Fara í efni

Krýsuvík

Fornt höfuðból fyrir sunnan Kleifarvatn. 

Það lagðist í eyði á síðustu öld og er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar.  Í upphafi stóð Krýsuvíkurbær allmiklu vestar upp af vík sem heitir nú Hælsvík en hefur ef til vill heitið Krýsuvík til forna.  Bæinn tók af þegar Ögmundarhraun rann yfir mikið af gróðurlendi jarðarinnar.  Hluti af rústum bæjarins sjást þó enn í Húshólma. Þangað er hægt að aka á fjórhjóladrifnum farartækjum og ganga að hluta. Jarðhitasvæði er mikið í Krýsuvíkurlandi við Seltún.  Þar hefur verið borað eftir gufu og hefur verið um það rætt að virkja gufuaflið fyrir Hafnarfjörð eða önnur nærliggjandi byggðarlög. Árangurinn var lakari en vænst var og tilraunum því hætt um 1950. Drottningarhola sem var um 230 m djúp stíflaðist haustið 1999 og sprakk tíu dögum síðar. Við það myndaðist hveragígur um 30 m í þvermál.  Brennisteinsnáma var þar um skeið og brennisteinninn fluttur til Hafnarfjarðar en þaðan til útlanda.

 

Staðsetning: Við þjóðveg 42. 1 km vestur af Grænavatni, sem er 3km í suð-vestur af Kleifarvatni