Hápunktar
Askja
Atlavík
Atlavík í Hallormsstaðaskógi var á árum áður vinsæll samkomustaður Austfirðinga og annarra, sérstaklega á meðan hinar frægu Atlavíkurhátíðir voru haldnar. Í Atlavík er rómantískt, friðsælt og skjólgott tjaldsvæði með góðri aðstöðu. Ekkert rafmagn er á tjaldsvæðinu svo þeir sem það kjósa geta til dæmis hreiðrað um sig í Höfðavík þar skammt frá. Veðursældin í Atlavík er engu lík og kjörið að njóta útivistar þar og annars staðar í skóginum. Hann er enda vinsælt útivistarsvæði með um 40 km af gönguslóðum og merktum gönguleiðum. Þá er þar merkilegt trjásafn með yfir 70 trjátegundumvíðs vegar að úr heiminum, leiktæki og opin svæði og á heitum degi er hægt að busla í lignu Lagarfljótinu.
Hallormsstaðaskógur sjálfur er víðáttumesti skógur landsins og þekur um 740 hektara lands. Hallormsstaðaskógur var friðaður árið 1905 og varð þar með fyrsti þjóðskógur Íslands en Skógræktin hefur umsjón með þjóðskógum. Árið 1903 hófust þar tilraunir með plöntun erlendra trjáa en stórfelld ræktun hófst fyrst eftir 1950. Elsti lerkilundurinn var gróðursettur árið 1938 og heitir Guttormslundur, kenndur við Guttorm Pálsson sem var skógarvörður á Hallormsstað í 46 ár.
Bárðarbunga
Básendar
Fornt úræði og verslunarstaður sunnan við Stafnes.
Einnig kallað Bátssandar var ein af höfnum einokunarverslunarinnar og náði verslunarsvæðið yfir Hafnir, Stafnes og Miðnes. Básendar eyðilögðust mikið í ofsalegu sjávarflóði, aðfararnótt 9. janúar 1799. Flóðið hreif flest hús með sér, stór og smá. Fólk varð að flýja og sumt varð svo naumt fyrir að það varð að skríða upp um þekjuna til að komast út. Vitað er að ein kona drukknaði. Þetta var eitt mesta sjávarflóð sem um getur við strendur Íslands.
Hvernig á að komast þangað: Vegur liggur frá Sandgerði að Stafnesi og þar er merkt bílastæði. Gengið er frá bílastæðinu þangað til að sjást tóftir staðarins og gamall grjótgarður.
Brúin milli heimsálfa
Brú á Reykjanesi á plötuskilum milli Evrópu og Ameríku.
Samkvæmt jarðfræðikenningum þá þrýstast Evrasíu- og Norður- Ameríkuflekarnir hvor frá öðrum á Reykjanesi. Plötuskilin afmarkast af gosreinum, gjám og gígaröðum sem liggja frá Reykjanesi og norðaustur um land. Segja má að Reykjaneshryggurinn (Mið-Atlantshafshryggurinn) "gangi" á land á Reykjanesi en með honum liggja skil þessara tveggja fleka. Ísland skiptist þannig milli tveggja jarðskorpufleka. Austurhluti landsins tilheyrir svonefndum Evrasíufleka og vesturhlutinn svonefndum Norður-Ameríkufleka. Skilin milli flekanna birtast okkur ýmist sem opnar sprungur og gjár eða sem sem gígaraðir.
Byggð hefur verið brú á milli "plötuskilanna" upp af Sandvík á Reykjanesi þar gefst kostur á að upplifa það að ganga á milli heimsálfa (jarðfræðilega séð) Fólki að kostnaðarlausu.
Hægt er að fá viðurkenningarskjal þess efnis að viðkomandi "hafi gengið á milli heimsálfa" gegn vægu gjaldi á upplýsingamiðstöð Reykjaness og gestastofu Reykjanes jarðvangs sem staðsett eru í Duushúsum í Reykjanesbæ.
Dalatangi
Leiðin út á Dalatanga liggur eftir mjóum slóða sem fikrar sig út eftir Mjóafirði. Ekið er meðfram skriðum og hamrabrúnum, framhjá fossum og giljum. Er Dalatangi birtist, er því líkast sem sé maður staddur á eyju inn í landi. Austar er ekki hægt að aka á Íslandi. Við Dalatangavia opnast mikið útsýni til norðurs, allt að Glettingi og inn í mynni Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar.
Vitarnir tveir sem standa á Dalatanga eiga sér merka sögu, sá eldri var reistur að frumkvæði norska útgerðar- og athafnamannsins Ottos Wathne árið 1895. Hann er hlaðinn úr blágrýti með steinlími á milli. Yngri vitinn, sem nú er í notkun, var reistur 1908. Á Dalatanga er fallegt býli og túnjaðrar býlisins nema við sjávarbrúnir. Við bæjarhúsin eru skrúðgarður og gróðuhús.
Daníelslundur í Borgarfirði
Deildartunguhver
Dettifoss
Dimmuborgir
Drangey
Dyrfjöll
Dyrfjöll eru ein af perlum Austurlands. Fjöllin eru þekkt fyrir stórt skarð í miðju fjallgarðsins sem eru eins og risastórar dyr og draga fjöllin nafn sitt af þessu skarði. Það er erfið ganga upp á topp Dyrfjalla og ættu aðeins vanir göngumenn að leggja í ferðu upp á toppinn. Hægt er að fá leiðsagnar vanra fjallaleiðsögumanna upp á topp ef þess sé óskað.
Útsýnið af toppnum er stórkostlegt og sést meðal annars mjög vel yfir hina fallegu náttúruperlu Stórurð þaðan.
