Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi
Þjóðgarðsmiðstöðin er fullhönnuð og byggð út frá alþjóðlega vottunarstaðlinum BREEAM en þau viðmið ganga út frá að notuð séu umhverfisvæn byggingarefni og að úrgangur sé takmarkaður á byggingartíma og í rekstri sem stuðlar að því að byggingarnar verða fyrir vikið umhverfisvænni og hagkvæmari í rekstri.
Aðgengi að húsinu er til fyrirmyndar en hér eru góðir göngu- og hjólastígar sem liggja til og frá þjóðgarðsmiðstöðinni. Hleðslustöðvar munu standa til boða bæði fyrir gesti og starfsfólk þjóðgarðsins.
Starfsmenn á gestastofu Snæfellsjökuls Þjóðgarðs veita upplýsingar og aðstoð. Gestastofan og salernin eru opin allt árið.
Þjóðgarðurinn er fyrsti þjóðgarður landsins sem nær að sjó og hefur þá sérstöðu að geyma minjar frá útræði fyrri alda. Landslagið á Snæfellsnesi er magnþrungið og margbreytilegt. Ströndin er fjölbreytt þar sem skiptast á grýttir vogar, strendur með ljósum eða svörtum sandi og snarbrattir sjávarhamrar með iðandi fuglalífi um varptímann.
Láglendið innan þjóðgarðsins er að mestu hraun sem runnið hefur frá Snæfellsjökli eða eldvörpum á láglendi og eru víðast þakin mosa en inn á milli má finna fallega skjólsæla bolla með gróskumiklum gróðri. Láglendið á sunnanverðu Snæfellsnesi er forn sjávarbotn sem risið hefur frá því ísöld lauk. Hamrabeltin upp af láglendinu eru því gamlir sjávarhamrar.
Snæfellsjökull gnæfir tignarlegur yfir umhverfinu og undirfjöll hans eru margbreytileg að lögun. Ofar í landinu og nær Jökulhálsi eru vikurflákar og land sem er nýlega komið undan jökli.
Smelltu hér ti l að skoða opnunartíma