Sænautasel
Sænautasel var byggt á Jökuldalsheiði 1843. Bærinn var í byggð í eina öld. Árið 1861 voru 16 bæir í byggð á heiðinni. Þeir eyddust að mestu í Öskjugosi 1875. Flutt var úr bænum árið 1943. Meðal hinna brottfluttu var ellefu ára snáði, Eyþór, sem vitjar enn þá (2010) átthaganna á sumrin. Þáverandi Jökuldalshreppur endurbyggði bæinn árið 1992. Hluti hans féll árið 2009 og var endurbyggður 2010. Hann er mjög áhugavert safn og aðeins fimm kílómetra að fara frá gamla þjóðveginum, sem liggur um Möðrudalsöræfi og Jökuldalsheiði.
Flestir Íslendingar og margir erlendir aðdáendur Haldórs Kiljan Laxness þekkja söguna um Bjart í Sumarhúsum úr skáldverkinu „Sjálfstætt fólk”. Hún lýsir lífsbaráttu sjálfstæðs kotbónda á afskekktri heiði. Margir telja að fyrirmynd sögunnar sé komin frá Sænautaseli, því þar átti Halldór næturstað á þriðja áratugi 20. aldar. Hann gekk þangað úr byggð.
Heiðabúskapur var einnig viðfangsefni rithöfundanna Gunnars Gunnarssonar (Aðventa) og Jóns Trausta (Halla og heiðarbýlið).
Ferðaþjónustan, sem er rekin í bænum á sumrin, nær til leiðsögu um bæinn. Þar er sögð saga fólksins, sem bjó á heiðinni og búskaparháttum. Ekki má gleyma því, að heiðarbýlin áttu aðgang að stöðuvötnunum á heiðinni, sem var drjúg búbót. Síðan er hægt að setjast og njóta veitinga í bænum, þar sem komið er fullkomið eldhús, sem er þekkt fyrir góðar lummur og súkkulaði.
Lilja Hafdís Ólafsdóttir
Merki í Jökuldal
701 Egilsstaðir
Sími: 855-5399 / 471-1086
Opið frá 1. júni til 10. September kl. 9-22 og samkvæmt samkomulagi.
jokulsa@centrum.is