Fjaðrárgljúfur
Flatey á Breiðafirði
Flatey á Breiðafirði
Fossahringur
Fossahringur er 8 kílómetra gönguhringur sem byrjar og endar í Laugarfelli, það tekur um 2 -3 klukkutíma að ganga þessa leið. Á gönguleiðinni má sjá 5 fossa og eitt gljúfur. Sumir þessara fossa eru meðal vatnsmestu fossa á Austurlandi og þekktastir þeirra eru Kirkjufoss og Faxi en þeir eru í Jökulsá í Fljótsdal sem rennur út í Lagarfljót.
Gangan er stikuð og nýtur sívaxandi vinsælda meðal göngufólks. Tilvalið er í lok göngu að baða sig í náttúrulaugunum í Laugarfelli.
Fossastígur
Ánægjuleg og létt gönguleið frá hjarta Seyðisfjarðarkaupstaðar meðfram Fjarðará inn að Fjarðarselsvirkjun. Gönguleiðin liggur að hluta til um lítið skógræktarsvæði, neðan klettabeltis sunnan megin ár.
Fjölskrúðugur gróður, lækir, fossar og fögur fjallasýn prýðir þessa notalegu gönguleið. Heimsókn í elstu starfandi riðstraumsvirkjun landsins,Fjarðarsel (1913), er góður endapunktur, en þá þarf að hafa samband við Upplýsingamiðstöðina í síma 472 1551 til þess að fá hana opnaða. Aðgangur er ókeypis. Berjaland er mikið inn við Fjarðarsel, þar má finna aðalbláber, bláber og krækiber seinnihluta ágúst, allt fram til frosta.
Fossafúsum göngugörpum skal ráðlagt að halda áfram frá Fjarðarseli eftir stikuðu leiðinni sem liggur meðfram ánni að sunnanverðu .Leiðin liggur upp að svonefndum Neðri-staf; að minnisvarða um ferðafrumkvöðulinn Þorbjörn Arnoddson í um 300 m. hæð. Fögur fjallasýn, fossar, gróður og saga er skemmtileg blanda sem gerir þessa gönguferð ógleymanlega.
2,5 og 4 klst. / 2 - 6 km.
Auðgengið frá júní fram til hausts.
Framúrskarandi Bolafjall
Geithúsaárgil
Geithúsarárgil er gil sem liggur niður frá mynni Sléttudals undir rótum Grænafells innst í Reyðarfirði. Áin sem rennur
niður gilið heitir Geithúsaá er sameinast Norðurá þegar hún kemur niður í fjörðinn. Gilið er stórfenglegt og stórbrotið með þverhníptum hamraveggjum til sitt hvorra handa og hefur mótast af Geithúsaánni í gegnum aldirnar. Áin hefur þannig mótað gilið og er enn að, en gil eru sögð einkenni „ungra vatnsfalla“.
Geldingadalir
Á austanverðu Fagradalsfjalli er hóll, sem heitir Stórhóll, rétt vestur af Nátthagaskarði. Norður af honum er laut og svo djúpir dalir með grasflöt, nefndir Geldingadalir. Þar er þúst á flöt, og er sagt, að þar sé Ísólfur á Skála grafinn. Vildi hann vera grafinn, þar sem geldingarnir hans hefðu það best.
Heimild Ferlir.is
Gerpir
Gerpir er austasti höfði landsins, snarbrattur og hömróttur sjávarmegin, 661 m. hár. Talið er að eitt elsta berg landsins, um 12 milljóna ára gamalt, sé að finna í Gerpi.
Gerpissvæðið er sannkölluð paradís fyrir göngufólk. Hefur Ferðafélag Fjarðamanna gefið út göngukort af svæðinu er fæst í upplýsingamiðstöðvum og verslunum víða í Fjarðabyggð
Ástæða er til að mæla með heimsókn á Gerpissvæðið við alla sem hafa áhuga á útivist.
Gullfoss
Hafnaberg
Hafnaberg eru há og löng sjávarbjörg, að mestu úr hraunlögum, sunnan við gömlu verstöðina Hafnir. Nokkrar tegundir sjávarfugla verpa í þverhnípinu. Merkt og vinsæl gönguleið liggur þangað frá vegi að Reykjanesi.
Hafnaberg er mjög vinsælt til útivistar. Bílastæði og merkt gönguleið að Hafnabergi er um 4 km frá Höfnum. Við Hafnaberg má finna fjölskrúðugt fuglalíf og frábært útsýni yfir hafið. Mikilvægt þó er að fara gætilega þar sem brú bergsins er brotakennd.
Hafnaberg er áfangastaður (e. geosite) í Reykjanes Unesco Geopark.
Hallormsstaðaskógur
Hallormsstaðaskógur var friðaður árið 1905 og varð þar með fyrsti þjóðskógur Íslands. Nú þekur birkiskógur um 350 ha lands innan sömu girðingar auk þess sem aðrar trjátegundir hafa verið gróðursettar í 200 ha. Stór svæði hafa bæst við Hallormsstaðaskóg á seinni árum; Hafursá/Mjóanes til norðurs, þar sem gróðursettir hafa verið miklir lerkiskógar og Ásar/Buðlungavellir til suðurs, þar sem sjálfsgræðsla birkis er í algleymingi. Alls eru nú í skóginum um 85 trjátegundir frá um 600 stöðum víðs vegar um heiminn og skógurinn þekur um 740 ha lands.
