Fara í efni

Katla Jarðvangur / Katla Geopark

Katla Jarðvangur

Í Kötlu jarðvangi eru margar merkilegar jarðminjar, sumar á heimsvísu.  Yfir 150 eldgos hafa verið skráð þar frá landnámi. Eldvirknin hefur mótað landið og haft áhrif á búsetu manna eins og öskugosin í Eyjafjallajökli 2010 og Grímsvötnum 2011 sanna. Einstaklega kvik og síbreytileg náttúra hefur mótað sögu og mannlíf jarðvangsins í aldanna rás.

 

Katla jarðvangur nær yfir land þriggja sveitarfélaga, Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps. Flatarmál hans er 9542 km2 eða rúm 9 % af heildarflatarmáli Íslands. Íbúafjöldi er um 2700 manns. Kvikfjárrækt hefur verið megin atvinnuvegur svæðisins en síðustu ár hefur kornrækt aukist. Hvolsvöllur, Vík og Kirkjubæjarklaustur eru helstu þjónustukjarnar fyrir sveitirnar. Undanfarin ár hefur mikilvægi ferðaþjónustu aukist gríðarlega í atvinnulífi svæðisins.

 

Jarðfræði

Ísland er á Mið-Atlantshafshryggnum þar sem tveir jarðskorpuflekar gliðna í sundur á svokölluðu rekbelti. Auk þess er möttulstrókur undir landinu með miðju undir Vatnajökli. Samspil rekbeltis og möttulstróks veldur flókinni og fjölbreyttri eldvirkni á Suðurlandi.

Sérstaða Kötlu jarðvangsins felst í þessari eldvirkni og víðfeðmum áhrifum hennar á landmótun og náttúrufar. Einkennandi eru megineldstöðvar, gígar og gossprungur, gervigígar, hraunbreiður, móbergsfjöll og móbergshryggir sem hafa sömu stefnu og rekbeltið. Eldstöðvakerfin Hekla, Katla, Grímsvötn og Bárðarbunga eru virkust við landmótunina.

Jöklar eru einnig áberandi í landslagi þar sem þeir þekja hæstu eldfjöll. Frá þeim falla skriðjöklar og jökulár. Jökulgarðar og jökullón eru einnig áberandi. Hamfaraflóð vegna eldgosa undir jökli mynduðu sandana á láglendi.

Elsta bergið er um 2,5 milljón ára gamalt og finnst við rætur Lómagnúps sem er gamall sjávarhamar og eitt hæsta standberg landsins (671 m). Aðrar áhugaverðar myndanir í jarðvanginum eru steingervingar í hnyðlingum og gjóskulög sem hafa reynst vel við aldursákvarðanir. 

Hvað er í boði