - 31. ágúst: alla daga 11-17 

1. september - 14. maí: þri-fös 13-16, og lau 11-16  

Dalur-hestamiðstöð ehf.

Dalland, 271 Mosfellsbær

Frá árinu 1978 hefur hrossarækt verið stunduð í Dallandi og hross verið tamnin og þjálfuð í hestamiðstöðinni Dal. Ekkert hrossaræktarbú á Íslandi af þessari stærðargráðu er staðsett svona nálægt höfuðborgarsvæðinu.

Aðeins er um  15 mínútuna  keyrsla úr miðborg Reykjavíkur í Dalland. Þeir sem  hafa hug  á hestakaupum eru velkomnir að  hafa samband eða koma við að skoða hestana.

Vinsamlegast hafið samband vegna frekari upplýsinga.

Langabúð-Byggðasafn - Ríkarðssafn

Búð I, 765 Djúpivogur

Langabúð er reist á grunni eldra húss og þar sem Langabúð stendur hefur verið verslun frá árinu 1589 er Þýskir kaupmenn frá Hamborg hófu verslunarrekstur á Djúpavogi.

Langabúð hýsir safn Ríkarðs Jónssonar, ráðherrastofu Eisteins Jónssonar og minjasafn. Þar er einnig rekið yndælis kaffihús ásamt minjagripasölu.

Síldarminjasafn Íslands

Snorragata 15, 580 Siglufjörður

Síldarminjasafn Íslands

Síldarminjasafn Íslands er eitt af stærstu söfnum landsins. Í þremur húsum kynnumst við síldveiðum og vinnslu á silfri hafsins. Róaldsbrakki er norskt síldarhús frá 1907. Þar er flest eins og var á árum síldarævintýrisins þegar síldarfólkið bjó þar. Í Gránu er safn um sögu bræðsluiðnaðarins sem löngum var kallaður fyrsta stóriðja Íslendinga. Í Bátahúsinu liggja bátar, stórir og smáir, við bryggjur. Síldarminjasafnið hlaut Íslensku safnverðlaunin 2000 og Evrópuverðlaun safna 2004, þegar það var valið besta, nýja iðnaðarsafn Evrópu.

Síldin var einn helsti örlagavaldur Íslands á 20. öld og grunnur þess að landsmenn hurfu frá áralangri fátækt og gátu byggt upp nútíma samfélag. Atburðirnir í kring um síldina voru svo mikilvægir fyrir fólkið og landið að talað var um ævintýri – síldarævintýrið. Við hverja höfn, norðanlands- og austan risu síldarbæir stórir og smáir. Siglufjörður var þeirra stærstur og frægastur. Þótt norðurlandssíldin sé fyrir löngu horfin ber staðurinn skýr merki hinna stórbrotnu atburða síldaráranna. 

Opnunartímar eru sem hér segir:
Maí og september: 13 – 17
Júní, júlí og ágúst: 10 – 17
Vetur: Eftir samkomulagi 

Siglufjörður er aðeins í klukkustundar akstursfjarlægð frá Akureyri!

Skjálftinn 2008

Breiðumörk 21, 810 Hveragerði

Skjálftinn 2008, sýning í Upplýsingamiðstöð Hveragerðis Breiðumörk 21 Hveragerði.

Kl. 15:45 þann 29. maí 2008 varð öflugur jarðskjálfti suðaustur af Hveragerði. Stærð hans var 6,3 á Richterskvarða. Einhver slys urðu á fólki en engin alvarleg. Almannavarnir lýstu þegar yfir hæsta viðbúnaðarstigi í Hveragerði, á Selfossi og í nágrenni vegna hugsanlegra eftirskjálfta. Töluverðar skemmdir urðu á þeim svæðum sem næst lágu upptökunum einkum innandyra þegar húsgögn og aðrir lausamunir köstuðust til. Ummerki skjálftanna sjást víða á yfirborði jarðar. Skriður féllu úr fjallshlíðum og hveravirkni jókst. Sýnilegar sprungur mynduðust, flestar sprungurnar á Reykjafjalli.
Á sýningunni er gerð grein fyrir orsökum og afleiðingum jarðskjáftans í maí 2008 í Hveragerði. Á sýningunni má sjá reynslusögur íbúa, upplýsingar um áhrif skjálftans á hús, nánasta umhverfi og innbú bæjarbúa. Á sjónvarpsskjáum má sjá upptökur úr eftirlitsmyndavélum, ljósmyndir frá bæjarbúum. Hægt er að upplifa jarðskjálfta í jarðskjálftahermir sem er yfir 6 á richter. 

Aðgangur að sýningunni er ókeypis en greiða verður fyrir upplifun í jarðskjálftaherminn.

Icelandic Lava Show

Víkurbraut 5, 870 Vík

Upplifðu alvöru rennandi hraun í návígi! Ógleymanleg skemmtun!

Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal endurskapar aðstæður eldgoss með því að hita hraun upp í 1100°C og hella því svo inn í sýningarsal fullum af fólki! Hvergi annars staðar í heiminum getur fólk upplifað rauðglóandi hraun í svo miklu návígi með öruggum hætti. Frábær sýning sem samtvinnar á einstaklega eftirminnilegan máta fræðslu, skemmtun og heimsklassa upplifun þar sem efniviðurinn er rennandi hraun! Sannkölluð veisla fyrir skynfærin og ógleymanleg upplifun fyrir unga sem aldna. 

Icelandic Lava Show er hugarfóstur hjónanna Júlíusar Inga Jónssonar og Ragnhildar Ágústsdóttur en hugmyndin kviknaði þegar þau fóru upp að gosinu á Fimmvörðuhálsi árið 2010 og sáu hraunfossinn og ótrúlegt samspil hraunsins við ísinn allt um kring. Í lok árs 2015 sagði Júlíus starfi sínu lausu og hafa þau hjónin unnið að því að koma fyrirtækinu á laggirnar æ síðan. Það var svo í september 2018 sem Icelandic Lava Show opnaði dyr sínar fyrir gestum og gangandi og viðtökurnar hafa verið hreint frábærar líkt og sjá má á einkunnasíðum á borð við TripAdvisor og Google Maps. Hér er því um að ræða ungt og efnilegt fjölskyldusprotafyrirtæki sem er vel þess virði að heimsækja.

Nánari upplýsingar:

  • Lengd: ca 45-50 mínútur (fer eftir fjölda spurninga og stemmningu í salnum)
  • Aldur: Hentar öllum aldurshópum (en börn þurfa að vera í fylgd fullorðinna)
  • Staður: Víkurbraut 5, Vík í Mýrdal (í gamla Kaupfélagshúsinu)
  • Stund: fastir sýningartímar þar sem það tekur marga klukkutíma að bræða hraun - sjá tímasetningar og hvað er laust á icelandiclavashow.com
  • Mæting: það borgar sig að vera mætt/ur amk. 15 mínútum áður en sýningin hefst
  • Fatnaður: forðist að vera of mikið klædd því það hitnar mjög snögglega þegar rauðglóandi hraunið rennur í sýningarsalinn
  • Tungumál: oftast á ensku (nema ef allir í salnum skilja íslensku) - munum auglýsa séríslenskar sýningar í sumar
  • Hópar: Icelandic Lava Show er frábær skemmtun fyrir hópa og tekur allt að 50 manns í sæti á hverja sýningu. Hægt er aðlaga tíma að hópum. Fyrir tilboð, sendið okkur póst á info@icelandiclavashow.com

Lýsing á sýningunni sjálfri

  1. Í upphafi er stuttur inngangur þar sem sýningarstjórinn býður alla velkomna og leiðir fólk í allan sannleika um upplifunina, hvað hún felur í sér, hvernig hugmyndin kviknaði og afhverju Vík í Mýrdal varð fyrir valinu (ca 10-12 mínútur)
  2. Að innganginum loknum er sýnd stutt fræðslumynd af stað þar sem annars vegar er farið yfir það afhverju Ísland er svona virk eldfjallaeyja með áherslu á eldfjöllin í nágrenni Víkur. Hins vegar er sögð ótrúleg flóttasaga Jóns Gíslasonar, langafa sýningarstjórans og annar stofnanda Icelandic Lava Show, undan Kötlugosinu 1918 og hamfarahlaupinu sem því fylgdi (12 mínútur)
  3. Hápunktur sýningarinnar er svo þegar 1100°C heitu hrauninu er hellt inn í sýningarsalinn. Það er ólýsanleg tilfinning að sjá, heyra og finna hraunið renna inn í salinn - sannkölluð veisla fyrir skynfærin! Þegar hraunið rennur inn í rökkvaðan sýningarsalinn er eins og sýningargestir verði vitni að sólarupprás, svo skært er rauðglóandi hraunið. Þá finna gestir lyktina af bráðnu hrauninu þar sem það byrjar að storkna og heyra um leið hvernig það kraumar, bullar og snarkar. Það allra tilkomumesta er þó hitinn sem skellur á sýningargestum. Það er gífurlegur hitinn sem kemur flestum á óvart. Sýningarstjórinn gerir svo alls kyns æfingar með rauðglóandi hraunið sem er heillandi að fylgjast með en um leið ótrúlega upplýsandi (ca 20-25 mínútur)
  4. Að sýningu lokinni gefst svo öllum færi á að spyrja spurninga sem sýningarstjórinn reynir að svara eftir bestu getu. (ca 5 mínútur)

Allar nánari upplýsingar á icelandiclavashow.com 

Listasafn Háskóla Íslands

Oddi, Suðurgata, 101 Reykjavík

Listasafn Háskóla Íslands var stofnað árið 1980 með listaverkagjöf hjónanna Sverris Sigurðssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur og var stofnskrá safnsins staðfest af forseta Íslands í apríl 1980.

Listasafn Háskóla Íslands hefur með höndum varðveislu og viðhald stofngjafar og annarra verka í eigu þess og stuðlar að rannsóknum á íslenskri listasögu. Það stendur einnig fyrir sýningum, bæði á eigin vegum og í samvinnu við aðra. Sérstök deild í safninu nefnist Þorvaldssafn, eftir Þorvaldi Skúlasyni listmálara, enda eru verk eftir hann uppistaða stofngjafarinnar sem nam alls 140 listaverkum.

Háskóli Íslandsistasafn Háskóla Íslands hefur þá sérstöðu í safnaflóru landsins að deila sýningarrými sínu með stúdentum, kennurum og öðru starfsfólki HÍ. Það þýðir að verk í eigu safnsins eru sett upp víðs vegar um stofnanir og byggingar háskólasamfélagsins.

Opnunartími Virkir dagar: Laugardagar: Sunnudagar:
Sumar: 10:00-20:00 10:00-20:00 10:00-20:00
Vetur: 08:00-20:00 08:00-20:00

 

08:00-20:00

Miðaldadagar á Gásum

Þelamerkurskóli, 604 Akureyri

Þriðja helgi í júlí.

Sjóminjasafn Austurlands

Strandgata 39b, 735 Eskifjörður

Í safninu eru munir sem tilheyra sjósókn og vinnslu sjávarafla. Einnig eru þar verslunarminjar og hlutir sem tilheyra ýmsum greinum iðnaðar og lækninga frá fyrri tíð. Sjóminjasafnið er staðsett í gömlu verslunarhúsi, Gömlu búð, sem byggt var 1816.

Safnið þykir einstaklega skemmtilega framsett, fjölbreytt og fróðlegt heim að sækja. Það er á tveimur hæðum.

Safnið er opið alla daga kl. 13:00-17:00 (júní-ágúst) eða eftir samkomulagi á öðrum árstímum.

Tónlistarsafn Íslands

Þjóðarbókhlaðan - Arngrímsgötu 3, 200 Kópavogur

Tónlistarsafn Íslands opnaði 9. maí 2009 með sýningunni Dropar úr íslensku tónlistarlífi þar sem varpaði var ljósi á nokkra frumkvöðla tónlistarlífsins á 20. öld. Safnið er rekið af Kópavogsbæ með stuðningi frá Menntamálaráðuneytinu samkvæmt sérstökum samningi þar um.

Nú er að ljúka fimmtu sýningu safnis: Sveinbjörn Sveinbjörnsson (1847-1927) – fyrsta tónskáld Íslendinga. Að sýningum frátöldum er uppbygging gagngrunna og miðlun á Netinu (tonlistarsafn.is, ismus.is, musik.is) veigamiklir þættir í starfseminni Tónlistarsafns. Þjónusta við tónlistarlífið og almenning er líka mikil, til að mynda í formi upplýsingagjafar um hvaðeina er varðar íslenska tónlistarsögu og móttöku gagna sem talsvert er um að almenningur færi safninu.

Sænautasel

Jökuldalsheiði, 701 Egilsstaðir

Sænautasel var byggt á Jökuldalsheiði 1843. Bærinn var í byggð í eina öld. Árið 1861 voru 16 bæir í byggð á heiðinni. Þeir eyddust að mestu í Öskjugosi 1875. Flutt var úr bænum árið 1943. Meðal hinna brottfluttu var ellefu ára snáði, Eyþór, sem vitjar enn þá (2010) átthaganna á sumrin. Þáverandi Jökuldalshreppur endurbyggði bæinn árið 1992. Hluti hans féll árið 2009 og var endurbyggður 2010. Hann er mjög áhugavert safn og aðeins fimm kílómetra að fara frá gamla þjóðveginum, sem liggur um Möðrudalsöræfi og Jökuldalsheiði. 

Flestir Íslendingar og margir erlendir aðdáendur Haldórs Kiljan Laxness þekkja söguna um Bjart í Sumarhúsum úr skáldverkinu „Sjálfstætt fólk”. Hún lýsir lífsbaráttu sjálfstæðs kotbónda á afskekktri heiði. Margir telja að fyrirmynd sögunnar sé komin frá Sænautaseli, því þar átti Halldór næturstað á þriðja áratugi 20. aldar. Hann gekk þangað úr byggð. 

Heiðabúskapur var einnig viðfangsefni rithöfundanna Gunnars Gunnarssonar (Aðventa) og Jóns Trausta (Halla og heiðarbýlið). 

Ferðaþjónustan, sem er rekin í bænum á sumrin, nær til leiðsögu um bæinn. Þar er sögð saga fólksins, sem bjó á heiðinni og búskaparháttum. Ekki má gleyma því, að heiðarbýlin áttu aðgang að stöðuvötnunum á heiðinni, sem var drjúg búbót. Síðan er hægt að setjast og njóta veitinga í bænum, þar sem komið er fullkomið eldhús, sem er þekkt fyrir góðar lummur og súkkulaði. 

Lilja Hafdís Ólafsdóttir
Merki í Jökuldal
701 Egilsstaðir
Sími: 855-5399 / 471-1086
Opið frá 1. júni til 10. September kl. 9-22 og samkvæmt samkomulagi.
jokulsa@centrum.is

Strandarkirkja

Selvogur, 815 Þorlákshöfn

Margir leggja leið sína í Strandarkirkju, bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn. Kirkjan er opin alla daga á sumrin og á vorin og haustin er hún opin um helgar. Einnig er hún höfð opin um helgar á veturna ef óskað er. Þá tekur staðarhaldari á móti fólki og leiðbeinir því um sögu og nútíð kirkjunnar. 

Messað er í kirkjunni um jól og páska og reglulega yfir sumarið og fram á haust. Kirkjukór Þorlákskirkju annast söng og organisti er Ester Ólafsdóttir. Kirkjuvörður er Guðmundur Örn Hansson, sími 892-7954. Sóknarprestur er Sigríður Munda Jónsdóttir, sími 894-1507 og netfang sigridur.munda.jonsdottir@kirkjan.is .

Dalbær / Snjáfjallasetur

Dalbær, Snæfjallaströnd, 401 Ísafjörður

Sýningar um Drangajökul og horfna byggð í Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu, um tónskáldið Sigvalda Kaldalóns og um Spánverjavígin 1615. 

Snjáfjallasetri er ætlað að safna, skrá og varðveita sagnir, kveðskap, myndir, muni og ýmis gögn sem tengjast sögu byggðar í Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum og standa að sýningahaldi, útgáfustarfsemi, vefgagnasafni og ýmsum viðburðum.

Í Dalbæ er einnig rekin ferðaþjónusta, sjá hér .

Sjóminja- og smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar

Egilsbraut 2, 740 Neskaupstaður

Safnið var stofnað af vélstjóranum og athafnamanninum Jósafat Hinrikssyni sem ættaður var frá Neskaupstað. Safnið byggir á munum sem tilheyra sjávarútvegi, járn- og eldsmíði, bátasmíði og gömlum atvinnuháttum. Einnig geymir safnið eftirlíkingu af eldsmiðju Hinriks Hjaltasonar, föður Jósafats, þar sem Jósafat lærði og hóf starfsferil sinn.

Safnið er áhugaverð heimild um framkvæmdir og smíðatækni fyrri ára. Það var áður til húsa í Súðavogi 4 í Reykjavík, þar sem Vélaverkstæði J. Hinrikssonar var til húsa. Árið 2000 afhentu erfingjar Jósafats Fjarðabyggð safnið til varðveislu í Neskaupstað. 

Safnið er eitt af þremur söfnum Safnahússins í Neskaupstað og er á 2. hæð hússins.

Safnið er opið alla daga frá 13:00 - 17:00 (1. júní-31. ágúst) eða eftir samkomulagi á öðrum árstímum.

Edinborg Menningarmiðstöð

Aðalstræti 7, 400 Ísafjörður

Margvíslegir menningarviðburðir hafa átt sér stað í húsinu um árabil. Á síðustu árum hefur húsið hýst hvorutveggja fasta viðburði menningarmiðstöðvarinnar og uppáfallandi viðburði af ýmsu tagi sem allt of langt yrði að telja upp. Fulltrúar eigenda hússins skipa með sér stjórn menningarmiðstöðvarinnar og ákveða dagskrá hennar.

 

Litli Leikklúbburinn var stofnaður árið 1965 af ungu fólki á Ísafirði. Síðustu árin hefur húsnæðisskortur hamlað starfseminni, en nú hillir undir framtíðarhúsnæði leikklúbbsins í Edinborgarhúsinu. Klúbburinn hefur sett upp fjölda leikrita í áranna rás og oftast fengið prýðilegar móttökur. Hinn nýi salur í Edinborgarhúsinu mun marka þáttaskil í sögu Litla leikklúbbsins og má vænta margra skemmtilegra sýninga á næstu árum.


Myndlistarfélagið á Ísafirði var stofnað árið 1985 og starfrækti lengst af sýningarsalinn Slunkaríki. Í Slunkaríki voru settar upp á annað hundrað sýninga. Félagið stóð snemma fyrir námskeiðum í myndlist eða þangað til listaskólinn var stofnaður. Félagið mun standa fyrir sýningum í Edinborgarhúsinu líkt og það gerði í Slunkaríki þó að það verði kannski með öðru sniði en áður var.

 

Skrifstofa Menningarmiðstöðvarinnar er opin alla virka daga milli kl. 10:00-12:00. Einnig er hægt að ná í starfsmann menningarmiðstöðvarinnar í s. 852-5422. 

Vesturfarasetrið

Kvosin, 565 Hofsós

Vesturfarasetrið á Hofsósi var stofnað 1996 til heiðurs Íslendingum sem fluttust til Norður Ameríku á árabilinu 1850-1914. Markmið Setursins er að segja sögu fólksins sem fór og efla tengslin milli afkomenda þeirra og frændfólksins á Íslandi. Vesturfarasetrið býður upp á fjórar sýningar í þremur húsum auk ættfræðiþjónustu, bókasafn, og íbúðar fyrir fræðimenn.

 

Spákonuhof

Oddagata 5, 545 Skagaströnd

Spákonuhof á Skagaströnd

Sýning, sögustund og spádómar.

  

Sýning um Þórdísi spákonu, fyrsta nafngreinda íbúa Skagastrandar sem uppi var á síðari hluta 10. aldar. Margháttaðan fróðleik um spádóma og spáaðferðir er að finna á sýningunni. Lifandi leiðsögn. Gestir geta látið spá fyrir sér eða fengið lófalestur. Börnin skoða í gullkistur Þórdísar, þar sem ýmislegt leynist.

 

Handverk / Kaffiveitingar.

 

Litla sölubúðin okkar er með úrval af íslensku handverki og hönnun.

 

Opnunartími:  Júní - sept.

Þriðjudaga - sunnudaga

         13:00 – 18:00

Lokað á mánudögum

 

Sept. - júní  er opið eftir þörfum.

Hafið samband í síma

861 5089  / 452 2726

Randulffs-sjóhús

Strandgata 96, 735 Eskifjörður

Randulffssjóhús á Eskifirði er starfrækt í samvinnu við Ferðaþjónustuna Mjóeyri og er þar rekið veitingahús yfir sumartímann þar sem boðið er upp á mat úr héraði.

Randulffssjóhús er opið frá kl 12-21 alla daga sumarsins og er með matseðil bæði í hádeginu og á kvöldin og kaffimatseðil yfir daginn. Hægt er að panta fyrir hópa á öðrum tímum. Þar starfa lærðir kokkar sem leggja mikla áheyrslu á ferskan mat úr nágrenninu. 

Randulffssjóhús er í eigu Sjóminjasafns Austurlands. Húsið var byggt um 1890 og var lengst notað sem síldarsjóhús en síðan Sjóminjasafnið eignaðist það hefur það tengst safnastarfi safnsins. Sjóhúsið er núna opið almenningi. Búið er að koma upp gestamóttöku í sjóhúsinu og þar er matsalur sem rúmar allt að áttatíu manns.  Auk gestamóttöku og matsölu er hluti hússins nýttur til sýningarhalds á hlutum  sem tengdir eru sjóhúsinu og þeirri starfsemi sem þar hefur verið í gegn um tíðina. Á efri hæðinni er verðbúð sjómannanna í sinni upprunalegu mynd og sýningarsalur. Húsið er tilvalið fyrir hópa sem vilja eiga glaðan dag, til dæmis ættarmót, grillveislur og annan mannfögnuð og fer vel um allt að 80 manna hópa.  

Saga Randulffssjóhúss í stuttu máli 

Upp úr 1870 hafði síldveiði verið stunduð í Noregi um langan tíma og voru aðferðir við veiðarnar orðnar þróaðar og voru síldveiðar norðmanna stór atvinnuvegur. En um þetta leiti hvarf síldin við Noreg og stóðu menn uppi ráðalausir.  Fréttist þá frá farmönnum sem höfðu siglt til Íslands, að þar væru mikla síld að sjá inni á Austfjörðum og einnig á Eyjafirði. Ákváðu þá nokkrir síldveiðimenn að fara til Íslands og kanna veiðiskap þar. Þá kunnu Íslendingar enga leið til þess að veiða síldina, þó að nóg væri til af henni við fjöruborðið og urðu að láta sér nægja að dorga fyrir þorsk.  Var þetta fyrir almenna fátækt og þekkingarleysi.