Land og skógur hefur umsjón með skóglendi víða um land fyrir hönd þjóðarinnar. Þeir skógar eru kallaðir þjóðskógar. Skógarnir eru opnir öllum, allan ársins hring. Í marga er auðvelt að komast eins og Hallormsstaðaskóg og ýmis konar aðstaða fyrir hendi. Annars staðar þarf að hossast í öflugum jeppa eða ganga upp bratta hlíð í ósnortinn skóg.
Í Hallormsstaðaskógi eru meira en tíu mismunandi merktar gönguleiðir um fjölbreytt landslag skógarins og nokkrar hjólaleiðir. Allar leiðirnar eru litamerktar og gönguleiðakort er aðgengilegt á þjónustustöðum á svæðinu og einnig í kössum við upphaf margra gönguleiða. Hér er einnig hægt að sækja gönguleiðakortin á rafrænu formi - gönguleiðir.
Tvö tjaldsvæði eru í Hallormsstaðaskógi með mismunandi þjónustustigi, Atlavík og Höfðavík. Tjaldverðir fara um svæðið og innheimta gjöld fyrir gistingu og annað. Nánari upplýsingar um verð og þjónustu á tjalda.is og á Facebook.
Á gönguleiðinni milli tjaldsvæðanna er hægt að fara í fjársjóðsleit og taka þátt í Skógarævintýri sem er leikur spilaður með Turfhunt-appinu. Víða um skóginn eru áningarstaðir og góð grillaðstaða er í Stekkjarvík og leiktæki fyrir börn. Trjásafnið á Hallormsstað er einstakt á norðurhveli jarðar.
Hekla
Helgustaðanáma gönguleið
Silfurbergsnámuna í Helgustaðalandi er að finna á leiðinni frá Eskifirði til Vöðlavíkur og liggur göngustígur upp að henni.
Helgustaðanáma er gömul silfurbergsnáma í landi Helgustaða í Eskifirði sem var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Helgustaðanáma er ein frægasta silfurbergsnáma í heimi en þar var silfurberg grafið úr jörðu frá því á 17. öld og fram á fyrri hluta 20. aldar. Silfurberg er kennt við Ísland á fjölörgum tungumálum, til dæmis er enska heitið Iceland spar.
Mest af því silfurbergi sem er að finna á söfnum víða um heim kemur úr Helgustaðanámu en einhver stærstu og tærustu eintök silfurbergs í heiminum hafa fundist í námunni. Silfurberg er sérlega tærir kristallar af steindinni kalsít en bergið gegndi veigamiklu hlutverki í þróun margvíslegra rannsókna á eiginleikum ljóss. Í dag er silfurbergið friðlýst og stranglega bannað er að nema það brott.
Hengifoss
Hengifoss í Fljótsdal er einn af þekktari áfangastöðum Austurlands og einn hæsti foss landsins. Fossinn er um 128 metra hár og afar tignarlegur. Góð gönguleið er að fossinum og þjónustumiðstöð við bílastæði. Nágrenni Hengifoss er þekkt fyrir fjölda náttúrudjásna og sögustaða. Í grenndinni finnurðu fjölbreytta gistimöguleika, frábæra veitingastaði og afþreyingu.
Hengifoss fellur í Hengifossgljúfur sem staðsett er í norðanverðum Fljótsdal, rétt innan við enda Lagarfljóts. Bergveggir gljúfursins sýna ólík jarðlög frá eldgosum á tertíertíma jarðsögunnar, blágrýti í bland við fagurrauð millilög sem gefa fossinum einstaka ásýnd og eru sívinsælt myndefni. Hengifossá á upptök sín í Hengifossárvatni á Fljótsdalsheiði og rennur í gegnum gljúfrið og ofan í Lagarfljót. Á leiðinni er annar magnaður foss sem heitir Litlanesfoss. Sá er krýndur stuðlabergi sem er með því hærra á landinu og einstaklega myndrænt.
Hvernig er best að komast að Hengifossi?
Frá Egilsstöðum er um tvær leiðir að velja. Hægt er að aka austan megin við Lagarfljótið í gegnum Hallormsstaðaskóg (vegur nr. 95 að Grímsá og þaðan yfir á veg nr. 931) eða norðan megin við Fljótið í gegnum Fellabæ (vegur nr. 931, malarvegur á stuttum kafla) en vegalengdin er svipuð, um 35 km.
Það er góð hugmynd að skoða ferðaleiðina Fljótsdalshringinn, en þar er að finna tillögur að skemmtilegum viðkomustöðum í kringum Hengifoss og Lagarfljót.
Gönguleiðin upp að Hengifossi
Frá bílastæðinu við Hengifoss liggur þægileg og vel merkt gönguleið upp að fossinum báðum megin ár. Það tekur um 40-60 mínútur að ganga alla leið upp en leiðin er í heildina um 5 km.
Fyrsti áfanginn frá bílastæði og þjónustumiðstöð er upp tröppur en síðan tekur við fremur álíðandi malarstígur. Þegar þú ert u.þ.b. hálfnaður upp, um 1,2 km frá bílastæðinu sérðu Litlanesfoss með sína fallegu stuðlabergsumgjörð. Þar liggja slóðir niður í gilið neðan við fossinn en þeir eru brattir og í lausri möl svo að það er vissara að fara varlega ef þú ætlar þér niður í gilið. Alls staðar á gönguleiðinni er rétt að gæta varúðar við gilbarminn þar sem er hætta á að falla fram af og sérstaklega ef börn eru með í för. Tvær göngubrýr eru á ánni. Önnur er efst áður en gengið er inn í gljúfrið með fossinum. Hin er neðst við bílastæðið.
