Listasafn Reykjavíkur - Ásmundarsafn
Listasafn Reykjavíkur er staðsett í Hafnarhúsi, á Kjarvalsstöðum og í Ásmundarsafni. Safnið býður upp á fjölbreyttar sýningar og viðburði og er opið alla daga vikunnar. Þá gildir sami aðgöngumiðinn í öll húsin. Safnið er stærsta listasafn hér á landi og hýsir verk margra þekktustu og ástsælustu listamanna þjóðarinnar.
Ásmundarsafn er helgað verkum Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara, eins af frumkvöðlum höggmyndalistar á Íslandi. Safnið er til húsa í einstæðri byggingu sem listamaðurinn hannaði að mestu sjálfur. Verk eftir Ásmund prýða garðinn við safnið.