Fluttu því nokkrir Norðmenn veiðibúnað sinn hingað, fyrst til Austfjarða og síðan til Eyjafjarðar og veiddu vel. Með þeim fyrstu sem komu til Reyðarfjarðar og Eskifjarðar, voru Peter Randulff, sem settist að á Hrúteyri  við Reyðarfjörð og J.E. Lehmkuhl sem byggði upp veiðistöð sína á Eskifirði, á þeim stað þar sem Jóhann Klausen byggði Netaverkstæði árið 1960  Norðmaðurinn Fredrik Klausen sá um síldveiðarnar fyrir Lehmkuhl og flutti til Eskifjarðar með sína fjölskyldu. Nokkrum árum síðar byggði Lehmkuhl aðra veiðistöð skammt innan við stöð Randulffs á Reyðarfjarðar ströndinni. Lehmkuhl og Randulff, unnu mikið saman og þegar Peter Randulff byggði Randulffssjóhúsið á Eskifirði árið 1890 þá mun sonur Fredriks, Þorgeir Klausen hafa tekið við stjórnun á síldveiðunum á nýju stöðinni. Þorgeir Klausen kvæntist dóttur Randulffs og þegar Randulff féll frá árið 1911 mun Þorgeir og bróðir hans Friðrik hafa eignast sjóhúsið, en það hefur alla tíð síðan verið kallað Randulffs-sjóhús. Þeir bræður stunduðu svo síldveiðar í botnnet og lagnet og notuðu til þess lítinn mótorbát, ásamt gömlu nótabátunum sem voru róðrarbátar. 

Einnig veiddu þeir þorsk sem var saltaður og þurrkaður, eins og gert var áður en frystihúsin komu til sögunnar.  Eftir að þeir bræður Þorgeir og Friðrik féllu frá, á árunum 1955-1960 eignuðust börn þeirra húsið og var það í umsjá Thors Klausen sem var sonur Friðriks. Thor var mikill veiðimaður og veiddi hann bæði síld og þorsk og einnig veiddi hann með byssu sinni, sel og hnísu, sem er minnsti hvalur við Ísland og sjófugla á vetrum og notaði hann þá alltaf lítinn róðrarbát.  Síðari árin stundaði hann kolaveiðar í net á litlum trillubát og gaf hann safninu báða þessa báta. Sjóminjasafn Austurlands keypti helming sjóhússins og bryggjunnar af dóttur Þorgeirs, árið 1982 og nokkrum árum síðar gaf Thor safninu sinn hluta eignarinnar. Safnið hefur endurbætt húsið og bryggjuna, þannig að það er að mestu leiti eins og það var upphaflega.  Thor lést í umferðarslysi árið 2004.                  

 

Æðarsetur Íslands

Frúarstígur 6, 340 Stykkishólmur

Æðarsetur Íslands er upplýsinga og fræðslusetur um æðarfuglinn, æðardúninn og æðarræktina, hið fullkomna og fallega samspil manns og náttúru. Æðarsetrið er staðsett í gamla miðbænum í Stykkishólmi við Breiðafjörð. Í firðinum eru fjölmörg æðarvörp og ætla má að hvergi í heiminum verpi jafn mikill fjöldi æðarfugla og í Breiðarfirði. Í setrinu fást vörur úr æðardúni og vörur tengdar æðarfuglinum. Heitt kaffi á könnunni og með því. 

Opnunartími:
Sumar: daglega kl. 13:00-17:00
Vetur: opið fyrir hópa samkvæmt samkomulagi. Vinsamlegast bókið fyrirfram.

Skessan í hellinum

Svartihellir við smábátahöfnina í Gróf, 230 Reykjanesbær

Skessan flutti úr fjallinu sínu til Reykjanesbæjar á Ljósanótt 2008 og hefur nú aðsetur í Svartahelli við smábátahöfnina í Gróf. Þar hefur skessan búið sér notalegan helli með góðu útsýni yfir Keflavíkina og Faxaflóann.

Skessan er höfundaverk Herdísar Egilsdóttur sem skrifað hefur 16 sögur um Siggu og skessuna í fjallinu en sú nýjasta fjallar einmitt um flutninginn til Suðurnesja.

Skessan er í fullri stærð og situr sofandi í ruggustól í eldhúsinu.

Opnunartími: Alla daga frá kl. 10:00 -17:00 (nema ef veður hamlar opnun yfir vetrartímann t.d. vegna ófærðar að helli).

Frekari upplýsingar eru veittar í Duushúsum, lista- og menningarmiðstöð Reykjanesbæjar í síma 420-3245. Einnig er hægt að senda póst á netfangið duushus@reykjanesbaer.is.

Hægt er að senda skessunni bréf á netfangið skessan@reykjanesbaer.is

Nánar um Skessuna á skessan.is

Tré og List

Forsæti 5, 803 Selfoss

Tré og list er lifandi listasmiðja með einstaka upplifun af handverki og sögu. Eitt af djásnum safnsins er fullbúið pípuorgel sem kom úr Landakirkju eftir gosið 1973. Algengt er að leikið sé á orgelið fyrir gesti. 

Við getum opnað eftir samkomulagi utan venjulegs opnunartíma. 

Aurora Basecamp

Bláfjallavegur (Road 417), 221 Hafnarfjörður

Upplifunin í Aurora Basecamp er einstök á heimsvísu. Hún kennir þér allt um norðurljósin og hvernig á að finna þau. Að auki getur þú hitt norðurljósin þar sem við framköllum þau í Norðurljósasúlum þannig að þú getur séð raunvirkni þeirra á hverjum tíma fyrir sig. 

Umhverfið innan í Kúlunum og víðernin fyrir utan er afslappað og hannað til að þú getir slakað á og beðið eftir ljósasýningunni.

Aurora Basecamp Kúlurnar eru staðsettar á Reykjanesinu, rétt utan við Vellina í Hafnarfirði, í um 20 mín akstursfjarlægð frá Reykjavík.

Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús

Austurbakki 2, 101 Reykjavík

Harpa er eitt helsta kennileiti Reykjavíkur og er miðstöð menningar og mannlífs í hjarta miðborgarinnar. Harpa er áfangastaður ferðamanna og margverðlaunað listaverk sem milljónir manna hafa heimsótt frá opnun.

Harpa er heimili Íslensku óperunnar, Stórsveitar Reykjavíkur, og Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem heldur vikulega tónleika í Hörpu allt árið um kring. Jazzklúbburinn Múlinn á einnig heimilisfestu í Hörpu sem og Sígildir sunnudagar sem standa fyrir reglulegum tónleikum.

Í húsinu er fjölbreytt þjónusta og gestastofa, ásamt glæsilegum veitingastöðum, Hnoss og La Primavera, auk nýrrar verslunar Rammagerðarinnar.  

Opnunartími hússins:
Harpa er opin alla daga frá kl. 10:00 – 20:00 (lengur í tengslum við viðburði)

Hafnarborg – menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar

Strandgata 34, 220 Hafnarfjörður

Í hjarta Hafnarfjarðar stendur Hafnarborg – menningar og listamiðstöð Hafnarfjarðar, þar sem fram fer menningarstarfsemi af ýmsu tagi, myndlistarsýningar, tónleikar, námskeið og fundir.

Í safninu eru tveir sýningarsalir en að jafnaði eru þar settar upp um tólf myndlistarsýningar á ári. Þar getur að líta verk eftir íslenska og erlenda listamenn í fremstu röð, samtímalistamenn jafnt sem frumkvöðla íslenskrar listasögu.

Safneign Hafnarborgar telur nú um 1.500 verk, meðal annars rausnarlega listaverkagjöf Eiríks Smith (1925–2016), sem var leiðandi í íslensku listalífi á 20. öldinni. Sýningar úr safneign eru fastur liður í dagskrá Hafnarborgar.

Hægt er að fá leiðsögn um sýningarnar á íslensku og ensku, eftir samkomulagi.

 

Opnunartími:
Opið 12:00-17:00 alla daga nema þriðjudaga.

Þórbergssetur

Hali, Suðursveit, 781 Höfn í Hornafirði

Í Þórbergssetri er veitingasala,gestamóttaka, salerni og sýningarsalir.   Sýning Þórbergsseturs er fjölbreytt upplifunarsýning er tengist ævi og verkum skáldsins, en einnig sögu íslensku þjóðarinnar. Sjá má breytingar og þjóðlifsmyndir frá frumstæðu bændaþjóðfélagi yfir í bæjarlíf og búsetu í ört vaxandi höfuðborg. Textar úr verkum Þórbergs varða leiðina á fallega hönnuðum ljósaskiltum, en einnig er hægt að fá hljóðleiðsögn með viðbótarefni. Þannig er sýningin sambland af fræðsluefni, safni og sagnaskemmtan og gengið er inn í leikmyndir þar sem reynt er að ná andblæ liðinna ára og njóta um leið stórbrotinna lýsinga meistarans sem leiðsögn um staðinn. Vakin er athygli á að sýningin höfðar einnig mjög vel til barna og unglinga.

Hópar eða fjölskyldur geta bókað leiðsögn um Þórbergssetur þar sem heimamenn fræða gesti um lífið í Suðursveit  og hverning sögusvið bóka Þórbergs opnar sýn inn í horfna veröld liðins tíma.

Arkitekt að húsinu er Sveinn Ívarsson og hönnuður sýningar Jón Þórisson.

Opið er allt árið,  en í sumar verður opnunartími á sýninguna frá klukkan 10 á morgnana til  klukkan 6 á kvöldin.

Veitingahús Þórbergsseturs er opið fyrir almenning frá klukkan 10 - 8 í sumar.

Í boði eru ýmsir þjóðlegir réttir úr heimabyggð, kjötsúpa, heimabakað brauð, samlokur, bleikjuréttir og Halalamb.

Kvöldmatur er framreiddur frá klukkan 6 til 8 á kvöldin 

Minjasafn Austurlands

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Minjasafn Austurlands varðveitir minjar um sögu, menningu og samfélag fjórðungsins. Á safninu eru tvær grunnsýningar, annars vegar sýningin Hreindýrin á Austurlandi og hins vegar sýningin Sjálfbær eining. Þar fyrir utan eru settar upp margvíslegar smærri sýningar yfir árið.

Hreindýrin á Austurlandi
Á sýningunni er fjallað um lífshætti og lífsbaráttu hreindýranna, hætturnar sem þau búa við af völdum náttúru og mannsins, um rannsóknir á þeim, sögu hreindýraveiða og hvernig afurðir dýranna hafa verið nýttar til matar og í handverk. Á sýningunni er meðal annars hægt að horfa á kvikmyndina Á hreindýraslóðum eftir Eðvarð Sigurgeirsson frá fimmta áratug 20. aldar, hlusta á frásagnir hreindýraveiðimanna og virða fyrir sér fjölda ljósmynda og muna sem tengjast hreindýrum og hreindýraveiðum.

Sjálfbær eining
Yfirskrift sýningarinnar vísar til þess að áður fyrr þurfti hvert íslenskt sveitaheimili að vera sjálfu sér nægt um brýnustu lífsnauðsynjar, s.s. fæði, klæði, áhöld, verkfæri og húsaskjól. Til sýnis eru ýmsir gripir sem tilheyra sögu gamla sveitasamfélagsins á Austurlandi eins og það var fram undir miðja 20. öld. Með þess sýningargripa er baðstofa frá bænum Brekku í Hróarstungu.

Upplýsingar um yfirstandandi sérsýningar og aðra viðburði má finna á heimasíðu safnsins.

Opunartímar:
September-maí: Þriðjudaga – föstudaga, 11:00-16:00
Júní – ágúst: Opið alla daga frá 10:00-18:00

Hægt að semja um opnun utan auglýsts opnunartíma.

Upplýsingar um aðgangseyri má finna á heimasíðu safnsins.

Sjóminjasafnið í Reykjavík - Borgarsögusafn

Grandagarður 8, 101 Reykjavík

Á grunnsýningu safnsins, Fiskur og fólk, er fjallað um fiskveiðar Íslendinga, frá því árabátarnir gömlu viku fyrir útgerð stórra skipa á síðustu áratugum 19. aldar og fram yfir aldamótin 2000. Sagan er sögð frá sjónarhóli stærsta útgerðarbæjar landsins, Reykjavíkur, með gripum og textum, myndum og leikjum. Aðalpersónan í þessari sögu er auðvitað fiskurinn! Honum er fylgt eftir úr hafinu í netið, um borð í bátinn og að landi, í gegnum vinnslu – og loks á diskinn. 

Mjaltastúlkan er sýning á neðri hæð safnsins um neðansjávarfornleifar. Árið 1659 sökk hollenskt kaupskip í ofsafengnum stormi við Flatey á Breiðafirði. Meira en 300 árum síðar, árið 1992, fundu kafarar flak skipsins. Árið eftir var í fyrsta sinn framkvæmd víðtæk rannsókn á fornminjum neðansjávar við Ísland. Enn stærri hluti flaksins var svo grafinn upp árið 2016. 

Við bryggju safnsins liggur hið fræga varðskip Óðinn en það er stærsti gripur safnsins.

Sjóminjasafnið í Reykjavík heyrir undir Borgarsögusafn – Eitt safn á fimm frábærum stöðum.

Opið alla daga: 10-17

Vatnasafn

Bókhlöðustígur 19, 340 Stykkishólmur

Vatnasafn / Library of Water er langtíma verkefni skapað af Roni Horn í fyrrum bókasafni sjávarþorpsins Stykkishólms á Íslandi. Byggingin stendur á kletti með útsýni yfir hafið og þorpið. Þar er til húsa safn sem endurspeglar náin tengsl Roni Horn við einstaka jarðsögu Íslands, loftslag þess og menningu.

Vatn, úrval er safn 24 glersúlna fylltum af vatni sem safnað var úr ís af mörgum helstu jöklum Íslands. Glersúlurnar brjóta upp og endurvarpa ljósi á gúmmigólf sem búið er að greypa í breiðu orða á ensku og íslensku er öll lúta að veðrinu - innra sem ytra. Innsetningin býður upp á svigrúm til íhugunar í einrúmi jafnframt því að nýtast til allskyns félagslegra nota.

Í litlu hliðarherbergi geta gestir skoðað flokk bóka Roni Horn, To Place, sem allar hafa orðið til á Íslandi, ásamt því að hlusta á úrval frásagna fólks af veðrinu. Á árunum 2005 til 2006, að undirlagi Roni Horn, tóku Oddný Eir Ævarsdóttir, rithöfundur, bróðir hennar fornleifafræðingurinn Uggi Ævarsson, og faðir þeirra Ævar Kjartansson, útvarpsmaður, viðtöl um veðrið við um það bil hundrað einstaklinga frá Stykkishólmi og nágrenni. Veðrið vitnar um þig, setur þessa vitnisburði fram sem einskonar sameiginlega sjálfsmynd lands þar sem veðrið leikur stórt hlutverk í daglegu líf fólksi.

Neðri hæð Vatnasafns / Library of Water er gestavinnustofa fyrir rithöfund. Á hverju ári hefur rithöfundum verið boðið að búa þar í nokkra mánuði og vinna .Ýmist er boðið íslenskum eða erlendum höfundum, en fram að þessu hafa þau Guðrún Eva Mínervudóttir, Rebecca Solnit, Anne Carson, Óskar Árni Óskarsson og Oddný Eir Ævarsdóttir dvalið þar.

Artangel sá um framkvæmd þessa verkefnis ásamt Stykkishólmsbæ, Menntamálaráðuneytinu, Samgönguráðuneytinu og Fjárlaganefnd Alþingis.

Opnunartími: Opið alla daga frá 1. júní - 31. ágúst frá kl. 11 - 17.

Miðasala fyrir Vatnasafn fer fram í Norska húsinu, Hafnargötu 5.

Aðgangseyrir 2022:

Fullorðnir kr. 830,-

Nemar, eldri borgarar og hópar kr. 675,-

Frítt fyrir yngri en 18 ára

Safnapassi stykkishólmsbæjar - Vatnasafn og Norska húsið:

Fullorðnir kr. 2.080,-

Fransmenn á Íslandi

Hafnargötu 12, 750 Fáskrúðsfjörður

Frakkar á Íslandsmiðum er nýjasta perlan á safnastreng Fjarðabyggðar. Safnið er til húsa í tveimur reisulegum byggingum sem Frakkar reistu upp úr aldamótunum 1900 eða Læknishúsinu og Franska spítalanum á Fáskrúðsfirði.  Meginsýning safnsins er þó í hvorugu húsanna, heldur  í undirgöngum sem tengja þau saman.

Frakkar á Íslandsmiðum er án efa eitt athyglisverðasta safn landsins. Ekki aðeins fyrir hönnun þess og nálgun við viðfangsefnið, heldur einnig vegna andrúmsloftsins sem tekist hefur að skapa. Lifandi nærmynd er brugðið upp af lífi sjómanna um borð í frönsku skútunum sem sóttu Íslandsmið og skynjar áhorfandinn glöggt aðstæður þeirra og daglegt líf. Þá veitir safnið einnig glögga innsýn í starfsemi Franska spítalans og merka starfsemi hans upp úr aldamótunum 1900.

Endurgerð Minjaverndar á Frönsku húsunum á Fáskrúðsfirði lauk sumarið 2014. Húsin eru alls fimm og eru auk Læknishússins og Franska spítalans, Sjúkraskýlið, Litla kapellan og Líkhúsið.  Endurreisnarsaga húsanna er með merkari framkvæmdum Minjaverndar og sú viðamesta utan höfuðborgarsvæðisins.

Frönsku húsin gegna á ný mikilvægu hlutverki fyrir bæjarlíf Fáskrúðsfjarðar, en nú sem Fosshótel Austfirðir, sælkerastaðurinn l'Abri og safnahús Fransmanna á Íslandi. Litla kapellan hlaut blessun 26. júlí 2014 og er eina byggingin sem heldur upprunalegu hlutverki sínu. 

Safnið er opið alla daga kl. 10:00-18:00 (15.maí - 30.september) eða eftir samkomulagi á öðrum árstímum

Nánari upplýsingar um opnunartíma má finna hér

Nönnusafn

Berufjörður 1, 765 Djúpivogur

Sjónminjasafnið Ósvör

Óshlíðarvegur, 415 Bolungarvík

Sjóminjasafnið Ósvör samanstendur af tvöfaldri 19. aldar verbúð, salthúsi, fiskreit og þurrkhjalli.

Á meðal sýningagripa er sexæringurinn Ölver sem gefur góða mynd af þeim skipum sem notuð voru til fiskveiða fyrr á öldum. Í safninu eru einnig til sýnis veiðarfæri og ýmis tæki og tól sem notuð voru við veiðar og fiskverkun fyrr á öldum.

Safnvörður tekur á móti gestum íklæddur skinnklæðum líkum þeim er íslenskir sjómenn klæddust áður fyrr og lýsir því sem fyrir augu ber. 

Sumar 2023: 10. júní-20. ágúst, opið alla daga kl. 10-16

Aðrir tímar eftir samkomulagi

Vetraropnun eftir samkomulagi

Gjaldskrá:

Börn 16 ára og yngri………………………………........…...frítt 

Fullorðnir……………………………………………………………1.200 kr. 

67 ára og eldri………………………………………………… 1.100 kr. 

Listasalur Mosfellsbæjar

Kjarni, Þverholt 2, 270 Mosfellsbær

Listasalur Mosfellsbæjar er í hjarta bæjarins, staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar í Kjarna, Þverholti 2.

Á hverju ári eru settar upp um tíu sýningar, jafnt reyndra listamanna og nýgræðinga á sviðinu. Einnig er salurinn nýttur fyrir ýmsa viðburði eins og tónleika, fyrirlestra og fundi. Listasalur Mosfellsbæjar hefur það að leiðarljósi að vera virkur samkomustaður fyrir Mosfellinga og aðra gesti, bjóða upp á fjölbreyttar sýningar listamanna og vinna þannig að framþróun myndlistar á Íslandi. 

Opið:
Virkir dagar: 09-18
Laugardagar: 12-16

Lokað á laugardögum í júní og júlí.
Ókeypis aðgangur.

Við erum á Facebook
Við erum á Instagram

Minja- og handverkshúsið Kört

Árnes II, Trékyllisvík, 524 Árneshreppur

Starfsemi minja- og handverkshússins Kört byggist á fjórum meginstoðum: Verndun minja, handverkssölu, upplýsingagjöf til ferðamanna og leiðsögn.

Opið kl. 11-17 á sumrin.

Byggðasafn Reykjanesbæjar

Duusgata 2-8, 230 Reykjanesbær

Byggðasafn Reykjanesbæjar – Þar sem fortíðin speglast í nútímanum

Í Byggðasafni Reykjanesbæjar gefst tækifæri til að kynnast sögu svæðisins og sérkennum þess. Áhersla er lögð á að skoða þá þætti sem hafa mótað íbúana og umhverfi þeirra og setja í samhengi við Reykjanesbæ nútímans.

Sýningar Byggðasafns Reykjanesbæjar eru í Bryggjuhúsinu í Duus safnahúsum, Duusgötu 2-8 í Reykjanesbæ. Opnunatími: Lokað er á mánudögum. Opið er þriðjudaga til sunnudaga frá kl: 12:00-17:00.

Yfirstandandi sýningar:

Eins manns gull er annars rusl

Á sýningunni eru smáhlutir sem hafa verið framleiddir með ákveðið notagildi í huga. Þegar þeir hafa lokið hlutverki sínu enda þeir oftar en ekki í ruslinu. Hér gefst tækifæri til að rifja upp liðna tíð og virða fyrir sér hvernig myndskreytingar og vörumerki hafa breyst.

Ásjóna

Sýningin byggist upp af myndum sem hafa borist safninu í upprunalegum römmum. Myndir sem fá þann sess að vera settar í ramma og hafðar til sýnis hafa yfirleitt ákveðið gildi í augum eigandans. Væntumþykja, stolt eða söknuður eru meðal þeirra tilfinninga sem eru tjáð með þessum hætti.

Hér sit ég og sauma

Fatasaumur var eitt af verkefnum kvenna á árum áður og var saumaskapur mikilsmetið handverk. Tilkoma saumavélarinnar olli byltingu og sagt var að saumavél gæti sparað eina vinnukonu. Saumavélin varð í sumum tilfellum að atvinnutæki sem gerði konum kleift að sjá sér farborða.

Stekkjarkot í Innri-Njarðvík

Stekkjarkot er endurgert torfhús, dæmigert fyrir þau fjölmörgu kot sem einkenndu búsetu á svæðinu á 19. öld. Stekkjarkot var þurrabúð sem þýddi að landið var leigt og þar mátti ekki halda skepnur. Íbúar þurftu því að  framfleyta sér með sjósókn. Búið var í Stekkjarkoti á 1885-1887 og svo aftur 1917-1923.

Stekkjarkot er opið eftir samkomulagi.

 

Pálshús - Náttúrugripasafnið Ólafsfirði

Pálshús, Strandgötu 4, 625 Ólafsfjörður

Pálshús - Náttúrugripasafnið í Ólafsfirði

Pálshús, eitt elsta hús Ólafsfjarðar, er í dag safn og menningar- og fræðslusetur staðsett við Strandgötu 4 í Ólafsfirði. Elsti hluti hússins var reistur 1892 og því er að finna mikla sögu í kringum það. Húsið dregur nafn sitt af Páli Bergssyni, sem í byrjun nítjándu aldar kláraði, ásamt konu sinni Svanhildi Jörundsdóttur, að reisa húsið í þeirri mynd sem við þekkjum í dag. Páll var einn aðalhvatamaðurinn að útgerðarmálum í Ólafsfirði.

Heimamenn hafa í sameiningu komið húsinu í sýningarhæft ástand og hýsir það í dag Náttúrugripasafn Ólafsfjarðar og hina skemmtilegu grunnsýningu ,,Flugþrá”. Þar má skoða alla íslensku fuglaflóruna ásamt því að fjallað er um flugþrá mannsins og draum hans að geta flogið. Börn hafa sérstaklega gaman af fuglasýningunni og hefur hún mikið fræðslugildi.  

Að auki er í húsinu að finna glæsilegt einkasafn hjónanna Birnu Kristínar Finnsdóttur og Jóns Gunnars Sigurjónssonar ásamt því að fjölbreyttir tón- og myndlistar viðburðir eru haldnir þar reglulega.

