Grenjaðarstaður - Gamli bærinn
Grenjaðarstaður í Aðaldal er forn landnámsjörð og prestssetur sem staðsett er um 30 km. suður af Húsavík. Þar er að finna einn stærsta torfbæ landsins, sem sérstakur er fyrir þær sakir að vera einangraður með hrauni úr næsta nágrenni hans, undir þiljum unnum úr rekaviði. Gamli bærinn er í eigu Þjóðminjasafns Íslands en Menningarmiðstöð Þingeyinga (MMÞ) sér um rekstur byggðasýningarinnar sem þar er að finna og endurspeglar hún lifnaðarhætti gamla bændasamfélagsins. Sýningin samanstendur af um 2000 munum úr safneign Byggðasafns Suður-Þingeyinga sem varpa ljósi á líf fólks sem bjó í bænum.
Á Grenjaðarstað er einnig að finna kirkju sem byggð var 1865 og er ennþá í notkun og í kirkjugarðinum geta gestir skoðað rúnastein frá miðöldum. Gamla hlaðan hefur verið endurgerð og hýsir í dag móttöku safnsins, snyrtingar, kaffisölu og handverkssölu úr héraði.
Opið yfir sumartímann.
1. júní - 15. ágúst: alla daga 11-17