Jólasveinaratleikur í Stykkishólmi 2024
Jólasveinaratleikurinn góði er hafinn. Líkt og í fyrra hefur Þjónustumiðstöðin með Jóni Beck, bæjarverkstjóra, í broddi fylkingar, sett upp jólasveinaratleik til að stytta börnum og fjölskyldufólki stundir á aðventunni. Um er að ræða skemmtilega viðbót í jólaskreytingar bæjarins þar sem tækifæri gefst til að arka um Stykkishólm og leita að jólasveinunum sem eru í ýmsum erindagjörðum fyrir jólin og munu birtast hér og þar um bæinn, einn af öðrum. Nú í ár er bætt um betur og ratleikurinn lengdur en hann hefst miðvikudaginn 11. desember með komu Grýlu og Leppalúða. Ratleikurinn endar svo með komu Kertasníkis á Aðfangadag 24. desember.
Nú er því um að gera að drífa sig út að leita að Grýlu og Leppalúða en þau geyma svo vísbendingu um hvar megi finna Stekkjastaur á morgun. Vísbendingin fyrir Grýlu og Leppalúða er þessi:
Grýla og Leppalúði heyrðu fallegan söng og hljóðfæraleik, hvert fóru þau?
Ljóðakverið sígilda Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum, sem fyrst kom út árið 1932, er ómissandi hluti af aðdraganda jóla á mörgum íslenskum heimilum. Í ratleiknum er víða vísað í ljóð Jóhannesar og því tilvalið að blása rykið af bókinni góðu og lesa um jólasveinana samhliða ratleiknum. Hér að neðan má lesa fyrsu erindin af Jólasveinunum, þau sem koma á undan erindunum um hvern og einn svein.
Jólasveinarnir eftir Jóhannes úr Kötlum
Segja vil ég sögu
af sveinunum þeim,
sem brugðu sér hér forðum
á bæina heim.
Grýla var þeirra móðir
og gaf þeim tröllamjólk,
en pabbinn Leppalúði,
það var leiðindafólk.
Þeir voru þrettán
þessir heiðursmenn,
sem ekki vildu ónáða
allir í senn.
Lævísir á svipinn
þeir leyndust hér og þar,
til óknyttanna vísir,
ef enginn nærri var.
Þeir upp á fjöllum sáust,
eins og margur veit,
í langri halarófu
á leið niður í sveit.
Þeir jólasveinar nefndust,
um jólin birtust þeir.
Og einn og einn þeir komu,
en aldrei tveir og tveir.
Að dyrunum þeir læddust
og drógu lokuna úr.
Og einna helzt þeir leituðu
í eldhús og búr.
Og eins, þó einhver sæi,
var ekki hikað við
að hrekkja fólk og trufla
þess heimilisfrið.