Hagavatn - Ferðafélag Íslands
Undir Einifelli við Hagavatn er lítill og huggulegur skáli þar sem gistirými er fyrir 12 manns.
Komið er inn í opið anddyri og stigið upp á pall með kojum til sitt hvorrar handar og borði á milli. Lítið opið svefnloft er yfir hálfum skálanum. 6 manns geta sofið í kojunum og 6 manns á svefnloftinu en þá er þröngt legið.
Ekki er eiginleg eldhúsaðstaða í skálanum en hann er hitaður upp með viðarkamínu. Ekkert rennandi vatn er á svæðinu en kamar stendur skammt frá skálanum. Gott tjaldstæði er bæði undir Einifellinu sem og við skálann.
Margt er að sjá við skálann, þaðan er hægt að ganga um Jarlhettur, að Hagavatni og fossunum í Farinu. Einnig er hægt að ganga að Langjökli.