Fara í efni

Reynisfjara, Reynisfjall og Reynisdrangar

Vík

Reynisfjall (340 m y.s.) stendur vestan Víkur í Mýrdal. Reynisfjall er móbergsfjall sem myndast hefur við eldgos undi rjökli á kuldaskeiði Ísaldar. Í Reynisfjalli má finna óregluleg lög móbergs, bólstrabergs ásamt stuðluðum innskotslögum og bergæðum. Hamrarnir eru þverhníptir en víða grónir hvönn og öðrum þroskamiklum gróðri.

Upp á Reynisfjall liggur akvegur sem hernámsliðið gerði upphaflega á heimsstyrjaldarárunum en var endurbættur seinna. Hann mun vera einn brattasti fjallvegur á Íslandi. Á Reynisfjalli var starfrækt lóranstöð um skeið. Sunnan í Reynisfjalli að vestan eru sérkennilegar stuðlabergsmyndanir og hellar, Hálsanefshellir. Ekið er að þeim suður Reynishverfi.

Reynisdrangar eru bergdrangar sem rísa 66 metra upp fyrir sjávarmál. Við Reynisfjöru er Hálsanefshellir ásamt mjög fögrum stuðlabergsmyndum. Gæta skal varúðar við Reynisfjöru þar sem öldurnar geta verið varasamar og auðveldlega gengið langt inn á land og hrifsað með sér fólk út á sjó.