Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn í Laugardal er sannkölluð perla í miðri Reykjavík. Þar má finna íslensk húsdýr, villt íslensk spendýr auk fulltrúa frá þeim tveim fylkingum dýra sem finnast ekki í íslenskri náttúru, skriðdýr og froskdýr. Allt frá opnun Húsdýragarðsins árið 1990 hefur verið lögð áhersla á að garðurinn sé til fyrirmyndar og í vaxtarbroddi hvað varðar dýravernd og dýravelferð.
Fjölskyldugarðurinn var opnaður árið 1993 og síðan þá hefur Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn verið rekinn sem einn garður. Í Fjölskyldugarðinum finna flest eitthvað við sitt hæfi en þar eru alls kyns leiktæki, góð nestisaðstaða og útigrill á skjólgóðu útisvæði sem gerir góðan sumardag enn betri og stormasaman vetrardag góðan til útivistar.
Hugtökin sem lögð voru til grundvallar við uppbyggingu svæðisins eru að sjá, að læra, að vera og að gera og eru tengd við lykilorð eins og fjölskylda, ævintýri, sögur, leikir og umhverfisvænar framfarir. Hugmyndasmiðir og útlitshönnuðir svæðisins leituðu eftir skírskotun til menningarsögu Íslendinga. Því eru ýmis minni í görðunum tveim tengd norrænni goðafræði og víkingatímabili þjóðarinnar. Má þar nefna víkingaskip, öndvegissúlur og þinghól sem líkir eftir gömlum þingstað auk nafngifta á svæðinu. Fræðslustarf var í upphafi hornsteinn starfseminnar og er enn.
Opnunartími:
Sumar (1. júní - 18. ágúst): alla daga 10:00-18:00.
Aðrir árstímar (19. ágúst - 31. maí): alla daga 10:00-17:00