Fara í efni

Gestastofur

21 niðurstöður
Vakinn

Gestastofa og upplýsingamiðstöð Vatnajökulsþjóðgarðs í Ásbyrgi, Gljúfrastofa

Gljúfrastofa - Ásbyrgi National Park, 671 Kópasker

Gljúfrastofa er ein af gestastofum Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar er falleg fræðslusýning og upplýsingagjöf fyrir gesti. Þar má fá upplýsingar um þjóðgarðinn og nágrenni hans, gönguleiðir, náttúruperlur, sögu og þjónustu. Gljúfrastofa er hluti af Norðurstrandarleið og Demantshringnum.
Þar er rafhleðslustöð frá ON

Afgreiðslutími í Gljúfrastofu 2024:
16. jan - apr: 11-15 mánudaga til föstudag
maí: 10-16 alla daga
jún - ágú: 9-17 alla daga
sept - okt: 11-16 alla daga
nóv - des: 11-15 virka daga

Til að skoða vefsíðuna okkar, vinsamlegast smellið hér .

Kötlusetur

Víkurbraut 28, 870 Vík

Í hjarta gamla Víkurþorps finnið þið Brydebúð, glæsilegt timburhús frá 1895. Þar er Kötlusetur til húsa, miðstöð menningar, fræða og ferðamála í Mýrdal. 

Kannið náttúru Kötlu UNESCO jarðvangs á Kötlusýningunni. Handleikið mismunandi bergtegundir, skoðið eldfjallaösku allt aftur til ársins 1860 og sjáið stuttmynd um sögur af Kötlugosum í gegn um aldirnar. 

Uppgvötvið sögu strandaðra skipa á svörtum söndum Suðurlands og kynnist happaskipinu Skaftfellingi á Sjóminjasafninu Hafnleysu. Setjið ykkur í spor sjómanna í baráttu sinni við hina hafnlausu strönd. 

Í upplýsingamiðstöðinni lærið þið hvernig er best að upplifa Mýrdalinn. Verslið vöru úr heimabyggð og kannið Vík með því að keppa í Fjársjóðleik Kötluseturs eða ganga hinn glænýja Menningarhring. Kort af svæðinu með öllum sínum spennandi útivistartækifærum fást hér!   

Byggðasafnið á Garðskaga

Skagabraut 100, 250 Suðurnesjabær

Byggðasafnið á Garðskaga er staðsett í miðri náttúruparadís þar sem fjölbreytt fuglalíf, náttúrufergurð og dýrarlíf skarta sínu fegursta.

Safnið var fyrst opnað 1995 og hefur verið starfrækt síðan. Safnið er alhliða byggða og sjóminjasafn og er sérstaða safnsins einstakt vélasafn þess. 60 vélar eru á safninu sem eru allar uppgerðar af Guðna Ingimundarsyni í Garði, flestar eru þær gangfærar. Safnið hefur til sýnis ýmsa muni sem tengdust búskaparháttum til sjós og lands, elstu munir eru orðnir yfir eitthundrað ára gamlir. Fallegt safn af gömlum útvörpum og ýmsum tækjum og tólum sem notuð voru á heimilum á fyrri árum, skólastofa, skóvinnustofa og verslun Þorláks Benediktssonar svo fátt eitt sé nefnt. Stór hluti af safninu eru sjóminjar, ýmsir hlutir sem notaðir voru við fiskveiðar og til verkunar fisks á landi. Á safninu er sexæringur, níu metra langur bátur með Engeyjarlagi smíðaður 1887.

Opnunartími: Safnið er opið kl. 10-17,  frá 1. maí - 30. sept. 

Frá október til apríl er byggðasafnið opið fyrir hópa sem panta heimsóknir í síma 862 1909,  byggdasafn@sudurnesjabaer.is eða með skilaboðum á Facebook Byggðasafnið á Garðskaga. 

KVIKAN - Auðlinda- og menningarhús

Hafnargata 12a, 240 Grindavík

Á efri hæð hússins er sýningin „Saltfiskur í sögu þjóðar“. Sýningin ætti að geta að vera forvitnileg fyrir erlenda ferðamenn, fróðleg fyrir skólafólk, sem getur hér kynnt sé mikilvægasta atvinnuveginn, og ánægjuleg fyrir hinn almenna Íslending sem fer í helgarbíltúr með fjölskylduna. 

