Skútaís - Heimaafurð úr Mývatnssveit
Félagið Skútaís var stofnað árið 2019 og hóf framleiðslu á ís seint það sumar. Ísinn er framleiddur á Skútustöðum og seldur beint frá býlinu. Á Skútustöðum er rekið blandað bú með kúm, kindum og hænum en ásamt því rekur fjölskyldan ferðaþjónustu. Ísgerðin er í eigu systkina sem reka búið og gistiheimilið ásamt mökum þeirra.
Hugmyndin að ísgerðinni fékk Auður Filippusdóttir en hún er kærasta Júlíusar Björnssonar, sem er einn af systkinunum á bænum. Auður var í meistaranámi í matvælafræði við Háskóla Íslands og ákvað að skrifa meistaraverkefni um ísgerð. Verkefnið fólst í uppsetningu ísgerðarinnar, allt frá viðskiptaáætlun að þróun uppskrifta en hún fór einnig á námskeið í ísgerð hjá Háskólanum í Reading, Englandi.
Ísinn er handgerður af Auði og leggur hún mikla áherslu á að hann sé sem ferskastur, því notar hún mjólkina beint frá bænum ásamt gæðahráefnum frá Ítalíu. Ísbúðin á Skútustöðum er opin á sumrin og hefur vakið mikla lukku hjá bæði heima- og ferðamönnum en við höfum ósjaldan fengið að heyra að hann sé sá besti á landinu.
Utan Mývatnssveitar þá fæst ísinn í líters ílátum í Fisk kompaníinu á Akureyri og í Gott og blessað í Hafnafirði allt árið.
Opnunartími í sumar:
Alla daga kl. 12-19.