Aðgangur fyrir fatlaða og hreyfihamlaða er til fyrirmyndar og er stólalyfta til að komast á neðri pall hússins.

Heimasíða safnsins er: www.palshusmuseum.is/
Heimilisfang: Strandgata 4, Ólafsfirði
Sími: 466-2255 / 848-4071
Netfang: fjallasalir@gmail.com 

Sumaropnun:
15. maí 2021 - 15. september 2021: Opið alla daga frá kl. 13.00 - 17.00.
Hafðu samband til að bóka heimsókn fyrir hópa, og á tímum utan opnunartíma.

Þjóðminjasafn Íslands

Suðurgata 41, 102 Reykjavík

Í Þjóðminjasafni Íslands er  grunnsýningin, Þjóð verður til - menning og samfélag í 1200 ár. Þar er saga þjóðarinnar sögð, allt frá landnámi til okkar daga.

Sérsýningar safsnins eru fjölbreyttar og þeim ætlað að höfða til mismunandi hópa. Flestar þeirra byggja á safneigninni og rannsóknum fræðimanna á henni. Sérsýningar eru í Bogasal og í Horninu, í Myndasal og á Veggnum auk smærri sýninga á Torgi.  Tekið er mið af gestum á öllum aldri en hljóðleiðsögn og ratleikir eru ítarefni sem veita innsýn í sögu íslensku þjóðarinnar frá landnámi til samtímans.

Þjóðminjasafnið býður reglulega leiðsagnir fyrir börn og fullorðna en einnig eru haldnir fyrirlestrar í safninu. Í safninu er Safnbúð með fjölbreyttu úrvali af íslenskri hönnun. Í næsta nágrenni er Háma, þar sem hægt er að fá fjölbreyttar veitingar.

Gamla bókabúðin Flateyri

Hafnarstræti 3-5, 425 Flateyri

Gamla Bókabúðin á Flateyri er elsta upprunalega verslun Íslands. Fjölskyldufyrirtæki í fjórar kynslóðir síðan 1914. Verslunin sérhæfir sig í gæða vörum og bókum frá Vestfjörðum í bland við heimsþekkt vörumerki frá fyrirtækjum sem hafa starfað í lengur en 100 ár. 

Samhliða versluninni er hægt að skoða íbúð kaupmannshjónanna sem hefur verið varðveitt í óbreyttri mynd frá því að þau féllu frá. Þá er einnig hægt að gista á efri hæð hússins, þar sem svefnherbergi Bókabúðarfjölskyldunnar eru.

Heimasíða
Booking
 

Gerðarsafn – Listasafn Kópavogs

Hamraborg 4, 200 Kópavogur

Gerðarsafn er framsækið nútíma- og samtímalistasafn í Hamraborg í Kópavogi. Gerðarsafn býður upp á fjölbreytt sýningarhald á verkum íslenskra og erlendra samtímalistamanna samhliða sýningum úr safneign. Starfsemi safnsins endurspeglar stöðu þess sem eina listasafn landsins stofnað til heiðurs listakonu, myndhöggvaranum Gerðar Helgadóttur (1928-1975).

Á neðri hæð safnsins er grunnsýning á verkum Gerðar Helgadóttur, fræðslurýmið Stúdíó Gerðar og kaffihús Reykjavík Roasters. Stúdíó Gerðar er opið fræðslurými þar sem börnum, fjölskyldum og öðrum gestum gefst færi á að njóta samverustunda, fræðast og skapa saman.

Safnbúð Gerðarsafns er á efri hæðinni en þar fást eftirprent, fallegar hönnunarvörur, tréleikföng, skissubækur og margt fleira.

Opið daglega 12-18. 

Pearls of Icelandic Song

Harpa, 101 Reykjavík

Lýsing: Draumalandið, Á Sprengisandi og Maístjörnuna eru sönglög sem allir Íslendingar þekkja. Á tónleikum okkar flytjum við helstu perlur íslenskra sönglaga; segjum frá höfundum þeirra og tilurð. Öll lögin eru auðvitað sungin á íslensku en kynningar og þýðingar eru á ensku til að auðvelda gestum okkar að komast inn í þennan spennandi heim sem íslensk tónlist er.

Flytjendur eru rjóminn af ungum íslenskum söngvurum og píanistum í bland við eldri og reyndari listamenn.

Þessir tónleikar henta fólki á öllum aldri, bæði erlendum gestum okkar og íslendingum og eru þar að auki tilvalinn leið fyrir eldri kynslóðir til að hlusta á uppáhaldslögin sín í nýja tónlistarhúsinu okkar.

Ferðaþjónustan Hænuvík / Handverkshúsið Gullhóll

Hænuvík, 451 Patreksfjörður

Í Hænuvík er rekin sumarhúsaleiga. Þar eru til leigu 4 misstór sumarhús. 4 – 10 manna hús. Sumarhúsin eru öll með eldunaraðstöðu og baðherbergi. Við öll sumarhúsin er hægt að sitja úti og njóta náttúrunnar og kyrrðarinnar. Í Hænuvík er mikið fuglalíf. Þar er hvít sandfjara og fallegt sólarlag. Einnig eru margar fallegar gönguleiðir á staðnum. Á vorin er hægt að fá leiðsögn í fjárhús og sjá kindurnar.

Í Hænuvík er handverkshúsið Gullhóll með heimagerðu handverki eftir heimilisfólkið í Hænuvík. Þar er hægt að kaupa rendar skálar, prjónaða sokka, vettlinga og lopapeysur auk ýmisskonar vöru sem gerð er á staðnum. 

Þekkingarsetur Suðurnesja

Garðvegur 1, 245 Suðurnesjabær

Ef þú hefur áhuga á íslenskri náttúru og dýralífi, sjávardýrum, rannsóknum á sviði náttúrufræða og listum, þá er Þekkingarsetur Suðurnesja staður sem þú þarft að heimsækja! Þekkingarsetur Suðurnesja býður upp á þrjár áhugaverðar sýningar.

Í náttúrusalnum er hægt að skoða og snerta yfir 70 uppstoppuð dýr úr íslenskri náttúru og sjá lifandi sjávardýr í sjóbúrum. Þar er auk þess eina uppstoppaða rostung landsins að finna. Gaman er að flétta fjöruferð á Garðskaga saman við heimsókn í Þekkingarsetrið. Lífverum er þá safnað í fjörunni og þær svo skoðaðar í víðsjám í setrinu.

Í sögusalnum er hin glæsilega sýning Heimskautin heilla sem fjallar um líf og störf franska læknisins, vísindamannsins og heimskautafarans Jean-Baptiste Charcot. Rannsóknaskip hans, Pourquoi-Pas?, fórst við Íslandsstrendur árið 1936. Líkan af skipinu má sjá á sýningunni.

Á neðri hæð Þekkingarsetursins er að finna lista- og fræðslusýninguna Huldir heimar hafsins – ljós þangálfanna. Um er að ræða einkar fallega og fróðlega sýningu þar sem vísindalegum fróðleik um mikilvægi hafsins og hættur sem að því steðja er fléttað saman við ævintýraheim þangálfanna. Leitast er við að vekja fólk til vitundar um þann undraheim sem hafið er, mikilvægi þess fyrir lífríki jarðarinnar og tengingu mannkynsins við náttúruna.

Heimsókn í Þekkingarsetur Suðurnesja er tilvalin fyrir fjölskyldur og fróðleiksfúst fólk á öllum aldri. Taktu þátt í fjársjóðsleitinni okkar sem mun leiða þig áfram í spennandi ferðalag um nágrenni setursins í leit að dýrum, plöntum og sögufrægum stöðum. Finnir þú eitthvað spennandi er hægt að taka það með aftur í Þekkingarsetrið til frekari rannsókna. 

Opnunartími:

Sumar (1. maí – 31. ágúst):
Mánudaga – föstudaga: 10:00 til 16:00
Laugardaga og sunnudaga: 13:00 til 17:00 

Vetur (1. september – 30. apríl):>
Sýningar lokaðar.

Sveigjanlegir opnunartímar í boði fyrir hópa (lágmark 20 manns) allt árið – pantið í síma 423-7555.

Frekari upplýsingar má finna á vef Þekkingarseturins.

Álafoss wool store

Álafossvegur 23, 270 Mosfellsbær

Verslun Álafoss er staðsett í gömlu ullarverksmiðjunni sem var og hét, og þar hefur verið sett upp lítið minjasafn þar sem skoða má sögulegar ljósmyndir og vélar til prjónaskaps, m.a. sokka-prjónavél frá 1930, sem gefur góða innsýn í sögu og menningu ullariðnarins á Íslandi. 

Í Álafoss er að finna mikið úrval af íslenskum ullarvörum, allt frá hefðbundnum handprjónuðum lopapeysum, hinum geysivinsælu Álafoss teppum yfir í mikið úrval af allskyns lopa og bandi og öðrum vörum tengdum prjónaskap. Að auki má finna mikið af minjagripum og listaverkum frá hinum ýmsu lista- og handverksfólki sem flest hver eru á sinn hátt tengd íslenskri náttúru.

 Þess ber að sérstaklega að geta að lopapeysurnar frá Álafoss eru handprjónaðar á Íslandi úr 100% íslenskri ull og er hver peysa merkt með nafni þess sem prjónar hana.

 Kíktu í heimsókn til okkar í Álafossbúðina Mosfellsbæ - við tökum vel á móti þér. 

 

Opnunartími

Virkir dagar: Laugardagar: Sunnudagar:
  09:00-18:00 09:00-16:00 Lokað
Einnig opið fyrir hópa á öðrum tímum.

Gerðuberg

Gerðuberg 3-5, 111 Reykjavík

Gerðuberg var opnað 4. mars 1983 og er alhliða menningarmiðstöð rekin af Reykjavíkurborg. Boðið er upp á fjölbreytta menningardagskrá fyrir fólk á öllum aldri. Leiðarljós Gerðubergs er að eflast sem alhliða menningarmiðstöð með fjölbreyttri og metnaðarfullri menningarstarfsemi og vera griðastaður góðra hugmynda og nýsköpunar. Gerðuberg hefur verið einn vinsælasti funda- og ráðstefnustaður borgarinnar. Rík áhersla er lögð á gott aðgengi borgarbúa á öllum aldri. Boðið er upp á fjölbreytta menningardagskrá sem kynnt er í starfsáætlun Menningar- og ferðamálasviðs ár hvert. Er hún birt á heimasíðu Gerðubergs og á prentuðum viðburðakortum sem gefin eru út tvisvar á ári.

Opnunartími sýninga
Virkir dagar: Laugardagar: Sunnudagar:
1. maí - 31. ágúst: 11:00-17:00 Lokað Lokað
1. september - 30. apríl: 11:00-17:00 13:00-16:00 13:00-16:00
Opnunartími hússins  Virkir dagar:  Laugardagar:  Sunnudagar:
1. maí - 31. ágúst  08:00-18:00  Lokað  Lokað
Föstudaga  08:00-17:00    
1. september - 30. apríl  08:00-18:00 13:00-16:00   13:00-16:00
Föstudaga  08:00-17:00    
Miðvikudaga  08:00-21:00    

 

Minjasafnið Mánárbakka

Mánárbakki, 641 Húsavík

Minjasafnið á Mánárbakka var opnað 18. júní 1995 í húsinu Þórshamri sem flutt var frá Húsavík að Mánárbakka. Húsnæði safnsins hefur nú verið stækkað og byggður þriggja bursta bær sem nefndur er Lækjarbakki og hýsir þá safnmuni sem ekki var rúm fyrir í Þórshamri.  Safnið er opið alla daga, ár hvert, frá 10. júní til 31. ágúst og eftir samkomulagi utan þess tíma.

Opnunartímar:

10-18 alla daga

Draugasetrið

Hafnargata 9, 825 Stokkseyri

Draugasetrið er staðsett á þriðju hæð Menningarverstöðvarinnar á Stokkseyri. Gestir safnsins fá að kynnast nokkrum af frægustu draugum íslandssögunnar og upplifa sögurnar um þá í 1000fm völundarhúsi. Hver gestur fær lítinn iPod sem inniheldur 24 rammíslenskar draugasögur og inní safninu sjálfu eru 24 herbergi. Á draugabarnum situr Brennivínsdraugurinn uppi í einu horninu og fylgist með gestum og gangandi. Þorir þú?

 

Upplýsingar um opnunartíma á vefsíðu Draugasetursins.

Könnunarsögusafnið

Héðinsbraut 3a, 640 Húsavík

Könnunarsögusafnið (The Exploration Museum) er safn um sögu land og geimkönnunar. Aðal sýningarrými safnsins er helgað geimferðum, æfingum amerískra tunglfara á Íslandi árin 1965 og 1967, sem og tilraunageimskotum frakka sem áttu sér stað hér á landi frá 1964 til 1965. Þá er ýtarlega fjallað um landkönnun víkinga og norrænna manna. Einnig er hægt að kynna sér kapphlaupið á pólana og margt annað sem tengist ferðum manna á ókunnar slóðir.

Listasafn Íslands

Fríkirkjuvegur 7, 101 Reykjavík

Fjársjóður þjóðar

Bygging Listasafn Íslands við Tjörnina er hluti af einstakri götumynd í hjarta Reykjavíkur. Húsið var íshús byggt snemma á síðustu öld. Þar er listasafn þjóðarinnar í dag. Opnaðar eru nýjar sýningar reglulega á íslenskri og erlendri myndlist og safneignin inniheldur margt af því eftirtektarverðasta í íslenskri samtímalist og listasögu. Í safnbúðinni fást bækur um íslenska myndlist og falleg gjafavara og notaleg kaffistofa tekur á móti gestum á annarri hæð. 

Með aðgangseyri er innifalinn aðgangur í Ásgrímssafn, heimili Ásgríms Jónssonar listmálara og í safn myndhöggvarans Sigurjóns Ólafssonar.  

Opnunartími:
1. maí - 30. september: daglega kl. 10–17
1. október - 30. apríl: þri – sun, kl. 10–17

Hægt er að panta leiðsögn fyrir hópa í gegnum netfangið mennt@listasafn.is

Gallerí Koggu

Vesturgata 5, 101 Reykjavík

Einstakir keramikgripir hannaðir af einum þekktasta  leirlistamanni landsins, Kolbrúnu Björgólfsdóttur, KOGGU.

Opnunartími Virkir dagar: Laugardagar: Sunnudagar:
Sumar: 09:00-18:00 10:00-14:00 Lokað
Vetur: 09:00-18:00 10:00-14:00 Lokað

Sauðaneshús á Langanesi

Sauðanes, 681 Þórshöfn

Sauðanes á Langanesi er fornfrægur kirkjustaður sem staðsettur er 7 km norðan við Þórshöfn. Prestsbústaðurinn á Sauðanesi, Sauðaneshús, er elsta steinhús í Þingeyjarsýslum, hlaðið úr grágrýti árið 1879, afar sjaldgæf bygging og er einstakt á landsvísu. Í kringum 1957 fór Sauðaneshús í eyði og stóð það kalt og yfirgefið í nærri 40 ár. Um 1990 var ákveðið að endurreisa húsið, sem þá var að hruni komið, og var reist nánast frá grunni, stein fyrir stein og fjöl fyrir fjöl, en endurbyggingin tók um 11 ár. Fallega endurbyggða húsið hýsir nú sýninguna “Að sækja björg í björg” sem unnin var á árunum 202-21. Þar er hægt að fræðast um lífið á Langanesi á þeim tíma sem búið var í Sauðaneshúsi og hvernig prestsbústaðurinn var í raun miðpunktur samfélagsins á svæðinu.

Opið frá 15. júní til 15. ágúst, 11-17. Lokað á mánudögum. Nánari upplýsingar: http://www.husmus.is 

Flugsafn Íslands

Akureyrarflugvöllur, 600 Akureyri

Á Flugsafni Íslands er yfir 100 ára sögu flugs á Íslandi miðlað til gesta á lifandi hátt. Sýningar safnsins leiða gesti í gegnum þróun íslensks flugs og flugfélaga frá árinu 1919 og til dagsins í dag með flugvélum af ýmsum stærðum og gerðum, björgunarþyrlu og flugmódelum auk fjölda annarra áhugaverðra muna og ljósmynda.

Sumar flugvélanna eru enn í flughæfu ástandi og er m.a. flogið á Flugdegi safnsins sem haldinn er árlega í júní, og gestum er velkomið að ganga um vél Landhelgisgæslunnar, TF-SÝN. Verið velkomin á Flugsafn Íslands!

---

Opnunartími:
15. maí til 15. september: Opið alla daga kl. 11:00 -17:00
16. september til 14. maí: Opið laugardaga kl. 13:00 -16:00
Einnig er opið eftir samkomulagi.

---

Aðgangseyrir:
Fullorðnir:                                                1500 kr.
Lífeyrisþegar og námsmenn:               1000 kr.
Aðgangseyrir fyrir hópa (10+):            1000 kr. á mann
Ókeypis aðgangur fyrir börn yngri en 18 ára í fylgd með fullorðnum

Skálholt

Skálholt, 806 Selfoss

Skálholtsstaður er einn helsti sögustaður Íslands. Þar var stofnað biskupssetur árið 1056 og var staðurinn á margan hátt höfuðstaður Íslands í 750 ár. Hann var eitt helsta menntasetur þjóðarinnar um aldir, þar voru skrifaðar og þýddar bækur en einnig varðveitt handrit. Skálholt var sögusvið átaka siðaskiptana um 1550 og þar var síðasti kaþólski biskupinn Jón Arason hálshöggvinn það ár. Í fjósinu í Skálholti var einnig hafin þýðing Biblíunnar á íslensku. Skálholt er einnig sögusvið harmsögu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur biskups og ástmanns hennar Daða Halldórssonar.

Skálholtsdómkirkja var vígð 1963 og er hún tíunda kirkjan sem stendur þar á sama stað. Sú fyrsta var reist skömmu eftir árið 1000 þegar Íslendingar tóku kristni. Áður en kirkjan var reist fóru fram merkilegar fornleifarannsóknir á staðnum undir stjórn dr. Kristjáns Eldjárn seinna forseta Íslands. Fannst þá m.a. steinkista Páls biskups Jónssonar sem jarðsettur var árið 1211 og er hún talin einhver merkilegasti fornleifafundur Íslandssögunnar.

Í Skálholtsdómkirkju er að finna einhver merkilegustu listaverk 20. aldar á Íslandi; steindir gluggar Gerðar Helgadóttur og altaristafla Nínu Tryggvadóttur auk muna úr þeirri kirkju sem Brynjólfur Sveinsson biskup reisti 1650.

Kirkjan er opin alla daga ársins frá kl. 9 til 18 og messur eru alla sunnudagsmorgna kl. 11.

Hljómburður Í Skálholtdómkirkju þykir einstakur og eru þar oftsinnis haldnir tónleikar af innlendum sem erlendum tónlistarmönnum. Í Skálholtsdómkirkju hafa verið haldnir sumartónleikar frá 1975 þar sem lögð er áhersla á barok og nútímatónlist og er hátíðin ein sú elsta sinnar tegundar á Norðurlöndum.

Hótel Skálholt er með fjölbreytta gistimöguleika; á hótelinu eru 18 tvímennings herbergi og sér baðherbergi. Þar er notaleg arinstofa, sólstofa og aðstaða fyrir fundi, námskeið og ráðstefnur. Rýmið er líka frábært fyrir viðburði eins og brúðkaup, tónleika og fleira og er aðstaðan í boði fyrir hópa til útleigu.

Hótel Skálholt er reglulega með uppákomur eins og uppistand, smátónleika, bókaviðburði, listasýningar og fleira.

Skálholtsbúðir er með 10 tvímennings herbergjum og baðherbergi frammi á gangi. Þar er stór salur, borðstofa, setustofa og gott eldhús. Rýmið hentar sérstaklega fyrir hópa á borð við kóra, ættarmót, veislur, skólahópa og jógahópa. Við Skálholtsbúðir er tjaldstæði með aðstöðu fyrir fellihýsi.

Tvö sumarhús með 2 svefnherbergjum hvor (4 rúm) og sér heitum potti. Sumarhúsin eru við Skálholtsbúðir og hentar því að leigja það saman.

Selið er 3-5 herbergja einbýlishús með 2 baðherbergjum og sér heitum potti.

Veitingahúsið Hvönn er tilraunaeldhús þar sem íslenskt hráefni er í fyrirrúmi. Í eldhúsinu takast íslenskar og erlendar matarhefðir á. Unnið er með kjöt, fisk og grænmeti úr héraði en einnig erlendar aðferðir við gerjun á borð við kombucha, mjólkursýru, kefir og þurr meyrnun. Þessar aðferðir veita mat og drykk okkar sérstöðu í bragði og áferð.

Á daginn bjóðum við upp á bístró matseðil með ljúffengum réttum en á kvöldin breytum við um stíl og bjóðum upp á þriggja rétta matseðil sem er mismunandi á hverju kvöldi og er sannkölluð matarupplifun.

Kokkurinn Bjarki Sól er einn af eigendum hótelsins. Hann er matreiðslumaður sem hefur í mörg ár unnið við að auka gæði matvælafyrirtækja á svæðinu og nýtum við alla reynslu og tengsl á veitingastaðnum.

Sumar opnunartími - maí - nóvember: Alla daga frá 11:30 - 21:00.

Bistró matseðillinn er í boði frá 11:30 til 17:00 en á kvöldin er borinn fram 3ja rétta matseðill.

Nánari upplýsingar: www.hotelskalholt.is 

Safnahúsið á Norðfirði

Egilsbraut 2, 740 Neskaupstaður

Húsið sem á sér merka sögu hefur að geyma þrjú glæsileg söfn undir sama þaki.

Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar
Tryggvi Ólafsson er fæddur árið 1940 á Norðfirði. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1960-61 og við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn 1961-66. Tryggvi er meðal þekktustu núlifandi myndlistarmanna Íslendinga.

Sjóminja- og smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar
Á safninu eru áhugaverðir hlutir sem tengjast sjávarútvegi, bátasmíði, járn- og eldsmíði og einnig gömlum atvinnuháttum á Íslandi. Þarna er að finna eftirlíkingu af eldsmiðju föður Jósafats þar sem Jósafat lærði og byrjaði starfsferil sinn.

Náttúrugripasafnið í Neskaupstað
Safnið var stofnað 1965.  Fyrsta sýning þess var opnuð sumarið 1970 í Gagnfræðaskólanum í Neskaupstað,  en árið 1971 var sýningarsalur safnsins opnaður að Mýrargötu 37.  Var Hjörleifur Guttormsson fyrsti forstöðumaður safnsins og aðalhvatamaður þess.  Árið 1989 flutti safnið að Miðstræti 1,  þar sem það var til húsa til ársins 2006, en þá var það flutt í Safnahúsið á Norðfirði, Egilsbraut 2.
Safnið hefur að geyma flesta íslenska fugla auk fjölda flækinga ásamt ágætu fiskasafni með ýmsum sjaldséðum fiskum. Einnig eru í safninu ýmsir gripir af sjávarbotni, þar á meðal mjög gott safn skeldýra. Villtu íslensku spendýrin eiga sína fulltrúa á safninu og þar er einnig mjög gott steinasafn. Þá varðveitir safnið austfirskar plöntuvísindasafn og skordýrasafn.

Safnið hefur að geyma flesta íslenska fugla auk fjölda flækinga ásamt ágætu fiskasafni með ýmsum sjaldséðum fiskum. Einnig eru í safninu ýmsir gripir af sjávarbotni, þar á meðal mjög gott safn skeldýra. Villtu íslensku spendýrin eiga sína fulltrúa á safninu og þar er einnig mjög gott steinasafn. Þá varðveitir safnið austfirskar plöntuvísindasafn og skordýrasafn.

