Tjaldsvæðið Þórshöfn
Tjaldsvæðið okkar er ofarlega í þorpinu á kyrrlátum og notalegum stað. Þaðan er öll þjónusta í þorpinu í göngufæri. Aðstaða á tjaldsvæðinu er góð. Þar eru borð og bekkir, salernis- og sturtuaðstaða, og gott rými fyrir hjólhýsi og húsbíla með aðgangi að rafmagni. Í íþróttahúsinu Verinu er aðstaðan til fyrirmyndar, þar er stór innisundlaug og heitir pottar, íþróttasalur og líkamsrækt. Þar er einnig upplýsingamiðstöðin staðsett og ýmis önnur aðstaða fyrir ferðamenn, t.d. þvottavél. Við íþróttahúsið er sparkvöllur þar sem oftar en ekki er hægt að finna bæði með- og mótspilara. Hjarta Þórshafnar slær í takt við sjávarföllin, þar hefur útgerð og fiskvinnsla verið aðalatvinnuvegurinn í gegnum tíðina. Því er gaman að rölta niður að höfn og kíkja á mannlífið. Þá er einnig gaman að ganga um lystigarðinn og heilsa upp á Valda vatnsbera. Þjónusta á Þórshöfn er mjög góð, þar er heilsugæsla og apótek, verslun, veitingastaður, grillskáli, íþróttahús og sundlaug, sparisjóður, pósthús, bensínstöð, bílaverkstæði ofl. Við hafnargarðinn við Fjarðarveg eru komin fæðandi söguskilti um þorpið.
Áhugaverðir staðir í nágrenni Þórshafnar eru t.d. Langanes, Bakkafjörður og Rauðanes. Ef keyrt er út á Langanes er upplagt að heimsækja Sauðaneshúsið og fara út á glæsilegan útsýnispall á Skoruvíkurbjörgum. Að fara út í eyðiþorpið Skála og alla leið út á Font gerir ferðina enn betri.
Norlandair er með daglegt flug frá Reykjavík til Þórshafnar með millilendingu á Akureyri, alla virka daga. Bílaleiga Akureyrar er með útibú á Þórshöfn og býður m.a. uppá hentuga bíla til ferða útá Langanes. Einnig er Hertz bílaleiga á Þórshöfn með allar tegundir bíla.