Hönnunarsafn Íslands
Hönnunarsafn Íslands er lifandi safn sem eykur vitund, kveikir neista og skapar tækifæri tengd íslenskri hönnun frá árinu 1900 til framtíðar með því að safna, rannsaka, skrá og miðla. Safnið er vettvangur fyrir samfélag sem lætur sig þessa hluti varða og nýtir sér aðgang að þekkingu og aðstöðu safnsins. Þetta samfélag tekur virkan þátt í að móta safnið ásamt starfsfólki og gestum.
1998 gerðu menntamálaráðuneytið og Garðabær samkomulag um að reka í sameiningu íslenskt hönnunarsafn er safnaði og sýndi listiðnað. Aðdragandinn hafði verið allnokkur en rekja má þá formlegu umræðu sem hafði farið fram um nauðsyn á slíku safni aftur til ársins 1992 þegar félagið Form Ísland setti saman umræðuhóp með fulltrúum hönnuða, menntamálaráðuneytis, Listasafns Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Reykjavíkurborgar um slíkt safn. Í framhaldinu, eftir vinnu hópsins, var þeim tilmælum beint til menntamálaráðuneytis að skipa nefnd er mæti með hvaða hætti stofna mætti safn er sinnti listiðnaði. Í byrjun árs 1997 var niðurstaða nefndarinnar sú að mikil þörf væri á safni er sinnti listhandverki og iðnhönnun.
Fyrst um sinn var safnið deild í Þjóðminjasafni Íslands en með nýjum samningi við menntamálaráðuneytið, sem undirritaður var í desember árið 2006, tók Garðabær við rekstri Hönnunarsafns Íslands og starfar safnið sem stofnun á vegum bæjarfélagsins. Safnið hafði til afnota lítinn sal við Garðatorg og hélt nokkrar sýningar á ári en skrifstofu og varðveislurými var að finna á öðrum stað. Árið 2009 var safninu valinn staður við Garðatorg 1 og fluttist öll starfsemi safnsins þangað þegar reglubundið sýningahald safnsins hófst í maí 2010. Í safninu starfa forstöðumaður og fulltrúi safneignar ásamt gæslu- og afgreiðslufólki.