Samgöngusafnið í Stóragerði Skagafirði
Samgöngusafnið í Stóragerði var opnað formlega þann 26. júní 2004 af Ársæli Guðmundssyni þáverandi sveitastjóra Skagafjarðar. Safnið var þá 600 fm salur með lítilli gestamóttöku. Á nokkrum árum var umfangið á safninu orðið það mikið að stækka þurfti salinn um 800 fm ásamt gestamóttökunni, byrjað var á því haustið 2010 og var full klárað fyrir sumarið 2013. Í dag eru um 100 tæki til sýnis í salnum og má þar nefna bíla, rútu, motorhjól, sleða, búvélar, flugþyt og ekki má gleyma öllu því smádóti sem tengist samgöngusögu Íslendinga. Fyrir utan safnið og í kringum það má svo áætla að séu í kringum 150-200 bílar og tæki í misgóðu ásigkomulagi sem flestum gestum okkar þykir ótrúlega gaman að skoða. Verkstæði safnsins stendur sunnan við safnið og er öll uppgerð á bílum og tækjum unnin þar í dag. Aðstaðan til að taka á móti stærri hópum jókst til muna þegar aðtöðuhúsið stækkaði og tekur salurinn allt að 70 manns í sæti. Þá er hægt að fá hann leigðan út fyrir alls konar tilefni.
Stofnendur safnsins voru Gunnar Kr. Þórðarson og Sólveig Jónasdóttir. Gunnar var menntaður bifvélavirkjameistari og Sólveig grunnskólakennari. Gunnar var með brennandi áhuga á samgönguminjum og frá unga aldri safnaði hann sjálfur stórum hluta sýningargripanna. Gunnar gerði upp bæði bíla og vélar og er hægt að sjá afraksturinn á safninu en til að varðveislan væri sem best þurfti að byggja skemmu og var því lítið annað í stöðunni en að opna þetta glæsilega safn fyrir gesti og gangandi. Í febrúar 2019 lést Gunnar eftir harða baráttu við MND sjúkdóminn en afkomendur hans hafa nú tekið við rekstrinum ásamt Sólveigu. Með nýrri hugsjón og framtíðarsýn hefur safnið tekið miklum breytingum ásamt því að margir nýir áhugaverðir safngripir hafa bæst við frá árunum 1980-2000 því synir Gunnars, Jónas og Brynjar, hafa mikinn áhuga á bílum og tækjum frá þessu tímabili.
Það er svo gaman að segja frá því að eftir að safnið opnaði hafa nokkrir gestanna gefið safninu bíla og vélar í þannig ástandi að lítið eða ekkert hefur þurft að eiga við þá og er það ómetanlegt fyrir safnið.