Fara í efni

Hallormsstaðaskógur

Egilsstaðir

Hallormsstaðaskógur var friðaður árið 1905 og varð þar með fyrsti þjóðskógur Íslands. Nú þekur birkiskógur um 350 ha lands innan sömu girðingar auk þess sem aðrar trjátegundir hafa verið gróðursettar í 200 ha. Stór svæði hafa bæst við Hallormsstaðaskóg á seinni árum; Hafursá/Mjóanes til norðurs, þar sem gróðursettir hafa verið miklir lerkiskógar og Ásar/Buðlungavellir til suðurs, þar sem sjálfsgræðsla birkis er í algleymingi. Alls eru nú í skóginum um 85 trjátegundir frá um 600 stöðum víðs vegar um heiminn og skógurinn þekur um 740 ha lands.

Land og skógur hefur umsjón með skóglendi víða um land fyrir hönd þjóðarinnar. Þeir skógar eru kallaðir þjóðskógar. Skógarnir eru opnir öllum, allan ársins hring. Í marga er auðvelt að komast eins og Hallormsstaðaskóg og ýmis konar aðstaða fyrir hendi. Annars staðar þarf að hossast í öflugum jeppa eða ganga upp bratta hlíð í ósnortinn skóg.

Í Hallormsstaðaskógi eru meira en tíu mismunandi merktar gönguleiðir um fjölbreytt landslag skógarins og nokkrar hjólaleiðir. Allar leiðirnar eru litamerktar og gönguleiðakort er aðgengilegt á þjónustustöðum á svæðinu og einnig í kössum við upphaf margra gönguleiða. Hér er einnig hægt að sækja gönguleiðakortin á rafrænu formi - gönguleiðir.

Tvö tjaldsvæði eru í Hallormsstaðaskógi með mismunandi þjónustustigi, Atlavík og Höfðavík. Tjaldverðir fara um svæðið og innheimta gjöld fyrir gistingu og annað. Nánari upplýsingar um verð og þjónustu á tjalda.is og á Facebook.

Á gönguleiðinni milli tjaldsvæðanna er hægt að fara í fjársjóðsleit og taka þátt í Skógarævintýri sem er leikur spilaður með Turfhunt-appinu. Víða um skóginn eru áningarstaðir og góð grillaðstaða er í Stekkjarvík og leiktæki fyrir börn. Trjásafnið á Hallormsstað er einstakt á norðurhveli jarðar.