Safnahúsið er opið alla daga vikunnar frá 1. júní - 31. ágúst frá kl. 13:00 - 17:00

Holt - Hús Öldu Halldórsdóttur

Norðurvegur 3, 630 Hrísey

Holt hús Öldu Halldórsdóttur, Austurvegur 35
Alda Halldórsdóttir var fædd árið 1913 og bjó hún í Holti ásamt móður sinni. Mikið af hannyrðum eftir Öldu eru í húsinu einnig er mikið af ljósmyndum af vinum hennar og ættingjum. Í Holti er nú vísir að byggðasafni en Alda ánafnaði Hríseyjarhreppi húsinu eftir sinn dag. Ef áhugi er á að skoða húsið er hægt að senda fyrirspurn á hrisey@hrisey.net. 

Adventure Hótel Hof

Austurhús, 785 Öræfi

Adventure Hotel Hof er þriggja stjörnu hótel við rætur Öræfajökuls. Framundan breiðir Skeiðarársandur úr sér, þjóðgarðurinn í Skaftafelli er örskammt frá og austur undan er stutt í töfraheim Jökulsárlóns á Breiðamerkursandi og að friðlandi fugla í Ingólfshöfða. Hótelið er því kjörinn staður fyrir þá sem vilja njóta náttúrunnar og góðs nætursvefns á vingjarnlegum stað.

  • Veitingastaður
  • Ókeypis þráðlaust net
  • Morgunmatur opinn 08:00 – 9:30 alla daga
  • Kvöldmatur opinn 18:00-20:00 á völdum dögum. Vinsamlegast hafið samband til að fá upplýsingar.
  • Happy hour á flöskubjór og húsvíni 17:30 – 18:30

Hluti af Adventure Hotels.

Listasafn Reykjanesbæjar

Duusgata 2-8, 230 Reykjanesbær

Listasafn Reykjanesbæjar miðlar myndlist með fjölbreyttu sýningarhaldi, fyrirlestrum, leiðsögn, útgáfu og miðlun á vefnum www.listasafn.reykjanesbaer.is . Safnið stendur fyrir nokkrum nýjum sýningum ár hvert í sýningarsal Listasafnsins í Duus Safnahúsum. 

Opið er alla daga kl. 12:00 -17:00.

Náttúrugripasafnið á Norðfirði

Egilsbraut 2, 740 Neskaupstaður

Íslensk náttúra í nærmynd í Safnahúsinu.

Safnið hefur að geyma flesta íslenska fugla auk fjölda flækinga og ágætu fiskasafni með ýmsum sjaldséðum fiskum. Einnig eru í safninu ýmsir gripir af sjávarbotni, þar á meðal mjög gott safn skeldýra. Villtu íslensku spendýrin eiga sína fulltrúa á safninu og þar er einnig mjög gott steinasafn. Þá varðveitir safnið austfirskt plöntuvísindasafn og skordýrasafn. 

Náttúrugripasafnið í Neskaupstað var stofnað 1965. Upphafsmaður að stofnun safnsins var Bjarni Þórðarson þáverandi bæjarstjóri. Hjörleifur Guttormsson líffræðingur var fyrsti forstöðumaður safnsins og vann að uppsetningu þess. Fyrsta sýningin var opnuð í Gagnfræðaskólanum í Neskaupstað sumarið 1970. 

Unnið hefur verið að umhverfisrannsóknum á vegum Náttúrustofu Austurlands, m.a. á hálendinu Norðaustan Vatnajökuls vegna virkjanaframkvæmda og annast stofan eftirlit og ráðgjöf vegna mannvirkjagerðar fyrir Náttúruvernd ríkisins. Á árinu 2002 tók Náttúrustofa Austurlands við rekstri safnsins af Fjarðabyggð. 

Safnið er eitt af þremur söfnum Safnahússins á Norðfirði og er á þriðju og efstu hæð hússins.

Safnið er opið alla daga kl. 13:00-21:00 (maí-ágúst) eða eftir samkomulagi á öðrum árstímum.

Staðarkirkja

Reykjanes, 380 Reykhólahreppur

Um 8 km vestur frá Reykhólum á Reykjanesi í Austur-Barðastrandarsýslu er kirkjustaðurinn Staður. Þar var á árum áður stórbýli og Ólafskirkja í kaþólskum sið. Prestssetur var á Stað fram til 1948 en var þá flutt að Reykhólum, þar sem áður hafði verið útkirkja frá Stað.  Staðarkirkja var reist árið 1864 af Daníel Hjaltasyni gullsmið, hreppstjóra og bónda.

Húsið er opið gestum á eigin ábyrgð daglega 8-18. Vinsamlegast gangið vel um

Eldheimar

Suðurvegur / Gerðisbraut 10, 900 Vestmannaeyjar

ELDHEIMAR er gosminjasýning. Sýningin miðlar fróðleik um eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973, sem án efa telst til stærstu náttúruhamfara Íslandssögunnar. Skyggnst er inn í mannlífið og umhverfið í Vestmannaeyjum fyrir gos og hvernig náttúruhamfarirnar 1973 gripu inn í samfélagið og líf fólksins. Nær allir íbúar Heimaeyjar urðu að yfirgefa heimili sín í skyndi og flýja eyjuna. Margir sáu húsin sín, sem og megnið af eigum sínum aldrei aftur.

Gosið hófst aðfararnótt 23. janúar 1973 á Heimaey, einu byggðu eyjunni í Vestmannaeyjaklasanum. Það stóð yfir í rúmlega 5 mánuði. Hraun og aska eyðilögðu þriðjung byggðarinnar í Eyjum, eða tæplega 400 hús og byggingar. Meðan gosið stóð yfir var mikil óvissa um það hvort nokkurn tímann yrði aftur mannabyggð á eyjunni.

Fischersetur Selfossi

Austurvegur 21, 800 Selfoss

Í Fischersetrinu er verið að segja sögu skákmeistarans Róbert James Fischer. Auk þess er þarna félagsleg aðstaða fyrir Skákfélag Selfoss og nágrennis og aðra er vilja tefla og skákmót eru haldin. Ennfremur er þarna vísir að bókasafni um skákina, þar sem fólk getur sest niður og aflað sér frekari fróðleiks um skáklistina. Þá eru þarna fyrirlestra og kynningar á efni er tengjast skáklistinni.

Í setrinu er verið að sýna muni og myndir sem tengjast skákmeistaranum Bobby Fischer, eins og hann er jafnan nefndur. Aðallega eru þetta munir og myndir tengdir veru skákmeistarans hér á Íslandi og ber þar hæst skákeinvígi aldarinnar í Reykjavík 1972. Ennfremur eru munir og myndir frá síðustu æviárum hans hér á landi eða eftir að hann gerðist íslenskur ríkisborgari.

Hér er um að ræða skáksetur sem heldur uppi minningu skákeinvígis aldarinnar, þjónar ferðamönnum sem vilja fræðast meira um Fischer og eflir áhuga og iðkun skáklistarinnar.

Heimsmeistarinn hvílir svo í Laugardælakirkjugarði, sem er rétt austan við Selfoss.

Opið er frá 13:00-17:00 alla daga vikunnar, frá 1. júní - 22. ágúst, og á öðrum tímum opnað samkvæmt óskum.

Hljómahöll

Hjallavegur 2, 260 Reykjanesbær

Hljómahöll er menningar- og ráðstefnumiðstöð í Reykjanesbæ. Þar hefur skapst mikilvægur vettvangur fjölskrúðugs mannlífs, ráðstefnuhalds, funda og menningarviðburða í Reykjanesbæ. Hið sögufræga félagsheimili Stapi er hluti af Hljómahöll og þjónar áfram sínu hlutverki eins og áður. Auk þess er nýtt Rokksafn Íslands hluti af Hljómahöll en safnið er mikið aðdráttarafl fyrir innlenda og erlenda ferðamenn sem vilja kynnast og upplifa popp- og rokksögu Íslands. Í húsi Hljómahallar hefur Tónlistarskóli Reykjanesbæjar einnig fengið nýtt og glæsilegt kennsluhúsnæði. Með tilkomu Hljómahallar er lagður grunnur að auknum atvinnutækifærum í skapandi greinum á Reykjanesi.

Pantaðu sal
Hljómahöll hentar undir viðburði af öllum stærðum og gerðum. Ráðstefnur, fundir, árshátíðir, dansleikir, afmæli, fermingarveislur, erfidrykkjur o.s.frv.

 

Safnasafnið - Alþýðulist Íslands

Svalbarðsströnd, 606 Akureyri

Safnasafnið safnar og miðlar listaverkum og handverki listamanna sem af ýmsum ástæðum hafa verið á jaðrinum eða utanveltu við meginstrauma en eru í raun beintengdir sköpunarverkinu; sannir, óspilltir og frjálsir. Safneignin telur fjölda verka, gerð af rúmlega 300 lærðum og sjálflærðum listamönnum, frá miðri nítjándu öld til dagsins í dag. Safnasafnið hefur algera sérstöðu meðal safna á Íslandi og er eina safnið sem markvisst heldur utan um Alþýðulistir með þessum hætti. Settar eru upp nýjar sýningar árlega sem opna á vorin, og safnið stendur fyrir viðburðum og útgáfum sem miðla og fagna alþýðulistum.

Safnasafnið stendur við þjóðveginn ofan við Svalbarðseyri, aðeins um 10 mínútna akstur frá Akureyri. Opið kl. 10:00 til 17:00, frá öðrum laugardegi í maí til annars sunnudags í september.

Gestaíbúð í Alþýðulistasafni. Safnasafnið býður uppá gistingu í isi Kaupfélags Svalbarðseyrar (1900) sem var flutt á lóð safnis árið 2006. Íbúðin er útbúin eins og byggðasafn með andrúmslofti og rómantík liðinnar aldar – en þó með nútímalegu ívafi. Í íbúðinni er forstofa, bað, eldhús með og samliggjandi borð-og skrifstofu með 2 rúmum og herbergi með hjónarúmi og 2 barnarúmum. Gestir hafa sér inngang og sér bílastæði. Lítill birkiskógur er við hliðina á íbúðinni hefur góða aðstöðu til útiveru, með grilli og eldstæði. Hægt er að bóka íbúðina allan ársins hring.

Hælið - Setur um sögu berklanna

Kristnes, 601 Akureyri

HÆLIÐ setur um sögu berklanna 

Andi liðins tíma svífur yfir vötnunum og sagan er allt í kring. Áhrifarík og sjónræn sýning um sorg, missi og örvæntingu en ekki síður von, æðruleysi og lífsþorsta.

Opnunartímar:
Júní-ágúst: Alla daga 13:00-17:00
Maí og september: Um helgar 14:00-17:00
Opnum fyrir hópa eftir samkomulagi.

Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar

Egilsbraut 2, 740 Neskaupstaður

Tryggvi Ólafsson var fæddur árið 1940 á Norðfirði. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1960-61 og við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn 1961-66. Tryggvi Ólafsson er einn þekktasti samtíma-myndlistarmaður Íslands.

Opið frá 13:00 - 17:00, alla daga, frá 1. júní til 31. ágúst.
Á veturna eftir samkomulagi við forstöðumann

Vakinn

Skriðuklaustur, menningarsetur og sögustaður

Skriðuklaustur, 701 Egilsstaðir

Skriðuklaustur er merkur sögustaður í Fljótsdal, ekki síst þekktur fyrir stórhýsið sem rithöfundurinn Gunnar Gunnarsson (1889-1975) byggði þar árið 1939. Frá aldamótum hefur Gunnarshús verið opið sem menningar- og fræðasetur með fjölbreyttum viðburðum og sýningum. Þar hægt að skoða safn um skáldið og njóta persónulegrar leiðsagnar um ævi Gunnars og húsið sjálft sem var gefið íslensku þjóðinni árið 1948. Húsið er friðað en það er teiknað af þýska arkitektinum Fritz Höger.

Skriðuklaustur er einnig þekkt fyrir klausturminjar en á 16. öld stóð þar munkaklaustur af Ágústínusarreglu. Rústir þess voru grafnar upp á árunum 2000-2012. MInjasvæðið er aðgengilegt allt árið, rétt neðan við Gunnarshús. Hægt er að fá leiðsögn um minjasvæðið en sýning um sögu klaustursins er í húsi skáldsins. Þar er einnig veitingastaðurinn Klausturkaffi. 

Opnunartími

Apríl og maí, kl 11-17
Júní - ágúst, kl. 10-17
September - 13. október, kl. 11-17  

 

Heimilisiðnaðarsafnið

Árbraut 29, 540 Blönduós

Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi er eina sérgreinda textílsafnið á Íslandi. Safnið er í glæsilegu húsi þar sem aðgengi gesta er með ágætum. Munir safnsins mynda nokkrar ólíkar og sjálfstæðar sýningar: útsaumssýning, sýning á íslenskum þjóðbúningum, Halldórustofa sem helguð er lífi og starfi Halldóru Bjarnadóttur (1873-1981), ullarsýning og árlega ný sérsýning íslensks textíllistafólks.

OpnunartímiVirkir dagar:Laugardagar:Sunnudagar:1. júní - 31. ágúst:10:00-17:0010:00-17:00

 

10:00-17:00

Vesturfaramiðstöð Austurlands

Hafnarbyggð 4, 690 Vopnafjörður

Vesturfaramiðstöð Austurlands er staðsett í menningarmiðstöðinni Kaupvangi.

Í garðinum framan við Kaupvang stendur minnisvarði um þá Vopnfirðinga sem fóru til Vesturheims. Línur úr ljóði Stephans G. Stephanssonar, Úr Íslendingadags ræðu, eru letraðar á steininn.

Vesturfarinn rekur Vesturfaramiðstöð Austurlands. Vesturfarinn er félag áhugasamra um að efla samband við afkomendur vesturfara sem fóru frá Austur- og Norðausturlandi, sérstaklega frá Vopnafirði og öðrum stöðum í Múlasýslum og Þistilfirði eftir Öskjugosið 1875.

Boðið er upp á ættfræðiþjónustu en þá er farið aftur í tímann í leit að ættingjum og tengingar við samtímann leitað. Einnig er boðið upp á aðstoð við að undirbúa heimsókn til Íslands þar sem fólk getur hitt sína ættingja hér og komist á sínar ættarslóðir.

Á hverju ári koma Vestur-Íslendingar frá Kanada og Bandaríkjunum - stundum jafnvel frá Brasilíu - til Vopnafjarðar og annarra staða á Austurlandi. Menn fá á tilfinninguna að þeir séu að snúa heim. Standandi á sínum upprunastað líta þeir á umhverfið, fjöll, ár og vötn, jafnvel með tárin í augunum. Fólk kemur ýmist eitt eða í litlum hópum; iðulega vel upplýst og oft með sögu fjölskyldunnar, ættartölurnar og fjölskyldumyndir í fórum sínum.

Opnunartímar:
Mánudaga og fimmtudaga: 10-16
Tökum annars glöð á móti gestum á öðrum tímum eftir samkomulagi.

Hús Hákarla-Jörundar

Norðurvegur 3, 630 Hrísey

Hús Hákarla- Jörundar er elsta hús Hríseyjar og byggt á árunum 1885-86 fyrir hákarlaveiðimanninn Jörund Jónsson. Það var reist af smiðnum Jóhanni Bessasyni úr timbri norskra skipa sem fórust í Gjörningaveðrinu við Hrísey 11. september 1884. Upphaflega stóð húsið í landi Syðstabæjar en var flutt að Norðurvegi 3 árið 1917 þegar nýtt hús var byggt á hólnum. Hákarla-Jörundur var öflugur hákarlaformaður og hófst uppbygging í Hrísey fyrir alvöru með tilkomu hans til eyjunnar. Bjó hann ásamt stórfjölskyldu sinni í húsi þessu síðustu æviárin. 

Í húsi Hákarla-Jörundar er að finna safnvísi sem geymir muni er tengjast bæði heimilishaldi Jörundar en einnig hákarlaveiðunum sem gerð eru ágæt skil með sýningu á veiðarfærum og öðrum þar til gerðum áhöldum. Í Húsinu er einnig að finna muni og minningar sem tengjast byggða- og annarri atvinnusögu Hríseyjar og er þannig stiklað á stóru í sögu eyjunnar. Þar má kynnast síldarævintýrinu í Hrísey, verslunarsögu staðarins, kvenfélaginu og skóaranum, svo fátt eitt sé nefnt, en einnig einstaka mönnum og málefnum sem sett hafa svip á lífið í eynni. 

Húsið er opið alla daga vikunnar frá 1. júní- 31. ágúst og utan þess tíma er hægt að hafa samband með tölvupósti.

Opnunartími - virkir dagar:
1. júní - 31. ágúst: 13:00-17:00
1. september - 31. maí: Opið eftir samkomulagi.

LAVA centre

Austurvegur 14, 860 Hvolsvöllur

LAVA – Eldfjalla og jarðskjálftamiðstöð Íslands er allsherjar afþreyingar- og upplifunarmiðstöð sem helguð er þeim gríðarlegu náttúruöflum sem hófu að skapa Ísland fyrir nærri 20 milljón árum síðan og eru enn að. LAVA centre gefur þér ekki aðeins kost á að upplifa þessi náttúruöfl með gagnvirkum og lifandi hætti heldur tengir þig einnig við náttúruna sem við þér blasir; Heklu, Tindfjöll, Kötlu, Eyjafjallajökul og Vestmannaeyjar.

LAVA er “glugginn” inn í  jarðvanginn, Katla Geopark, ásamt því að vera alhliða upplýsinga, sölu- og þjónustumiðstöð fyrir ferðamenn. LAVA kemur einnig á framfæri, með beinum hætti, upplýsingum um jarðhræringar, eldgos og aðrar náttúruhamfarir í samvinnu við Almannavarnir, Veðurstofu Íslands og lögreglu.

LAVA er kjörinn viðkomustaður fyrir alla sem hafa áhuga á að læra meira um jarðfræði Íslands, sjá og finna fyrir kraftinum sem liggur undir landinu. Lifandi og skemmtileg upplifun fyrir alla fjölskylduna!

Aðgangsverð fyrir sýningu, 12 mínútna kvikmynd og útsýnispall er 3590 kr og fjölskyldu pakki er á 8975 kr (fullorðnir + 1 barn 6-15 ára greiða, aðrir 15 ára og yngri fá frítt).

Allar upplýsingar um verð má finna á heimasíðunni www.lavacentre.is og þar er einnig hægt að kaupa miða fyrirfram. Einnig er auðvelt og fljótlegt að kaupa miða við innganginn. 

Sjóminjasafnið Hafnleysa

Víkurbraut 17, 870 Vík

Sjóminjasafnið Hafnleysa
Sjóminjasafnið Hafnleysa segir sögu sjósóknar í Vík, sem er eina sjávarþorp landsins þar sem aldrei hefur verið höfn.  

Skipakirkjugarður Evrópu
Sýningin hefst á sögu skipsstranda, en vitað er um hundrað og tólf skipsströnd sem urðu hér við strendur árin 1898 til 1982. Við strendur Vestur-Skaftafellsýslu liggja líklega hundruð skipa grafin og hefur strandlengjan löngum verið kölluð skipakirkjugarður Evrópu.  

Verslun og útræði í Vík
Stuttlega er farið yfir upphaf verslunar í Vík og til sýnis eru verslunarinnréttingar úr verslun Halldórs Jónssonar kaupmanns ásamt ýmsum munum frá fyrri hluta síðustu aldar. Þá geta gestir skoðað líkön af hinum einkennandi sandabátum sem notaðir voru til veiða og uppskipunar við sendnar strendur Suðurlandsins. Börn geta klætt sig
upp í sjóklæði (stílfærð með nútíma textílefnum) og sett sig í hlutverk sjómanna fyrri alda.  

Skaftfellingur VE33
Það fer ekki fram hjá neinum sem kíkir inn að aðal djásn safnsins er hið rúmlega 100 ára gamla fraktskip
kaftfellingur. Skipið á glæsta og forvitnilega sögu sem rakin er á sýningunni. Hér gefur einnig að líta kafla úr heimildamyndinni í Jöklanna Skjóli frá miðri síðustu öld þar sem Skaftfellingur kemur við sögu; ásamt upptökum af hinstu heimför skipsins árið 2001. Krakkar geta spreytt sig á því hvað hinir ólíku hlutar skipsins heita; skoðað vélarhluta skipsins og æft sig í að búa til pappírsbáta af ýmsum gerðum.   

Sumarið 2023 málaði listamaðurinn Macjie Lenda fallegt vegglistaverk á safnhúsið til að heiðra allt það frábæra fólk sem kom saman í byrjun 20. aldar og lagði grunninn að Víkurþorpi.

Aðgangseyrir:
Fullorðnir: 500 kr.
Unglingar 12-16 ára: 200 kr.
Frítt fyrir börn yngri en 12 ára
Frítt fyrir eldri borgara
20% afsláttur fyrir hópa (8 manns eða fleiri)

Við bjóðum upp á skemmtilegt fræðsluefni fyrir leikskólabörn
og yngstu bekki grunnskóla. Áhugasamir hafi samband við kotlusetur@vik.is. Sjá
kynningarmyndband.

Sögusetur Íslenska hestsins

Hólar, Hjaltadalur, 551 Sauðárkrókur

Sögusetur íslenska hestsins á Hólum í Hjaltadal var stofnsett 2001 og er staðsett í gamla hesthúsinu á Hólum sem byggt var árið 1931 á grunni gamla skólahússins sem brann. Árið 2010 var húsið gert upp og í því opnuð yfirlitssýningin Íslenski hesturinn. Sýningin er byggð upp með leikmyndum, kvikmyndum, myndskeiðum og munum og er sett upp í samvinnu við Byggðasafn Skagfirðinga.


Auk þess er ein sérsýning í Sögusetrinu, Uppruni kostanna, sem er kynning á helstu stofnfeðrum og –mæðrum í íslenskri hrossarækt frá upphafi skipulegra kynbóta fram til dagsins í dag. Sleipnisbikarinn, sem er æðsta viðurkenning sem veitt er í hrossarækt en bikarinn hlýtur sá stóðhestur sem efstur stendur í heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti, er geymdur á Sögusetrinu milli Landsmóta og er til sýnis. Bikarinn á sér merkilega og í raun ævintýralega sögu. 

Sumaropnun í júní - ágúst:

Opið alla daga frá 11-17

Vetraropnun: Sögusetur íslenska hestsins er opið fyrir
hópa yfir veturinn samkvæmt pöntunum sem gerðar skulu fyrirfram. Áhugasamir
hafi samband við forstöðumann, Hjördísi Kvaran Einarsdóttur, í síma 8458473 eða
með að senda póst á netfangið sogusetur@sogusetur.is.

Hveragarðurinn

Hveramörk 13, 810 Hveragerði

Hverasvæðið í Hveragerði er staðsett inni í miðjum kaupstaðnum og er eitt af merkilegri náttúruperlum Suðurlands. Hveragerði er í austurjaðri gosbeltis sem liggur frá Reykjanesi um Þingvelli og norður Langjökul og liggur hverasvæðið þvert á þetta gosbelti. 

Á staðnum er móttaka fyrir ferðamenn í skála sem er við Hveramörk, austast á hverasvæðinu. Þar er hægt að afla sér margvíslegra upplýsinga um tilvist jarðhitans, tengsl við örverufræði, jarðfræði, sprungur og eldvirkni. Auk þess er þar útskýrt hvernig nýting jarðhitans fer fram, greint frá dýpi borhola, afli sem úr þeim fæst og hvernig það er nýtt. 