Þegar leið á 18. öldina, og þilskip tóku að leysa áraskipin af hólmi, varð saltfiskur aðalútflutningsvara Íslendinga. Fram að því höfðu vaðmál og skreið verið undirstaða utanríkisverslunar. Með tilkomu togaranna varð saltfiskverkun í raun að stóriðju og saltfiskur hefur æ síðan skipt verulegu máli fyrir afkomu þjóðarbúsins. Grindvíkingar hafa löngu verið drjúgir við að saltfiskinn og sýningum sögu verkunar og sölu á saltfiski og þýðingu hans fyrir þjóðarbúið í gegn um tíðina á því vel heima í þessu ágæta sjávarplássi við suðurströndina.

Sýningar textar eru bæði á íslensku og ensku.

 

Opnunartími                  

15. maí – 31. ágúst        alla daga kl. 11-17

1. September - 14. maí  alla daga nema sunnudaga kl 11-17

Aðgangur er ókeypis

Einnig hægt að taka á móti hópum utan afgreiðslutíma eftir samkomulagi.

Gestastofa Snæfellsjökulsþjóðgarðs á Malarrifi

Malarrif, 360 Hellissandur

Gestastofa þjóðgarðsins er við Malarrif. Þema sýningarinnar í gestastofunni er vermaðurinn og náttúran og er leitast við að sýna hvernig vermenn nýttu náttúruna til að sjá sér farboða. Höfðað er til allra skilningarvitanna og eru gestir hvattir til að smakka, lykta og reyna. Hægt er að finna eitthvað skemmtilegt fyrir fólk á öllum aldri í gestastofunni. Þar má einnig nálgast upplýsingar og fræðslu um svæðið undir Jökli hjá landvörðum sem þar starfa.

Smelltu hér til að skoða opnunartíma.

Aurora Basecamp

Bláfjallavegur (Road 417), 221 Hafnarfjörður

Upplifunin í Aurora Basecamp er einstök á heimsvísu. Hún kennir þér allt um norðurljósin og hvernig á að finna þau. Að auki getur þú hitt norðurljósin þar sem við framköllum þau í Norðurljósasúlum þannig að þú getur séð raunvirkni þeirra á hverjum tíma fyrir sig. 

Umhverfið innan í Kúlunum og víðernin fyrir utan er afslappað og hannað til að þú getir slakað á og beðið eftir ljósasýningunni.

Aurora Basecamp Kúlurnar eru staðsettar á Reykjanesinu, rétt utan við Vellina í Hafnarfirði, í um 20 mín akstursfjarlægð frá Reykjavík.

Ölvisholt brugghús

Ölvisholt, Flóahreppur, 803 Selfoss

 Ölvisholt Brugghús er handverksbrugghús sem staðsett er rétt
utan við Selfoss. Við framleiðum fjölmarga spennandi bjóra úr hágæða hráefni. Við bjóðum upp á heimsóknir bæði fyrir einstaklinga og hópa, sjá https://www.olvisholt.is/heimsoacuteknir.html 

Náttúrustofa Suðvesturlands

Garðvegur 1, 245 Suðurnesjabær

Náttúrustofa Suðvesturlands var stofnuð árið 2000 og er ein af átta náttúrustofum landsins. Hún er staðsett að Garðvegi 1 í Sandgerði. Umdæmi stofunnar nær frá Hvalfjarðarbotni, um Þingvallavatn, niður Sogið og til ósa Ölfusár.

Stofnunin stundar náttúrufarsrannsóknir og vöktun af ýmsu tagi og ber þar helst að nefna vistfræði sjávarhryggleysingja, framandi tegundir við Ísland, rannsóknir á vistfræði fugla og vöktun og kortlagning strandsvæða. Náttúrustofan tekur einnig þátt í kennslu á öllum námsstigum.

Náttúrustofa Suðvesturlands er önnur af rannsóknarstoðum Þekkingarseturs Suðurnesja ásamt Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Suðurnesjum. Þessar þrjár stofnanir deila rannsóknar- og tilraunarými að Garðvegi 1 og vinna jafnframt sameiginlega að mörgum rannsóknum.

