Listasafn Einars Jónssonar
Einar Jónsson (1874-1954) var fyrsti íslenski myndhöggvarinn. Með opnun Listasafns Einars Jónssonar árið 1923 eignuðust Íslendingar sitt fyrsta listasafn en aðdragandann að byggingu þess má rekja til 1909, þegar Einar bauð íslensku þjóðinni verk sín að gjöf gegn því að byggt yrði yfir þau safn. Safnbyggingin er í dag alfriðuð.
Á safninu vann listamaðurinn verk sín og sýndi. Listaverk Einars eru í anda norræns symbólisma og á safninu eru varðveitt um 300 verka hans. Í upphafi ferilsins sótti hann innblástur í íslenska þjóðsagnaarfinn og goðfræðileg minni. Kynni Einars af guðspeki 1910 höfðu afgerandi áhrif á líf hans og list og upp frá því skapaði hann myndverk með guðspekilegu táknmáli.
Þakíbúðin, sem nú er hluti af safninu, var heimili Einars og Önnu konu hans. Anna var jafnframt fyrsti safnstjóri Listasafns Einars Jónssonar. Íbúð þeirra hjóna er varðveitt í upprunalegri mynd með sérsmíðuðum húsgögnum og listaverkum úr þeirra eigu. Þaðan er fallegt útsýni yfir borgina. Við safnið er einnig opinn og fjölsóttur höggmyndagarður með 26 bronsafsteypum af höggmyndum Einars.
Opnunartími
Listasafn Einars Jónssonar er opið þriðjudaga-sunnudaga kl. 12-17. Lokað á mánudögum. Garðurinn er alltaf opinn.
Leiðsögn og móttaka hópa eftir samkomulagi.
Til að finna okkur á Facebook, vinsamlegast smellið hér.
Til að finna okkur á Instagram, vinsamlegast smellið hér.