Rauða Húsið
Veitingarstaðurinn er þekktur fyrir ljúffengan humar sem bráðnar undir tönn og getur Smjattrófan sannarlega staðfest það en skellti hún sér út úr borginni um daginn til að bragða á lostætinu sem hún hefur heyrt svo vel talað um.
Í forrétt var humarsúpa en einnig er hægt að fá hana sem aðalrétt og var hún einstaklega ljúffeng. Matarmikil og bragðgóð en elskhuga Smjattrófunnar fannst súpan svo góð að var brauðið notað til hreinsa skálina algjörlega upp til agna.
Smjattrófan fékk sér humar í aðalrétt og stóð rétturinn algjörlega fyrir sínu. Stór og mikill humar, vel útlátinn með salati og bræddu smjöri. Elskhuginn fékk sér Brim og Bola sem er íslenska heitið á „Surf and Turf“, nema Brim og Boli hljómar einhvernvegin miklu karlmannlegra sem að sjálfsögðu kitlaði rómantíkina hjá Smjattrófunni en samkvæmt elskhuganum smakkaðist rétturinn einstaklega vel og vildi hann að sjálfsögðu fá meira.
Í eftirrétt fengu turtildúfurnar sér „Gamla góða þjórsárshraunið“ og er það réttur sem er sniðugt að deila ef báðir aðilar vilja fá smá sætt, en ekki of mikið en rétturinn samanstendur af ljúffengum ís, heitri súkkulaðiköku þar sem súkkulaðið hreinlega lekur niður og ferskum berjum en getur Smjattrófan sannarlega mælt með þessum rétti með kaffibollanum.
Þjónustan á staðnum var einstaklega góð, nærvera þjónsins var afslappandi og bauð hann upp á drykki, spurði okkur hvernig okkur líkaði maturinn og var hann brosmildur – og meira segja sætur sem er aldrei verra.
Ef þig langar út úr bænum á huggulegan veitingarstað, bragða á ljúffengum humar og fara í afslappað umhverfi þá er Rauða Húsið á Eyrarbakka algjörlega málið.