Golfklúbburinn Skrifla
Hugmyndir um gerð golfvallar á jörðinni Nesi í Reykholtsdal kviknuðu við þáttaskil í búskap á býlinu. Nes er nýbýli skipt frá jörðinni Skáney árið1937 og liggur í miðjum dal, um 2,5 km vestan við Reykholt við veg 518. Golfvöllurinn liggur austast í landi jarðarinnar milli þjóðvegarins og Reykjadalsár. Hann er ræktaður á gömlum túnum og graslendi. Lækur fellur um hann í landbroti. Næst veginum er sléttlendi með skjólbeltum en nær ánni einkenna lautir og hólar landið.
Hannes Þorsteinsson golfvallararkitekt skipulagði völlinn og sagði fyrir um gerð hans en landeigandi, Bjarni Guðráðsson, sá um framkvæmdir og nánari útfærslu. Völlurinn er níu holu, par 70. Lengd hans frá gulum teigum er 2669 m, frá bláum 2337 m. og frá rauðum 2001 m. Einnig er rúmgott æfingasvæði og æfingaflöt fyrir púttspil. Undirbúningur í landinu hófst árið 2004 með gerð lokræsa og skjólbelta til viðbótar þeim eldri skjóbeltum sem voru. Flatirnar voru sumar upphaflega ræktaðar í túninu en aðrar byggðar upp. Reykholtsdalsvöllur var opnaður til notkunar um sólstöður sumarið 2008. Golfskáli var reistur árið 2007. Þar eru sæti fyrir allt að 60 manns. Eigendur jarðarinnar, Sigrún Einarsdóttir og Bjarni Guðráðsson eiga og reka golfvöllinn og golfskálann sem hluta búskapar í Nesi ásamt gistiheimili, ræktun og öðrum mannvirkjum jarðarinnar.
Golfklúbburinn Skrifla var stofnaður í árslok 2008. Félagar eru 16. Reykholtsdalsvöllur er hans heimavöllur og hefur klúbburinn samning við landeigendur um afnot mannvirkja og réttindi félaga á staðnum. Klúbburinn er aðili að Golfsambandi Íslands. Vallarmat fyrir Reykholtsdalsvöll tók gildi 16. febrúar 2010.
Nafn golfvallar: | Holufjöldi: | Par: |
Reykholtsdalsvöllur | 9 |
70 |