Vakinn

Skaftárstofa – Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri

Klausturvegur 10, 880 Kirkjubæjarklaustur

Skaftárstofa er glæsileg ný gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs við þjóðveg eitt, við Sönghól, í nágrenni Kirkjubæjarklausturs. Þar er jafnframt upplýsingamiðstöð fyrir Skaftárhrepp. Á meðan unnið er að nýrri fræðslusýningu um þjóðgarðinn í rýmið býðst gestum að skoða sýningu Jöklarannsóknafélags Íslands, Vorferð. Sýningin var gerð í tilefni af 70 ára afmæli félagsins og varpar meðal annars ljósi á sögu félagsins, segir frá skálabyggingum, vorferðum á jökli, sporðamælingum, rannsóknarverkefnum, jöklabakteríunni og tímaritinu Jökli.

Stuttmyndir:
Eldgosið í Grímsvötnum 2011
Vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs

Opnunartímar gestastofu

Þátttakandi í VAKINN - gæða og umhverfiskerfi íslenskrar ferðaþjónustu.

Vakinn

Skaftafellsstofa – gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftafelli

Skaftafellsstofa , 785 Öræfi

Skaftafellsstofa er upplýsinga- og fræðslumiðstöð þar sem gestir fá svör við spurningum um náttúrufar Skaftafells, gönguleiðir, gistingu og afþreyingu í næsta nágrenni.

Upplýsingar um opnunartíma má finna hér: https://www.vatnajokulsthjodgardur.is/is/svaedin/skaftafell/skipuleggja-heimsokn/skaftafellsstofa

Gönguleiðir á svæðinu eru margar og fjölbreyttar. Hér má nálgast yfirlit gönguleiða í Skaftafelli. Yfir sumarið bjóða landverðir uppá fræðslugöngur og barnastundir. 

Í Skaftafellsstofu eru upplýsingar um jarðfræði og náttúru í Skaftafelli. Sýnd er mynd um suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs á opnunartíma Skaftafellsstofu. Í Skaftafellsstofu má einnig sjá muni úr örlagaríkum leiðangri breskra háskólastúdenta árið 1952.

Í Skaftafellstofu er minjagripaverslun með bækur, póstkort og handverk. Lögð er áhersla á íslenskar vörur og muni sem tengjast byggðarlaginu. Þar er einnig hægt að kaupa fræðslumynd um flóð Skeiðarárjökuls árið 1996.

Veitingasala og sölubásar ferðaþjónustuaðila er á svæðinu ásamt stoppistöð áætlunarbíla. 

Á tjaldsvæðinu í Skaftafelli er WC, (líka fyrir hreyfihamlaða), rennandi vatn (heitt og kalt), sturtuaðstaða, aðstaða fyrir losun húsbílasalerna, útigrill, þvottavél, þurrkari og nettenging. Þjónustumiðstöð í nágrenninu og margskonar tækifæri. 

Tjaldsvæðið er opið allt árið um kring.

Þátttakandi í VAKINN - gæða og umhverfiskerfi íslenskrar ferðaþjónustu.

Gestastofan í Kröflu

Kröflustöð, 660 Mývatn

Gestastofan í Kröflu er staðsett í aðalrými stöðvarhússins í Kröflustöð. Gestastofan okkar veitir gestum innsýn þá ótrúlegu krafta sem búa í iðrum jarðar en Kröflusvæðið í Mývatnssveit er eitt frægasta jarðhitasvæði heims. 

Það er opið hjá okkur alla daga í sumar frá 10-17. 

Aðgangur að gestastofunni er gjaldfrjáls og á staðnum er salerni og kaffi.

Ef þú hyggst koma í heimsókn með hóp (10 eða fleiri) þarftu að fylla út heimsóknarbeiðni:
www.landsvirkjun.is/form/heimsoknarbeidni

Duus Safnahús - Menningar- og listamiðstöð

Duusgata 2-8, 230 Reykjanesbær

Duus Safnahús eru lista- og menningarmiðstöð Reykjanesbæjar og hýsa aðal sýningarsali Listasafns og Byggðasafns Reykjanesbæjar. Bæði söfnin hafa hlotið viðurkenningu Safnaráðs. Þar er einng Gestastofa Reykjaness jarðvangs (Geopark) og fleiri sýningar. 

Lokað er á mánudögum. Opið er þriðjudaga til sunnudaga frá kl: 12:00-17:00.

