Perlur Fljótsdalshéraðs
Perlur Fljótsdalshéraðs
Perlur Fljótsdalshéraðs eru 29 gönguleiðir í sveitarfélögunum Fljótsdalshéraði og Fljótsdalshreppi. Sveitarfélögin ná yfir um 10% af flatarmáli Íslands. Perlurnar eru af ýmsum toga, fossar og vötn, gil og gljúfur, smáhellar, víkur og fjöll með útsýni til allra átta. Það er Ferðafélag Fljótsdalshéraðs sem hefur haft veg og vanda af vali á þessum perlum og gönguleiðum. GPS punkturinn, sem gefinn er upp, er miðaður við hólkinn á hverjum áfangastað nema annars sé getið. Göngulengd sem gefin er upp miðast við fram og til baka.
Gönguleikur
Við hverja perlu eða áfangastað er hólkur sem inniheldur upplýsingar um staðinn ásamt gestabók og stimpli. Með því að stimpla í sérstakt kort, sem er til sölu á nokkrum stöðum og staðfesta þannig komu sína á áfangastaðinn er hægt að taka þátt í skemmtilegum gönguleik. Hvert kort þarf að vera með stimpla frá 9 stöðum. Hægt er að kaupa þessi kort í Upplýsingamiðstöðinni á Egilsstöðum, á skrifstofu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, Tjarnarási 8 Egilsstöðum, í Egilsstaðastofu við tjaldsvæðið á Egilsstöðum og í Snæfellsstofu. Kortum skal skilað á skrifstofu Ferðafélagsins eða í Egilsstaðastofu þegar búið er að stimpla í þau.
Dregið er úr innsendum kortum í september ár hvert. Góðir vinningar.
Allir sem heimsækja Perlur Fljótsdalshéraðs eru beðnir um að sýna náttúru svæðisins virðingu. Göngum ávallt frá áningarstað eins og við viljum koma að honum. Skiljum ekki eftir rusl á víðavangi né urðum það, tökum ruslið með til byggða eða setjum það í sorptunnur. Gangið eftir merktum gönguleiðum þar sem þær eru og virðið rétt landeigenda m.t.t. búfénaðar og ræktunar hvers konar. Muna þarf að loka hliðum og ganga vel um girðingar. Skiljið eftir skilaboð um áætlaða leið, varaleið og áætlaðan tíma.
Ef út af bregður reynið þá að láta vita af ykkur.
- Vinsamlegast setjið ekki rusl í hólkana eða stimplið í gestabækur.
- Kveikjum ekki eld á grónu landi.
- Rífum hvorki upp grjót né hlöðum vörður.
- Sköðum ekki gróður.
- Truflum ekki dýralíf.
- Skemmum ekki jarðmyndanir.
- Rjúfum ekki öræfakyrrð að óþörfu.
- Ökum ekki utan vega.
- Fylgjum merktum göngustígum þar sem þeir eru.