Höfnin restaurant
Höfnin er fjölskyldurekinn veitingastaður sem Brynjar og Elsa settu upp árið 2010. Sérstaklega var hugað að því að viðhalda tíðaranda og „sál“ hússins sem er mikil en sægrænu húsin við Suðurbugtina eru byggð á árunum kringum 1930 og þjónuðu hér sem beitningaskúrar og netageymslur fram yfir aldamótin síðustu.
Synirnir hafa verið með, ýmist í eldhúsi eða sal. Logi stjórnar eldhúsinu með aðstoð föður síns og annars afburðarfólks sem sér um að gestum líði vel. Brynjar og Logi eru báðir matreiðslumeistarar og Elsa er „kolde jomfru“ sem lærði fræðin í Danmörku. Andri útskrifaðist síðan í framreiðslu frá Höfninni og Hótelskólanum 2015. Sterk tenging fjölskyldunnar til sjómennsku laðaði þau Brynjar og Elsu að þessum stað sem til stóð að rífa en hrunið mikla bjargaði því.
Í dag eru á svæðinu fjöldi veitingastaða og verslana sem byggst hafa upp á allra síðustu árum í bland við smábáta og trillukarla færandi fiskinn heim beint fyrir framan veitingastaðinn. Er hér til orðið nánast nýtt hverfi í miðborg Reykjavíkur sem hundruðir ferðamanna og annarra sækja daglega.
Höfnin er á tveim hæðum og tekur um 100 gesti í sæti og býður einnig ævintýralegt útsýni yfir smábátahöfnina, atvinnustarfsemina og mannlífið sem því fylgir, Esjuna og Faxaflóann.
Á Höfninni er lögð áhersla á klassískan íslenskan mat sem færður er í nútíma búning og meðal vinsælla rétta eru skelfisksúpan sem fræg er orðin, bláskelin, plokkfiskurinn bleikjan og íslenska lamba- og nautakjötið. Útisvæðið okkar er eitt hið allra besta á svæðinu og frábært að njóta þar í mat og drykk.
Fjölskyldan býður gesti sína velkomna í von um að þeir upplifi nútímann í samt klassískum íslenskum mat framsettum af meistarahöndum.