Upplýsingaskilti og bekkir eru á nokkrum stöðum á gönguleiðinni. Hægt er að ganga inn í gljúfrið sjálft og nær alveg að fossinum eftir uppbyggðum göngustíg. En mikilvægt er að fara varlega þar sem hætta er á grjóthruni.
Þjónusta við Hengifoss
Gönguleiðin að Hengifossi er opin allt árið. Þjónustumiðstöð er við bílastæði og þar er hægt að fá upplýsingar um svæðið frá landvörðum. Yfir vetrartímann er mikilvægt að göngufólk búi sig vel til fararinnar og skoði veðurspá og aðstæður vel áður en lagt er af stað. Nauðsynlegt getur reynst að vera með göngubrodda og ísaxir.
Áhugaverðir staðir í nágrenninu
Í Fljótsdal og í nágrenni hans er ógrynni skemmtilegra viðkomustaða sem vert er að heimsækja fyrir eða eftir göngu upp að Hengifossi. Það er til dæmis tilvalið að líta við í Snæfellsstofu, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs, þar sem er m.a. hægt að fræðast um gróðurfar og dýralíf svæðisins. Gestastofan er staðsett á Skriðuklaustri, þar sem hægt er að skoða hið sérstæða heimili rithöfundarins Gunnars Gunnarssonar og rústir miðaldaklausturs. Óbyggðasetur Íslands er innst í Fljótsdal og í Hallormsstaðaskógi er fjöldi göngu- og hjólaleiða og aðrir afþreyingarmöguleikar við allra hæfi auk ljómandi góðs tjaldsvæðis.
Yfir sumartímann er hægt að aka ferðaleiðina Um öræfi og dali sem liggur upp á hálendi Austurlands og koma við í Laugarfelli, Kárahnjúkum og Stuðlagili en vegurinn er aðeins fær vel búnum fjórhjóladrifsbílum.
Herðubreið
Hornstrandir
Hornstrandafriðland nær yfir nyrsta hluta Vestfjarðakjálkans. Auk hinna eiginlegu Hornstranda nær friðlandið yfir Aðalvík og norðurhluta Jökulfjarða.
Á Hornströndum er stórbrotin og einstök náttúrufegurð. Meðfram ströndinni eru snarbrött fjöll og inn í þau ganga firðir, víkur og dalir. Land er mótað af ágangi sjávar og jöklum ísaldar sem hafa skilið eftir ófáar hvilftir og skörð. Jarðsöguna má lesa úr landslagi og eru víða menjar um gróðurfar og veðurfar fyrir milljónum ára. Gróðurfar er einstakt. Gróður hefur aðlagast aðstæðum á svæðinu, stuttum og björtum sumrum og snjóþungum vetrum, og er furðu gróskumikill. Þá hefur landið lengi haft frið fyrir ágangi manna og búfjár. Víða er fallega gróið land í víkum og fjörðum og á síðustu áratugum ber meira á nokkrum tegundum plantna sem áður voru nánast horfnar vegna beitar. Fuglalíf er auðugt á svæðinu enda fæðuskilyrði góð í hafinu og enginn hörgull á hentugum varpstöðvum. Á sumrin er mest um fugla sem halda til á sjó og eingöngu setjast upp til að verpa. Einnig verpir fjöldi fugla, vatna og votlendisfugla af ýmsum tegundum með ströndinni. Meðal fuglabyggða eru tvö af stærstu fuglabjörgum landsins. Í Hælavíkurbjargi er talin vera mest svartfuglabyggð á landinu og hvergi er meira um langvíu en í Hornbjargi.
Refir eiga hér griðland. Heimskautarefir lifa allt umhverfis norðurhvel jarðar og eru einstaklega vel aðlagaðir veðráttu og fimbulkulda á norðurslóðum. þeir munu hafa verið einu villtu landspendýrin á Íslandi við landnám og hafa líklega borist til landsins á ísöld þegar jökulhvel ísaldar tengdi saman lönd á norðurhjara. þá má gera ráð fyrir að refir hafi alla tíð síðan borist öðru hverju með hafís til landsins. Á Hornströndum má hvarvetna rekast á refi enda hafa fleir nóg að bíta og brenna. Í friðlandinu virðist þeim ekki standa mikil ógn af mönnum og eru reyndar orðnir talsvert mannvanir sumir hverjir. Áður var hér allnokkur byggð og þeir sem áttu allt sitt undir náttúrunni nýttu hlunnindi sem hún gaf eins og framast var kostur. Byggð lagðist af fyrir u.fl.b. hálfri öld og víða er að finna menjar um horfna búsetu og lífsbaráttu genginna kynslóða. Hvarvetna blasir fortíðin við og gamlar frásagnir koma upp í hugann nánast við fótmál hvert. Hornstrandir eru paradís náttúruunnenda og landið sveipað ævintýraljóma í vitund ferðalanga. Hornstrandafriðland hefur sérstöðu að því leyti að það er ekki í vegasambandi við umheiminn og eingöngu fært þangað sjóleiðina eða á tveimur jafnfljótum. Um svæðið liggur fjöldi gönguleiða við allra hæfi. Reglubundnum ferðum er nú haldið uppi að sumrinu. Á sumrin er einnig rekin gisting og greiðasala á nokkrum stöðum í friðlandinu. Samfara aukinni umferð hafa verið settar reglur um umgengni í Hornstrandafriðlandi sem ferðafólki ber að kynna sér. Hægt er finna þær og fleiri upplýsingar um Hornstrandir á vefnum https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/vestfirdir/hornstrandir . Svæðið er í Ísafjarðarbæ en í umsjón Umhverfisstofnunar. Gestastofa Hornstrandastofu er staðsett rétt við Silfurtorg í miðbæ Ísafjarðar.
