Hekluhestar
Hekluhestar - Hestaferðir síðan 1981
Sveitabærinn Austvaðsholti er þar sem hjarta Hekluhesta slær, heimili 90 hesta sem hafa verið ræktaðir með hestaferðirnar í huga, ljúfir og ganggóðir. Auk hestanna eru 200 sauðfjár, íslenskir fjárhundar og landnámshænur sem setja skemmtilegan svip á sveitalífið. Austvaðsholt er vel í sveit sett, 30 mínútna keyrsla frá Selfossi og 1 klst frá Reykjavík. Bærinn er við hina kyrru og tæru Rangá Ytri auk þess sem frá bæjarhlaðinu sjást Hekla, Tindafjallajökull, Eyjafjallajökull og fleiri formfögur fjöll.
Gistihúsið sem er á staðnum er tilvalið fyrir minni hópa (ca. 15 manns).
Stuttir reiðtúrar
Tími: Allan ársins hring
Stuttir reiðtúrar frá 1 klst uppí heilan dag. Riðið er um Landsveitina meðfram Rangá með útsýni á fjöllin í kring. Hægt er að busla í nokkrum lækjum og eru ferðirnar sniðnar að þörfum hvers hóps fyrir sig.
Miðnæturreiðtúr
Tími: Júní
Gestir koma til okkar á sveitabæinn Austvaðsholt um kvöldið og lagt er af stað um 20:30 leytið til að sækja hestana. Gestir taka þátt í að bursta hestunum og gera þá tilbúna fyrir reiðtúrinn. Lagt er af stað þegar allt er orðið klárt. Klukkan er eflaust á milli 21:00-21:30. Riðið er af stað frá sveitabænum í átt að Rangá og riðið meðfram henni með útsýnið yfir Heklu og fjallahringinn í kring. Reiðtúrinn varir í tvo til þrjá tíma, á meðan miðnætursólin skartar sínu fegursta. Þegar heim er komið er boðið uppá heitt kakó og heimatilbúið bakkelsi. Svefnpokaplássgisting er innifalinn í gistihúsinu á bænum. Daginn eftir er boðið uppá brunch.
Helgarævintýri– 3 dagar
Tími: Maí og Júní
Boðið er uppá 3 daga ferðir þar sem riðið er um Landsveitina. Fyrsta daginn er riðið meðfram Rangánni að Landréttum sem er sögulegur staður. Endað á Skarði, hestar skildir eftir þar og keyrt til Austvaðsholts þar sem kvöldmatur er reiddur fram. Annan daginn er riðið í kringum Skarðsfjall og hádegismatur snæddur í stærsta manngerða Helli Íslands að Hellum. Hestar eru á beit á Hellum þangað til daginn eftir. Skellum okkur í smá ökuferð, fossar skoðaðir í nágrenninu og stuttir göngutúrar á forvitnilega staði. Komið við í sundlauginni Hellu áður en snæddur er kvöldmatur. Síðasta daginn er riðið frá Hellum að Austvaðsholti, mjúkir kindaslóðar þræddir í gegnum Stóruvallaland. Hestarnir kvaddir og kaffi og með því verður á boðstólnum þegar heim er komið.
6 og 8 daga hestaferðir
Tími: Júní-Ágúst
Hestarferðir um Friðaland að Fjallabaki. Farið er um stórfengleg landsvæði á hálendi Íslands þar sem íslenski hesturinn fær að spreyta sig í sínu náttúrulega umhverfi. Í 6 dögunum er farið frá sveitabænum Austvaðsholti uppí Landmannalaugar og til baka aðra leið, meðal annars skoðað falleg náttúrufyrirbæri eins og Ljóta poll. Tilvalið fyrir hestaunnendur sem vilja njóta náttúru Íslands á hestbaki. Í 8 dögunum er farið frá Sveitabænum Austvaðsholti og uppí Landmannalaugar, þaðan er haldið áfram austur að Eldgjá, farið yfir Mælifellssand með Mýrdalsjökul skagandi yfir í öllu sínu veldi þar sem er svo endað með að ríða niður í Fljótshlíð og heim aftur í Austvaðsholt. 8 dagarnir eru fullkomnir fyrir vana hestamenn sem sækjast eftir krefjandi ferðum sem er um leið skoðað íslenska náttúru í allri sinni dýrð.
Hægt er að bóka hér eða í síma 869-8953
Finnið okkur á Facebook hér.
Fylgist með lífi okkar á instagram