Fara í efni

Leikhús

8 niðurstöður

Borgarleikhúsið

Listabraut 3, 103 Reykjavík

Leikfélag Reykjavíkur er elsta leikfélag sem starfað hefur óslitið á Íslandi og er jafnframt eitt elsta starfandi menningarfélag landsins.

Frá opnun Borgarleikhússins hefur Leikfélag Reykjavíkur staðið fyrir metnaðarfullu starfi. Hjarta leikhússins er leikhópurinn sem flutti stoltur frá ,,gamla miðbænum“ í ,,nýja miðbæinn“ og hefur að jafnaði staðið fyrir öflugri en jafnframt fjölbreyttri verkefnaskrá ár hvert. Að auki hefur Leikfélagið tryggt annarri menningarstarfsemi aðstöðu í húsinu, boðið til sín gestaleikjum og tekið þátt í innlendu sem erlendu samstarfi. Borgarleikhúsið er eins og Iðnó forðum, menningarmiðja í Reykjavík.

Á Leikhúsbar Borgarleikhússins er hamingjustund kl. 18-19 öll sýningarkvöld og eins eftir sýningar. Veitingastaðurinn er einnig opinn fyrir sýningar og í hléi.

Verið velkomin.

Leikhópurinn Lotta

Víðigrund 15, 200 Kópavogur

Í ár býður Leikhópurinn Lotta upp á að nýta ferðagjöfina í að kaupa áskrift af Lottuappinu. Fyrir 5000kr ferðagjöf fæst hálfs árs áskrift og með hverri áskrift er hægt að nota appið í þremur mismunandi tækjum. Til þess að virkja gjöfina sendið þið okkur póst á leikhopurinnlotta@gmail.com með nafni og símanúmeri og við munum hafa samband. 

~~~~~~~~

Hvað er hægt að gera í Lottuappinu?

Hlusta
Hægt er að hlusta á öll útvarpsævintýri Lottu frá upphafi í spilara sem býður upp á allskyns möguleika á borð við svefnstillingu, slembival og fleira. Hver notandi getur opnað sinn prófíl, ýtt á play og byrjað að hlusta frá sama stað og hætt var síðast án þess að hafa áhrif á hlustun annarra á heimilinu. Lotta hefur á liðnum árum gert 13 ævintýri sem öll má finna í appinu og til viðbótar stórskemmtilega jólaplötu sem kemur sér einkar vel þegar henda á upp einu jólaballi í snatri. Á hverju ári bætist svo nýtt ævintýri í safnið.

Horfa
Árið 2018 réðst Leikhópurinn Lotta skipulega í enduruppsetningar á gömlu verkum hópsins og fara þær sýningar fram innanhúss yfir vetrartímann réttum 10 árum eftir að verkin voru fyrst sett upp. Þessar uppsetningar hafa nú verið kvikmyndaðar í fullkomnum mynd- og hljóðgæðum með öllu tilheyrandi og eru eingöngu aðgengileg í Lottuappinu.

Skoða
Hægt er að skoða myndir og texta úr hverju verki fyrir sig á meðan þú hlustar. Þetta kemur sér vel til undirbúnings fyrir karókípartýin sem munu án efa eiga sér stað reglulega á flestum Lottuheimilum með tilkomu Lottuappsins.

Syngja
Hægt er að horfa á og syngja með karókímyndböndum. Myndböndunum er hægt að raða í lagalista fyrirfram, eða jafnóðum í öðru tæki á meðan aðrir syngja. Því þarf aldrei að vera dauð stund í karókípartýi heimilisins.

Lagalistar
Í hverjum prófíl er hægt að búa til sína eigin lagalista. Vinsælt er til dæmis að búa til "partý" lagalista, "fara að sofa" lista og "uppáhalds" lista 

Hvað get ég gert í Lottuappinu sem forráðamanneskja?

Foreldrasvæði
Þegar forráðamanneskja hefur keypt aðgang að Lottuappinu fær viðkomandi aðgang að sérstöku foreldrasvæði sem börnin sjá ekki. Til þess að komast inn á svæðið þarf að stimpla inn PIN-númer sem eigandinn velur. Þar getur forráðamaður td sett tímatakmörk fyrir prófíla heimilisins sem endurnýja sig á sólarhringsfresti.

Tímatakmarkanir
Tímaflokkarnir eru tveir: Hlustunartími – hversu lengi má hlusta á ævintýri eða lög á einum sólarhring – og skjátími – hversu lengi má horfa á myndbönd á einum sólarhring. Ef forráðamanneskja ákveður að barn megi hlusta, til dæmis í tvo tíma á dag og horfa í hálftíma á dag er hægt að segja appinu það með einföldum hætti á örfáum sekúndum. Hægt er að velja mismunandi lengd fyrir mismunandi prófíla og koma þannig í veg fyrir að börnin okkar hverfi of langt inn í snjalltækin, þó svo að við séum ekki til staðar til að hafa yfirumsjón með notkuninni öllum stundum.

Kómedíuleikhúsið

Haukadalur, Dýrafirði, 471 Þingeyri

 Kómedíuleikhúsið er eina atvinnuleikhús Vestfjarða með bækistöðvar í Dýrafirði. Leikhúsið er með eigið leikhús í Haukadal í Dýrafirði sem ku vera minnsta atvinnuleikhús á Íslandi. 