Hveravellir
Hvítserkur
Jökulsárlón
Katla Jarðvangur
Katlahraun
Katlahraun rann í sjó fram fyrir um 2.000 árum og hlóðst upp við ströndina vegna fyrirstöðu. Stór, hringlaga hrauntjörn myndaðist en tæmdist eftir að hlutar hennar höfðu storknað. Eftir standa margvíslegar, fallegar og óvenjulegar hraunmyndanir.
Staðsetning: Katlahraun er vestan Selatanga og liggur vegur fyrir fjórhjóladrifnabíla að Ketli og Selatöngum.
Katlahraun er áfangastaður (e. geosite) í Reykjanes Unesco Global Geopark.
Kerið
Krosshólaborg í Dölum
Krýsuvík
Fornt höfuðból fyrir sunnan Kleifarvatn.
Það lagðist í eyði á síðustu öld og er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Í upphafi stóð Krýsuvíkurbær allmiklu vestar upp af vík sem heitir nú Hælsvík en hefur ef til vill heitið Krýsuvík til forna. Bæinn tók af þegar Ögmundarhraun rann yfir mikið af gróðurlendi jarðarinnar. Hluti af rústum bæjarins sjást þó enn í Húshólma. Þangað er hægt að aka á fjórhjóladrifnum farartækjum og ganga að hluta. Jarðhitasvæði er mikið í Krýsuvíkurlandi við Seltún. Þar hefur verið borað eftir gufu og hefur verið um það rætt að virkja gufuaflið fyrir Hafnarfjörð eða önnur nærliggjandi byggðarlög. Árangurinn var lakari en vænst var og tilraunum því hætt um 1950. Drottningarhola sem var um 230 m djúp stíflaðist haustið 1999 og sprakk tíu dögum síðar. Við það myndaðist hveragígur um 30 m í þvermál. Brennisteinsnáma var þar um skeið og brennisteinninn fluttur til Hafnarfjarðar en þaðan til útlanda.
Staðsetning: Við þjóðveg 42. 1 km vestur af Grænavatni, sem er 3km í suð-vestur af Kleifarvatni
Kúahjalli og Hrafnatindur
Margar merktar gönguleiðir liggja frá- og í kringum þorpið Bakkagerði á Borgarfirði eystri. Ein þeirra liggur upp á Kúahjalla og Hrafnatind ofan við þorpið. Gengið er upp með Bakkaá og þaðan á Hrafnatind en frá honum er einstakt útsýni yfir þorpið og Borgarfjörð allan. Áfram er gengið út Kúahjalla og niður að minnisvarða um listmálarann Jóhannes S. Kjarval við Geitavík þar sem hann ólst upp.
Gangan tekur um þrjár klukkustundir og liggur hæst í 350 m hæð. Skammt ofan við minnisvarðann er stígur að rústum smalakofa Kjarvals undir Kúahjalla.
Landmannalaugar
Langjökull í Borgarfirði
Látrabjarg
Látrabjarg er stærsta sjávarbjarg Íslands og eitt af stærstu fuglabjörgum í Evrópu. Bjargið er vestasti tangi Íslands og því er yfirleitt skipt upp í fjóra hluta í daglegu tali, Keflavíkurbjarg, Látrabjarg, Bæjarbjarg og Breiðavíkurbjarg. Gríðarlegan fjölda fugla af ýmsum tegundum er að finna í bjarginu, þ.á.m álku, langvíu, stuttnefju, lunda og ritu.
Ógnarbratt, 14 km langt bjargið er margbreytilegt og þar eru grónir grasblettir og einnig snarbrattir klettar. Rétt er að fara mjög gætilega þar sem bjargbrúnin er snarbrött og getur verið viðkvæm. Látrabjarg er einn af vinsælustu ferðamannastöðum Vestfjarða og þangað er hægt að keyra.
Lystigarðurinn á Akureyri
Garðurinn er einn af fegurstu perlum Akureyrarbæjar. Stofnað vartil hans fyrir forgöngu kvenna og stóð frú Anna Schiöth þar í fararbroddi. Í garðinum er að finna brjóstmynd af frú Margarethe Schiöth, tengdadóttur Önnu sem hélt starfinu áfram, og á stöpul hennar er letrað "Hún gerði garðinn frægan."
Lystigarðurinn er nú í eigu Akureyrarbæjar en hann var opnaður árið 1912. Í honum má finna nánast allar þær plötur er finnast á Íslandi eða um 450 tegundir og rúmlega 6.000 erlendar tegundir. Garðurinn er formlega opinn frá 1. júní til 30. september frá klukkan 8-22 virka daga en 9-22 um helgar. Utan þess tíma er samt hægt að heimsækja garðinn því hliðin eru ávallt opin gestum.
Starfsmenn Lystigarðsins halda úti fróðlegri heimasíðu þarsem er að finna hafsjó upplýsinga um plöntur og fleira.
Náttúrulaugar
Meðal falinna gimsteina Vestfjarða eru náttúrulegar heitar laugar sem finna má jafnvel á afskekktum stöðum. Þetta kann að hljóma eins og klisja, en laugarnar eru sannarlega vel varðveitt leyndarmál, tekið sem sjálfsögðum hlut eða jafnvel gleymt af heimamönnum. Skýring gæti verið sú að Vestfirðir eru almennt ekki taldir "heitur reitur" í íslenskri jarðfræði og því er jarðhitinn ekki eins sýnilegur og á Norður- eða Suðurlandi. Það kemur því á óvart að hvergi á Íslandi eru náttúrulegri laugar en á Vestfjörðum, ástæðan er sú að vatnið er fullkomið hitastig beint úr jörðu.