Gestir geta upplifað ábatann af lækningaleir á meðan þeir njóta leirbaðs fyrir hendur og fætur á sumrin. Þeir geta einnig fengið sér bita af ljúffengu Hverabrauði sem bakað er við jarðhita og að sjóða sér egg.

Liston

Sólvellir 6, 350 Grundarfjörður

Alþýðulistamaðurinn Liston, hér er hægt að skoða ný og gömul verk.

Opið allt árið daglega frá 10:00 til 18:00.

Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla, Norska húsið

Hafnargata 5, 340 Stykkishólmur

Norska húsið er Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla og er fyrsta tvílyfta íbúðarhús á Íslandi. Það var byggt úr tilsniðnum viði frá Noregi árið 1832 og er því rúmlega 180 ára gamalt. Í safninu er fastasýning á heimili Árna Ó. Thorlacius (1802–1891) og Önnu Magdalenu Steenback (1807–1894) eins og talið er að það hafi verið á seinni hluta 19. aldar. Í risi er opin safngeymsla með munum frá öllu Snæfellsnesi. Á fyrstu hæð eru breytilegar sýningar í Mjólkurstofu og Eldhúsi sem tengjast listum, menningu og/eða sögu svæðisins og safnbúð í krambúðarstíl.


Opnunartími:

Frá 1. júní - 31. ágúst er opið alla daga frá kl. 11-17.

Í maí er opið alla daga frá kl. 13-16

Safnapassi stykkishólmsbæjar - Norska húsið og Vatnasafn

Fullorðnir kr. 2.080,-

Aðgangur í söfnin fæst í Norska húsinu.

Brúnir - Horse, Home food and Art

Brúnir, 605 Akureyri

Á Brúnum búa hjónin Einar og Hugrún ásamt fjölskyldu sinni. Þar er stunduð hrossarækt og boðið upp á sýningar um íslenska hestinn.

Gestum býðst að njóta heimagerðra veitinga með hráefni úr héraði. Á Brúnum er einnig gallerý og sýningarsalur þar sem gestir geta skoðað listaverk bóndans og einnig eru þar sýningar annarra listamanna.

Upplýsingar um opnunartíma má finna á www.brunirhorse.is

 

GPS punktar: N65° 34' 0.392" W18° 3' 51.597"

Fræðasetur um forystufé

Svalbarð, 681 Þórshöfn

Fræðasetur um forystufé á Svalbarði í Þistilfirði er einstakt setur á heimsvísu. Hvergi í heiminum er til forystufé annars staðar en á Íslandi. Þarna er safn upplýsinga um forystufé, safn sagna, mynda og annars þess sem gerir forystufé sérstakt en það er viðurkennt sem sérstakur fjárstofn.

Auk upplýsinga er lítil sölubúð á staðnum sem selur vörur unnar úr ull, hornum, beinum og öðrum afurðum forystufjár. Ullin af forystufé er mýkri en ull af öðru íslendku fé. Fræðasetur um forystufé hefur fengið viðurkenningu frá ICELANDIC LAMB fyrir metnaðarfulla og nýstárlega nýtingu ullar af forystufé.

,,Ef þú klæðist fatnaði sem unninn er úr ull af forystufé ratar þú alltaf heim”.

Á staðnum er rekið lítið kaffihús þar sem boðið er upp á sérblandaða kaffiblöndu ,,Ærblöndu” auk annars góðgætis.

Ein listsýning er í Fræðasetri um forystufé hvert sumar og er hún uppi allt sumarið. Þegar eru bókaðar sýningar 10 ár fram í tímann.

Einnig er rekið á staðnum lítið gistihús, ÞISTILL GISTIHÚS, þar sem er gisting fyrir 12 í rúmum. Mjög góð aðstaða er þar, vel búið eldhús og setustofa.

Opið frá 11-18, júní-ágúst. Þess utan eftir samkomulagi.

Bjarnarhöfn

Helgafellssveit, 340 Stykkishólmur

Á Hákarlasafninu í Bjarnarhöfn er tekið vel á móti ferðamönnum, bæði einstaklingum og hópum allt árið. Þar má sjá  ýmsa muni frá gömlum búskaparháttum sem og veiðum og verkun hákarlsins.

Innifalið í aðgangseyri á Hákarlasafnið er lifandi leiðsögn þar sem saga, lífræði og verkun hákarlsins eru gefin góð skyl. Gestir fá smakk á hákarl og einnig býðst gestum að skoða hákarlahjallinn.

Á staðnum er einnig verslun sem selur hákarl og harðfisk.

Opið á sumrin daglega frá 9-18. Á veturnar er opið daglega frá 10-17.

Whales of Iceland

Fiskislóð 23-25, 101 Reykjavík

Hvalasafnið samanstendur af 23 hvalalíkönum af hinum ýmsu hvalategundum sem fundist hafa í Íslensku hafi. Þar er t.d. að finna 25 m. langa steypireyð, búrhval í fullri stærð og Íslandssléttbak sem nú er í bráðri útrýmingahættu og margt fleira! Allt í raunverulegum stærðum!

Mikila vinnu var lagt í hönnun á líkönunum og eru öll módelin handmáluð og er hægt að sjá á þeim persónuleg einkenni sem rekja má til raunverulegs hvals í hafinu. Líkönin eru mjúk og nokkuð raunveruleg í snertingur sem eykur upplifunargildi sýningarinnar.

Með gagnvirkum upplýsingaskjám, róandi hvalahljóðum, neðansjávar lýsingu og svörtu og gulu sandgólfi er Hvalasafnið, Whales of Iceland eins og draumkenndur ævintýraheimur fyrir alla fjölskylduna.

Opnunartími: Alla daga kl. 10 – 17
Lokað Jóladag, 25 desember.

Rafræn leiðsögn í boði.

Íslenska stríðsárasafnið

Heiðarvegur 37, 730 Reyðarfjörður

Andi stríðsáranna endurvakinn

Gestir Íslenska stríðsárasafnsins hverfa rúm 70 ár aftur í tímann, allt aftur til 5. áratugarins þegar heimsstyrjöldin síðari geisaði. Sýningar safnsins gera þessu tímabili vönduð skil, bæði út frá sjónarhóli hins almenna hermanns í setuliði bandamanna og íbúa Reyðarfjarðar.

Safnið er staðsett við bragga sem voru hluti af stórum spítalakampi. Sjá má líkan af kampnum ásamt aðstöðu óbreyttra hermanna og yfirmanna. Fjöldi upprunalegra muna glæða safnið lífi og veita óvenjulega innsýn í þessa löngu liðnu tíma, þá ógn sem stöðugt vofði yfir en einnig hversdagslegar aðstæður og tískustrauma.

Íslenska stríðsárasafnið geymir óvenjulega tíma í lífi íslensku þjóðarinnar og skapar ógleymanlegar stundir þeim sem það heimsækja.

 

Gallerí Fold

Rauðarárstígur 12-14, 105 Reykjavík

Gallerí Fold er leiðandi í sýningar- og uppboðshaldi á Íslandi. Galleríið var stofnað árið 1990 en hefur verið í eigu núverandi eigenda frá 1992. Árið 1994 flutti Galleríið starfsemi sína í eigið húsnæði að Rauðarárstíg 14 þar sem það hefur náð að vaxa og dafna. Galleríið er nú í 600 m2 húsnæði og hefur yfir 3 sýningarsölum að ráða en salirnir eru frá 30 – 110 m2. Að jafnaði býður Gallerí Fold verk um 40 íslenskra úrvalslistamanna og heldur 8 til 10 sýningar árlega. Auk þess tekur galleríið verk í endursölu frá einstaklingum og fyrirtækjum, bæði í beina sölu og á uppboð. Því er ávallt gott úrval fjölbreyttra verka á boðstólnum hjá okkur.

Opnunartími:
Virkir dagar 12 - 18
laugardagar 12 - 16
sunnudagar Lokað

Grenjaðarstaður - Gamli bærinn

Grenjaðarstaður, 641 Húsavík

Grenjaðarstaður í Aðaldal er forn landnámsjörð og prestssetur sem staðsett er um 30 km. suður af Húsavík. Þar er að finna einn stærsta torfbæ landsins, sem sérstakur er fyrir þær sakir að vera einangraður með hrauni úr næsta nágrenni hans, undir þiljum unnum úr rekaviði. Gamli bærinn er í eigu Þjóðminjasafns Íslands en Menningarmiðstöð Þingeyinga (MMÞ) sér um rekstur byggðasýningarinnar sem þar er að finna og endurspeglar hún lifnaðarhætti gamla bændasamfélagsins. Sýningin samanstendur af um 2000 munum úr safneign Byggðasafns Suður-Þingeyinga sem varpa ljósi á líf fólks sem bjó í bænum.  

Á Grenjaðarstað er einnig finna kirkju sem byggð var 1865 og er ennþá í notkun og í kirkjugarðinum geta gestir skoðað rúnastein frá miðöldum. Gamla hlaðan hefur verið endurgerð og hýsir í dag móttöku safnsins, snyrtingar, kaffisölu og handverkssölu úr héraði.  

Opið yfir sumartímann.  

1. júní - 15. ágúst: alla daga 11-17  

Menningarhúsið Hof

Strandgata 12, 600 Akureyri

Í Hofi er framúrskarandi aðstaða fyrir allar gerðir viðburða. Fjölbreytt úrval rýma í húsinu gefur kost á að halda þar allt frá litlum stjórnarfundum og námskeiðum upp í fjölmennar ráðstefnur, stórtónleika og glæsilegar veislur. Starfsfólk Menningarhússins Hofs hefur mikla reynslu af skipulagningu fjölbreyttra viðburða og veitir faglega ráðgjöf auk þess að vera skipuleggjendum innan handar við undirbúning og framkvæmd.

Menningarfélag Akureyrar á heima í Menningarhúsinu Hofi. Menningafélag Akureyrar er sjálfseignarstofnun sem samanstendur af þremur menningarstofnunum á Akureyri; Leikfélagi Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Menningarfélaginu Hofi. Sameiningin tók í gildi árið 2014 og er markmiðið að skapa öflugan vettvang fyrir þrjár af stærstu menningarstofnunum á Norðurlandi til að starfa saman, sækja fram í menningarlífi á Akureyri og efla enn frekar þá starfsemi sem þessir aðilar hafa staðið að. 

Ólafsdalur í Gilsfirði

Erluhraun 4, 220 Hafnarfjörður

Ólafsdalur í Gilsfirði, 1000 ára saga

Fyrsti búnaðarskóli á Íslandi (1880-1907) og einn merkasti staður í landbúnaðarsögu Íslands. Glæsilegt skólahús frá 1896. Stytta Ríkarðs Jónssonar af Torfa og Guðlaugu í Ólafsdal. 

Vegna mikilla framkvæmda Minjaverndar við endurreisn staðarins mun sumaropnun Ólafsdalsfélagsins ekki hefjast fyrr en sunnudaginn 25. júlí. Eftir það verður opið alla daga til 15. ágúst kl. 12:00-17:00. Léttar veitingar, sýningar og leiðsögn. 

Fallegar og skemmtilegar gönguleiðir eru í Ólafsdal, meðal annars að nýlega fundnum víkingaaldarskála og öðrum fornum byggingum sem verið er að rannsaka af Fornleifastofnun Íslands í um 20 mín göngufjarlægð frá skólahúsinu. 

Merkilegar minjar um byggingar, vatnsveitu, hleðslur og ræktun. Áhugaverðar sýningar um sögu Ólafsdalsskólans. Nýfundinn landnámsskáli og aðrar byggingar frá 9.-10. öld!

Þrettánda Ólafsdalshátíðin verður haldin laugardaginn 14. ágúst 2021 kl. 11-17. Skemmtileg fjölskylduhátíð við allra hæfi. 

Vakinn

Perlan - undur íslenskrar náttúru

Öskjuhlíð, 105 Reykjavík

Fjölþætt og stórbrotin náttúrusýning
Perlan hýsir í dag stærstu náttúrusýningu landsins. Markmið sýningarinnar er að fræða unga og aldna um magnaða náttúru Íslands og er áhersla lögð á nútímalega vísindamiðlun og faglegan grunn í öllu fræðsluefni sýningarinnar. Tæknin er nýtt til að skapa einstaka upplifun og deila fræðsluefni á nýjan og spennandi hátt. Um er að ræða margverðlaunaða sýningu sem á sér enga líka í heiminum.

Hápunktar:
-
Íshellir
- Jöklasýning
- Norðurljósasýning í stjörnuveri Perlunnar
- Sýning um krafta náttúrunnar
- Látrabjarg
- Sýning Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í Náttúru Íslands
- Ísgerð og kaffihús Perlunnar

Perlan Ísgerð
Ný og glæsileg ísgerð hefur opnað á 4. hæð Perlunnar. Um er að ræða ferskan og ljúffengan ís sem búinn er til að staðnum, einstakt umhverfi til að njóta hans og besta verðið í bænum!

Perlan kaffihús
Rjúkandi heit súpa, brauð, kökur, bjór, vín og einstaklega gott kaffi. Njóttu á toppi Reykjavíkur með síbreytilegt útsýni.

Perlan veitingahús
Perlan er einn glæsilegasti veislu- og viðburðasalur landsins. Afgerandi arkitektúr og yfirbragð Perlunnar gerir viðburðinn einstakan. Hægt er að bóka salinn á info@perlan.is.

Listakot Dóru / Gallery og vinnustofa

Vatnsdalshólar, 541 Blönduós

Listakot Dóru, vinnustofa og gallery á bænum Vatnsdalshólum í Vatnsdal. 

Þemasýningar á sumrin þar sem listamenn af norðurlandi vestra taka fyrir þjóðsögu, úr fornritum eða stað. Listamaðurinn sem rekur gallerýið málar olíumálverk-kort og kerti.Hún gerir gjafir eftir persónulegum óskum Hún vinnur lika listaverk sem flokkast undir hringrásarkerfið.

Steinasafn Petru

Sunnuhlíð, Fjarðarbraut 21, 755 Stöðvarfjörður

Ljósbjörg Petra María Sveinsdóttir hafði  áhuga á fallegum steinum alla ævi, en byrjaði að safna þeim fyrir alvöru 1946.

Steinarnir hennar eru langflestir úr Stöðvarfirði og af Austurlandi því Petra leitaði ekki mikið að steinum í öðrum landsfjórðungum.

Árið 1974 ákvað Petra að opna heimili sitt fyrir öllum þeim sem vildu skoða steinana hennar. Fjölmargir sækja safnið heim á hverju ári og er Steinasafn Petru einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna á Austurlandi.

Það fer ekki fram hjá neinum þeim sem sækir safnið heim að Petra var afkastamikill steinasafnari. Færri vita að söfnunaráhugi hennar einskorðaðist ekki bara við steinasöfnun. Petra safnaði merktum pennum, bollum og fleiri smáhlutum auk þess sem hún hefur safnað hverskonar náttúrugripum svo sem eggjum, skeljum og kuðungum í marga áratugi.

Vissulega hefur hús Petru tekið á sig svipmót safns en það er þó fyrst og síðast heimili.

Opið frá 1. maí til 15. október, 09:00 - 17:00 alla daga vikunnar.

Kaffi Sunnó

Árið 2015 varð gamall draumur að veruleika þegar Kaffi Sunnó var opnað. Þar gefst gestum kostur á að kaupa sér matarmiklar súpur og brauð, heita og kalda drykki og gómsætt bakkelsi.

Opið frá 1. maí til 15. október, 09:00 - 17:00 alla daga vikunnar.

Steinshús - Sýning um Stein Steinarr

Steinshús - Nauteyri, 512 Hólmavík

Á sýningu sem opnuð var í Steinshúsi 15. ágúst 2015 er fjallað um helstu æviatriði Steins Steinarrs - uppruna skáldsins við Djúp, hreppaflutninga í Saurbæ, fyrstu kynni af skáldskap hjá Stefáni frá Hvítadal, nám hjá Jóhannesi úr Kötlum, fyrstu skáldskapartilraunir, námsdvöl að Núpi, lausamennsku í vinnu, útgáfur ljóða, upphaflega gerð Tímans og vatnsins, kynni Steins og Ásthildar Björnsdóttur, ferðalög Steins, áhrif hans á ungskáld, síðustu ár hans og ýmislegt fleira.

Sýningin er unnin í samstarfi við Vaxtarsamning Vestfjarða, Menningarráð Vestfjarða, Uppbyggingarsjóð Vestfjarða, Alþingi og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem varðveitir frumgögn, en Steinshús fær eftirgerðir til afnota á sýningunni. Ólafur J. Engilbertsson tók saman sýningartextann og Anna Yates sá um enska þýðingu hans. Björn G. Björnsson sá um hönnun sýningarinnar ásamt Ólafi J. Engilbertssyni. Sýningin er bæði á íslensku og ensku.

Hvítahús

Krossavík, 360 Hellissandur

HVÍTAHÚSIÐ í Krossavík er nú alveg að verða tilbúið. Tekið er við umsóknum frá listamönnum um dvöl í húsinu. Á efri hæðinni er íbúð til dvalar við skapandi störf. Á jarðhæð eru tveir salir annar 30 m2. sýningasalur með 7 m. lofthæð og gullfallegu útsýni til Snæfellsjökuls.
Á sumrin verða gestir boðnir velkomnir. Þá verður í húsinu sala á sérhönnuðum listmunum, heitt á könnunni, sýningar og aðrir viðburðir.
Staðurinn er einstakur, gullin sandvík umlukinn úfnu hrauni og opnu hafi þar sem sólin sest varla á sumrin og óhindruð sýn til Snæfellsjökuls.
Hlökkum til að taka á móti listafólki hvaðanæva að, til að dvelja í þessu trausta húsi.

Borgarsögusafn Reykjavíkur

Grandagarði 8, 101 Reykjavík

Spennandi ferðalag í gegnum sögu og menningu Reykjavíkur.

Verið velkomin á Borgarsafn Reykjavíkur. Fimm frábærir staðir sem fara með þig út á sjó og undir jörðu. Fimm upplifanir frá landnámi til samtímans. Og fimm skemmtilegar og grípandi leiðir til að njóta spennandi sögu og menningararfs Reykjavíkur.  

Listasafn Einars Jónssonar

Hallgrímstorg 3, 101 Reykjavík

Einar Jónsson (1874-1954) var fyrsti íslenski myndhöggvarinn. Með opnun Listasafns Einars Jónssonar árið 1923 eignuðust Íslendingar sitt fyrsta listasafn en aðdragandann að byggingu þess má rekja til 1909, þegar Einar bauð íslensku þjóðinni verk sín að gjöf gegn því að byggt yrði yfir þau safn. Safnbyggingin er í dag alfriðuð. 

Á safninu vann listamaðurinn verk sín og sýndi. Listaverk Einars eru í anda norræns symbólisma og á safninu eru varðveitt um 300 verka hans. Í upphafi ferilsins sótti hann innblástur í íslenska þjóðsagnaarfinn og goðfræðileg minni. Kynni Einars af guðspeki 1910 höfðu afgerandi áhrif á líf hans og list og upp frá því skapaði hann myndverk með guðspekilegu táknmáli.

Þakíbúðin, sem nú er hluti af safninu, var heimili Einars og Önnu konu hans. Anna var jafnframt fyrsti safnstjóri Listasafns Einars Jónssonar. Íbúð þeirra hjóna er varðveitt í upprunalegri mynd með sérsmíðuðum húsgögnum og listaverkum úr þeirra eigu. Þaðan er fallegt útsýni yfir borgina. Við safnið er einnig opinn og fjölsóttur höggmyndagarður með 26 bronsafsteypum af höggmyndum Einars. 

Opnunartími
Listasafn Einars Jónssonar er opið þriðjudaga-sunnudaga kl. 12-17. Lokað á mánudögum. Garðurinn er alltaf opinn.
Leiðsögn og móttaka hópa eftir samkomulagi.

Til að finna okkur á Facebook, vinsamlegast smellið hér.
Til að finna okkur á Instagram, vinsamlegast smellið hér.

Hið Íslenzka Reðasafn

Kalkofnsvegur 2 , 101 Reykjavík

Hið Íslenzka Reðasafn hóf árið á stórtækum breytingum og opnar nú í nýju húsnæði á besta stað í Reykjavík. Sýningarplássið hefur næstum þrefaldast, sýningargripum hefur fjölgað um marga tugi og í fyrsta skipti er boðið upp á gagnvirka upplýsingamiðlun þar sem gestir fá færi á að hella sér út í reðurfræði fyrir lengra komna. 

Öll umgjörð hefurverið færð á hærra plan og jafnframt er nú boðið upp á reðurþemaðar veitingar og drykki. Safnið er einstakt á heimsvísu og gríðarleg vinna
hefur farið í að bæta upplifun allra sem sækja safnið heim.

Opnunartími:
10:00-19:00 alla daga.

Hofsstaðir Minjagarður

Kirkjulundur, 210 Garðabær

Reisulegur skáli, híbýli fornmanna, stóð á Hofsstöðum frá landnámsöld (870-930) og fram á 12. öld. Í minjagarðinum eru einar merkustu minjar frá landnámsöld sem fundist hafa hér á landi. Minjagarðurinn gefur vísbendingu um hvernig var umhorfs á þessum stað á víkingaöld. 

Árnes

Skagaströnd, 545 Skagaströnd

Árnes nefnist elsta húsið á Skagaströnd. Sveitarfélagið lét gera það upp og tók í notkun sumarið 2009. Húsið er nú einstak dæmi um vistarverur fólks á fyrri hluta 20. aldar. Það er dæmigert timburhús frá þessum tíma og hið eina þessarar gerðar sem mögulegt var að varðveita á staðnum. Húsið er búið húsgögnum og munum úr Muna- og minjasafni Skagastrandar, lánshlutum og jafnvel búnaði úr eigu fyrri íbúa hússins.

Í Árnesi geta gestir fengið spáð í spil, bolla eða látið lesa í lófa alla daga yfir sumarið.
 


Opnunartími
Júní, júlí og ágúst:
Opið mánudaga til laugardaga frá 13 til 16.
Lokað á sunnudögum.

September til maíloka:
Opið eftir samkomulagi.

Umsjón með húsin hefur Sveitarfélagið Skagaströnd, sími á skrifstofutíma er 455 2700.

Safnahús Borgarfjarðar

Bjarnarbraut 4-6, 310 Borgarnes

Safnahús Borgarfjarðar er safnaklasi fimm safna þar sem nýjar aðferðir eru nýttar til miðlunar á grundvelli frumkvæðis, virkni og samvinnu. Söfnin eru þessi: Héraðsbókasafn Borgarfjarðar, Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar, Byggðasafn Borgarfjarðar, Listasafn Borgarness og Náttúrugripasafn Borgarfjarðar. 

Sumaropnunartími (júní, júlí og ágúst):
Virkir dagar: 10:00 - 17:00
Laugardagar: 11:00 - 14:00
Sunnudagar: lokað

Nonnahús

Aðalstræti 54, 600 Akureyri

Þekkir þú Nonna? Vissir þú að í því var einu sinni skóli? Þar bjuggu um tíma fjórar fjölskyldur í einu? Þar var gistihús og veitingasala um tíma? Nonnahús geymir margar sögur. Stærst þeirra er saga Nonna og fjölskyldu hans.

Nonnahús er bernskuheimili barnabókarithöfundarins og jesúítaprestsins Jóns Sveinssonar "Nonna". Húsið er meðal þeirra  elstu á Akureyri, byggt upp úr 1850. Safnið geymir marga muni tengda Nonna, m.a Nonnabækur á fjölmörgum tungumálum. Húsið sjálft hefur verið varðveitt sem dæmigert kaupstaðarheimili þessa tíma. 

