Icelandic Riding
Reiðtúr.is/Icelandic Riding er lítið fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfir sig í hestaferðum fyrir einstaklinga og litla hópa.
Reiðtúr.is er staðsett að Ökrum í Mosfellsbæ en þar hefur fjölskyldan búið í yfir 100 ár. Á jörðinni var áður stundaður hefðbundinn búskapur auk ylræktunar, en í dag eru þar einungis nokkrir hestar.
Ferðirnar okkar henta byrjendum og vönum knöpum. Við bjóðum einungis upp á prívat ferðir þar sem reiðtúrinn er sérsniðinn að reynslu hvers hóps fyrir sig. Lengd ferða getur verið frá klukkustund og upp í þrjár klukkustundir eða lengur eftir samkomulagi. Ferðin byrjar alltaf með æfingu og upprifjun inn í gerði þar sem hestar og menn fá tækifæri til að kynnast og stilla saman strengi áður en lagt er af stað.
Litla hestaleigan okkar er á mörkum byggðar og fjalla. Hægt og rólega er hefur byggðin færst nær okkur og það er gaman sjá hvernig sveit og borg mætast rétt við túnjaðarinn. Hestarnir hafa vanist því að vinna með okkur í fjölbreyttu umhverfi og ýmiskonar áreiti, en að sama skapi njóta þeir þess að fjöllin taka við af túnunum og áður en maður veit af gæti maður hafa stigið mörg hundruð ár aftur í tíman.
Við leggjum allan okkar metnað í að gera ferðirnar skemmtilegar og fræðandi þannig að eftir sitji þekking á íslenska hestinum, sögu svæðisins og náttúru.
Hestarnir spila stórt hlutverk í lífi okkar og eru sannarlega hluti af fjölskyldunni. Hestaleigan er okkar aðferð til að geta haldið áfram að stunda einhverskonar búskap á jörðinni og tryggja hestunum okkar besta mögulega atlætið, þar sem þeir fá mikið pláss til útiveru í fjölbreyttu landslagi, fjöll, melar, mýrar, lækir og grösug tún.
Við útvegum reiðhjálma, létta vettlinga og pollagalla. Við hvetjum gesti til að koma í þægilegum skóm og fötum sem henta til útvistar.
Aldurstakmark er 12 ára. Við biðjum ykkur að hafa í huga að þyngdartakmörk eru 110kg.
Fyrir þá sem vilja ekki fara á hestbak er í boði að koma og láta teyma undir sér, hitta hestana, hirða um þá og/eða fá gönguleiðsögn um svæðið og fjöllin í kring.
Sjá heimasíðu fyrir frekari upplýsingar. Hægt er að bóka ferð beint í gegnum reidtur@reidtur.is