Fara í efni

Dalatangi

Mjóifjörður

Leiðin út á Dalatanga liggur eftir mjóum slóða sem fikrar sig út eftir Mjóafirði. Ekið er meðfram skriðum og hamrabrúnum, framhjá fossum og giljum. Er Dalatangi birtist, er því líkast sem sé maður staddur á eyju inn í landi. Austar er ekki hægt að aka á Íslandi. Við Dalatangavia opnast mikið útsýni til norðurs, allt að Glettingi og inn í mynni Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar.

Vitarnir tveir sem standa á Dalatanga eiga sér merka sögu, sá eldri var reistur að frumkvæði norska útgerðar- og athafnamannsins Ottos Wathne árið 1895. Hann er hlaðinn úr blágrýti með steinlími á milli. Yngri vitinn, sem nú er í notkun, var reistur 1908. Á Dalatanga er fallegt býli og túnjaðrar býlisins nema við sjávarbrúnir. Við bæjarhúsin eru skrúðgarður og gróðuhús.