Fara í efni

Sænautasel

Egilsstaðir

Sænautasel á Jökuldalsheiði er einstakur staður við friðsælt fjallavatn, Sænautavatn. Sænautasel er gamalt heiðarbýli en húsið var endurbyggt 1992 fyrir tilstuðlan Jökuldalshrepps og síðan hefur verið tekið þar á móti gestum á sumrin. Í Sænautaseli er hægt að fræðast um aðbúnað og lífsbaráttu þeirra sem bjuggu í heiðinni. Boðið er upp á leiðsögn um bæinn og sagðar sögur af fólkinu og búskaparháttunum á heiðarbýlum sem voru í byggð langt fram á 20. öld. Þar er hægt að fá léttar veitingar að þjóðlegum hætti. Opið er alla daga í júní-ágúst.   

 Til að fara í Sænautasel er hægt að aka frá þjóðvegi nr. 1 norðan við Skjöldólfsstaði inn á Möðrudalsveg nr. 901 og beygja síðan eftir stuttan akstur inn á Brúarveg nr 907. Eða aka frá Brú á Jökuldal um Brúarveg nr. 907 til norðurs að Sænautaseli. Frá Sænautaseli er stutt í Skessugarðinn örlítið vestar á Jökuldalsheiði og einnig er stutt niður í Stuðlagil á Jökuldal.   

  

Rétt fyrir miðja nítjándu öld hófst landnám í Jökuldalsheiði. Byggðin í heiðinni var að hluta reist á rústum fornbýla og
selja. Í heiðinni er einstaklega fallegt í sumarblíðu og erfitt að gera sér í hugarlund hvernig var að eiga þarna heima allan ársins hring. Fyrsta býlið sem reist var í heiðinni á þessu byggingarskeiði voru Háreksstaðir árið 1841. Á næstu tveimur áratugum risu alls 16 býli í Jökuldalsheiði, það síðasta 1862. Heiðarbýlin voru misjöfn að gæðum og ábúðartíminn var mislangur; frá einu ári á einhverjum þeirra og upp í nærfellt heila öld í Sænautaseli. Ástæður þess að heiðarbýlin byggðust voru einkum plássleysi í sveitum þar sem allar bújarðir voru í ábúð og þéttbýlismyndun og atvinnuuppbygging við sjávarsíðuna var enn lítil. Fólk hafði því fáa valkosti aðra en að vera vinnufólk eða í
húsmennsku hjá öðrum.    

Búskaparskilyrði í heiðinni voru ekki á allan hátt slæm þótt víðast væri snjóþungt, enda flest býlin í yfir 500 metra hæð.
Hlunnindi eins og silungsveiði í vötnum, rjúpna-, gæsa-, anda- og álftaveiði og grasatekja voru mikil búbót. Þá voru engjalönd sums staðar ágæt a.m.k. ef vel áraði. Hreindýr gengu þarna, en stofninn var þó í sögulegu lágmarki upp úr
aldamótunum 1900. Um 120 manns munu hafa búið í heiðinni samtímis þegar mest var. Í Öskjugosinu 1875 varð byggðin í heiðinni fyrir miklu áfalli og lagðist af tímabundið á öllum bæjum nema þeim nyrstu. Margir sem fluttust burt
fóru síðar til Ameríku. Nokkrum árum síðar byggðust nokkur býlanna að nýju og hélst byggð fram á fyrstu tugi 20. aldar. Síðasta býlið fór í eyði 1946.   

Sænautasel byggðist fyrst 1843 og þar var búið til 1943 að undanskildum 5 árum eftir Öskjugosið. Þar var lengst búið allra býla í heiðinni eða samtals í 95 ár. Búskapur á heiðum við erfiðar aðstæður og mikla einangrun hefur orðið íslenskum rithöfundum innblástur að skáldverkum. Margir aðdáendur Halldórs Kiljan Laxness þekkja söguna um Bjart í Sumarhúsum í skáldverkinu Sjálfstætt fólk. Hún lýsir lífsbaráttu sjálfstæðs kotbónda á afskekktri heiði. Margir telja að fyrirmynd sögunnar sé komin frá Sænautaseli, því þar átti Halldór næturstað á þriðja áratug 20. aldar. Heiðabúskapur var einnig viðfangsefni rithöfundanna Gunnars Gunnarssonar og Jóns Trausta. 

Gamlar sagnir sögðu að sést hefði sænaut í Sænautavatni og fylgdi jafnvel sögunni að það væru undirgöng úr vatninu til sjávar sem sænautin notuðu.