Sumar sundlaugarnar eru staðsettar rétt við ströndina, með ótrúlegu útsýni til sjávar, sem skapar einstaka upplifun til að njóta allt árið um kring.
Norðurljósin
en hann er straumur hlaðinna agna, aðallega róteinda og rafeinda.
Segulsvið jarðar hrindir flestum þessum ögnum frá svo að þær streyma umhverfis hana eins og vatn um kjöl. Undantekning frá þessu er kringum segulpólana, norður og suður. Á svæðum kringum þessa póla sleppur lítill hluti þessara agna inn í segulsvið jarðar. Hlöðnu eindirnar sem fara inn í segulsvið jarðar hreyfast á miklum hraða eftir gormlaga brautum kringum segulsviðslínurnar milli segulskautanna. Þegar nær dregur pólunum rekast eindirnar á lofthjúpinn,oftast í milli 100 og 250 km hæð. Orkan í rafeindunum og róteindunum örvar sameindir og frumeindir í lofthjúpnum en þær
senda aftur á móti frá sér orkuna sem sýnilegt ljós sem við köllum norðurljós Litirnir sem við sjáum oftast eru grænn og rauð-fjólublár, en þeir stafa frá örvuðu súrefni annars vegar og örvuðu köfnunarefni eða nitri hins vegar
Á Íslandi erum við svo heppin að vera í norðurljósakraganum að nóttu til við eðlileg skilyrði. Hægt er að sjá norðurljósin hvar sem er á
Íslandi, svo fremi að norðurljósin séu yfir landinu og stjörnubjartur himinn. Best er að horfa á þau þar sem minnst gætir ljósmengunar frá
bæjunum.
Á Reykjanesi eru staðir sem er gott að horfa á norðurljósin. Á Miðnesheiðinni milli Sandgerðis og Reykjanesbæjar, á Hafnaveginum,
á Grindavíkurveginum við Seltjörn og við Kleifarvatn og Krýsuvík. Gott er að finna skjólgóðan stað og vera í hlýjum fötum, því norðurljósin eru greinilegri á kaldari árstíðum.
Til gamans má geta þess að um miðja 19. öld var prestur á Hallormsstað, Hjálmar Guðmundsson að nafni, sem þótti furðulegur m.a. af því að sagt var að hann legði í vana sinn að skoða stjörnur og ætti til að gleyma sér við það.
Munnmæli herma, að eitt sinn hafi vinnumaður farið að leita hans að næturlagi, og fundið hann liggjandi upp í loft á hjarni. Prestur var þá að telja stjörnur, en fipaðist við talninguna og brást reiður við þessari truflun.
Oddsskarð
Það var ekki fyrr en árið 1949 að Norðfjörður komst fyrst í vegasamband við nágrannabyggðirnar. Leiðin lá um Oddsskarð, einn hæsta fjallveg á landinu, sem jafnan var erfiður yfirferðar vegna snjóþyngsla. Var því hafist handa við gerð jarðganga undir Oddsskarð á árunum 1974-1977. Göngin eru 626 m löng í 632 m h.y.s.
Við Oddsskarð er miðstöð vetraríþrótta. Þar er frábært skíðasvæði og skemmtilegar gönguleiðir. Þar hafa verið haldnar Týrólahátíðar um páska síðustu ár. Margháttuð fjölskylduskemmtun er í boði á skíðasvæðinu.
Rauðasandur
Rauðasandur er 10 kílómetra löng strandlengja sem einkennist af fallega lituðum rauðum sandi. Liturinn getur verið allt frá því að vera gulur, rauður og allt að því svartur, þetta fer allt eftir birtunni. Sandurinn fær þennan rauða lit líklegast vegna skeljabrota frá Hörpudiskskeljum.
Tilvalið er að koma á Rauðasand á háfjöru og rölta um sandinn og týna sér í víðáttunni og njóta útsýnisins. Rauðisandur býður upp á frábært útsýni að Snæfellsnesi og þar fær jökullinn að njóta sýn í góðu veðri.
Við mælum einnig með því að stoppa á kaffihúsinu!
Regnbogagatan á Seyðisfirði
Regnbogagatan á Seyðisfirði er sennilega eitt þekktasta kennileiti Austurlands og sagan að baki því hvernig hún varð til er ekki síður skemmtileg.
Á sólríkum degi sumarið 2016 varð eitt fallegasta samfélagsverkefni sem við vitum um að veruleika, Regnbogagatan á Seyðisfirði. Íbúar voru farnir að bíða óþreyjufullir eftir að Norðurgata, sem segja má að sé Laugavegur þeirra Seyðfirðinga, yrði löguð og hresst við. Aðdragandinn var ekki langur því sama dag og hugmyndin fæddist komu bæjarbúar og bæjarstarfsmenn saman og máluðu hellulagða hluta götunnar í litum regnbogans og sköpuðu með því, óafvitandi, eitt mest heimsótta kennileiti á Austurlandi – Regnbogagötuna. Árið um kring heimsækja gestir alls staðar að úr heiminum Regnbogagötuna með það að markmiði að taka af sér „sjálfur“ í þessu skemmtilega umhverfi regnbogastrætisins og sögulegu aldamótahúsanna sem við hana standa. Við enda regnbogans trónir svo Seyðisfjarðarkirkja, sem er einnig gjarnan kölluð Bláa kirkjan. Íbúar koma reglulega saman yfir sumartímann til að endurmála regnbogann og er það gert í góðu samstarfi við sveitarfélagið. Öllum er velkomið að taka þátt í málningarvinnunni.
