Fara í efni

Eyjur

14 niðurstöður

Brákarey í Borgarnesi

Borgarnes
Eyjur við Borgarnes. Nefndar eftir Þorgerði brák, persónu úr Egilssögu

Breiðafjörður

Annar stærsti flói á Íslandi með óteljandi eyjar og fjölbreytt dýralíf

Dagverðarnes í Dölum

Búðardalur
Fyrsti viðkomustaður Auðar djúpúðgu landnámskonu í Dölum

Drangey

Sauðárkrókur
Drangey er flatur móbergsstapi í miðjum Skagafirði. Eyjan er sæbrött og rís næstum 200 m úr sjó. Bátaferðir eru í Drangey frá Fagranesi og Sauðárkróki.

Flatey

Húsavík

Flatey á Skjálfanda er stærsta eyjan á Skjálfandaflóa við Norðurstönd Íslands. Eyjan liggur aðeins um 2,5 kílómetra frá landi við Flateyjardal. Í Flatey er mikiðfuglalíf og góð fiskimið allt í kringum eyjuna. Flatey er tilvalinn fyrir fuglaáhugafólk og ævintýri líkast að koma þangað á sumrin. Byggð er sunnan á eynni og auk íbúðarhúsa eru þar samkomuhús, skóli, viti og kirkja. Árið 1942, bjuggu 120 manns á Flatey en síðan 1967 hefur engin verið fasta búsetu á eynni.
Yfir sumartímann koma ferðamenn til eyjunnar og einnig fólk sem á ættir að rekja til Flateyjar. Ekki er boðið upp á gistingu í Flatey en hægt er að fara þangað sjóleiðina frá Húsavík.  

Flatey á Breiðafirði

Flatey á Breiðafirði
Afar áhugaverður staður til að heimsækja, með náttúrufegurð og friðsæld. Sagt er að þar hafi tíminn staðið í stað.

Flatey á Breiðafirði

Reykhólahreppur
Breiðafjörður er annar stærsti flói landsins en mynni hans er 70 km á breidd.

Grímsey

Drangsnes

Grímsey á Steingrímsfirði er sannkölluð náttúruperla. Einungis 10 mínútna sigling er til Grímseyjar og boðið er upp á áætlunarferðir frá Drangsnesi. Í Grímsey er mikil náttúrufegurð og fjölskrúðugt fuglalíf. Við reiknum með því að það taki um 2 klukkustundir að ganga um eyna. Fleiri upplýsingar er að finna á kaffihúsinu Malarhorni

Grímsey

Grímsey
Grímsey er græn, grösug og einstaklega gjöful eyja. Frægust er Grímsey trúlega í hugum ferðamanna fyrir heimskautsbauginn og kemur fólk gjarnan langa leið, til þess eins að stíga norður fyrir baug.

Helgafell gönguleið

Stykkishólmur

Helgafell er klettafell úr blágrýti sem staðsett er rétt fyrir utan Stykkishólm. Við rætur fellsins er að finna bílastæði
ásamt skiltum tengdum sögu staðarins og er öll aðkoma til fyrirmyndar. Við upphaf göngu er gengið í gegnum hlið en við tekur göngustígur sem leiðir göngufólk upp að útsýnisskífu og hlaðna tóft sem er að finna á toppi Helgafells.   

Helgafell í Helgafellssveit er fornfræg jörð en hún kemur við sögu í íslendingasögunum og eru sumar hverjar taldar hafa
verið skrifaðar á Helgafelli. Mikil saga fylgir því svæðinu og stórfenglegt útsýni á toppi Helgafells, þar sem sést yfir Breiðarfjörð og fjallagarð Snæfellsnes. Gömul þjóðtrú segir að þau sem ganga í fyrsta sinn á Helgafell hafi kost á því
að bera upp þrjár óskir þegar upp á fellið er komið. Skilyrðin eru að gengið sé í þögn upp á fellið og ekki sé litið til baka. Þegar upp á fellið er komið er horft í austurátt og þrjár óskir bornar fram í huganum og engum sagðar.  

Staðsetning: Helgafell, Helgafellssveit. 

Upphafspuntkur: Helgafellsvegur (frá Stykkishólmsvegur nr.58) 

Erfiðleikastig: Létt leið. 

Lengd: 500 metrar 

Hækkun: 73 metrar. 

Merkingar: Engar merkingar. 

Tímalengd: 10 mínútur. 

Undirlag: Smá grjót, trjákurli, stóru grjóti og blönduðu náttúrulegu efni. 

Hindranir á leið: Þrep eru víða á leiðinni. 

Þjónusta á svæðinu: Salerni eru við bílastæði og ruslafötur. 

Lýsing: Engin lýsing. 

Árstíð: Opin 12 mánuði ársins en huga þarf að aðstæðum að vetri til. 

