Fara í efni

Bær, listamannadvöl á Íslandi

Til baka í viðburði
Hvenær
8. febrúar - 24. ágúst
Hvar
Klukkan
12:00-17:00

Bær, listamannadvöl á Íslandi

Bær

Markus Baenziger (US), Barbara Ellmann (US), Katia Klose (DE), Jóna Þorvaldsdóttir (IS), Debbie Westergaard Tuepah (CA), Mike Vos (US)

Sýningarstjóri: Daría Sól Andrews

8. febrúar - 24 ágúst 2025

Á listasýningunni BÆR, gefur að líta verk alþjóðlegra listamanna sem komu saman árið 2022 í vinnustaðardvöl á Listasetrinu Bæ á Höfðaströnd í Skagafirði. Listamennirnir eru þau Barbara Ellmann, Jóna Þorvaldsdóttir, Mike Vos, Katia Klose, Debbie Westergaard Tuepah og Markus Baenziger. Sýningin BÆR, í Listasafni Árnesinga, er eins konar áframhaldandi könnun á þessari upprunalegu vinnustaðardvöl þeirra frá árinu 2022, þar sem varanleg tengsl og ný áhrif mynduðust í verkum hvers og eins listamanns.

Listamennirnir dvöldu saman í tvær vikur á Bæ þar sem vissákveðin heild myndaðist á milli þessara ólíku einstaklinga og verka þeirra sem eru eins konar söguþráður og tenging við listasetrið og umhverfi þess á Höfðaströnd. Afraksturinn eru mjög ólík en á sama tíma sSam tvinnuð listaverk um einstaka upplifun hvers listamanns af náttúru, menningu og stað.

Ári seinna héldu þau veglega sýningu á Bæ með hluta af þeim verkum sem urðu til á meðan á dvöl þeirra stóð á Bær. Listasýningin BÆR, sem nú hefur verið sett upp í Listasafni Árnesinga, sýnir blöndu af þeim verkum sem voru á fyrri sýningu ásamt nýjum verkum sem listamennirnir hafa þróað með sér út frá dvöl þeirra á Bæ árið 2022. Nýju verkin á þessari sýningu urðu til út frá upplifun þeirra og áhrifum sem þau urðu fyrir á staðnum á meðan á vinnustaðardvöl þeirra stóð.

Hvað tengir saman sex ólíka listamenn, af ólíkum uppruna, sem koma saman í vinnustaðardvöl í sveit í Skagafirði? Það er augljóst að íslenska náttúran hafði mikil áhrif á þau. Hvernig getur þessi reynsla endurómað í listferli þeirra þegar þau snúa aftur í sinn hversdagsleika sinn?

Listamennirnir vinna með fjölbreytta miðla, allt frá ljósmyndun, skúlptúr, innsetningum og málverkum. Í verkum þeirra er sterk tenging við náttúru Íslands, hvort sem um er að ræða ljósmyndirun af íslensku landslagi og formum eða innsetningar og skúlptúra unninum úr náttúrulegu íslensku efni. Hvaða sameiginlega grunn getum við séð í verkum þessara sex listamanna þrátt fyrir ólík efnisstök?

Mike Vos myndar til dæmis borgarlandslag og yfirgefnar byggingar og leggur þær saman yfir senur af náttúrufegurð.

Í innsetningsverkinu hennar Debbie Westergaard Tuepah vinnur hún m.a. með umhverfisvænt plast frá Hveragerði, þar sem Listasafn Árnesinga er til húsa, og fundin og manngerð hvalbein. Jóna Þorvaldsdóttir vísar til íslensku hjátrúarinnar í tilraunakenndri analog ljósmyndun með áherslu á einstök náttúruleg smáatriði úr landslaginu á Höfðaströnd. Verk Katia Klose rannsakar þang frá svæðinu í lifandi og súrrealískri ljósmyndaseríu. Markus Baezinger safnar fundnu efni frá Höfðaströnd, bæði náttúrulegu og manngerðu, og skapar úr þeim forvitnileg skúlptúrverk. Í töfrandi málverkum Barböruara Ellmann og abstrakt- saumuðu myndverkum hennar finnum við sterkt fyrir hreyfingu íslensku náttúrunnar.

