Skíðasvæðið Hlíðarfjalli
Hlíðarfjall hefur verið í fremstu röð skíðasvæða á Íslandi í 60 ár. Á skíðasvæðinu eru 8 mismunandi lyftur og fjölbreyttar og skemmtilegar skíðabrekkur með frábæru útsýni yfir Eyjafjörð. Stökkpallar og brautir eru fyrir snjóbrettafólk og aðstaða fyrir gönguskíðafólk er góð. Gönguskíðabrautir allt frá 1,2 – 10 km eru lagðar þegar veður og aðstæður leyfa og eru yfirleitt troðnar einni klst. fyrir auglýstan opnunartíma. Hluti af gönguskíðabrautinni, 3,5 km, er upplýstur á hverjum degi til kl. 22:00. Það ættu allir að geta fundið brekkur við sitt hæfi. Snjóframleiðslukerfi er í Hlíðarfjalli sem tryggir gott færi allan veturinn.
Skíða- og snjóbrettaskóli Hlíðarfjalls er fyrir börn á aldrinum 5-15 ára. Einnig eru námskeið í boði fyrir fullorðna svo og einkakennsla fyrir alla aldurshópa. Veitingasala er á tveimur stöðum í Hlíðarfjalli, í skíðahótelinu sjálfu og Strýtuskála. Í Hlíðarfjalli er starfrækt skíða- og snjóbrettaleiga þar sem hægt er að leigja allan búnað.
Í Hlíðarfjalli er góð aðstaða til útivistar á sumrin og boðið er uppá lyftuferðir fyrir gangandi og fjallahjólara sem geta tekið hjólin með sér í lyftuna.
Fjarkinn stólalyfta er aðal lyftan á sumrin en í ár opnar efri stólalyftan, Fjallkonan, 5 helgar til að leyfa gestum að komast með lyftum uppfyrir 1000m.
Í Hlíðarfjalli er eini hjólagarður Íslands með frábærum hjólaleiðum víðsvegar um fjallið sem tengjast svo áfram niður í Glerárdal og alla leið út í Kjarnaskóg ef útí það er farið.
Svæðið er ekki síður skemmtilegt fyrir gangandi sem geta notið útsýnisins yfir Eyjafjörðinn og gengið um í fallegu landslagi ofan við Akureyri. Hægt er að ganga ýmsar leiðir um hlíðar fjallsins eða halda uppá fjallið sjálft að t.d Harðarvörðu. Gangandi gestir geta bæði gengið niður eða nýtt sér lyfturnar svo það getur nánast hver sem er komið með í Hlíðarfjall að sumri til, ungir sem aldnir.
Opnunartímabil Hlíðarfjalls sumarið 2024:
Fjarki stólalyfta – 11. Júlí til 8. September - Fimmtudag til Sunnudags
Fjallkona stólalyfta – 27. Júlí til 25. Ágúst – Laugardaga og Sunnudaga