Raggagarður
Upphaf fjölskyldugarðsins
Frumkvöðull að þessum garði var Vilborg Arnarsdóttir (Bogga í Súðavík), fyrsti framkvæmdastjóri garðsins. Hana hafði lengi langað að búa til sumarleiksvæði til þess að auka fjölbreytni í afþreyingu fyrir fjölskyldur og ferðamenn á norðanverðum Vestfjörðum, efla útiveru og hreyfingu og stuðla að ánægjulegri samveru foreldra og barna. Bogga hófst handa við verkefnið eftir að sonur hennar, Ragnar Freyr Vestfjörð, lést í bílslysi í Súðavík árið 2001, aðeins 17 ára gamall. Garðurinn er til minningar um hann.
Draumurinn um garðinn rættist með aðstoð heimamanna, sumarbúa, gesta, fjölmargra velunnara á öllum aldri og fjölda styrktaraðila. Unnið hefur verið af alúð og umhyggju í sjálfboðavinnu í mörg þúsund klukkustundir.
Fjár hefur verið aflað með ýmsu móti. Börn hafa haldið tombólu og gefið garðinum peningana. Ýmiss konar varningur hefur verið seldur, margt af því gjafir til garðsins. Bökuð hafa verið fjögur tonn af kleinum á þessum 11 árum. Fjársmalar í Ísafjarðardjúpi hafa styrkt garðinn og tónleikar verið haldnir svo dæmi séu tekin.
Framkvæmdin
Félagið Raggagarður var stofnað 8. janúar 2004 til þess að standa að gerð og framkvæmd garðsins. Í stjórn félagsins, meðan á uppbyggingu stóð árin 2004 til 2015, voru: Vilborg Arnarsdóttir formaður, Barði Ingibjartsson, Sigurdís Samúelsdóttir, Anne Berit Vikse og Jónas Ágústsson.
Framkvæmdir hófust við Raggagarð 14. maí 2004 og leikjasvæðið var opnað 6. ágúst 2005. Leikjasvæðið er tvískipt, efra svæðið fyrir eldri börnin og það neðra fyrir þau yngstu.
Haustið 2013 var hafist handa við gerð útivistarsvæðis og byggð þrjú geymsluhús fyrir lausamuni garðsins. Á svæðinu má sjá sérkenni Vestfjarða á einum stað ásamt listaverkum úr náttúruefnum. Útivistarsvæðið var formlega opnað 8. ágúst 2015.
Aðstaða
Svið ásamt áhorfendasvæði, ætlað fyrir fjölskyldusamkomur og listaviðburði, er á útivistarsvæðinu. Nokkur útigrill eru á leikjasvæðinu til afnota fyrir gesti. Sæti og borð eru fyrir yfir 100 manns í öllum garðinum.
Gestabók og sparibaukur eru við salernishúsið og eru gestir beðnir um að skrifa í bókina í hvert sinn sem garðurinn er heimsóttur. Enginn aðgangseyrir er í Raggagarð en frjáls framlög í baukinn eru vel þegin til að styrkja rekstur garðsins.
Salerni, grill og önnur aðstaða í garðinum eru opin frá 1. júní til 1. september, en gestum er þó velkomið að heimsækja garðinn á öðrum tímum líka.
Garðurinn er byggður upp með huga, höndum og hjarta heimamanna og annarra velunnara.
Fjölskyldugarður Vestfjarða sem er fyrir alla fjölskylduna á öllum aldri. Grillaðstaða fyrir fjölskyldur og hópa.
Sjá heimasíðu garðsins: www.raggagardur.is