Ölverk Pizza & Brugghús

Breiðamörk 2, 810 Hveragerði

Á Ölverk hafa tveir hlutir verið fullkomnaðir, handverksbjór úr okkar eigin brugghúsi og eldbakaðar pizzur úr deigi sem útbúið er á staðnum daglega. Ölverk er staðsett  í Hveragerði, í 35 mínútum aksturfjarlægð frá Reykjavík . Á bak við hugmyndina að Ölverk liggur einlægur áhugi á eldbökuðum handverkspizzum og bruggun á vönduðum bjórum. Á stuttum tíma hefur Ölverk náð að skapa sér gott orðspor enda afar sérstætt og merkilegt á heimsvísu fyrir brugghús sem Ölverk að nýta jarðhitaorku í framleiðsluferli bjórsins.

Í boði eru skemmtilegar bjórkynningar sem eru tilvaldar fyrir allar smærri eða stærra hvata-, og hópeflisferðir. Í kynningunum er stiklað á bjórsögu Íslands, jarðhitavirkni Hengil svæðisins og nýtingu þeirrar orkuauðlinda hér á Íslandi. Aðaláherslan liggur svo í skemmtilegri og fræðandi frásögn um einstakt bjórframleiðsluferli Ölverks og fá gestir að smakka á fjórum bjórtegundum á meðan kynningu stendur. Hefðbundin bjórkynning varir í 30 til 40 mínútur og bókast á olverk@olverk.is.  

Á matseðli Ölverks er að finna afar fjölbreytt úrval af forréttum, salötum og eldbökuðum pizzum við allra hæfi.

Á Ölverk eru átta bjórkranar með síbreytilegum bjórtegundum framleiddum á staðnum en einnig er gott úrval af vörum frá öðrum íslenskum áfengisframleiðendum.  Á matseðli Ölverks er að finna afar fjölbreytt úrval af forréttum, salötum og eldbökuðum pizzum við allra hæfi.

Frá stofnun Ölverk vorið 2017 hefur Ölverk framleitt sínar eigin sterku sósur eða ´hot sauce´ og notað við framleiðslu á þeim chili sem ræktaður er af þeirra eiginn chili-bónda í gróðurhúsi sem er upphitað með jarðgufu. Þessa sterku en bragðgóðu sósu, sem nú eru fáanlegar í öllum betri verslunum, ganga undir nafninu Eldtungur og eru orðnar fjórar talsins.

Orka til framtíðar

Ljósafoss, 805 Selfoss

Gagnvirk orkusýning Landsvirkjunar er staðsett á Sogssvæðinu við Úlfljótsvatn og er í um 50 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík. 

Sýningin samanstendur af fjölbreyttum og fræðandi sýningaratriðum sem veita gestum innsýn í heim raforkunnar og hvernig raforkan er framleidd með því að beisla krafta náttúrunnar. 

Líttu við í Ljósafosstöð og upplifðu af eigin raun orkuna sem býr í öllum hlutum. 

Opið alla daga yfir sumartímann kl. 10:00-17:00 og frítt inn á sýninguna.

Hópar með 10 eða fleiri gesti á vegum ferðaskrifstofa, fyrirtækja, stofnana eða félaga eru vinsamlegast beðin um að fylla út þessa heimsóknarbeiðni - https://www.landsvirkjun.is/form/heimsoknarbeidni  


Vakinn

Snæfellsstofa, Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs

Skriðuklaustur, 701 Egilsstaðir

Snæfellsstofa er gestastofa og upplýsingamiðstöð fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Snæfellsstofa opnaði sumarið 2010 og er hún fyrsta vistvænt vottaða bygging landsins samkvæmt breska umhverfisstaðlinum BREEAM.

Í Snæfellsstofu er sérlega áhugaverð og falleg sýning, Veraldarhjólið, sem fjallar um hringrás og mótun náttúrunnar. Sýningin leggur áherslu á samspil gróðurfars og dýralífs á austursvæði þjóðgarðsins. Við hönnun hennar var lögð áhersla á að börn gætu snert, lyktað og prófað sig á ýmsum sýningarmunum.

Minjagripaverslun er í gestastofunni með áherslu á vörur úr heimabyggð og nágrannasveitum þjóðgarðsins. Kaffi, te og léttar veitingar eru til sölu

Gestastofan er staðsett á Skriðuklaustri örlítið lengra inn dalinn en þar sem beygt er upp á Fljótsdalsheiði. Aðgengi er fyrir fatlaða.

Aðgangur er ókeypis.

Opnunartími:
Opnunartíma má finna á með því að smella hér. 

