Fara í efni

Gljúfrasteinn - Safn Halldórs Laxness

Gljúfrasteinn var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness og fjölskyldu hans um hálfrar aldar skeið. Húsið er safn Halldórs Laxness þar sem heimili og vinnustaður hans eru látin haldast óbreytt. Stærstu vistarverurnar eru stór stofa á jarðhæð og skrifstofa Halldórs á annarri hæð. Þar er bókasafn hans varðveitt svo og vinnupúltið sem hann stóð gjarnan við.

Mikill fjöldi listaverka setur sterkan svip á heimilið, meðal annars eftir Svavar Guðnason, Nínu Tryggvadóttur, Jóhannes Kjarval og danska málarann Asger Jorn. Einnig gefur þar að líta útsaumsmyndir eftir Auði Laxness sem var annáluð hannyrðakona. Húsgögn og innanstokksmunir eru þeir sömu og í tíð Halldórs og Auðar.

Halldór Laxness var mikill útivistarmaður og gekk mikið í nágrenni Gljúfrasteins enda umhverfið fagurt. Gestir eru hvattir til að nýta sér gönguleiðirnar í nágrenni hússins sem stendur við ána Köldukvísl og er byggt í landi jarðarinnar Laxness þar sem Halldór ólst upp.

Boðið er upp á vandaða hljóðleiðsögn um húsið á íslensku, ensku, dönsku, sænsku og þýsku en hægt er að fá leiðsögn á öðrum tungumálum í samráði við starfsfólk.

Opnunartími:
1. júní - 31. ágúst : 10:00-17:00 alla daga.
1. september - 31. maí: 10:00-16:00 alla daga nema mánudaga
Lokað er um helgar frá nóvember og út febrúar.

Hvað er í boði