Nonni flutti 12 ára frá Akureyri einn síns liðs sumarið 1869 til að fara í skóla  í Frakklandi og varð þekktur rithöfundur barnabók um víðaveröld. Þannig varðveitir safnið bækur frá yfir 30 löndum t.d. á kínversku og japönsku, pólsku og esperantó.

Nonnahús er á meðal þeirra elstu á Akureyri byggt um 1850 og varðveitt sem kaupstaðarheimili og þess tíma og safn um Nonna. Síðasti íbúi Nonnahúss flutti úr húsinu 1945 en Nonnahús hefur verið safn síðan 1957.

Nonnahús er á sömu lóð og Minjasafnið  og einungis  200 metrum frá Leikfangahúsinu.

Opnunartími:
1.6.-30.9.: Daglega frá 10-17.
1.10-31.5.: Daglega frá 13-16.

Verð:
Stök heimsókn 2300 kr. fyrir 18 ára og eldri –  Börn 17 ára og yngri ókeypis, Öryrkjar ókeypis. Eldri borgarar 1300 kr.
Miðinn gildir á Minjasafnið á Akureyri, Nonnahús, Leikfangahúsið, Davíðshús og Laufás allt árið.

Vínlandssetrið Leifsbúð

Búðarbraut 1, 370 Búðardalur

Vínlandssetrið er spennandi áfangastaður fyrir unga sem aldna, þar sem sögum af landafundum Eiríks rauða og Leifs heppna Eiríkssonar á Grænlandi, Kanada og í Bandaríkjunum, eru gerð skil í nýrri sýningu sem samanstendur af myndverkum tíu þekktra íslenskra myndlistarmanna. Þú ferðast um söguna með hljóðleiðsögn og skoðar um leið töfraheim sýningarinnar. Að sýningu lokinni getur verið gott að fá sér einhverja næringu eða gott kaffi á neðri hæðinni. 

Opið daglega á tímabilinu maí til október.

Litlibær

Skötufjörður, 420 Súðavík

Litlibær í Skötufirði er lítið og notalegt kaffihús og safn. Þar er hægt að fá heimabakað bakkelsi og hinar heimsfrægu Litlabæjar vöfflur, kaffi, kakó, te, gos og safa.

Opnunartími:
15.maí til 20.september, alla daga frá 10-18
Finnið okkur á Facebook hér.

 

Litlibær í Skötufirði var upphaflega byggður árið 1894, og hann var í ábúð allt til ársins 1969. Um 20 manns bjuggu í bænum á tímabili.

Túnið er afmarkað af þykkum steinhlöðnum garði. Einstaklega vel hefur verið vandað til allra steinhleðslna. Ábúendur á Litlabæ höfðu lifibrauð sitt af sjávarnytjum ekki síður en landbúnaði.

Meðal tófta sem eru á Litlabæ, er hringlaga tóft sem stendur við veginn, og er hún talin vera mun eldri en aðrar hleðslur á Litlabæ, og var sögð síðan Papar voru hér á landi.

Árið 1999 komst Litlibær í vörslu Þjóðminjasafnsins og var þá ráðist í endurbætur sem er nú lokið.

Bærinn er opinn fyrir gesti og gangandi þar sem hægt er að fá kaffi og vöfflur með hinni margrómuðu Siggusultu og rjóma, ásamt ýmsu handverki.

Rétt fyrir utan Litlabæ má sjá mikið af sel sem gaman er að fylgjast með.Staðsetning: – Skötufjörður í Ísafjarðardjúpi

Aðgangseyrir: Frítt inn, annars fjármagnað með kaffisölu.

Gallerí Úthverfa / Outvert Art Space

Aðalstræti 22 , 400 Ísafjörður

 Gallerí Úthverfa / Outvert Art Space er vettvangur fyrir samtímalist og tilraunakennd verkefni sem unnin eru þvert á listgreinar. Starfsemi gallerísins var gangsett árið 2013 í húsnæði gamla Slunkaríkis af Elísabetu Gunnarsdóttur og Gunnari Jónssyni myndlistarmanni.

Starfsemi gallerísins fer fram í náinni samvinnu við alþjóðlegar gestavinnustofur ArtsIceland. ArtsIceland og Úthverfa / Outvert Art Space leggja áherslu á að greiða götu listafólks og sýniningarstjóra og gera þeim
kleift að framkvæma verkefni sem geta skipt máli og haft afgerandi menningarleg áhrif.
 

Opnunartímar: Fimmtudaga – laugardaga 16:00 - 18:00 og eftir samkomulagi.  

Starfsemi Gallerís Úthverfu/Outvert Art Space nýtur styrkja úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og frá Ísafjarðarbæ.  

Byggðasafnið í Görðum Akranesi

Garðaholt 3, 300 Akranes

Á Byggðasafninu í Görðum gefst kostur á að kynna sér sögu Akraness og nágrennis. Safnið var stofnað og opnað á árinu 1959 og er staðsett á hinu forna höfuðbóli að Görðum á Akranesi sem var kirkjustaður og presstsetur frá öndverðri kristni til loka 19. aldar.

Opnunartími:
Sumaropnun 15. maí - 14. september, alla daga frá 11:00-17:00

Vetraropnun 15. september - 14. maí, laugardaga frá 13:00-17:00, aðra daga eftir samkomulagi fyrir hópa.

Hægt er að leigja stúkuhúsið undir fundarhöld.

Árbæjarsafn - Borgarsögusafn

Kistuhylur 4, 110 Reykjavík

Árbær var rótgróin bújörð allt fram á 20. öld, en safnið var opnað þar árið 1957. Árbæjarsafn er útisafn og auk Árbæjar eru þar yfir 20 hús, sem mynda torg, þorp og sveit. Flest húsin hafa verið flutt úr miðbæ Reykjavíkur.

Í Árbæjarsafni er leitast við að gefa hugmynd um byggingalist og lifnaðarhætti í Reykjavík og á sumrin má þar sjá húsdýr og mannlíf fyrri tíma.Í safninu er boðið upp á fjölda sýninga og viðburða, þar sem einstökum þáttum í sögu Reykjavíkur eru gerð skil. Þar má nefna handverksdaga, fornbílasýningu, jólasýningu og margt fleira. Allir eiga að finna eitthvað við sitt hæfi í Árbæjarsafni.

Árbæjarsafni er hluti af Borgarsögusafni – Eitt safn á fimm frábærum stöðum.

Opnunartími:
Júní-ágúst: 10-17 alla daga
September-maí: 13-17 alla daga.

Safn Jóns Sigurðssonar

Hrafnseyri, Arnarfjörður, 471 Þingeyri

Í tilefni þess að 200 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri þann 17. júní 2011, var opnuð ný sýning á Hrafnseyri sem hönnuð var af Basalt Arkitektum. Sýningarrýmið var stækkað veruleg og ný sýning hönnuð frá grunni. Um er að ræða sögusýningu, sem segir frá ævi Jóns Sigurðssonar og er upplýsingum komið fyrir á hjúpi úr plexígleri sem liðast líkt og samfellt straumfall úr einu herbergi í annað. Sýningin myndar þannig eina órofa heild upplifunar.

Hjúpurinn er ýmist tær og gegnsær fyrir muni sem búa þar að baki, eða hann þéttist í myndir og texta sem stundjum koma skýrt fram strax undir yfirborði hjúpsins eða liggja dýpra og jafnvel lagskipt með leyndardómsfullum og dramatískum hætti. Þar er spurt til mögulegra áhrifa af nýum menningarstraumum, nýrri tækni, markverðum viðburðum og öðrum áhrifavöldum.

Ókeypis aðgangur

Opnunartími: 1. júní - 8. september
Safn: alla daga 11:00-17:00
Kaffihús: alla daga 11:00-17:00
Opið á öðrum tímum eftir samkomulagi.

Hótel Djúpavík

Árneshreppur, 524 Árneshreppur

Húsið sem nú er Hótel Djúpavík var byggt á 3ja áratug síðustu aldar fyrir konur sem unnu á söltunarplaninu við söltun síldar. 

Þá kallaðist það Kvennabragginn. Það var síðan gert upp árið 1985 og það sumar komu síðan fyrstu gestirnir á hótelið.

Við bjóðum upp á morgunverðarhlaðborð og kvöldmat í matsal sem er mjög sérstakur og fallegur. Kaffi og te eru frítt og brauð og kökur eru á boðstólum yfir daginn, ásamt léttum veitingum í hádeginu.


Listasafn Reykjavíkur - Hafnarhús

Tryggvagata 17, 101 Reykjavík

Listasafn Reykjavíkur er staðsett í Hafnarhúsi, á Kjarvalsstöðum og í Ásmundarsafni. Safnið býður upp á fjölbreyttar sýningar og viðburði og er opið alla daga vikunnar. Þá gildir sami aðgöngumiðinn í öll húsin. Safnið er stærsta listasafn hér á landi og hýsir verk margra þekktustu og ástsælustu listamanna þjóðarinnar.

Hafnarhúsið býður reglulega upp á sýningar á samtímalist m.a. eftir innlenda og erlenda listamenn og ýmiss konar viðburði eins og tónleika, málþing og fyrirlestra. Húsið er heimkynni Errósafnsins og þar eru alltaf sýningar á verkum listamannsins. 6 sýningarsalir eru í húsinu auk verslunar.

Safnahúsið

Hverfisgata 15, 101 Reykjavík

Listasafn Íslands sýnir perlur íslenskrar myndlistar í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Lykilverk úr safneign veita innsýn inn í íslenska listasögu frá aldamótunum 1900 til dagsins í dag.

Aðgöngumiði gildir einnig í Listasafn Íslands við Fríkirkjuveg, Safn Ásgríms Jónssonar og Safn Sigurjóns Ólafssonar.

Hernámssetrið

Hvalfjarðarströnd, 301 Akranes

Á Hernámssetrinu er rakin einstök og merkileg saga hernáms á árunum 1940 til 1945, saga sem breytti friðsælli sveit í umgjörð heimsviðburða og skipti sköpum fyrir sigur bandamanna í síðari heimsstyrjöld. Þar getur að líta vandað safn minja og minninga sem tengjast sögu hernáms í Hvalfirði á þessum örlagaríku umrótatímum.
Hernámssetrið rekur sögu hersetunnar og skipalest- anna, sem lögðu upp í langa og erfiða siglingu frá bækistöðinni í Hvalfirði, og gefur innlendum og erlendum ferðamönnum kost á að kynna sér þessa sögu og arfleifð hennar.

Einnig kaffihús, þar sem boðið er upp á léttar veitingar, kaffi og kökur.

Opið 1. júní - 26. ágúst: miðvikudaga, fimmtudaga og föstudaga frá 13:00 til 17:00 og laugardaga og sunnudaga frá 10:00 til 17:00. Lokað mánudaga og þriðjudaga.

Stórt tjaldsvæði fyrir tjöld, hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna. Á tjaldsvæðinu er hægt að komast í rafmagn, auk þess sem þar eru tvö tunnugrill, leiksvæði fyrir börnin og góð salernisaðstaða, auk þess sem hægt er að fara í sturtu og vaska upp undir berum himni. Aðstaða er fyrir tæmingu salerna frá húsbílum. Tjaldsvæðið er opið frá 1. júní til 26. ágúst.

Melrakkasetur Íslands

Eyrardalur 4, 420 Súðavík

Melrakkasetur Íslands er fræðasetur sem helgað er íslenska melrakkanum sem er af tegundinni Vulpes lagopex og er eina upprunalega landspendýrið á Íslandi.

Melrakkasetur Íslands ehf. var stofnað í Súðavík 15. september 2007 og meðal stofnfélaga eru einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög. þessir aðilar eiga það sameiginlegt að hafa áhuga á íslensku tófunni og öllu sem henni viðkemur, svo og náttúrulífs- og sögutengdri ferðaþjónustu.

Langtímamarkmið með stofnun setursins eru þau að safna saman á einn stað allri þekkingu, efni og hlutum sem tengjast melrakkanum í fortíð og nútíð. Að setja upp sýningu fyrir ferðamenn þar sem mun verða á boðstólnum fræðandi efni í máli og myndum um refi í náttúrunni, hérlendis sem erlendis, refarækt og refaveiðar. Ennfremur að stuðla að og taka þátt í rannsóknum á líffræði tegundarinnar og þróun sjálfbærrar náttúrulífs-ferðamennsku.

Opið:

  • Maí: 10:00-16:00
  • Júní - Júlí: 09:00-18:00
  • September: 10:00-16:00
  • 01. október - 14. maí:  eftir samkomulagi

 

Samansafnið

Sólheimar, 846 Flúðir

Opið allt árið samkvæmt samkomulagi. Vinsamlegast hringið í okkur eða hafið samband í gegnum Facebook síðuna okkar. .

Melódíur minninganna - Jón Kr. Ólafsson

Reynimelur / Tjarnarbraut 5, 465 Bíldudalur

Tónlistarsafn Jóns Kr. Ólafssonar á heimili hans á Bíldudal er eitthvað sem enginn sem á leið um svæðiðl ætti að láta fram hjá sér fara. Þar kennir svo sannarlega margra grasa og Jón er líka afbragðsfróður og skemmtilegur heim að sækja.
Í safninu Melódíur minninganna - ljósm. Árdís og Harpa
Safnið var opnað þann 17. júní árið 2000 og eru þar margar gersemar íslenskrar tónlistarsögu. Hér má finna skemmtilega muni sem tengjast mörgum af fremstu tónlistarmönnum þjóðarinnar, s.s. Hauki Mortens, Ellý og Vilhjálmi og Ingimar Eydal.

Safnið var opnað þann 17. júní árið 2000 og eru þar margar gersemar íslenskrar tónlistarsögu. Hér má finna skemmtilega muni sem tengjast mörgum af fremstu tónlistarmönnum þjóðarinnar, s.s. Hauki Mortens, Ellý og Vilhjálmi og Ingimar Eydal.

Opið kl. 13-18 og eftir samkomulagi.

Svavarssafn - Listasafn Svavars Guðnasonar

Hafnarbraut 27, 780 Höfn í Hornafirði

Svavarssafn er lifandi og framsækið listasafn á Höfn í Hornafirði. Í safninu fer fram fjölbreytt sýningarhald á íslenskri myndlist en sérstök áhersla er lögð á tengsl við heimahagana. Sveitarfélagið Hornafjörður er víðfemt svæði sem einkennist af stórbrotnu landslagi, náttúru og birtu sem á vart sinn líka. Svavarssafn er vettvangur til þess að upplifa umhverfið í listrænu samhengi en löngum hafa íslenskir listamenn sóst eftir því að fanga sjónarspil birtunnar undir jökli.

Starfsemi safnsins endurspeglar stöðu þess sem einmenningssafn stofnað til heiðurs Svavari Guðnasyni listmálara (1909-1988). Stofn safnsins var rausnarleg gjöf frá Ástu Eiríksdóttur, ekkju listmannsins, og í dag á safnið rúmlega 500 verk eftir Svavar og fleiri hornfirska listamenn. Að jafnaði eru settar upp þrjár sýningar sem varpa ljósi á verk samtímalistamanna sem og verk úr safneign. Safnið er opið allt árið um kring og er gengið inn um Ráðhúsið.

Við bjóðum alla gesti velkomna í safnið og aðgangseyrir er enginn.

Vetraropnun
1.nóv - 28.feb.
Virka daga 09:00-15:00
Lokað um helgar

Sumaropnun
1.mars - 31.okt
Virka daga 09:00-17:00
15.maí-15.sept
Laugardaga 13:00-17:00

Eldstó Art Café Restaurant

Austurvegur 2, 860 Hvolsvöllur

Eldstó Art Café Restaurant er listrænt kaffihús þar sem að bollinn sem þú drekkur úr er handgerður á staðnum.

Í Eldstó Café er boðið upp á handgerða kaffidrykki, frábærar kökur, smárétti, kjöt- og fiskrétti, sem og eitthvað ljúfengt fyrir grænmetisætur.

Eldstó Art Gallery er rekið af listahjónunum Þór Sveinssyni, leirkerasmiði og G.Helgu Ingadóttur söng-og leirlistakonu, sem og listmálara. Þau skapa nytjalist, sem að fátíð er á Íslandi í þeirri mynd sem að sést í Eldstó. Hægt að upplifa listina á staðum, í góðum kaffibolla. "Eldfjallaglerungar" unnir úr Hekluvikri, Búðardalsleir og öðum eldfjallaefnum eru á hlutunum í Eldstó. Á Skjánum í Eldstó má sjá myndbönd sem að sýna þau hjónin við vinnu sína. Íslensk hönnun, íslenskt handverk, það er það sem þú færð í Eldstó Art Gallery.

Rúnalist Stórhól - Handverk og húsdýr

Stórhóll, 560 Varmahlíð

Stórhóll er staðsettur í Skagafirði í Lýtingsstaðahreppi hinum forna, um 18 km í suður frá Varmahlíð við veg 752 Skagafjarðarveg.  

Stórhóll er 50ha að stærð, ein af nýbýlajörðum ríkisins sem búnar voru til um 1950. Frá 1995 leigðum við jörðina en 2008 var okkur heimilt að kaupa jörðina. Í upphafi voru ærnar 33 og hrossin innan við 10 og einn flækingsköttur. Í dag, 24 árum seinna er bústofninn 120 ær, gemlingar og hrútar 30 geitur og hafrar, rúmlega 30 hross, hænur , endur, hundar , kettir og kanínur.  

Árið 2011 festum við kaup á 3 gámum sem byggðir voru svo saman en þar er nú Rúnalist Gallerí, vinnustofa og lítil búð þar sem selt er handverk og afurðir búsins, kjöt og egg Beint frá Býli en við erum einnig félagar í þeim samtökum.

Við erum einnig í Opnum Landbúnaði og tökum á móti fólki til að skoða og fræðast um dýrin, gegn vægu gjaldi.

Byggðasafnið í Skógum

Skógar, 861 Hvolsvöllur

Skógasafn er eitt elsta byggðasafn landsins en safnið var fyrst opnað almenningi árið 1949. Safnkosturinn samanstendur núna af meira en 18 þúsund munum að mestu frá Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu. Safnið er sérstaklega þekkt fyrir Þórð Tómasson, sem var safnvörður til fjölda ára og bar ábyrgð á mestri söfnuninni. Skógasafn fagnaði 70 ára afmæli árið 2019 og í tilefni þess var sett upp ný sýning um sögu safnsins.

Skógasafn skiptist í raun í þrjú söfn: byggðasafn, húsasafn og samgöngusafn. Byggðasafnið er elsti hlutinn og sýningarhúsnæðið er á þremur hæðum. Þar má finna sjósóknardeild, landbúnaðardeild, náttúrugripadeild, vefnað, forn handrit og bækur, þar á meðal eintak af Guðbrandsbiblíu frá 1584, ásamt munum frá Víkingaöld.

Í húsasafninu má þar finna góða fulltrúa fyrir húsagerð fyrr á öldum. Á neðri hluta sýningarsvæðisins setur torfbærinn mikinn svip á sýningarsvæðið. Þar eru saman komin fjós, skemma, baðstofa, hlóðaeldhús, búr og stofa.
Á efri hluta sýningarsvæðisins er að finna skólabyggingu sem er dæmigerð fyrir sveitaskóla í upphafi 20. aldar. Einnig er þar kirkja og fjósbaðstofa ásamt skemmu. Efst er elsta íbúðarhús úr timbri á safnsvæðinu, byggt í Holti á Síðu 1878.

Í Samgöngusafninu er rakin saga samgangna og tækniþróunar á Íslandi á 19. og 20. öld. Þar má meðal annars kynnast þróun samgangna frá hestum til bíla, sögu símans á Íslandi, upphaf rafmagnsnotkunar ásamt póstsamgöngum fyrr á tímum. Þar er einnig til sýnis bílar frá upphafi bílaaldar, vegminjar frá Vegagerðinni, fjarskiptasafn Sigurðar Harðarsonar og sýning Landsbjargar um björgunarsveitirnar í landinu ásamt mörgu öðru. 

Samstarfsaðilar eru: Vegagerð ríkisins, Íslandspóstur, Síminn, Míla, Rarik, Landsbjörg og Þjóðminjasafnið. Í Samgöngusafninu er einnig að finna minjagripaverslun og kaffiteríu.

Þið finnið okkur á Facebook hér.
Þið finnið okkur á Instagram hér

Kómedíuleikhúsið

Haukadalur, Dýrafirði, 471 Þingeyri

 Kómedíuleikhúsið er eina atvinnuleikhús Vestfjarða með bækistöðvar í Dýrafirði. Leikhúsið er með eigið leikhús í Haukadal í Dýrafirði sem ku vera minnsta atvinnuleikhús á Íslandi. 

Á heimasíðu okkar www.komedia.is og facebook síðu Kómedíuleikhússins eru ávallt nýjustu fréttir af hvaða leiksýningar eru á fjölunum hverju sinni í minnsta atvinnuleikhúsi á Íslandi. 

Allir nánari upplýsingar og miðasala er í síma 891 7025. Einnig er hægt að kaupa miða á allar sýningar okkar í Haukadal á tix.is   

Listasafnið á Akureyri

Kaupvangsstræti 12, 600 Akureyri

 Listasafnið á Akureyri er yngsta listasafnið á landinu. Hugmyndin að stofnun þess kom upphaflega frá Jónasi Jónssyni frá Hriflu í blaðagrein sem hann skrifaði árið 1960. Þrír áratugir liðu uns hugmyndin um Listasafnið á Akureyri komst aftur í umræðuna og varð hún loksins að veruleika á afmælisdegi bæjarins þann 29. ágúst 1993. Listasafnið á Akureyri er til húsa þar sem áður var Mjólkursamlag KEA, en byggingin er undir sterkum áhrifum frá Bauhaus-skólanum og hinni alþjóðlegu funkis-hreyfingu. Listasafnið á Akureyri er miðpunktur og sameiningartákn þessarar Listamiðstöðvar í Grófargili.



Listasafnið á Akureyri leggur áherslu á að virkja sem flesta til þátttöku, að fræða almenning um sjónlistir og efla umræðu um samfélagið, menningu og listir þar sem safnkennsla og fyrirlestrahald skipar stóran sess. Þá er einnig lögð áhersla á samstarf við erlenda aðila, ekki hvað síst á norðurlöndum. Safnið leitast við að setja upp árlega nokkrar metnaðarfullar sýningar til að efla menningarlíf bæjarins, auka við þekkingu, áhuga og efla skilning á sjónlistum.



Útgerðaminjasafnið á Grenivík

Sæland/Hlíðarendi, 610 Grenivík

Opið 1. júní-31.ágúst, alla daga frá 13-17.
Safnið var opnað sumarið 2009 í gömlum beitinga­skúr sem heitir Hlíð­ar­endi og var byggð­ur um 1920 á grunni gam­allar sjó­búðar. Í safninu eru ýmis veið­ar­færi, munir og verk­færi sem til­heyrðu línu­út­gerð smærri báta á fyrri hluta 20. ald­ar. Þar eru m.a. báru­fleygur, seil­ar­nál, heillás, fiska­sleggja, súgur, bora, fuða, hneif, pilk­ur, díxill og drífholt. Safnið á einnig tvo báta.
Ýmiss konar starf­semi hefur farið fram í húsinu. Þar hefur verið beitt, gert að og salt­að, sof­ið og dans­að. Við ákveðin tæki­færi er að Hlíðar­enda bar­inn bút­ungur og rifnir haus­ar og gest­um boðið að smakka harð­fisk gamla tím­ans.