Á heimasíðu okkar www.komedia.is og facebook síðu Kómedíuleikhússins eru ávallt nýjustu fréttir af hvaða leiksýningar eru á fjölunum hverju sinni í minnsta atvinnuleikhúsi á Íslandi. 

Allir nánari upplýsingar og miðasala er í síma 891 7025. Einnig er hægt að kaupa miða á allar sýningar okkar í Haukadal á tix.is   

Gaflaraleikhúsið

Víkingastræti 2, 220 Hafnarfjörður

Gaflaraleikhúsið er hópur atvinnufólks sem hefur rekið lítið leikhús við Víkingastræti í Hafnarfirði frá 2011. Að hópnum standa Ágústa Skúladóttir, Björk Jakobsdóttir, Gunnar Helgason og Lárus Vilhjálmsson en þau eru öll með mikla reynslu á sviði leiklistar og menningarlífs. Gaflaraleikhúsið er lítið leikhús fyrir 220 áhorfendur, með áhorfendapöllum, stólum og ljósa- og hljóðbúnaði.

Framtíðarmarkmið Gaflaraleikhússins er að byggja upp öflugt atvinnuleikhús á Íslandi sem leggur áherslu á góðar og vandaðar sýningar fyrir unga áhorfendur og skellir inn á milli flottum sýningum fyrir fullorðna.

Tjarnarbíó

Tjarnargata 12, 101 Reykjavík

- Hugsaðu sjálfstætt -

Tjarnarbíó er heimili sjálfstæðra sviðslista á Íslandi og sannkallaður kontrapunktur íslenskrar sviðslistamenningar. Tjarnarbíó er eðlisólíkt öðrum leikhúsum hérlendis að því leiti að við erum ekki framleiðsluhús heldur hýsingar- og samstarfsaðili sjálfstæðra sviðslistahópa. Þannig er lífið í húsinu einfaldlega endurspeglun lífsins í sjálfstæðu sviðslistasenunni hverju sinni og hvert leikár eins og ómerktur konfektkassi þar sem jafnvel við sjálf vitum ekki alltaf hvaða mola við munum fá. 

Í sjálfstæðu senunni gerast hlutirnir oft hratt þegar hugmyndir kvikna eða hverfa með stuttum fyrirvara. Því leggjum við í Tjarnarbíói ekki upp með fullkláraða dagskrá í upphafi hvers leikárs heldur leggjum við áherslu á Tjarnarbíó sem spennandi og heillandi gróskupott sviðslista á Íslandi þar sem alltaf má finna eitthvað nýtt og spennandi. 

Kíkið í heimsókn – Sjón er sögu ríkari

Þjóðleikhúsið

Hverfisgata 19, 101 Reykjavík

Þjóðleikhúsið hefur verið leiðandi stofnun á sviði leiklistar á Íslandi allt frá opnun þess árið 1950 og er eign íslensku þjóðarinnar. 

Þjóðleikhúsið sýnir fjölbreytt úrval sviðsverka sem er ætlað að höfða til ólíkra áhorfendahópa, með það að markmiði að efla og glæða áhuga landsmanna á list leikhússins og auðga leikhúsmenningu í landinu. Í Þjóðleikhúsinu eru settar á svið framúrskarandi leiksýningar sem skemmta áhorfendum, ögra þeim, vekja þá til umhugsunar og veita þeim innblástur.

Verið ávallt velkomin.

Menningarfélag Akureyrar

Strandgata 12 , 600 Akureyri

Leikfélag Akureyrar er eina atvinnuleikhús landsins utan höfuðborgarsvæðisins og hefur verið atvinnuleikhús frá árinu 1973.

Saga Leikfélagsins spannar yfir heila öld en félagið var stofnað árið 1908. Leikfélag Akureyrar hefur sitt aðal aðsetur í fallegu húsi sem stendur nærri hjarta Akureyrar, Samkomuhúsinu, sem tekur 210 manns í sæti. Samkomuhúsið er hefðbundið leikhús með sviði, upphækkuðum sal og svölum.

Verkefnaskrá Leikfélags Akureyrar hefur í gegnum tíðina verið fjölbreytt og innihaldið klassísk og ný verk, íslensk og erlend verk, barnaleikrit og söngleiki. Fjöldi nýrra íslenskra verka hefur verið frumsýndur hjá Leikfélagi Akureyrar og listamenn Leikfélagsins vinna reglulega með listamönnum sem einbeita sér að frumsköpun. Gestir Leikfélags Akureyrar koma frá landinu öllu og í gegnum tíðina hefur verið vinsælt að fara í leikhúsferðir til Akureyrar til að sjá þær leiksýningar sem eru á boðstólum.

Frystiklefinn Hostel og menningarsetur

Hafnargata 16, Rifi, 360 Hellissandur

Frystiklefinn er marg-verðlaunað menningarsetur og hostel, staðsett í uppgerðu frystihúsi í Rifi, litlu þorpi á norðanverðu Snæfellsnesi. 

Íslensk list, menning og gestrisni einkenna Frystiklefann og fara gestir, sem leita eftir einstakri íslenskri upplifun þaðan með ógleymanlegar minningar í farteskinu. 

Hjá Frystiklefanum er boðið upp á sérherbergi, dorm, tjaldsvæði og fimm íbúðir.