Hrafntinnusker - Ferðafélag Íslands
Í Hrafntinnuskeri á gönguleiðinni um Laugaveginn stendur Höskuldsskáli, þar er gistirými fyrir 52 manns.
Skálinn stendur á tveimur hæðum. Á neðri hæð hússins er anddyri, tveir svefnsalir með kojum, langborðum og stólum og eldhús með rennandi köldu vatni, gashellum og öllum eldhúsáhöldum. Á efri hæðinni er eitt herbergi og tveir svefnsalir þar sem sofið er á dýnum á gólfinu. Kolagrill er úti á palli. Sérstakur skálavarðaskáli stendur skammt vestan við húsið.
Kamaraðstaða með vöskum er sambyggð húsinu en þó er ekki innangengt úr skálanum á kamarinn. Stór og rúmgóður trépallur liggur allt í kringum húsið og tengir skálann og kamarinn. Engin sturta er á svæðinu. Annar lítill kamar er staðsettur á tjaldsvæðinu skammt fyrir neðan skálann auk þess sem reist hefur verið skýli fyrir tjaldgesti. Tjaldað er á grjótmel.
Flestir gestir skálans ganga Laugaveginn, en auk þess er á svæðinu skemmtileg gönguleið á Söðul. Þegar vel viðrar er krefjandi en skemmtilegt að ganga á Háskerðing, þaðan er stórbrotið útsýni á góðum dögum.