Markus Baenziger er listamaður frá Sviss sem býr og starfar í Brooklyn, New York. Hann hefur haldið sýningar víða um Bandaríkin og alþjóðlega. Hann hefur hlotið verðlaun John Simon Guggenheim minningarsjóðsins og verk hans sýnd á einkasýningum í Edward Thorp-galleríinu í New York, List-galleríinu í Swarthmore-skóla, Cantor Fitzgerald-galleríinu í Haverford-skóla, Tanya Bonakdar-galleríinu í New York, og fjölda samsýninga, þar á meðal í Rose-listasafninu, Walker-listamiðstöðinni, Walton-listamiðstöðinni og Listagalleríi Yale-háskóla. Verk hans hafa hlotið mikla umfjöllun og þau má finna í safni Walker-listamiðstöðvarinnar í Minnesota og fjölda einkasafna.

Fyrstu viðbrögð mín við stórkostlegu landslaginu í kringum Bæ voru einfaldlega að fara í gönguferð og drekka það í mig. Þannig rakst ég á alls konar plastbrot, hluta af fiskinetum og annað rusl sem hafði rekið á fjörurnar.

Ég safnaði þessu, auk annars efnis úr náttúrunni og bjó til röð af litlum skúlptúrum. Þeir eru innblásnir af skærlitu reipinu sem ég fann hálfsokkið í jörðina og flækt saman við þangið, eða litlu plastbrotunum innan um steinvölurnar á ströndinni. Fyrir mér endurspegla þessi verk skurðpunkta náttúrunnar og hins manngerða heims. Þau eru samræða á milli fagurs náttúrulegs umhverfis okkar og ágengrar nærveru okkar í náttúrunni, sem stöðugt þarf að taka vð áþreifanlegum merkjum um veru okkar þar.

www.markusbaenziger.com

Barbara Ellmann býr og starfar í New York. Hún hefur í fjörutíu ár sýnt verk á sýningarstöðum á borð við Katonah-listasafnið, Parrish-listasafnið, Montclair-listasafnið og Haslla Art World-safnið. Hún hefur notið listamannadvalar í Yaddo, Hermitage-listamannaathvarfinu, Haslla Art World-safninu og Listasetrinu Bæ. Hún hefur líka unnið opinber verk fyrir MTA (lestarkerfi New York), Summit í New Jersey og bókasafnið í Queens.

Verk mín byggjast á athugunum og hugviti og skrásetja minningar frá stöðum, þau stilla þekkjanlegum myndum upp við hlið hreinna abstraktmynda í sömu margþættu innsetningunni. Þessi röð verka undirstrikar náttúrulegt landslagið, með áherslu á hvernig vatn mótar ekki aðeins landið heldur einnig félagslega, efnahagslega og andlega upplifun okkar. Á Íslandi kynntist ég stað þar sem náttúran er í öndvegi á einhvern hátt sem virðist í senn lifandi og ævaforn, spennandi og skelfilegur kraftur. Tilfinning fyrir jarðfræðilegum tíma er innbyggð í landslagið. Snjórinn sem hefur pressast í ís gæti hafa fallið fyrir þúsund árum en á sama tíma gæti eldgos spýtt kviku upp úr jörðinni og gjörbreytt ásýnd landsins. Mín eigin skynjun á jörðinni hafði fram að því verið að hún væri einhvers konar hlutlaus fasti, en hér virkaði kraftur náttúrunnar eins og umsnúningur á tímanum, fortíð og nútíð runnu saman, stundaglasinu snúið við, og sláandi áminning um gagnkvæm tengsl.

www.barbaraellmann.com

Katia Klose fæddist í austurhluta Berlínar og býr í Leipzig. Hún lærði grafíska hönnun í Weißensee-listaskólanum í Berlín, ljósmyndun í Listaháskólanum í Leipzig og myndvinnslu í Ostkreuzschule í Berlín. Hún hefur notið listamannadvalar á ýmsum stöðum í Frakklandi, Þýskalandi og á Íslandi og fengið styrki í Þýskalandi, Ástralíu og Kanada. Hún hefur sýnt verk sín víða í Þýskalandi, Evrópu og út um heim.

Ljósmyndaverk Kötiu Klose kanna skynræna og ljóðræna þætti raunveruleikans. Náttúruleg form eru endurreist og endurskoðuð undir linsu ljósmyndarans. Með því að skrásetja umhverfið á þennan hátt afhjúpa myndirnar huldar tengingar á milli mannlegrar tilveru og náttúrunnar. Í myndaröðinni Þang finnur hún þang í svartri sandfjörunni við Bæ og raðar því þannig að það virðist óraunverulegt, súrrealískt. Myndirnar í seríunni Umsnúið líta út eins og negatífur í gráum, bláum og rauðbrúnum tónum og virka sem nokkurs konar aftenging við náttúruna. Fjöllin eru líkt og af öðrum heimi, hljóðlaus og töfrum gædd.