GPS hnit upphafspunktar: N65°02.5055 W022°43.9716  

GPS hnit endapunktar: N65°02.5055 W022°43.9716   

Hrísey

Akureyri
Hrísey er sú næststærsta við Ísland á eftir Heimaey. Hún er láglend, rís hæst 110 metra yfir sjávarmál, og er vel gróin. Berggrunnur eyjarinnar er blágrýti, um 10 milljón ára gamall.

Surtsey

Vestmannaeyjar

Surtsey, á heimsminjaskrá UNESCO frá júlí 2008
Yngsta eyja við Ísland, syðst Vestmannaeyja og önnur að stærð, um 1,9 km².

Að morgni 15. nóvember 1963 örlaði fyrir eyju þar sem Surtsey er nú, en árla morguns daginn áður urðu menn varir við stórkostleg eldsumbrot úr hafinu þar sem áður hafði verið um 130 m dýpi. Sprengigosin úr gígnum fyrstu mánuðina voru stórkostleg á að líta og í kröftugustu sprengingunum náði grjótflugið úr gígnum allt að 2500 m hæð en gosmökkurinn komst mest í 9 km hæð.

Í aprílbyrjun 1964 hættu sprengigosin en hraungos hófst og stóð óslitið til vors 1965. Mestri hæð náði Surtsey 174 m y.s. Surtseyjargosið er mest allra sjávargosa sem orðið hafa við Íslandsstrendur frá því er sögur hófust en sagnir eða heimildir eru til um 10-20 slík gos.

Í maí 1965 hófst síðan gos í sjó 600 m austar og hlóðst þar smám saman upp eyja, Syrtlingur. Hún var í september 1965 um 70 m há og 650 m á lengd en brotnaði niður í brimi í október og er þar nú neðansjávarhryggur sem eyjan var áður. Á jólunum 1965 tók síðan að gjósa um 900 m suðvestan Surtseyjar og hlóðst þar upp eyja sem kölluð var Jólnir. Gos hætti í Jólni í ágúst 1966 og í lok október 1966 var eyjan horfin. Hinn 19. ágúst 1966 opnaðist gossprunga á Surtsey og flæddi hraun úr henni í sjó. Þessu gosi lauk í júní 1967 og var Surtseyjargosinu þar með lokið. 

Jafnskjótt og gosið hófst tóku vísindamenn að kanna það, hegðun þess og áhrif. Síðan gosinu lauk hefur rannsóknum verið haldið áfram í eyjunni, bæði til að kanna hversu fer um jarðlög eyjarinnar sjálfrar en ekki síður á landnámi lífvera, dýra og plantna, og hvernig þær hafast við. Bann við ferðum manna, annarra en vísindamanna, var sett til að hægt væri að fylgjast með því hvernig náttúran sjálf annast landnám lífveranna og hversu þær dafna á nýju og lífvana landi. Hafa vísindamenn dvalið þar tíma og tíma og var hús reist á eyjunni í því skyni árið 1965. Stofnað var Surtseyjarfélag til að hafa stjórn á og annast rannsóknir í Surtsey. Hefur það gefið út skýrslur um rannsóknirnar auk þess sem einstakir fræðimenn hafa skrifað fjölda ritgerða um þær.

Súgandisey við Stykkishólm á Snæfellsnesi

Stykkishólmur
Landföst eyja við Stykkishólm. Rík af fuglalífi og býr við mikið útsýni

Vigur

Ísafjörður

Vigur er ein þriggja eyja á Ísafjarðardjúpi og liggur úti fyrir mynni Skötufjarðar og Hestfjarðar. Hún er löng og mjó og dregur nafn af lögun sinni, en orðið vigur merkir spjót. Í Vigur var löngum stundaður heilsársbúskapur en nú eru þar engar kýr lengur. Þar eru þó enn nýtt hlunnindi, þ.e. æðarvarp og fuglatekja. Ferðir út í eyjuna hafa verið vinsælar á meðal íslenskra og erlendra ferðamanna undanfarin ár.

Lundi, æðarfugl og kría eru helstu fugarnir á eynni og eitt helst aðdráttaraflið. Lundinn er búinn að koma sér svo vel fyrir í eyjunni að hann er búinn að grafa hana nánast í sundur. Ferðamönnum sem ferðast um eyjuna er því bent á að fylgja stígnum sem útbúinn hefur verið til þess að eiga ekki á hættu að detta ofan í lundaholur.

Í Vigur er minnsta pósthús á Íslandi, eina kornmyllan á Íslandi og flest húsin eru nýlega uppgerð af Þjóðminjasafninu.

Til þess að komast út í Vigur þá þarf að taka bát frá Ísafirði en ferðirnar eru skipulagðar daglega.