Regnbogagatan er staðsett í miðbæ Seyðisfjarðar og mælum við eindregið með því að gestir heimsæki veitingahús, bari og verslanir sem staðsett eru við götuna. Má þar nefna hönnunarverslunina Blóðberg og Handverksmarkaðinn þar sem hægt er að kaupa seyðfirskt handverk. NorðAustur, einn vinsælasti sushi veitingastaður landsins er staðsettur á annarri hæð Hótel Öldunnar og á jarðhæðinni er veitingastaður hótelsins, sem framreiðir dýrindis mat og drykki. Handan götunnar er Café Lára , fullkominn staður ef þú ert í stuði fyrir „juicy“ borgara, steik eða fisk dagsins og mögulega einn eða tvo kalda með.
Á hverju sumri fer fram Tónleikaröð Bláu kirkjunnar, sem hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn af helstu menningarviðburðum í tónlistarlífi Austurlands. Þar er boðið upp á fjölbreytta dagskrá tónlistar þar sem gefst færi á að hlýða á marga af áhugaverðustu tónlistarflytjendum landsins.
Seyðisfjörður er hluti af ferðaleiðinni Flakkað um firði. Ef þú ert á ferðalagi um Austurland eða að skipuleggja næstu ferð mælum við hiklaust með því að þú kynnir þér sérsniðnar ferðaleiðir okkar um landshlutann. Góða ferð!
Selatangar
Gömul verstöð miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur.
Á Selatöngum var allmikið útræði, bæði á vegum Krýsuvíkurbónda og annarra, meðal annars reru þar skip frá Skálholtsbiskupi. Vísa er til sem nefnir 82 sjómenn þar. Útræði lagðist niður á Selatöngum eftir 1880. Allmiklir verbúðarústir eru þar og viða hefur verið hlaðið fyrir hraunhella sem vermenn höfðu til ýmissa nytja, má þar nefna Mölunarkór og Sögunarkór. Minjar þar eru friðlýstar. Á seinni hluta 19. aldar kom upp reimleiki á Selatöngum og var draugurinn nefndur Tanga-Tómas. Mikill reki er við Selatanga. Þar er stórbrotið umhverfi og má einkum nefna Katlahraun vestan við Tangana. Þangað liggur ógreiðfær vegarslóði af Ísólfsskálavegi.
Sjö Tindar
Aðgengilegt yfir sumartímann.
Með því að klífa sjö fjallatinda við Seyðisfjörð, -flesta vel yfir 1000 m. á hæð - gefst fólki kostur á að gerast "Fjallagarpar Seyðisfjarðar". Fjöllin eru: Sandhólatindur, Bjólfur, Nóntindur, Hádegistindur, Strandartindur, Snjófjall og Bægsli. Gestabækur og stimplar eru á toppi fjallana. Nánari upplýsingar og stimpilkort fást í upplýsingamiðstöðinni í Ferjuhöfninni, Einnig eru upplýsingar á www.seydisfjordur.is
Snæfell
Snæfell (1833 m) er hæsta fjall Íslands, utan jökla, og er fjallið sjálft og svæðið umhverfis það innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs. Sumar rannsóknir benda til þess að fjallið kunni enn að vera virk eldstöð, aðrar telja svo ekki vera. Snæfell er fremur auðvelt uppgöngu, en þó ekki fyrir óvana. Þá er lagt af stað skammt sunnan við Snæfellsskála sem er undir vesturhlíð Snæfells, eða frá Sandfelli að norðanverðu. Að fjallinu liggur sumarvegur sem fær er fjórhjóladrifnum bílum og dugir dagurinn til að klífa það, sé lagt upp frá Egilsstöðum snemma að morgni. Gott er að reikna með um 7-9 tímum í göngu.
Snæfellsjökulsþjóðgarður
Sveifluháls
Hraunbreiða fyrir vestan Krýsuvík suður af Núpshlíðarhálsi ( Vesturháls).
Vestasti hluti þeirrar hraunbreiðu, sem á uppdráttum er nefnt Ögmundarhraun er þó af öðrum toga spunnið, það nær vestur undir Ísólfsskála. Ögmundarhraun er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan í Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið milli Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurberg. Sunnan til í hrauninu er 2 hólmar sem standa upp úr og er annar nefndur Óbrynnishólmi en hinn, sá austari Húshólmi. Í þeim síðar nefnda eru bæjarrústir sem taldar eru vera með þeim elstu á landinu eða frá landnámi og mótar vel fyrir þeim eins og sést á loftmyndinni hér. Er talið að hér séu rústir af elstu kirkju á Íslandi.
Sænautasel
Vatnajökull
Vatnajökulsþjóðgarður
Vatnajökulsþjóðgarður - norðursvæði
Vestrahorn
Eitt fyrsta landnámsbýli Íslands var Horn, byggt af Hrollaugi, syni Rögnvalds Jarls af Møre í Noregi. Sveitarfélagið Hornafjörður og ýmis önnur svæði eru nefnd eftir landnámsbýlinu. Svæðið er í um það bil 10 mínútna ökufæri frá Höfn. Horn er staðsett fyrir neðan Vestra-Horn, 454 metra háu fjalli og er það áhugaverður jarðfræðilegur staður myndaður úr ólagskiptum djúpbergsstein, aðallega gabbró en einnig granófýr. Austan við fjallið er óvanalega löguð opna sem kallast
Brunnhorn sem nær út að sjó. Selir eiga það til að slaka á á strandlengjunni, þannig ef heppnin er með þér nærðu flottri mynd af sel í slökun ef þú gerir þér ferð að Horni.