Ullarvinnslan Gilhagi

Gilhagi, 671 Kópasker

Ullarvinnsla heima á bæ þar sem hægt er kynnast ferlinu við vinnslu ullar allt frá sauðkind í ullarflík.
Gestastofan er lokuð yfir haust og vetrarmánuði
Í gestastofunni er hægt að nálgast vörur okkar og frá framleiðendum úr nágrenni okkar ásamt léttri hressingu
Vinnslan er lítil í sniðum og hefur sterka tengingu við handverkið við ullarvinnslu.
Hrein ólituð íslensk ull beint frá bændum spunnin í náttúrulegum sauðalitum.
Íslenska kindin hefur einstaka ull og eiginleika sem skila sér í bandinu og fullkláraðri flík.
Ullarbandið er ólitað í náttúrulegum litum íslensku sauðkindarinnar.
Tengingin við náttúruna er mikil og gott að njóta kyrrðarinnar sem henni fylgir.
(Yfir vetrarmánuði mælum við með að hafa samband til að athuga með færð og opnunartíma)

Skaftfell - myndlistarmiðstöð Austurlands

Austurvegur 42, 710 Seyðisfjörður

Skaftfell, myndlistarmiðstöð Austurlands, var stofnað 1998 af hópi áhugamanna um menningu og listir sem kallaði sig Skaftfellshópinn. Stofnár listamiðstöðvarinnar er einnig dánarár myndlistarmannsins Dieters Roth (1930-1998) en hann gegndi stóru hlutverki í menningarflóru Seyðfirðinga allt frá því að hann hóf að venja komur sínar í fjörðinn upp úr 1990. Skaftfellshópurinn samanstendur að miklu leyti af fólki sem naut mikilla og góðra samvista við Dieter og er tilurð miðstöðvarinnar sprottin úr þeim frjóa jarðvegi er hann átti þátt í að skapa á Seyðisfirði. 

Starfsemin er staðsett í gömlu og glæsilegu timburhúsi að Austurvegi 42 á Seyðisfirði og var gjöf frá hjónunum Karólínu Þorsteinsdóttur og Garðari Eymundssyni. Í dag má þar finna sýningarsal og litla verslun á annarri hæð, gestavinnustofu fyrir listamenn á þriðju hæð og bistró á jarðhæð sem einnig geymir bókasafn bókverka og listaverkabóka.

Starfsemi Skaftfells er helguð samtímamyndlist á alþjóðavísu. Miðstöðin þjónar jafnframt sem vettvangur fyrir listamenn og áhugafólk um listir til að skiptast á hugmyndum, taka þátt í skapandi samræðum og verða fyrir áhrifum hvert af öðru í umhverfinu. Í miðstöðinni er öflug sýninga- og viðburðadagskrá, starfræktar gestavinnustofur fyrir listamenn og boðið upp á fjölþætt fræðslustarf. Jafnframt er hægt er að skoða verk eftir alþýðulistamanninn Ásgeir Jón Emilsson (1931-1999) sem er að finna í Geirahúsi og er í eigu og umsjá Skaftfells. Hægt er að skoða húsið eftir samkomulagi. Einnig er hægt að skoða útilistaverkið Tvísöngur sem er hljóðskúlptúr eftir þýska listamanninn Lukas Kühne en verkið vann hann í samvinnu með Skaftfelli árið 2012. 

Skaftfell hlaut Eyrarrósina fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni árið 2013. 

Nánari upplýsingar um sýningarhald, aðra starfsemi Skaftfells og opnunartíma má finna á skaftfell.is  

Einnig er hægt að senda fyrirspurn á skaftfell@skaftfell.is

Landnámssetur Íslands

Brákarbraut 13-15, 310 Borgarnes

Í Landnámssetrinu er sögð saga Landnámsins og söguþráður Egilssögu rakinn. Gesturinn er leiddur áfram með hljóðleiðsögn sem hægt er að fá á 15 tungumálum auk leiðsagnar á íslensku sem sérstaklega er sniðin fyrir börn frá allt að fjögurra ára aldri. Sýningarnar eru um margt ólíkar en eiga það sameinginlegt að vera einstaklega skemmtileg viðbót við frásögnina í hljóðleiðsögninni.


