Gistihúsið Hreiðrið
Á Raufarhöfn við heimskautsbaug er þetta hlýlega gistihús. Uppbúin rúm í eins til þriggja manna herbergjum. Sameiginlegar snyrtingar með sturtum. Á báðum hæðum er góð eldhúsaðstaða og setustofa með sjónvarpi.
Einnig bjóðum við upp á þriggja manna fjölskylduíbúð.
Góð rúm í öllum herbergjum. Þráðlaust frítt net er í húsinu.
Húsið rúmar 30 manns. Góð aðstaða fyrir hópa.
Hreiðrið er opið allan ársins hring, yfir vetrartímann þarf að bóka með fyrirvara.
Raufarhöfn, þorpið við heimskautsbaug er nyrsta kauptún Íslands, aðeins örstutt frá baugnum. Hvergi er vornóttin bjartari eða betra að njóta miðnætursólar en á Melrakkasléttu. Sama á við um norðurljósin haust og vetur.
Á Raufarhöfn má finna sundlaug og sauna, veitingastað á Hótel Norðurljósum og Kaupfélagið sem er gallerí, kaffihús og veitingastaður. Einnig Félagann Bar, matvörubúðina Gunnubúð, heilsugæslu og lyfjaverslun, banka og pósthús, bifreiða-, dekkja- og vélaverkstæði ásamt fleiru.
Gönguferð um Höfðann við höfnina afhjúpar mörg falin leyndarmál.
Einnig er hringur um ásinn ofan við þorpið góð gönguleið.
Hægt er að fara í sögugöngu með leiðsögn um Raufarhöfn ef bókað er með fyrirvara.
Ofan við þorpið er að rísa stærsta útilistaverk á Íslandi, Heimskautsgerðið. Þar er sjóndeildarhringurinn hreinn, ekkert hindrar sólarljós eða tunglsljós. Öll sólris og sólsetur sjást að því gefnu að ekki sé skýjað. Sama á við um gang tungls.
Skammt norðan við Raufarhöfn, nyrst á Melrakkasléttu er Hraunhafnartangi, nyrsti hluti Íslands. Þar er Þorgeirsdys sem talin er vera haugur fornhetjunnar Þorgeirs Hávarssonar, en frá vígi hans í frækilegum bardaga segir í Fóstbræðrasögu. Gaman er að ganga út í vitann í Hraunhöfn.
Ströndin er vogskorin og lífríkar fjörurnar iðandi af fjölskrúðugu fuglalífi.
Víða á Melrakkasléttu er hægt að fá veiðileyfi í vötnum.
Í nágrenninu:
Rauðanes í Þistilfirði er falleg og sérstæð náttúruperla. Um nesið er merkt gönguleið sem er um 7 km, liggur í hring og er auðfarin.
Forystufjársetur, sýning um forystufé á Svalbarði í Þistilfirði. Í kjallara setursins er notalegt kaffihús, Sillukaffi sem býður þjóðlegar veitingar.