Byggðasafnið í Skógum
Skógasafn er eitt elsta byggðasafn landsins en safnið var fyrst opnað almenningi árið 1949. Safnkosturinn samanstendur núna af meira en 18 þúsund munum að mestu frá Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu. Safnið er sérstaklega þekkt fyrir Þórð Tómasson, sem var safnvörður til fjölda ára og bar ábyrgð á mestri söfnuninni. Skógasafn fagnaði 70 ára afmæli árið 2019 og í tilefni þess var sett upp ný sýning um sögu safnsins.
Skógasafn skiptist í raun í þrjú söfn: byggðasafn, húsasafn og samgöngusafn. Byggðasafnið er elsti hlutinn og sýningarhúsnæðið er á þremur hæðum. Þar má finna sjósóknardeild, landbúnaðardeild, náttúrugripadeild, vefnað, forn handrit og bækur, þar á meðal eintak af Guðbrandsbiblíu frá 1584, ásamt munum frá Víkingaöld.
Í húsasafninu má þar finna góða fulltrúa fyrir húsagerð fyrr á öldum. Á neðri hluta sýningarsvæðisins setur torfbærinn mikinn svip á sýningarsvæðið. Þar eru saman komin fjós, skemma, baðstofa, hlóðaeldhús, búr og stofa.
Á efri hluta sýningarsvæðisins er að finna skólabyggingu sem er dæmigerð fyrir sveitaskóla í upphafi 20. aldar. Einnig er þar kirkja og fjósbaðstofa ásamt skemmu. Efst er elsta íbúðarhús úr timbri á safnsvæðinu, byggt í Holti á Síðu 1878.
Í Samgöngusafninu er rakin saga samgangna og tækniþróunar á Íslandi á 19. og 20. öld. Þar má meðal annars kynnast þróun samgangna frá hestum til bíla, sögu símans á Íslandi, upphaf rafmagnsnotkunar ásamt póstsamgöngum fyrr á tímum. Þar er einnig til sýnis bílar frá upphafi bílaaldar, vegminjar frá Vegagerðinni, fjarskiptasafn Sigurðar Harðarsonar og sýning Landsbjargar um björgunarsveitirnar í landinu ásamt mörgu öðru.
Samstarfsaðilar eru: Vegagerð ríkisins, Íslandspóstur, Síminn, Míla, Rarik, Landsbjörg og Þjóðminjasafnið. Í Samgöngusafninu er einnig að finna minjagripaverslun og kaffiteríu.
Þið finnið okkur á Facebook hér.
Þið finnið okkur á Instagram hér