Kötlusetur

Víkurbraut 28, 870 Vík

Í hjarta gamla Víkurþorps finnið þið Brydebúð, glæsilegt timburhús frá 1895. Þar er Kötlusetur til húsa, miðstöð menningar, fræða og ferðamála í Mýrdal. 

Kannið náttúru Kötlu UNESCO jarðvangs á Kötlusýningunni. Handleikið mismunandi bergtegundir, skoðið eldfjallaösku allt aftur til ársins 1860 og sjáið stuttmynd um sögur af Kötlugosum í gegn um aldirnar. 

Uppgvötvið sögu strandaðra skipa á svörtum söndum Suðurlands og kynnist happaskipinu Skaftfellingi á Sjóminjasafninu Hafnleysu. Setjið ykkur í spor sjómanna í baráttu sinni við hina hafnlausu strönd. 

Í upplýsingamiðstöðinni lærið þið hvernig er best að upplifa Mýrdalinn. Verslið vöru úr heimabyggð og kannið Vík með því að keppa í Fjársjóðleik Kötluseturs eða ganga hinn glænýja Menningarhring. Kort af svæðinu með öllum sínum spennandi útivistartækifærum fást hér!   

Nýlistasafnið

Grandagarður 20, 101 Reykjavík

Nýlistasafnið var stofnað árið 1978 af breiðum hópi myndlistamanna, sumir hverjir höfðu verið meðlimir í SÚM og aðrir voru enn við nám. Nýló er listamannarekið safn og sýningarrými, vettvangur uppákoma, umræðna og gagnrýnar hugsunar.    

Markmið Nýlistasafnsins eru að:
• vera miðstöð nýrra strauma og tilrauna í myndlist
• efla hugmyndafræðilega umræðu um samtímalist
• vera vettvangur fyrir unga myndlistarmenn
• gegna almennum skyldum listasafns um söfnun og miðlun
• safna og varðveita listaverk eftir velunnara safnsins
• styrkja stöðu sína sem helsta samtímalistastofnun landsins

Sýningarrými, bókabúð og skrifstofur:
Marshallhúsið
Grandagarði 20
101 Reykjavík

Opnunartími:
Opið þriðjudaga til sunnudaga 12.00 – 18.00 - safnið sjálft er opið miðvikudaga - sunnudaga 12:00-18:00
Opið lengur seinasta fimmtudag hvers mánaðar: 12.00 – 21.00
Lokað á mánudögum og þriðjudögum á safninu, hægt er að ná á skrifstofu símleiðis þriðjudaga 11:00-15:00

Safneing, rannsóknar- og verkefnaaðstaða
Völvufelli 13 – 21
111 Reykjavík

Opið samkvæmt samkomulagi

Gistiheimilið Kiðagil

Barnaskóla Bárðdæla, 645 Fosshóll

Opið fyrir veisluhöld allt árið. Uppbúin rúm og svefnpokagisting í boði. Vinsamlegast hafið samband vegna verðlista og bókana.

Tjaldsvæði er staðsett í miðjum Bárðardal vestan Skjálfandafljóts um 23 km frá þjóðvegi 1 eða um það bil 20 kílómetrum eftir að komið er niður af Sprengisandi.

Fallegir fossar eins og Goðafoss, Aldeyjarfoss og Hrafnabjargarfossar eru í nágrenninu.

Tjaldsvæði á friðsælum og rólegum stað. Salernis- og sturtuaðstaða ásamt aðgangi að rafmagni. Fótboltamörk og leikvöllur á staðnum.

Fín aðstaða fyrir ættarmót.

SEA LIFE Trust Beluga Whale Sanctuary

Ægisgata 2, 900 Vestmannaeyjar

Sögusafn Sólheima

Sólheimar, 805 Selfoss
Sögusafn Sólheima opnaði formlega haustið 2022 í elsta húsi staðarins, Sólheimarhúsi. Það hefur verið innrétt í upprunalegt horf og má þar finna aragrúa fróðleik um sögu staðarins og um Sesselju Hreindísi Sigmundsdóttur stofnenda Sólheima. Heimildarmyndin um Sesselju er þar til áhorfs, hún er um 50 mínútur að lengd. Aðgangseyrir er 1.500 kr, 700 kr fyrir 12-18 ára og frítt fyrir 12 ára og yngri. Einnig er frítt fyrir eldri borgara og fólk með fötlun. Það er enginn almennur opnunartími en hafið samband við sesseljuhus@solheimar.is eða í síma 855-6080 til að semja um opnun fyrirfram, sér í lagi hópar. Verið velkomin!

Sagnheimar, byggða- og náttúrugripasafn

Safnahúsið við Ráðhúströð, 900 Vestmannaeyjar

Sagnheimar segja einstaka sögu Vestmannaeyja. Má þar einkum nefna:

Tyrkjaránið 1627: 16. júlí 1627 læddust þrjú skip upp að austurströnd Heimaeyjar og á land stigu 300 sjóræningjar. Í þrjá daga æddu þeir um eyjuna með hrópum og köllum, hertóku fólk og drápu miskunnarlaust. Af um 500 íbúum höfðu sjóræningjarnir með sér 242 fanga til skips og seldu á þrælamarkaði í Alsír. Saga Tyrkjaránsins er hér sögð í formi teiknimynda.

Fyrir yngri kynslóðina:
Á safninu er sjóræningjahellir þar sem börn geta klætt sig upp sem sjóræningja og leitað að fjársjóði. Einnig er svokallað snertisafn í boði fyrir börn og fullorðna, þar sem meðhöndla má valda muni safnsins.

Vesturfarar: Mormónar eiga sitt sögusvæði á safninu. Fyrstu íslensku mormónatrúboðarnir, Þórarinn Hafliðason í Sjólyst í Vestmannaeyjum og Guðmundur Guðmundsson í Ártúni á Rangárvöllum, störfuðu í Vestmannaeyjum og á árunum 1854-1914 fóru um 200 Eyjamenn til Vesturheims í leit að betri heimi. Þrjú þeirra, Samúel Bjarnason og Margrét Gísladóttir á Kirkjubæ ásamt vinkonu þeirra, Helgu Jónsdótur frá Landeyjum, urðu 1854 fyrstu Vesturfararnir er þau settumst að í Spanish Fork, Utah.

Herfylkingin: Eyjamenn geta einir landsmanna státað að því að hafa stofnað sína eigin herfylkingu er Adreas August von Kohl eða kapteinn Kohl sýslumaður kom henni á laggirnar árið 1855.

Hættulegasta starf í heimi? Sjómennskan og fiskvinnsla skipa mikilvægasta sessinn í lífi Eyjamanna. Fjallað er um þróun fiskveiða, sjómannslífið, hættur og hetjudáðir, björgunarstörf, vinnslu í landi og verbúðarlíf í máli og myndum í viðbót við muni frá fyrri tíð. Í gamalli talstöð má heyra bæjarbúa segja sögu sjóslysa.

Þjóðhátíð: Þjóðhátíðin var fyrst haldin árið 1874 og nær árlega frá aldamótunum 1900. Hún er mikilvægt sameiningartákn Eyjamanna með öllum sínum hefðum og siðum. Á safninu er boðið til sætis í hefðbundnu Þjóðhátíðartjaldi heimamanna.

Opnunartími:
1. maí - 30. september: Alla daga kl. 10:00-17:00.
1. október - 30. apríl: Laugardaga kl. 12:00-15:00 og eftir samkomulagi.

Snorrastofa Reykholti

Reykholt, 320 Reykholt í Borgarfirði

Reykholt í Borgarfirði er einn sögufrægasti staður landsins. Þar er eitt elsta mannvirki á Íslandi, Snorralaug.

Snorrastofa var reist til minningar um Snorra Sturluson og einstæð verk hans. Stofnunin vinnur að rannsóknum í miðaldafræðum og sögu Borgarfjarðar og miðlar þekkingu með sýningum, ýmsum viðburðum, ráðstefnuhaldi og bókaútgáfu. Einnig er þar safnabúð með íslensku handverki, listmunum og bókum um sagnfræði og bókmenntir.

Gamla kirkjan í Reykholti var reist 1885-86 og var í notkun sem sóknarkirkja til 1996. Hún tilheyrir nú húsasafni Þjóðminjasafns Íslands sem annast viðgerð hennar. Snorrastofa sér um gömlu kirkjuna á vegum Þjóðminjasafns, en hún er opin gestum staðarins.

Nýja kirkjan í Reykholti var vigð 28. júli 1996. Hún er rómuð fyrir góðan hljómburð og eru þar haldnir tónleikar allt árið. Hápunktur tónleikahalds er Reykholtshátið, sem haldin er í lok júli ár hvert.

Í Snorrastofu er gestahúsnæði fyrir gesti Snorrastofu og Reykholtskirkju og aðstaða fyrir ráðstefnur og mannamót. Snorrastofa er einnig svæðismiðstöð fyrir upplysingar um næsta nágrenni.
Opið: Virkir dagar: Laugardagar: Sunnudagar:
1. maí - 31. ágúst: 10:00-17:00 10:00-17:00 10:00-17:00
1. september - 30. apríl: 10:00-17:00 Lokað Lokað
Opið eftir samkomulagi um helgar yfir veturinn.

Íslenski bærinn

Asutur-Meðalholt, 803 Selfoss

Íslenski bærinn fóstraði þjóðina í aldanna rás og var um leið vagga innlendrar menningar,allt í senn  fallegur, frumlegur og fínlegur  í sinni náttúrulegu mýkt. Menningarsetrið Íslenski bærinn er húsaþorp, sýningarstaður, samkomustaður og leikvöllur sem hverfist um íslenska torfbæinn og græna byggingalist. Þar munu gestir upplifa einstakan staðaranda, jafnframt því að skoða sýningar sem útskýra samhengi, þróun og tilbrigði íslenskra torfbæja með það að leiðarljósi að túlka aldagamlan og einstakan arf inn í samtímann með samþættingu, fræðimennsku, listrænni nálgun og varðveislu verkmenningar.

Athyglisverður staður: Þar sem náttúran er hluti af húsinu.

Fuglasafn Sigurgeirs

Ytri-Neslönd, 660 Mývatn

Fuglasafn Sigurgeirs var opnað 17. ágúst 2008. Markmið safnsins er að veita fræðslu um fugla, lífríki Mývatns og hvernig Mývetningar nýttu vatnið sér til samgangna og framfærslu. Í safninu eru nánast allir íslenskir varpfuglar ásamt um 100 tegundum af eggjum.
Auk þessa er á sér-sýningu ýmiss búnaður sem heimamenn notuðu við veiðar á Mývatni í gegnum tíðina. 

Opnunartími:
1. júní-31. ágúst: 12:00-17:00 alla daga.
1. sept-31. maí: 14:00-16:00 alla daga.

Ef hópar eru á ferðinni á öðrum tíma er alltaf hægt að hringja og ath hvort við getum ekki opnað.

Ferðaþjónustan á Hólum

Hjaltadalur, 551 Sauðárkrókur

Á Hólum er boðið upp á gistingu í smáhýsum og íbúðum og er eldunaraðstaða og borðbúnaður í þeim öllum. Veitingastaðurinn Kaffi Hólar er í háskólabyggingunni og er opinn allt árið.

Hólar í Hjaltadal eru einn merkasti sögu- og menningarstaður landsins. Margt er að skoða á Hólum svo sem Háskólann, Hóladómkirkju, Auðunarstofu, Nýjabæ og Sögusetur íslenska hestsins.

Gott útivistarsvæði með merktum gönguleiðum við allra hæfi er á Hólum einnig eru í boði lengri og meira krefjandi leiðir.

Vinsamlegast hafið samband vegna verðlista og bókana.  Hundar eru leyfðir á tjaldsvæðinu.

Flóra menningarhús

Sigurhæðir, 600 Akureyri
Flóra menningarhús í Sigurhæðum er einstakur staður í gróðurkvos miðbæjar Akureyrar. viðburðir - verslun - vinnustofur

Hallgrímskirkja

Hallgrímstorg, 101 Reykjavík

Opnunartími yfir sumartímann 16. maí – 30. september: Kl. 10-20. Turninn opinn til kl. 19.30

Gjald fyrir fullorðna er kr. 1.200 og fyrir börn 7-16 ára kr. 200. 

Gjald fyrir eldri borgara ( +67), öryrkja og námsmenn: kr 1000

Myndasafn Minjafélagsins

Vogar, 190 Vogar

Elstu myndirnar eru frá því um 1920 en flestar frá miðbiki 20. aldar. Sem dæmi eru nokkrar myndir frá Stóru Vatnsleysu skráðar á Einar G. Þórðarson (1931-1999) þó svo eigandi myndanna nú sé ekkjan Alice Þórðarson og börn þeirra. Sesselja G. Guðmundsdóttir safnaði myndunum og skráði með styrk frá Menningarráði Suðurnesja árið 2008-2009 sem og hreppsbúum. Myndasafnið er í umsjón Minjafélags Sveitarfélagsins Voga. 

Grund - Forndráttavélar til sýnis

Grund, 380 Reykhólahreppur

Opið eftir samkomulagi.

Landnámssýningin - Borgarsögusafn

Aðalstræti 16, 101 Reykjavík

Á sýningunni er fjallað um landnám í Reykjavík og byggt er á fornleifarannsóknum sem fram hafa farið í miðbænum. Miðpunktur sýningarinnar er skálarúst frá 10. öld, sem fannst þegar grafið var fyrir nýju húsi á horni Aðalstrætis og Túngötu. Búið var í skálanum frá því um 930 til 1000. Norðan við skálann fannst veggjarbútur sem er ennþá eldri, eða frá því um eða fyrir 871 og eru það elstu mannvistarleifar sem fundist hafa á Íslandi. Á Landnámssýningunni er lítil safnbúð og fjölskylduhorn. Unnið er að stækkun Landnámssýningarinnar sem ráðgert er að opni síðla árs 2022. 

Landnámssýningin heyrir undir Borgarsögusafn – Eitt safn á fimm frábærum stöðum.

Sýningin er opin alla daga 10-17.

Glaumbær í Skagafirði

Glaumbær, 561 Varmahlíð

Bærinn í Glaumbæ er samstæða þrettán húsa og á bæjarhólnum, þar sem bærinn stendur, hafa hús staðið í mörg hundruð ár. Glaumbær er torfríkasti bær landsins þar sem grjót í veggjahleðslu er vanfundið í Glaumbæjarlandi á meðan torfrista er góð. Veggirnir í bænum eru hlaðnir úr klömbrum, sniddu og streng en rekaviður og innfluttur viður eru í grindum og þiljum. Bæjarhúsin eru misgömul að efni og gerð en fólk byggði húsin eftir því hvort þörf var á stærri eða minni húsum er kom að endurnýjun. 

Sagnir herma að Snorri Þorfinnsson, sonur Þorfinns karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur, hafi byggt fyrstu kirkjuna í Glaumbæ í kringum árið 1000. Árið 2002 fundust leifar húsa frá 11. öld í túninu austur af bæjarhólnum og virðist sem bæjarhúsin hafi verið flutt um set um 1100 og færð þangað sem þau eru nú.  

Það skipti sköpum fyrir varðveislu Glaumbæjar að breski Íslandsvinurinn Mark Watson (1906-1979) gaf 200 sterlingspund til varðveislu bæjarins árið 1938. Bærinn var síðan friðlýstur árið 1947 og sama ár fluttu síðustu íbúarnir út. Árið 1948 var Byggðasafn Skagfirðinga stofnað og fékk það Glaumbæ fyrir starfsemi sína, samkvæmt samningi við Þjóðminjasafn Íslands. Fyrsta sýning safnsins var síðan opnuð þar þann 15. júní árið 1952 og fjallaði hún, þá sem nú, um mannlíf í torfbæjum.  

Opnunartími:
20. maí - 20. september: daglega 10:00 - 18:00
21. september - 20. október: virka daga 10:00 - 16:00
21. október - 31. mars: eftir samkomulagi
1. apríl - 19. maí: virka daga 10:00 - 16:00

Aðgangseyrir í Glaumbæ 2023 og 2024:
Fullorðnir (18 ára og eldri): 2.000 kr.
Hópar (6+), námsmenn, eldri borgarar og öryrkjar: 1.700 kr.
Börn (17 ára og yngri): frítt.

Aðgangur ókeypis fyrir korthafa FÍSOS, ICOM og ICOMOS. 

Almenn leiðsögn um safnsvæði fyrir stærri hópa: 2.000 kr.
Einkaleiðsögn (gjald leggst ofaná aðgangseyri - mest 12 manns) 15.000 kr.

Séropnun utan almenns opnunartíma: 15.000 kr. + aðgangseyrir.
ATH. Nauðsynlegt að bóka með fyrirvara og aðgangseyrir greiðist að auki.

Sameiginlegur aðgangsmiði í Víðimýrarkirkju og Glaumbæ:
Fullorðnir (18 ára og eldri): 2.300 kr.
Hópar (6+), námsmenn, eldri borgarar og öryrkjar: 2.000 kr.
Börn (17 ára og yngri): frítt

Miðana má kaupa í Víðimýrarkirkju eða í Glaumbæ. Gilda fyrir samdægurs heimsókn í Glaumbæ og Víðimýrarkirkju.

Listasafn Sigurjóns Ólafssonar

Laugarnestangi 70, 105 Reykjavík

Höggmyndasafn við sjóinn

Safnið er tileinkað myndhöggvaranum Sigurjóni Ólafssyni (1908–1982), stofnað á heimili hans og vinnustofu og opnað almenningi árið 1988.

Auk þess að kynna list Sigurjóns og annarra er safnið vettvangur menningar- og listviðburða, eins og hinnar vinsælu sumartónleikaraðar. Í safninu er kaffistofa með mikilfenglegu útsýni yfir Sundin og verk Sigurjóns prýða umhverfi safnsins.

Opnunartími:
1. júní – 15. september: daglega nema mánudaga kl. 13-17
16. september – 31. maí: lau og sun kl. 13–17
Safnið er lokað í desember og janúar

Safnahús Vestmannaeyja

Ráðhúsatröð, 900 Vestmannaeyjar

Í Safnahúsi Vestmannaeyja má finna mikla og fjölbreytta safnaflóru og starfsemi. Safnahúsið stendur við Ráðhúströð og hýsir bókasafn, héraðsskjalasafn, listasafn, ljósmyndasafn og byggðasafnið Sagnheima, auk sérstaks sýningarrýmis.

Opið allt árið, sjá nánar um opnunartíma í kynningu á Sagnheimum og Bókasafni.

Pönksafn Íslands

Bankastræti , 101 Reykjavík

Hnjótur - Minjasafn Egils Ólafssonar

Hnjótur, Örlygshöfn, 451 Patreksfjörður

Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti Örlygshöfn varðveitir einstætt safn gamalla muna frá sunnanverðum Vestfjörðum sem veita okkur innsýn í sögu sjósóknar, landbúnaðar og daglegs lífs. Þar er einnig að finna sýningu um björgunarafrekið við Látrabjarg árið 1947 og hattinn hans Gísla á Uppsölum.

Egill Ólafsson var fæddur og uppalinn á Hnjóti og byrjaði ungur að safna munum. Með áhuga sínum og framsýni varð til þetta merka minjasafn sem Egill og kona hans Ragnheiður Magnúsdóttir byggðu upp og gáfu sveitafélögunum í Vestur-Barðastrandarsýslu.

Í safninu er kaffitería, minjagripaverslun og svæðisupplýsingamiðstöð.

Safnið er opið frá kl. 10-18 frá 1. maí- 30. september. Hægt er að hafa samband ef áhugi er að heimsækja safnið utan fasts opnunartíma (museum@hnjotur.is eða síma 456-1511).

Dyngjan - listhús

Fíflbrekka, 605 Akureyri
Dyngjan-listhús bíður upp á einstaka listmuni, fræðslu og upplifun á einni fegurstu sveit Íslands. Hér hef ég, Hadda, vinnustofu og sölugallerý sem er opið öllum flesta daga ársins. Áhugasvið mitt er allt sem tengist sköpun og náttúru, ég vinn gjarnan úr efnum úr nánasta umhverfi, nýt það sem til fellur og endurnýt. Málverkin og vefnaðurinn er þó einnig unnin úr innfluttu efni. Það er dásamlegt að njóta fegurðar Eyjafjarðarsveitar og koma við í Dyngjunni-listhúsi. Tilvalið tækifæri fyrir vinahópa að breyta til og koma á örnámskeið í fallegu umhverfi og spennandi stað.

Galdrasýning á Ströndum

Höfðagata 8-10, 510 Hólmavík

Galdrasafnið opnaði árið 2000 á Hólmavík og hefur síðan verið mjög vinsæll viðkomustaður meðal ferðafólks, enda er sýningin mjög vel heppnuð og mikið til hennar vandað. Á sýningunni er fjallað um íslensk galdramál og þjóðtrú tengdri viðfangsefninu. Þar kynnast gestir sérstökum galdramálum og fólkinu sem kom við sögu. Einnig er m.a. hægt að kynna sér hvernig vekja skal upp drauga eða kveða þá niður, koma sér upp nábrókum og gera sig ósýnilegan.

Sumaropnun 15. maí - 30. september: Daglega10:00 - 18:00
Vetraropnun 1. október- 14. maí: Daglega 12:00-18:00

KVIKAN - Auðlinda- og menningarhús

Hafnargata 12a, 240 Grindavík

Á efri hæð hússins er sýningin „Saltfiskur í sögu þjóðar“. Sýningin ætti að geta að vera forvitnileg fyrir erlenda ferðamenn, fróðleg fyrir skólafólk, sem getur hér kynnt sé mikilvægasta atvinnuveginn, og ánægjuleg fyrir hinn almenna Íslending sem fer í helgarbíltúr með fjölskylduna. 

Þegar leið á 18. öldina, og þilskip tóku að leysa áraskipin af hólmi, varð saltfiskur aðalútflutningsvara Íslendinga. Fram að því höfðu vaðmál og skreið verið undirstaða utanríkisverslunar. Með tilkomu togaranna varð saltfiskverkun í raun að stóriðju og saltfiskur hefur æ síðan skipt verulegu máli fyrir afkomu þjóðarbúsins. Grindvíkingar hafa löngu verið drjúgir við að saltfiskinn og sýningum sögu verkunar og sölu á saltfiski og þýðingu hans fyrir þjóðarbúið í gegn um tíðina á því vel heima í þessu ágæta sjávarplássi við suðurströndina.

Sýningar textar eru bæði á íslensku og ensku.

 

Opnunartími                  

15. maí – 31. ágúst        alla daga kl. 11-17

1. September - 14. maí  alla daga nema sunnudaga kl 11-17

Aðgangur er ókeypis

Einnig hægt að taka á móti hópum utan afgreiðslutíma eftir samkomulagi.

Ferðaþjónustan Dalbæ

Snæfjallaströnd, 401 Ísafjörður

Frá og með 25. júní og til 8. ágúst verður rekin ferðaþjónusta í Dalbæ á Snæfjallaströnd á vegum Snjáfjallaseturs og Sögumiðlunar, netfang olafur@sogumidlun.is

Opið verður kl. 10-20, alla daga vikunnar. Bergljót Aðalsteinsdóttir (gsm 6904893) Vigdís Steinþórsdóttir (gsm 863 5614), Vera Rún Viggósdóttir (gsm 690 8258) og Agnes Hjaltalín Andradóttir (gsm 8671102) munu sjá um ferðaþjónustuna.

