Landmannalaugar - Ferðafélag Íslands
Í Landmannalaugum, við annan enda Laugavegarins, stendur rúmgóður skáli. Þar er gistirými fyrir 78 manns.
Skáli Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum er stór og rúmgóður og þar geta 78 manns sofið. Skálinn er á tveimur hæðum. Á neðri hæðinni er anddyri, stórt eldhús þar sem hægt er að setjast niður og borða og stór svefnskáli með kojum. Á efri hæðinni eru þrjú svefnloft með samliggjandi rúmbálkum og eitt lítið herbergi með kojum. Í skálanum er góð eldunaraðstaða með gasi, mataráhöldum, borðbúnaði og köldu og heitu rennandi vatni. Stórt kolagrill er úti á palli.
Skálinn tengist salernishúsi með góðum trépalli. Salernishúsið er stórt og þjónar ekki bara skála- og tjaldgestum svæðisins, heldur líka þeim fjölmörgu daggestum sem heimsækja Landmannalaugar. Sturtur eru í salernishúsinu.
Gestir í Landmannalaugum fara ýmist í dagsgöngur eða ganga Laugaveginn. Vinsælar dagsgöngur eru til dæmis ganga um Laugahraun og á Brennisteinsöldu, á Bláhnúk og ganga um Suðurnámur. Fjöldi annara gönguleiða er á svæðinu, gott er að spyrja starfsfólk um ástand gönguleia hverju sinni.