Spjald- og myndvefnaður með Ragnheiði Björk Þórsdóttur
Kennsla og fræðsluefni frá Ragnheiði Björk, afnot af tækjum og tólum, efni til vefnaðar er innifalið samkvæmt verkefnum vinnustofunnar. Hádegisverður alla dagana ásamt kaffi og te.
Ragnheiður Björk kennir grunnhandtök í spjaldvefnaði og hvernig hægt er að útfæra fjölbreytt mynstur með einfaldri aðferð og tækni. Spjaldvefnaður er forn vefnaðaraðferð sem tíðkaðist víðsvegar um landið fyrr á öldum. Eins og nafnið gefur til kynna eru spjöld notuð í verkið; þau eru ferhyrnd með fjögur göt þar sem garn er þrætt í gegn. Með mismunandi aðferðum er spjöldunum snúið til að framkalla breytileg mynstur í bandið sem er ofið.
Breidd bandanna ákvarðast af fjölda spjalda, sem skapar nánast endalausa möguleika í útfærslu munsturbanda. Spjaldvefnaður er ævagamalt handverk sem barst til Íslands með landnámsfólki en á sér mun lengri sögu, allt að 3000 ár aftur í tímann. Þátttakendur munu setja upp í spjaldvefnað samkvæmt mynstri og vefa band undir handleiðslu Ragnheiðar.
Í myndvefnaði læra þátttakendur að setja upp í ramma fyrir vefnað. Unnið er með tvær stærðir mynda: 10 x 15 cm og 25 x 40 cm. Þátttakendur byrja á að vinna litla mynd sem tekur tvo til þrjá klukkutíma og halda síðan áfram með stærri mynd, sem unnið er að út námskeiðið.
Nemendur fá innsýn í mismunandi aðferðir við að vinna skissur fyrir vefnað. Þeir læra að velja þráð fyrir myndvefnað og nota ýmsar tegundir af garni. Einnig fá þátttakendur tækifæri til að kynnast fjölbreyttum tækniaðferðum í myndvefnaði, s.s. tengingar, litablöndun og frágang á ofnum verkum.
- Belti fyrir spjaldvefnað – notað til að festa uppistöðuna á sig til að auðvelda vefnað.
- Stærri myndvefnaðarramma (50-70 cm á hæð/breidd) fyrir stærri myndvefnað. Þeir sem taka með eigin ramma geta tekið verkið með heim til að ljúka því.
Skólinn á myndvefnaðarramma til að lána fyrir stærri myndvefnað, en þá ramma er ekki hægt að taka með heim. Því er gott að huga að tíma og umfangi verkefnisins til að ljúka við myndina á námskeiðinu.
Kannaðu þinn rétt á ferða-, námskeiðs- og tómstundastyrk verkalýðsfélaga og fyrirtækja. Stéttarfélög geta beðið um staðfestingu á þátttöku.
Nánari upplýsingar eru í síma 471 1761 eða skrifið til hskolinn@hskolinn.is