Þórbergssetur

Hali, Suðursveit, 781 Höfn í Hornafirði

Í Þórbergssetri er veitingasala,gestamóttaka, salerni og sýningarsalir.   Sýning Þórbergsseturs er fjölbreytt upplifunarsýning er tengist ævi og verkum skáldsins, en einnig sögu íslensku þjóðarinnar. Sjá má breytingar og þjóðlifsmyndir frá frumstæðu bændaþjóðfélagi yfir í bæjarlíf og búsetu í ört vaxandi höfuðborg. Textar úr verkum Þórbergs varða leiðina á fallega hönnuðum ljósaskiltum, en einnig er hægt að fá hljóðleiðsögn með viðbótarefni. Þannig er sýningin sambland af fræðsluefni, safni og sagnaskemmtan og gengið er inn í leikmyndir þar sem reynt er að ná andblæ liðinna ára og njóta um leið stórbrotinna lýsinga meistarans sem leiðsögn um staðinn. Vakin er athygli á að sýningin höfðar einnig mjög vel til barna og unglinga.

Hópar eða fjölskyldur geta bókað leiðsögn um Þórbergssetur þar sem heimamenn fræða gesti um lífið í Suðursveit  og hverning sögusvið bóka Þórbergs opnar sýn inn í horfna veröld liðins tíma.

Arkitekt að húsinu er Sveinn Ívarsson og hönnuður sýningar Jón Þórisson.

Opið er allt árið,  en í sumar verður opnunartími á sýninguna frá klukkan 10 á morgnana til  klukkan 6 á kvöldin.

Veitingahús Þórbergsseturs er opið fyrir almenning frá klukkan 10 - 8 í sumar.

Í boði eru ýmsir þjóðlegir réttir úr heimabyggð, kjötsúpa, heimabakað brauð, samlokur, bleikjuréttir og Halalamb.

Kvöldmatur er framreiddur frá klukkan 6 til 8 á kvöldin 

Segull 67 Brugghús

Vetrarbraut 8, 580 Siglufjörður

Segull 67 er fjölskyldurekið brugghús, staðsett á Siglufirði í gamla frystihúsinu sem hefur verið tómt til margra ára. Árið 2015 var hafist handa og gamla frystihúsið fékk nýtt hlutverk. Verksmiðjan sjálf er inni gamla frystiklefanum og smökkunar barinn þar sem fiskurinn var frystur í pönnur og fyrir ofan allt saman var sjálf fisk vinnslulínan. Nú er hægt að taka brugghús kynningu um verksmiðjuna og smakkað á handverks bjórum. 

Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi

Sandahraun 5, 360 Hellissandur

Þjóðgarðsmiðstöðin er fullhönnuð og byggð út frá alþjóðlega vottunarstaðlinum BREEAM en þau viðmið ganga út frá að notuð séu umhverfisvæn byggingarefni og að úrgangur sé takmarkaður á byggingartíma og í rekstri sem stuðlar að því að byggingarnar verða fyrir vikið umhverfisvænni og hagkvæmari í rekstri. 

Aðgengi að húsinu er til fyrirmyndar en hér eru góðir göngu- og hjólastígar sem liggja til og frá þjóðgarðsmiðstöðinni. Hleðslustöðvar munu standa til boða bæði fyrir gesti og starfsfólk þjóðgarðsins. 

Starfsmenn á gestastofu Snæfellsjökuls Þjóðgarðs veita upplýsingar og aðstoð. Gestastofan og salernin eru opin allt árið. 

Þjóðgarðurinn er fyrsti þjóðgarður landsins sem nær að sjó og hefur þá sérstöðu að geyma minjar frá útræði fyrri alda. Landslagið á Snæfellsnesi er magnþrungið og margbreytilegt. Ströndin er fjölbreytt þar sem skiptast á grýttir vogar, strendur með ljósum eða svörtum sandi og snarbrattir sjávarhamrar með iðandi fuglalífi um varptímann. 

Láglendið innan þjóðgarðsins er að mestu hraun sem runnið hefur frá Snæfellsjökli eða eldvörpum á láglendi og eru víðast þakin mosa en inn á milli má finna fallega skjólsæla bolla með gróskumiklum gróðri. Láglendið á sunnanverðu Snæfellsnesi er forn sjávarbotn sem risið hefur frá því ísöld lauk. Hamrabeltin upp af láglendinu eru því gamlir sjávarhamrar. 

Snæfellsjökull gnæfir tignarlegur yfir umhverfinu og undirfjöll hans eru margbreytileg að lögun. Ofar í landinu og nær Jökulhálsi eru vikurflákar og land sem er nýlega komið undan jökli. 

Smelltu hér ti l að skoða opnunartíma