Fara í efni

Atlavík

Egilsstaðir

Atlavík í Hallormsstaðaskógi var á árum áður vinsæll samkomustaður Austfirðinga og annarra, sérstaklega á meðan hinar frægu Atlavíkurhátíðir voru haldnar. Í Atlavík er rómantískt, friðsælt og skjólgott tjaldsvæði með góðri aðstöðu. Ekkert rafmagn er á tjaldsvæðinu svo þeir sem það kjósa geta til dæmis hreiðrað um sig í Höfðavík þar skammt frá. Veðursældin í Atlavík er engu lík og kjörið að njóta útivistar þar og annars staðar í skóginum. Hann er enda vinsælt útivistarsvæði með um 40 km af gönguslóðum og merktum gönguleiðum. Þá er þar merkilegt trjásafn með yfir 70 trjátegundumvíðs vegar að úr heiminum, leiktæki og opin svæði og á heitum degi er hægt að busla í lignu Lagarfljótinu. 

Hallormsstaðaskógur sjálfur er víðáttumesti skógur landsins og þekur um 740 hektara lands. Hallormsstaðaskógur var friðaður árið 1905 og varð þar með fyrsti þjóðskógur Íslands en Skógræktin hefur umsjón með þjóðskógum. Árið 1903 hófust þar tilraunir með plöntun erlendra trjáa en stórfelld ræktun hófst fyrst eftir 1950. Elsti lerkilundurinn var gróðursettur árið 1938 og heitir Guttormslundur, kenndur við Guttorm Pálsson sem var skógarvörður á Hallormsstað í 46 ár.