Fara í efni

Pylsuvagninn

Allt hófst þetta nú…

Árið 1984 þegar að Ingunn Guðmundsdóttir fjárfestir í afar smáu húsnæði í þeim tilgangi að selja pylsur. Aðeins var um þriggja fermetra kofa að ræða sem staðsettur var við Ölfusárbrú á Selfossi, en aðeins ein manneskja stóð vaktina í einu án salernis og rennandi vatns.

Árið 1985 var ráðist í framkvæmdir og vagninn stækkaður upp í heila sjö fermetra. Lúxusinn að hafa rennandi vatn var bætt við, en enn var ekki salernispláss. Starfsmönnum hafði þó fjölgað frá einni manneskju og upp í átta talsins.

Árið 1988 urðu tímamót í sögu Pylsuvagnsins á Selfossi, en þá tvöfaldaðist fermetrafjöldi vagnsins úr sjö í fjórtán fermetra og við bættist hið langþráða salerni sem notað hefur verið óspart allar götur síðan. En á þessa viðbyggingu bættist einnig við bílalúga, en viðskiptin stórjukust við þvílíka nýjung enda áður óseð tækni á Selfossi.

Árið 1995 er svo algjörlega ný bygging fyrir fyrirtækið byggð frá grunni. Eftir smíðina er Pylsuvagninn á Selfossi núna útbúin tveimur bílalúgum, stærð hans orðin 22 fermetrar og starfsmennirnir orðin 18 talsins. Enn í dag lítur vagninn svipað út en þó hefur margt breyst.

Árið 2009 gengur í garð og enn bætist í fermetrafjölda Pylsuvagnsins. Glæsileg viðbygging að aftanverðu er kláruð með pomp og prakt sem stækkar vagninn upp í 86 fermetra og gerir fyrirtækinu kleift að hafa allan sinn lager ásamt matarsölu í sama húsnæðinu. Það útlit heldur sér enn og í dag eru um 30 starfsmenn sem standa vaktina með bros á vör.

Hlökkum til að sjá ykkur, stelpurnar í Pullaranum!

Hvað er í boði