Söguslóðir Austurlands
Verkefnið hefur þróast frá því að vera einfalt söguskiltaverkefni yfir í umfangsmikið, alhliða söguslóðarverkefni. Meginmarkmið verkefnisins er sem fyrr að fjölga þeim ferðamönnum sem leggja leið sína um söguslóðir Hrafnkels sögu Freysgoða og að undirbyggja frekari söguferðaþjónustu á Héraði en þó fyrst og fremst í Hrafnkelsdal og nágrenni á grundvelli þessarar víðlesnu Íslendingasögu. Verkefnið er margþætt en myndar sterka heild með samræmdri hönnun á merkingum, skiltum, bæklingum, vef, bók, snjallleiðsögn og öðru því efni sem framleitt verður. Samstarf er við IÐNÚ-bókaútgáfu um útgáfu á sérstakri myndskreyttri ferðamannaútgáfu á Hrafnkelssögu á nokkrum tungumálum og kom sú íslenska út í ágúst 2009. Í þeirri bók eru auk þess tilvísanir í merkingar og staði á söguslóðum auk korta, leiðarlýsinga, ljósmynda og ítarefnis.