Verð á ferðaþjónustímanum:
Svefnpokapláss með aðgangi að öllu kr 7000
Yngri en þrettán ára fá frítt á tjaldstæði en greiða í sturtu
Tjaldstæði með aðgangi að salerni kr 2000 - önnur nótt kr. 1500
Rafmagn v/ húsbíls, tjaldvagns kr 1200
Sturta kr. 500
Þvottur, hver vél kr. 500

Ingibjörg Kjartansdóttir tekur við pöntunum utan ferðaþjónustutímans (gsm 8681964), unidalur34@gmail.com .

Listasafn Reykjavíkur - Kjarvalsstaðir

Flókagata 24, 105 Reykjavík

Listasafn Reykjavíkur er staðsett í Hafnarhúsi, á Kjarvalsstöðum og í Ásmundarsafni. Safnið býður upp á fjölbreyttar sýningar og viðburði og er opið alla daga vikunnar. Þá gildir sami aðgöngumiðinn í öll húsin. Safnið er stærsta listasafn hér á landi og hýsir verk margra þekktustu og ástsælustu listamanna þjóðarinnar.

Kjarvalsstaðir bjóða upp á fjölbreyttar sýningar eftir þekkta listamenn, málþing, fyrirlestra og ýmiss konar viðburði. Fastur liður í starfsemi safnsins eru sýningar á verkum eftir Jóhannes S. Kjarval, eins ástsælasta listamanns þjóðarinnar. Mjög gott aðgengi er að húsinu og þar er verslun með listmunum og veitingastaður.

Jólagarðurinn

Sveinsbær, 603 Akureyri

Jólagarðurinn er sannkölluð töfraveröld jólanna aðeins tíu mínútna akstur frá miðbæ Akureyrar. Þar gefur að líta ógrynni hluta tengda jólum úr víðri veröld. Íslensk jól og jólasiðir eru í hávegum höfð, hangikjöt á bita og laufabrauð í mörgum myndum. Íslensku jólasveinarnir og foreldrar þeirra skapa veglegan sess. Vandað íslenskt jólahandverk úr smiðju hagleiksfólks víðsvegar að af landinu prýðir hillur. Einstakur staður sem öll fjölskyldan hefur gaman af því að heimsækja.  

Opnunartími:

júní - ágúst kl. 10.00 - 18.00
september - desember kl. 12.00 - 18.00
janúar - maí kl. 14.00 - 18.00

Skaftfell - myndlistarmiðstöð Austurlands

Austurvegur 42, 710 Seyðisfjörður

Skaftfell, myndlistarmiðstöð Austurlands, var stofnað 1998 af hópi áhugamanna um menningu og listir sem kallaði sig Skaftfellshópinn. Stofnár listamiðstöðvarinnar er einnig dánarár myndlistarmannsins Dieters Roth (1930-1998) en hann gegndi stóru hlutverki í menningarflóru Seyðfirðinga allt frá því að hann hóf að venja komur sínar í fjörðinn upp úr 1990. Skaftfellshópurinn samanstendur að miklu leyti af fólki sem naut mikilla og góðra samvista við Dieter og er tilurð miðstöðvarinnar sprottin úr þeim frjóa jarðvegi er hann átti þátt í að skapa á Seyðisfirði. 

Starfsemin er staðsett í gömlu og glæsilegu timburhúsi að Austurvegi 42 á Seyðisfirði og var gjöf frá hjónunum Karólínu Þorsteinsdóttur og Garðari Eymundssyni. Í dag má þar finna sýningarsal og litla verslun á annarri hæð, gestavinnustofu fyrir listamenn á þriðju hæð og bistró á jarðhæð sem einnig geymir bókasafn bókverka og listaverkabóka.

Starfsemi Skaftfells er helguð samtímamyndlist á alþjóðavísu. Miðstöðin þjónar jafnframt sem vettvangur fyrir listamenn og áhugafólk um listir til að skiptast á hugmyndum, taka þátt í skapandi samræðum og verða fyrir áhrifum hvert af öðru í umhverfinu. Í miðstöðinni er öflug sýninga- og viðburðadagskrá, starfræktar gestavinnustofur fyrir listamenn og boðið upp á fjölþætt fræðslustarf. Jafnframt er hægt er að skoða verk eftir alþýðulistamanninn Ásgeir Jón Emilsson (1931-1999) sem er að finna í Geirahúsi og er í eigu og umsjá Skaftfells. Hægt er að skoða húsið eftir samkomulagi. Einnig er hægt að skoða útilistaverkið Tvísöngur sem er hljóðskúlptúr eftir þýska listamanninn Lukas Kühne en verkið vann hann í samvinnu með Skaftfelli árið 2012. 

Skaftfell hlaut Eyrarrósina fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni árið 2013. 

Nánari upplýsingar um sýningarhald, aðra starfsemi Skaftfells og opnunartíma má finna á skaftfell.is  

Einnig er hægt að senda fyrirspurn á skaftfell@skaftfell.is

Menningarstofa Fjarðabyggðar

Dalbraut 2, 730 Reyðarfjörður

Menningarstofa Fjarðabyggðar starfar í Fjarðabyggð og undir henni Tónlistarmiðstöð Austurlands, en hún er miðstöð tónlistar á Austurlandi og er leiðandi í fræðslu og framþróun listgreinarinnar í landshlutanum.

Menningarstofa Fjarðabyggðar var sett á laggirnar árið 2017 og hlutverk hennar er að styðja við og efla menningarstarf í Fjarðabyggð á breiðum grundvelli. Öflugt og fjölbreytt menningarlíf er grundvallarþáttur í að gera Fjarðabyggð að góðum stað til að búa á, og þar leikur Menningarstofa lykilhlutverk.

Menningarstofa er vöktunaraðili menningarumhverfis í Fjarðabyggð sem felst í að greina þarfir ólíkra hópa samfélagsins og koma til móts við þarfir og langanir sem flestra. Menningarstofa starfar með fjölbreyttum aðilum í menningar- og listalífinu og styður þá og eflir til góðra verka. Menningarstofa leggur áherslu á að tryggja aðgengi allra íbúa svæðisins að menningu og listum, óháð búsetu, uppruna og þjóðfélagsstöðu. Menningarstofa Fjarðabyggðar er tengiliður við grasrótarsamtök á sviði menningar, svo sem áhugaleikfélög og kóra og stuðlar að góðu aðgengi til viðburðarhalds í húsnæði á vegum sveitarfélagsins.

Menningarstofa er tengiliður leik,- grunn- og tónlistarskóla, safna og annarra stofnana sveitarfélagsins við fagaðila úr skapandi greinum. Menningarstofa vinnur markvisst að auknu aðgengi að skapandi námi og starfi í samstarfi við fræðslustjóra, íþrótta- og tómstundarfulltrúa og Safnastofnun Fjarðabyggðar. Menningarstofa er vakandi fyrir því að draga svið og stofnanir að borðinu, leiða samstarf og leggja til samstarfsverkefni þar sem við á.

Tónlistarmiðstöð Austurlands var stofnuð 2001 og starfar samkvæmt samþykkt frá 2018 en í dag fer Menningarstofa Fjarðabyggðar fyrir starfseminni.

Tónlistarmiðstöð/Menningarstofa er samstarfsaðili annarra menningarmiðstöðva á Austurlandi varðandi stefnumótun í málefnum tónlistar fyrir landshlutann og samstarfsverkefna á breiðum grunni.

Hlutverk Tónlistarmiðstöðvar Austurlands er að: 

a) Standa vörð um tónlistarstarf, tónlistarfólk og tónlistarskóla. Hlúa að vaxtarsprotum á sviði tónlistar, svo sem starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Austurlands.

b) Vinna að þróunarstarfi og fræðslu á sviði tónlistar.

c) Vinna að eflingu samstarfs á sviði tónlistar og halda úti fjölbreyttum samstarfsverkefnum með stofnunum innan Austurlands, sem utan.

d) Standa fyrir tónleikahaldi sem eflir menningarlæsi í samfélaginu og eykur þekkingu á fjölbreyttum straumum og stefnum í tónlist.

Markmiðið með fræðsluverkefnum Tónlistarmiðstöðvar er að stuðla að sjálfstæði og sjálfsöryggi barna til að iðka tónlist í sínu daglega lífi, í leik og starfi. Fræðsluverkefnin eru byggð uppá mismunandi aðferðum til að miðla þessari hugmyndafræði til barna og ungmenna, t.d. með fyrirlestrum, vinnustofum og viðburðum á sviði tónlistar. Lagt er upp með að börn tileinki sér aðferðir til tjáningar og miðlunar á hugmyndaheimi sínum en um leið að gefa þeim innsýn í fjölbreytt tækifæri hvað varðar nám og starf til framtíðar.

Fræðsluverkefni Tónlistarmiðstöðvar stuðla að auknu menningarlæsi barna og ungmenna, þá einkum sem snýr að tónlist, en það er eitt af markmiðum Sóknaráætlunar Austurlands.

Eyvindarstofa Blönduósi

Norðurlandsvegur 4, 540 Blönduós

Ókrýndur konungur fjallamennsku á Íslandi er óumdeilanlega útilegumaðurinn Fjalla-Eyvindur, sem í 40 ár lá úti á heiðum og hálendi Íslands ásamt konu sinni Höllu. Ratvísi Eyvindar, útsjónasemi, þekking á aðstæðum og hæfni til þess að komast af er aðdáunarverð, eins og hver sá gerir sér grein fyrir sem kynnst hefur vályndum veðrum og erfiðum aðstæðum á hálendi Íslands.

Fjalla-Eyvindur bauð yfirvaldinu byrginn sem stjórnaði lýðnum með harðri hendi á 18. öld og ávallt tókst honum að komast undan klóm réttvísinnar. Eyvindur lifði á sauða- og hrossaþjófnaði sem þótti hin versta synd á þeim tíma og lágu þungar refsingar við slíku. En ólíkt flestum öðrum var þjófnaðurinn afleiðing útlegðarinnar sem enginn veit hver raunveruleg ástæða var fyrir í upphafi, en ekki ástæða. Ýmsir lögðu Eyvindi lið, ekki bara fátækir bændur heldur líka jafnvel sýslumenn og embættismenn. Launaði hann liðveisluna stundum með tágakörfum úr grávíði sem hann fléttaði af mikilli snilld og þóttu miklir kostagripir. Eru sumar þeirra til enn þann dag í dag.

Á Blönduósi hefur verið opnaður nýr þematengdur veitinga-
salur sem tekur allt að 70 manns í sæti. Í Eyvindarstofu er boðið upp á sérstakan þjóðlegan matseðil og einleik um útilegumanninn Fjalla-Eyvind undir borðhaldi.

Eyvindarstofa er innréttuð líkt og útilegumannahellir og er borðbúnaður
hannaður eftir tágakörfum Eyvindar. Boðið er upp á sérstakan
hádegisverðarseðil og þriggja rétta kvöldverðaseðil.

Eyvindarstofa er nýjung í íslenskri veitingaflóru þar sem þið getið boðið farþegum ykkar upp á einstaka upplifun í mat og menningu. Inn af matsalnum hefur verið komið upp áhugaverðri sýningu til minningar um Fjalla-Eyvind og Höllu. Eyvindarstofa er staðsett á annarri hæð fyrir ofan veitingastaðinn Pottinn Restaurant á Blönduósi.

Fararstjórar og bílstjórar sem koma með hópa fá að sjálfsögðu frítt!

Hólmur ferðaþjónusta

Hólmur, 781 Höfn í Hornafirði

Í gamla íbúðarhúsinu eru sex herbergi tveggja og eins manna , fyrir 10 manns Í húsinu er setustofa þar sem möguleiki er að laga kaffi og te.

Yfir vetrartímann er opin eldunaraðstaða fyrir gesti í sama rými. Tvö baðherbergi eru í húsinu.

Í fjósinu er 2 x þriggja og 1 xfjögra manna fjölskylduherbergi. Í fjósinu eru 2 snyrtingar.

Við bjóðum einnig uppá morgunmat og kvöldmat, ásamt léttum veitingum yfir daginn í Jóni ríka veitingastaðnum okkar.

Þá erum við einnig með veitingastaðinn og brugghúsið Jón Ríki.

Sýningin: Frönsku fiskimennirnir og gamli tíminn

Mýrar 8, 450 Patreksfjörður

Persónuleg leiðsögn um sýninguna "Frönsku fiskimennirnir og gamli tíminn" sem er á Mýrum 8, Patreksfirði.
Hún er um veru franskra fiskimanna hér við land, á skútuöldinni og komu franskra vísindaleiðangra til Patreksfjarðar, allt aftur til 1767.
Á henni eru einstæðir munir og myndir, bæði franskir og íslenskir. Ásamt fjölda bóka á báðum tungumálunum.
Ýmsir gripanna eru yfir 100 ára, m.a: Tveir franskir peningar frá 1854 og 1856. Kolateikning frá árinu 1900.
Upprunaleg síða úr frönsku blaði frá 1895, með koparstungumynd af frönskum skútum og mannfjölda, í Paimpol.
Franskur sjópoki bættur og stagaður, sem kom síðast inn til Patreksfjarðar með eiganda sínum 1913.
Myndir frá Patreksfirði sem hafa ekki áður verið sýndar hérlendis (teknar af Frökkum hér fyrir rúmum 100 árum) og teikningar frá 1772.
Einnig mjög gömul fiskbein, svo eitthvað sé nefnt.
Bókin ,,Pêcheurs de France vus par les Islandais“ Frönsku fiskimennirnir, séðir með augum Íslendinga, ásamt hefti með textunum á íslensku er til sölu á sýningunni.

Opnunartími 01/05 - 30/09  Betra er að hringja á undan sér.

Ath. hægt að opna með litlum fyrirvara að vetrinum, ef haft er samband.

Þjóðveldisbærinn á Stöng

Þjórsárdalur, 801 Selfoss

Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal er eitt best geymda leyndarmál Íslands. Bærinn er tilgátuhús byggt á einu stórbýli þjóðveldisaldar og þar gefst gestum færi á að kynna sér húsakynni forfeðra okkar og fræðast um hagi þeirra og daglegt líf. Fyrirmynd þjóðveldisbæjarins eru rústir af fyrrum höfuðbýlinu Stöng í Þjórsárdal en talið er að sá bær hafi farið í eyði í Heklugosi árið 1104.

Opnunartími:
1. júní - 31. ágúst er opið alla daga 10:00-17:00
Lokað á veturna.  

Aðgangseyrir:
Fullorðnir: 1.000
Eldri borgarar og öryrkjar: 750
Ókeypis fyrir 16 ára og yngri.

Smámunasafn Sverris Hermannssonar

Sólgarður, 605 Akureyri

Smámunasafnið hefur þá sérstöðu að vera ekki safn einhverra ákveðinna hluta heldur allra mögulegra hluta. Hversdagslegir hlutir eru þar mitt á meðal afar óhefðbundinna hluta. Því hefur safnið stórkostlegt menningarlegt gildi fyrir okkur og komandi kynslóðir.

Í raun má segja að í safninu finnist flest það sem tengist byggingu húsa allt frá minnsta nagla til skrautlegustu gluggalista og hurðahúna. Boðið er uppá leiðsögn um safnið, leikhorn fyrir börnin, Smámunabúð með handverki og ilmandi vöfflukaffi á Kaffistofu safnsins. Eyjafjarðarsveit fann safninu stað í Sólgarði, 27 km sunnan Akureyrar. Saurbæjarkirkja, ein af 6 torfkirkjum á Íslandi er rétt við safnið og hægt er að skoða nánar.

1.júní - 15. september er opið alla daga 13:00-17:00

Einnig opið fyrir hópa eftir samkomulagi. 

 

 

 

 

Byggðasafn Vestfjarða, sjóminjasafn

Neðstakaupstað, 400 Ísafjörður

Byggðasafn Vestfjarða stendur fyrir og kemur að sýningum á hverju ári. Safnið hefur í áranna rás verið í samstarfi við ýmsa aðila, einstaklinga, félagasamtök og fyrirtæki með uppsetningu og ráðgjöf. 

Opnunartími:
15. maí - 31. ágúst - kl. 10:00-17:00
1. sept. - 15. sept. - kl. 11:00- 15:00

Önnur opnun eftir samkomulagi

Almennt verð 1.600 kr.
Hópar og ellilífeyrisþegar 1.200 kr.

Gljúfrasteinn - Safn Halldórs Laxness

Gljúfrasteinn, 270 Mosfellsbær

Gljúfrasteinn var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness og fjölskyldu hans um hálfrar aldar skeið. Húsið er safn Halldórs Laxness þar sem heimili og vinnustaður hans eru látin haldast óbreytt. Stærstu vistarverurnar eru stór stofa á jarðhæð og skrifstofa Halldórs á annarri hæð. Þar er bókasafn hans varðveitt svo og vinnupúltið sem hann stóð gjarnan við.

Mikill fjöldi listaverka setur sterkan svip á heimilið, meðal annars eftir Svavar Guðnason, Nínu Tryggvadóttur, Jóhannes Kjarval og danska málarann Asger Jorn. Einnig gefur þar að líta útsaumsmyndir eftir Auði Laxness sem var annáluð hannyrðakona. Húsgögn og innanstokksmunir eru þeir sömu og í tíð Halldórs og Auðar.

Halldór Laxness var mikill útivistarmaður og gekk mikið í nágrenni Gljúfrasteins enda umhverfið fagurt. Gestir eru hvattir til að nýta sér gönguleiðirnar í nágrenni hússins sem stendur við ána Köldukvísl og er byggt í landi jarðarinnar Laxness þar sem Halldór ólst upp.

Boðið er upp á vandaða hljóðleiðsögn um húsið á íslensku, ensku, dönsku, sænsku og þýsku en hægt er að fá leiðsögn á öðrum tungumálum í samráði við starfsfólk.

Opnunartími:
1. júní - 31. ágúst : 10:00-17:00 alla daga.
1. september - 31. maí: 10:00-16:00 alla daga nema mánudaga
Lokað er um helgar frá nóvember og út febrúar.

Hvalasafnið á Húsavík

Hafnarstétt 1, 640 Húsavík

Hvalasafnið á Húsavík var stofnað árið 1997. Meginmarkmið þess er að miðla fræðslu og upplýsingum um hvali og búsvæði þeirra.

Í 1.600 m2 sýningarrými er að finna beinagrindur af mörgum tegundum hvala og heillandi upplýsingar um þessi stærstu dýr jarðar.

Opið frá 09-18 alla daga í júní, júlí og ágúst. .

 

 

Skrímslasetrið

Strandgata 7, 465 Bíldudalur

Skrímslasögur hafa fylgt íslensku þjóðinni í gegnum aldirnar og til er fjöldi skráðra heimilda um skrímsli víðsvegar um landið. Þeim hefur nú verið fundinn verður samastaður í Skrímslasetrinu á Bíldudal við Arnarfjörð sem er sagður einn mesti skrímslastaður landsins. 

Iceland Airwaves

Hagasmári 1, 201 Kópavogur

Iceland Airwaves hátíðin er haldin í byrjun nóvember ár hvert. Hátíðin hefur rækilega fest sig í sessi sem uppskeru- og árshátíð íslenskrar tónlistar, bæði fyrir rótgróna listamenn sem og vettvangur nýrra hljómsveita frá öllum heimshornum til að koma sér á framfæri.

Reykjavíkurborg iðar af lífi og tónlist flæðir um alla króka og kima, frá kirkjum, listasöfnum, rokkbörum, kaffihúsum og plötubúðum. Þúsundir erlendra gesta koma til landsins til að upplifa Airwaves töfrana; allt það besta í íslenskri tónlist og mest spennandi upprennandi bönd heims í hjarta Reykjavíkur.

Norðurljósahús Íslands

Hafnargata 7, 750 Fáskrúðsfjörður

Í smábæ austur á fjörðum er að finna Norðurljósahús Íslands. Þar er boðið upp á norðurljósasýningu  í  Wathneshúsinu  en  þar  verður  sýningin  staðsett  þangað  til Norðurljósahús Íslands  opnar  í  endanlegri  mynd  í  Bryggjuhúsinu  árið  2018.  Sýningin  byggir á  mögnuðum  myndum  þeirra  Jónínu  og  Jóhönnu  og  ber  heitið “Dansað við fjöllin”. Myndirnar eru teknar í Fáskrúðsfirði þar sem hinn tignarlegi og  fagri  fjallahringur  umlykur  fjörðinn  og  gerir  því  norðurljósaupplifunina einstaka. 

Skyrland

Eyrarvegur 1, 800 Selfoss

Skyrland er sýning um sögu skyrs í Mjólkurbúinu á Selfossi. Upplifun, smakk og fróðleikur á sýningu um SKYR, ofurfæðuna sem nýtur nú vinsælda um allan heim.

Sláturhúsið

Kaupvangur 7, 700 Egilsstaðir

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs var stofnuð árið 2005 og er hlutverk hennar að ýta undir skapandi starfsemi,hvetja til þátttöku almennings og efla lista- og menningarstarf á Austurlandi. Menningarmiðstöðin er lykilstofnun við framkvæmd menningarstefnu sveitarfélagsins og leggur sérstaka áherslu á sviðslistir (performing arts).

Önnur áhersla miðstöðvarinnar er lista og menningaruppeldi barna og ungmenna og því er áhersla á að sem flest verkefni hafi fræðslugildi auk hins listræna og menningarlega gildis. 

Þó áhersla sé lögð á sviðslistir þá sinnir MMF / Sláturhús einnig öðrum listgreinum, meðal annars með myndlistarsýningum, kvikmyndasýningum, tónleikum auk annarra menningarviðburða. 

Í Sláturhúsinu er einnig gestaíbúð og vinnuaðstaða fyrir listafólk. 

MMF er til húsa í Sláturhúsinu við Kaupvang.

Sillukot – Sælusápur

Gunnarsstaðir 4, 681 Þórshöfn

Sillukot ehf er lítið fjölskyldufyrirtæki staðsett á Gunnarsstöðum í Þistilfirði sem framleiðir, handgerðar sápur, kerti og varasalva ásamt að reka sauðfjárbú. Lögð er áhersla á að nota náttúruleg og góð hráefni við framleiðsluna. 

Samhliða sápu- og kertagerð er rekið lítið Gallerí á Gunnarsstöðum og vefverslun sem selur vörur fyrirtækisins.

Leirhús Grétu

Litli-Ós, 531 Hvammstangi

Leirhús Grétu er keramik gallerí staðsett um einn km. frá þjóðvegi 1. á leiðinni inn á Hvammstanga. Þar framleiðir og selur Gréta Jósefsdóttir fjölbreytta leirmuni.

Sumaropnun: 1. júlí - 20. ágúst mánudaga - föstunaga kl. 13 - 17.

Svo er alltaf velkomið að hafa samband í síma 451 2482/897 2432 eða renna í hlað og hringja bjöllunni - ég er mjög oft heimavið.

Á öðrum árstíma er ekki neinn ákveðinn opnunartími en er mjög oft við eftir hádegi.

facebook.com/Leirhús Grétu 

Óbyggðasetur Íslands

Norðurdalur, 701 Egilsstaðir

Óbyggðasetrið bíður upp á fjölbreytta afþreyingu, heimilislegan veitingastað og gistingu í einstöku umhverfi.

Lifandi sýning Óbyggðasetursins um ævintýri óbyggðanna hefur hlotið fjölda viðurkenninga og hentar gestum á öllum aldri.

Fjöldi lengri sem styttri gönguleiða er í nágrenninu og staðurinn vinsæll hjá gönguhópum.

Dæmi um styttri göngu er eyðibýlagangan sem liggur inn með ánni að endurgerðum kláf sem gestum er velkomið að prófa.