Minjasafnið á Bustarfelli
Minjasafnið á Bustarfelli - Lifandi safn
Allt frá árinu 1982 hefur Minjasafnið á Bustarfelli í Vopnafirði verið rekið sem sjálfseignarstofnun en þá gaf Elín Methúsalemsdóttir Vopnfirðingum safnið sem fram að þeim tíma hafði verið sýnt sem einkasafn. Minjasafninu tilheyra allir munir bæjarins og kaffihúsið Hjáleigan. Bæinn sjálfan sér Þjóðminjasafn Íslands um fyrir hönd íslensku þjóðarinnar.
Aðstandendur safnsins hafa lagt metnað sinn í að sýning gripa safnsins sé sett upp á sem raunverulegastan hátt, rétt eins og íbúar hússins hafi brugðið sér frá stundarkorn. Enn fremur er mikið lagt upp úr miðlun gamallar verkþekkingar og sagna með lifandi uppákomum, viðburðum og námskeiðum.
Sérstaða safnsins felst þó að miklu leyti í því hversu glöggt það miðlar breyttum búskapar- og lifnaðarháttum fólks allt frá því fyrir 1770 til þess er hætt var að búa í bænum árið 1966. Til að mynda eru þrjú eldhús í bænum sem öll segja sína sögu og tilheyra sínu tímabili. Eins er um muni safnsins, að þeir tilheyra mismunandi tímabilum. Gaman er að ganga um og sjá hvernig einn hlutur hefur tekið við af öðrum í áranna rás.
Stór hluti muna safnsins er kominn úr búi Methúsalems Methúsalmessonar. Hann hafði snemma áhuga á því að varðveita gamla muni og hóf að safna þeim víðsvegar úr sveitarfélaginu og varðveitti heima á Bustarfelli. Afraksturs þeirrar forsjálni fáum við öll að njóta góðs af í dag. Því starfi sem hann hóf hefur Minjasafnið reynt að halda áfram og með velvilja og gjafmildi íbúa sveitarfélagsins berast safninu árlega gjafir sem hafa mikið gildi fyrir þekkingu okkar á arfleifðinni, rótum okkar allra. Kunnum við öllu þessu gjafmilda fólki okkar bestu þakkir fyrir.
Í safninu eru nú yfir eitt þúsund munir sem hver og einn á sína sögu og sína "sál" sem gerir safnið að þeim einstaka fróðleiks- og afþreyingarbrunni sem það er.
Opnunartími: 10 – 17 alla daga frá 1. júní til 31. ágúst.
Verið ávallt velkomin í heimsókn.