www.katiaklose.com

Jóna Þorvaldsdóttir er ljósmyndari í Reykjavík sem vinnur eingöngu með analog ljósmyndun og hefðbundnar aðferðir í myrkraherbergi sínu. Verk Jónu eru undir miklum áhrifum frá íslenskum þjóðsögum þar sem huldar verur eru á sveimi, áfjáðar í að sýna sig og hræra í ímyndunarafli okkar. Þessi áhugi á hinu óséða endurspeglast fallega í mjúkum, draumkenndum myndum Jónu. Með því að helga sig svarthvítri analog ljósmyndun tekst henni að skapa myndir sem vekja upp hughrif tímaleysis og íhugunar.

Myndir Jónu ná oft út fyrir helberan raunveruleikann, hún leitast við að sýna einstök sjónarhorn sem ögra viðteknum hugmyndum. Það krefst mikillar leikni að nota hefðbundnar aðferðir á borð við palladíum, brómolíu og silfurgelatín. Hið helga rými í myrkraherberginu er lykilþáttur sköpunarferlisins, þar sökkvir hún sér í þá vinnu að skapa áþreifanlegar myndir úr filmunum. Þar gerast töfrarnir, þar finna takmarkalaust ímyndunaraflið og slembilukka sína tjáningu.

www.jonaphotoart.is

Debbie Westergaard Tuepah er kanadísk listakona sem vinnur mest með skúlptúr. Hún hefur sýnt um víða veröld og hlotið fjölda verðlauna. Meðal sýningarstaða má nefna Surrey-listagalleríið, Reach-galleríið, Listasafnið í Vancouver og Bellevue Washington skúlptúrtvíæringinn.

Á randi um Bæ gafst mér rými til að velta fyrir mér fallvaltleika heimsins, safna alls kyns mulningi og rannsaka skaðleg áhrif plastefna á lifandi verur. Fundið plastefni sýnir merki um að brotna niður í örplastagnir sem finnast í vatni, setlögum, lofti, regni og ís, auk líkama fólks og annarra dýrategunda. Þegar þessu er skeytt saman við fundna hryggjarliði úr hvölum og önnur dýrabein sjást tengsl plasts og lífs greinilega í verkum mínum. Í Tender Rituals VI voma þrívíddarprentaðir hvalhryggjarliðir yfir dökkum steinvölum, en efnið er ekki ljóst. Bein sem virðast úr plasti eru lífræn og niðurbrjótanleg en steinvölurnar eru í raun og veru endurunnið plast, ætlað til endurvinnslu: hvort tveggja eru vongóð efni frá framsýnum fyrirtækjum. Hvalbeinin og sjúskuð flotholtin í Tender Rituals IV tengja verkið við úrgang frá fiskveiðum, eins og t.d. net, og Tender Rituals VII sýnir gamalt flotholt umlukið dýrabeini. Bæði verkin fela í sér samband plasts og lifandi vera.

www.debbietuepah.com

Steinvölur í Tender Rituals VI fengust góðfúslega hjá Pure North Recycling í Hveragerði.

Mike Vos er ljósmyndari, listamaður og tónlistarmaður frá Portland í Oregon. Hann leitar innblásturs í ýmsum bókmenntastefnum og -þemum, og notar hefðbundnar og tilraunakenndar aðferðir 4x5 ljósmyndatækni, fjölrása myndbanda, vettvangsupptaka og hljóðfæri til að skapa flóknar frásagnir um nauðsyn þess að varðveita ósnert rými. Vos reynir stöðugt á mörk ljósmyndunarinnar, analog-myndbanda og hljóðs, og býr til alltumlykjandi heim sem dregur áhorfandann inn í súrrealíska framsetningu raunverulegra staða. Hann hefur sýnt verk sín og sótt listamannadvöl víða í Bandaríkjunum, í Mexíkó, Kanada og á Íslandi. Árið 2024 fékk hann styrk Sitka-miðstöðvar lista og vistfræði í Oregon og gaf út fyrstu bók sína „Somewhere in Another Place“ hjá Buckman Publishing.

www.mikevos.com

Sýningarstjóri: Daría Sól Andrews.

Aðrir viðburðir

28. maí - 28. maí

Fimmtudagsfjör í Gamla fjósinu

Gamla fjósið
5.- 6. jún

Hengill Ultra 2020

5.- 7. jún

Námskeið hjá Glacier Adventure - Jökla 2 & 3

Glacier Adventure, Höfn í Hornafirði
5.- 7. jún

Fjallaskíðamót

Kerlingarfjöll