Tjaldsvæðið Þakgil
Þakgil, 20 km frá Vík í Mýrdal, og svæðið í kring hefur uppá að bjóða stórbrotið landslag allt frá sléttlendi til djúpra gilja og sjálfan Mýrdalsjökul. Í fjöllunum sem eru græn upp í topp má sjá allskonar kynjamyndir hobbita, álfa, tröll allt eftir hugmyndaflugi hvers og eins.
Svæðið er tilvalið til gönguferða hvort sem er á sléttlendi í Remundargili og út að Múlakvísl eða sem er meira krefjandi t.d. uppá Mælifell og fram Barð eða upp að jöklinum og út á Rjúpnagilsbrún en þaðan er ægifagurt útsýni yfir Kötlujökulinn, Huldufjöll og undirlendi suð-austurlands. Þaðan sést m.a. til Lómagnúps og Vatnajökuls. Síðan er hægt að ganga eftir jöklinum í Huldufjöll en það er krefjandi og krefst sérstaks útbúnaðar og leiðsagnar.
Það er skjólsælt á tjaldsvæðinu þar sem það er umkringt fjöllum. Það er auðvelt að komast þangað þar sem það eru engar ár eða sprænur yfir að fara og er fært öllun venjulegum bílum og tækifæri fyrir alla að komast í fjallakyrrðina inná hálendinu.
Á tjaldsvæðinu er nýtt WC og sturtuhús með úti uppvöskunaraðstöðu.