Í seinni heimsstyrjöld var Horn herstöð Breskra hermanna og seinna setti NATO upp ratsjárstöð á Stokksnesi, sunnan við Horn. Á Stokksnesi má virða fyrir sér öflugt Atlantshafið þar sem öldurnar skella á grýttri ströndinni af miklu afli.
Vigur
Vigur er ein þriggja eyja á Ísafjarðardjúpi og liggur úti fyrir mynni Skötufjarðar og Hestfjarðar. Hún er löng og mjó og dregur nafn af lögun sinni, en orðið vigur merkir spjót. Í Vigur var löngum stundaður heilsársbúskapur en nú eru þar engar kýr lengur. Þar eru þó enn nýtt hlunnindi, þ.e. æðarvarp og fuglatekja. Ferðir út í eyjuna hafa verið vinsælar á meðal íslenskra og erlendra ferðamanna undanfarin ár.
Lundi, æðarfugl og kría eru helstu fugarnir á eynni og eitt helst aðdráttaraflið. Lundinn er búinn að koma sér svo vel fyrir í eyjunni að hann er búinn að grafa hana nánast í sundur. Ferðamönnum sem ferðast um eyjuna er því bent á að fylgja stígnum sem útbúinn hefur verið til þess að eiga ekki á hættu að detta ofan í lundaholur.
Í Vigur er minnsta pósthús á Íslandi, eina kornmyllan á Íslandi og flest húsin eru nýlega uppgerð af Þjóðminjasafninu.
Til þess að komast út í Vigur þá þarf að taka bát frá Ísafirði en ferðirnar eru skipulagðar daglega.
Víknaslóðir
Víknaslóðir er gönguleiðakerfi sem teygir sig yfir landssvæðið milli Borgarfjarðar eystri og Loðmundarfjarðar. Svæðið er eitt best skipulagða göngusvæði á Íslandi í dag, vel stikaðar og merktar leiðir. Ferðamálahópur Borgarfjarðar gefur í samvinnu við hagsmunaaðila á svæðinu út öflugt gönguleiðakort sem fæst hjá öllum ferðaþjónustuaðilum á Borgarfirði eystri, í Upplýsingamiðstöðinni á Egilsstöðum og hjá Ferðafélagi Íslands í Mörkinni.
Ferðafélag Fljótsdalshéraðs rekur í samvinnu við Ferðamálahóp Borgarfjarðar þrjá vel búna gönguskála á Víknaslóðum, í Breiðuvík, Húsavík og í Loðmundarfirði. Ferðaþjónustuaðilar á Borgarfirði veita göngufólki fjölbreytta þjónustu, svo sem við ferðaskipulag, gistingu, leiðsögn, flutninga (trúss) og matsölu.
Gönguleiðakerfið er fjölbreytt með styttri og lengri gönguleiðum svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Þorbjörn
Stakt móbergsfell (243 m.y.s) fyrir ofan og norðan við Grindavík.
Af því er mikið útsýn yfir mikinn hluta Reykjanessfjallgarðsins. Norðaustan í fellinu er mikil jarðhitamyndun og norður og norðaustur af því er allvíðáttumikið jarðhitasvæði. Fjallið er með mikinn sigdal á toppnum. Þorbjörn er myndaður á síðasta kuldaskeiði ísaldar, eins og flest önnur jföll á Reykjanesi.
Uppi á fellinu er gjá eða sprunga sem heitir Þjófagjá, að sögn eftir 15 þjófum sem höfðust við í gjánni og stálu fé Grindvíkinga. Voru þeir síðast unnir með prettum að því er sagan segir.
Í heimsstyrjöldinni síðari hafði setuliðið bækistöð/varðstöð í sigdalnum og lögðu veg upp á fjallið. Sjást vel ummerki um byggingar setuliðsins frá þessum tíma.
Auðvelt er að ganga á Þorbjörninn bæði að norðanverðu upp eftir misgenginu og að austanverðu þar sem gamli bílvegurinn liggur. Undir norðurhlíðum fjallsins hafa Grindvíkingar ræktað skóg og er svæðið tilvalið til útivistar.
Katla
Eldstöð (1450 m y.s.) í suðaustanverðum Mýrdalsjökli, önnur þekktasta gosstöð landsins. Katla er venjulega hulin jökli en hefur að jafnaði gosið á 40-80 ára fresti. Brýst hún þá í ógurlegum hamförum undan jöklinum, bræðir hann á stóru svæði og orsakar feiknarleg vatnsflóð sem flæmast með jakaburði suður allan Mýrdalssand.
Heimildir geta um 16 gos í Kötlu en sennilega munu þau vera um 20. Sum Kötluhlaupa hafa verið geysimikil og hafa þau eytt byggð þeirri sem fyrrum var á Mýrdalssandi. Kötluhlaup sem kom árið 1311 hefur verið kallað Sturluhlaup. Það tók af marga bæi í svonefndu Lágeyjarhverfi og drukknaði allt fólk, að því er munnmæli herma, nema maður einn, Sturla að nafni. Hljóp hann með barn í vöggu upp á ísjaka og barst á honum út til hafs. Seinna rak jakann að landi og þau björguðust bæði.
Síðast gaus Katla árið 1918 og flæmdist vatnsflaumurinn þá yfir Mýrdalssand á stórum svæðum en olli ekki tjóni svo að teljandi væri.
Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1.0. Námsgagnastofnun 1995.