Fara í efni

Norðurljósin

Yfirborð sólarinnar sendir í sífellu frá sér svokallaðan sólvind,
en hann er straumur hlaðinna agna, aðallega róteinda og rafeinda.
 Segulsvið jarðar hrindir flestum þessum ögnum frá svo að þær streyma umhverfis hana eins og vatn um kjöl. Undantekning frá þessu er kringum segulpólana, norður og suður. Á svæðum kringum þessa póla sleppur lítill hluti þessara agna inn í segulsvið jarðar. Hlöðnu eindirnar sem fara inn í segulsvið jarðar hreyfast á miklum hraða eftir gormlaga brautum kringum segulsviðslínurnar milli segulskautanna. Þegar nær dregur pólunum rekast eindirnar á lofthjúpinn,oftast í milli 100 og 250 km hæð. Orkan í rafeindunum og róteindunum örvar sameindir og frumeindir í lofthjúpnum en þær
 senda aftur á móti frá sér orkuna sem sýnilegt ljós sem við köllum norðurljós Litirnir sem við sjáum oftast eru grænn og rauð-fjólublár, en þeir stafa frá örvuðu súrefni annars vegar og örvuðu köfnunarefni eða nitri hins vegar

Á Íslandi erum við svo heppin að vera í norðurljósakraganum að nóttu til við eðlileg skilyrði. Hægt er að sjá norðurljósin hvar sem er á
Íslandi, svo fremi að norðurljósin séu yfir landinu og stjörnubjartur himinn. Best er að horfa á þau þar sem minnst gætir ljósmengunar frá
bæjunum.
Á Reykjanesi eru staðir sem er gott að horfa á norðurljósin. Á Miðnesheiðinni milli Sandgerðis og Reykjanesbæjar, á Hafnaveginum,
á Grindavíkurveginum við Seltjörn og við Kleifarvatn og Krýsuvík. Gott er að finna skjólgóðan stað og vera í hlýjum fötum, því norðurljósin eru greinilegri á kaldari árstíðum.

Til gamans má geta þess að um miðja 19. öld var prestur á Hallormsstað, Hjálmar Guðmundsson að nafni, sem þótti furðulegur m.a. af því að sagt var að hann legði í vana sinn að skoða stjörnur og ætti til að gleyma sér við það.
Munnmæli herma, að eitt sinn hafi vinnumaður farið að leita hans að næturlagi, og fundið hann liggjandi upp í loft á hjarni. Prestur var þá að telja stjörnur, en fipaðist við talninguna og brást reiður við þessari truflun.