Hús Hákarla-Jörundar
Hús Hákarla- Jörundar er elsta hús Hríseyjar og byggt á árunum 1885-86 fyrir hákarlaveiðimanninn Jörund Jónsson. Það var reist af smiðnum Jóhanni Bessasyni úr timbri norskra skipa sem fórust í Gjörningaveðrinu við Hrísey 11. september 1884. Upphaflega stóð húsið í landi Syðstabæjar en var flutt að Norðurvegi 3 árið 1917 þegar nýtt hús var byggt á hólnum. Hákarla-Jörundur var öflugur hákarlaformaður og hófst uppbygging í Hrísey fyrir alvöru með tilkomu hans til eyjunnar. Bjó hann ásamt stórfjölskyldu sinni í húsi þessu síðustu æviárin.
Í húsi Hákarla-Jörundar er að finna safnvísi sem geymir muni er tengjast bæði heimilishaldi Jörundar en einnig hákarlaveiðunum sem gerð eru ágæt skil með sýningu á veiðarfærum og öðrum þar til gerðum áhöldum. Í Húsinu er einnig að finna muni og minningar sem tengjast byggða- og annarri atvinnusögu Hríseyjar og er þannig stiklað á stóru í sögu eyjunnar. Þar má kynnast síldarævintýrinu í Hrísey, verslunarsögu staðarins, kvenfélaginu og skóaranum, svo fátt eitt sé nefnt, en einnig einstaka mönnum og málefnum sem sett hafa svip á lífið í eynni.
Húsið er opið alla daga vikunnar frá 1. júní- 31. ágúst og utan þess tíma er hægt að hafa samband með tölvupósti.
Opnunartími - virkir dagar:
1. júní - 31. ágúst: 13:00-17:00
1. september - 31. maí: Opið eftir samkomulagi.