GÖNGUFERÐIR Í HRUNAMANNAHREPPI
Gönguferðir í Hrunamannahreppi 2021
Atvinnu-, ferða- og menningarnefnd Hrunamannahrepps kynnir hér gönguferðir sumarsins 2021. Þetta er tuttugasta sumarið sem boðið er upp á þessar ferðir. Ferðirnar eru alls átta. Allar göngurnar verða á miðvikudagskvöldum í sumar nema dagsgöngurnar 17. júlí og 28. ágúst sem eru farnar á laugardögum. Frítt er í allar kvöldgöngurnar en innheimt verður fyrir akstur í dagsgöngunum. Leiðsögumenn í ferðunum í samvinnu við heimafólk verða þau Helgi Már Gunnarsson og Kolbrún Haraldsdóttir, Flúðum. Allir eru hjartanlega velkomnir.
Allar ferðir verða auglýstar sérstaklega þegar nær dregur á facebooksíðunni “Gönguferðir í Hrunamannhreppi“.
1. ferð er 26. maí. Byrgi Fjalla- Eyvindar
Lagt af stað kl 20:00 frá upplýsingaskiltinu um byrgi Fjalla Eyvindar sem er við afleggjarann heim að Jötu. Gengið eftir götum fram Skipholtsfjall og að byrgi (búri) Fjalla-Eyvindar sem er vel falið í landslaginu. Létt og auðveld ganga sem tekur u.þ.b. 2 klst.
2. ferð 2. júní. Skipholt að Hvítá
Lagt af stað kl 20:00 frá hlaðinu í Skipholti 1. Gengið upp fjallið vestan megin við bæinn og þar áfram í vestur, yfir ása og móa, allt að Hvítá. Á þessum slóðum er hið svonefnda Steypuvað yfir Hvítá. Síðan er gengið upp með ánni og að Borgarási en þar er að finna forna fjárborg. Þaðan er gengið heim að Skipholti. Karl Guðmundsson í Skipholti mun segja frá og leiða gönguna. Gengið er á mishæðóttu landi og áætlaður göngutími er 2-3 klst.
3. ferð 9. júní. Flúðir - Túnsberg
Lagt af stað kl 20:00 frá Félagsheimilinu á Flúðum. Gengið er upp Högnastaðaás, þaðan niður í gömlu réttirnar við Túnsberg sem hafa að geyma skemmtilega sögu. Gengnar eru eyrar Litlu-Laxár til baka að Flúðum. Magga Brynjólfsdóttir í Túnsbergi leiðir gönguna. Áætlaður göngutími er 2-3 klst.
4. ferð er 16. júní. Auðsholt – Markós - Auðsholtshamar
Mæting við Auðsholt 5 kl. 20:00. Gengið er eftir Hvítárbökkum frá Markósi niður á móts við Auðsholtshamar. Leiðin er full af sögum af flóðum í Hvítá, ferjunni, biskupsstólnum og landadeilum. Mjög þægileg ganga sem hentar öllum í fallegu umhverfi Hvítár. Guðmundur Gils Einarsson (Gilli) mun leiða gönguna. Áætlaður göngutími er 2 klst.
5. ferð er 23. júní. Haukholt – Brúarhlöð – Haukholt um Kóngsveg
Lagt af stað kl. 20:00 frá Haukholtum og gengið sem leið liggur inn að Brúarhlöðum, á leiðinni blasa Jarlhetturnar við í allri sinni dýrð. Til baka er gengið um gamla Kóngsveginn en á þeirri leið blasa gljúfur Hvítár vel við. Mjög falleg leið niður með Hvítá þar sem skiptist á beljandi áin í þröngu gljúfrinu og ganga um fallegan birkiskóg. Þægileg ganga fyrir alla aldurshópa. Steinunn Lilja Heiðarsdóttir og Þorsteinn Loftsson í Haukholtum munu leiða gönguna. Áætlaður göngutími er 2-3 klst.
6. ferð er 30. júní. Miðfell
Lagt af stað kl 20:00 frá Miðfelli 1 og gengið upp að framanverðu. Af Miðfelli er mikið og fagurt útsýni. Gangan upp er frekar brött en farið verður rólega og þegar upp er komið er þægileg ganga kringum vatnið og út að vörðunum. Umsjón með göngunni hefur Hanna Björk Grétarsdóttir í Miðfelli. Áætlaður göngutími 2 klst.