Tjaldsvæðið Hraunborgir
Á tjaldsvæðinu er góð hreinlætisaðstaða ásamt góðu aðgengi fyrir fatlaða. Þar er góð snyrtiaðstaða með heitu og köldu vatni og útivask. Þar er aðgangur að rafmagni fyrir húsbíla og hjólhýsi. Í þjónustumiðstöðinni Hraunborgum er “þvoið sjálf þjónusta” , þvottavél og þurrkari.
Tjaldstæðið er alveg við þjónustumiðstöð Hraunborga. Á svæðinu er fjölbreytt afþreying í boði t.d. sundlaug, golfvöllur, mini-golf, körfuboltaaðstaða, leiktæki fyrir börn, leikherbergi, sjónvarp og útsýnisskífa.
Sundaðstaðan samanstendur af sundlaug ásamt tveimur heitum pottum, vaðlaug og eimbaði. Sundlaugargestir geta notið sumarblíðunnar við góðar aðstæður, hvort sem þeir vilja busla í lauginni eða slaka á í heitu pottunum og eimbaðinu.
Skemmtilegur 9 holu par 3 golfvöllur er í nágrenni þjónustumiðstöðvarinnar. Golfvöllurinn hentar vel bæði byrjendum sem og fjölskyldu- og vinahópum. Þá geta kylfingar, sem eru lengra komnir, ekki síður notið góðs af því að spila völlinn og æft sveifluna og stutta spilið.
Hægt er að fara í mini-golf við þjónustumiðstöðina. Á bakvið þjónustumiðstöðina er gott leiksvæði fyrir börn en á tjaldstæðinu er auk þess körfuboltaaðstaða.
Innandyra er margt hægt að gera sér til dægrastyttingar, spila billiard, þythokkí og fótboltaspil. Þeir sem vilja taka það rólega geta sest niður og haft það notalegt fyrir framan sjónvarpið.
Útsýniskífa með gott aðgengi fyrir fatlaða er á svæðinu þar sem hægt er að sjá hvernig landið liggur og læra helstu örnefni nágrennisins.
Svæðið er mjög vinsælt meðal fjölskyldufólks, starfsmannafélaga og vinahópa. Á hverju ári eru fjölmörg ættarmót haldin í Hraunborgum en þar er sérlega gott útivistarsvæði bæði fyrir börn og fullorðna. Þjónustumiðstöðin er með yfirbyggðum sólpalli þar sem hægt er að slappa af og grilla. Hægt er að leigja pallinn fyrir stærri viðburði.
Svæðið er hugsað sem fjölskyldusvæði og ætlast er til að ró komist á um miðnætti. Aldurstakmark er 25 ára nema sé í fylgd með öðrum fjölskyldum. Fjölskyldufólk er velkomið þó það hafi ekki náð 25 ára aldri.
Leyfilegt er að hafa hunda á tjaldsvæðinu ef þeir eru í bandi.
Þjónustumiðstöðin er opin:
Mánudaga til laugardaga: 10:00 – 20:00
Sunnudaga: 10:00 – 17:00
Verslunarmannahelgin (laugardag til mánudag): 10:00 – 18:00 og 20:00 – 24:00
Þjónustumiðstöðin og tjaldsvæðið er opið frá 22. maí til 31. ágúst 2014
Sími þjónustumiðstöðvar er 486 4414
Opnunartími
13 maí til 28 ágúst
Verð 2016
Verð á tjald, hjólhýsi, tjaldvagn, fellihýsi og húsbíl pr sólarhring: 2.900 kr
Tvær nætur: 5.500 kr
Þrjár nætur: 7.500 kr
Rafmagn: 1.000 kr
Þvottavél: 800 kr
Þurrkari: 800 kr
*Verðin gætu breyst um Verslunarmannahelgi.