Leikhópurinn Lotta
Í ár býður Leikhópurinn Lotta upp á að nýta ferðagjöfina í að kaupa áskrift af Lottuappinu. Fyrir 5000kr ferðagjöf fæst hálfs árs áskrift og með hverri áskrift er hægt að nota appið í þremur mismunandi tækjum. Til þess að virkja gjöfina sendið þið okkur póst á leikhopurinnlotta@gmail.com með nafni og símanúmeri og við munum hafa samband.
~~~~~~~~
Hvað er hægt að gera í Lottuappinu?
Hlusta
Hægt er að hlusta á öll útvarpsævintýri Lottu frá upphafi í spilara sem býður upp á allskyns möguleika á borð við svefnstillingu, slembival og fleira. Hver notandi getur opnað sinn prófíl, ýtt á play og byrjað að hlusta frá sama stað og hætt var síðast án þess að hafa áhrif á hlustun annarra á heimilinu. Lotta hefur á liðnum árum gert 13 ævintýri sem öll má finna í appinu og til viðbótar stórskemmtilega jólaplötu sem kemur sér einkar vel þegar henda á upp einu jólaballi í snatri. Á hverju ári bætist svo nýtt ævintýri í safnið.
Horfa
Árið 2018 réðst Leikhópurinn Lotta skipulega í enduruppsetningar á gömlu verkum hópsins og fara þær sýningar fram innanhúss yfir vetrartímann réttum 10 árum eftir að verkin voru fyrst sett upp. Þessar uppsetningar hafa nú verið kvikmyndaðar í fullkomnum mynd- og hljóðgæðum með öllu tilheyrandi og eru eingöngu aðgengileg í Lottuappinu.
Skoða
Hægt er að skoða myndir og texta úr hverju verki fyrir sig á meðan þú hlustar. Þetta kemur sér vel til undirbúnings fyrir karókípartýin sem munu án efa eiga sér stað reglulega á flestum Lottuheimilum með tilkomu Lottuappsins.
Syngja
Hægt er að horfa á og syngja með karókímyndböndum. Myndböndunum er hægt að raða í lagalista fyrirfram, eða jafnóðum í öðru tæki á meðan aðrir syngja. Því þarf aldrei að vera dauð stund í karókípartýi heimilisins.
Lagalistar
Í hverjum prófíl er hægt að búa til sína eigin lagalista. Vinsælt er til dæmis að búa til "partý" lagalista, "fara að sofa" lista og "uppáhalds" lista
Hvað get ég gert í Lottuappinu sem forráðamanneskja?
Foreldrasvæði
Þegar forráðamanneskja hefur keypt aðgang að Lottuappinu fær viðkomandi aðgang að sérstöku foreldrasvæði sem börnin sjá ekki. Til þess að komast inn á svæðið þarf að stimpla inn PIN-númer sem eigandinn velur. Þar getur forráðamaður td sett tímatakmörk fyrir prófíla heimilisins sem endurnýja sig á sólarhringsfresti.
Tímatakmarkanir
Tímaflokkarnir eru tveir: Hlustunartími – hversu lengi má hlusta á ævintýri eða lög á einum sólarhring – og skjátími – hversu lengi má horfa á myndbönd á einum sólarhring. Ef forráðamanneskja ákveður að barn megi hlusta, til dæmis í tvo tíma á dag og horfa í hálftíma á dag er hægt að segja appinu það með einföldum hætti á örfáum sekúndum. Hægt er að velja mismunandi lengd fyrir mismunandi prófíla og koma þannig í veg fyrir að börnin okkar hverfi of langt inn í snjalltækin, þó svo að við séum ekki til staðar til að hafa yfirumsjón með notkuninni öllum stundum.