Fara í efni

Glacier Guides

Jöklamenn (Glacier guides) er ævintýrafyrirtæki sem sérhæfir sig í fagmannlegri fjallaleiðsögn og leggur metnað sinn í að bjóða upp á sem fjölbreyttast úrval jökla- og fjallaferða. Höfuðstöðvar Jöklamanna eru í Skaftafelli, vel staðsettar gagnvart hrikalegri náttúru svæðisins sem veitir okkur innblástur til góðra verka. Söluskrifstofan okkar er umhverfisvæn og byggð af stærstum hluta úr afar óhefðbundnu hráefni. Hún er staðsett við Gestastofuna í Skaftafelli.
Jöklar þekja um 10% landsins og landsvæði sem nær hærra en 600 m yfir sjávarmál þekur yfir 35%. Við búum í landi fjalla, jökla og stórbrotinnar náttúru og þessi einkenni hafa að miklu leiti mótað okkur öll sem einstaklinga. Það er sem betur fer afar misjafnt hvert hugur manna stefnir og hvar áhugasviðið liggur. Við bjóðum fram krafta okkar fyrir þá Íslendinga sem hafa áhuga á að kynnast landinu sínu á nýjan hátt og njóta til hins ýtrasta þess sem það hefur upp á bjóða. Stór hluti okkar viðskiptavina eru útlendingar sem falla oftar en ekki í stafi yfir mikilfengleik landsins okkar, en við trúum því að Íslendingar séu í sífellt meira mæli að læra að meta það sem við búum við. Stærsti jökull veraldar utan heimskautasvæðanna er innan seilingar með alla sína fögru fjallatinda auk allra hinna fjallanna og jöklanna í landinu.
Vel þjálfaðir og reyndir leiðsögumenn eru okkar aðalsmerki. Það krefst mikillar sérþekkingar að geta leitt fólk um svæði sem þau sem ferðir okkar fara um og við setjum öryggið í fyrsta sætið. Öryggi er forsenda gleði, hamingju og skemmtilegrar upplifunar í fjallaferðum. Við leggjum einnig ríka áherslu á að nota aðeins besta útbúnað sem völ er á í ferðum okkar þar sem hann er forsenda þess að þekking og reynsla leiðsögumannanna nýtist til hins ítrasta. Við hvetjum fólk til að nýta sér sérþekkingu okkar og koma með í skemmtileg jökla- og fjallaævintýri.
Það er okkur hjartans mál að haga starfsemi okkar á þann hátt að hún hafi sem minnst áhrif á viðkvæmt umhverfið sem við störfum í. Við höfum því mótað okkur stranga umhverfisstefnu sem við vinnum eftir og við hvetjum þig einnig til að leggja þitt af mörkum. Móðir jörð er leikvöllur okkar og heimili, við höfum gengið alveg nógu  nærri henni vegna fáfræði og græðgi og það er kominn tími til að við förum að sýna henni þá virðingu sem hún á skilið.

Jöklaganga: Á Snæfellsjökli, Eyjafjallajökli, Sólheimajökli og Falljökli og Virkisjökli í Skaftafelli.
Ísklifur: Á Sólheimajökli og Falljökli í Skaftafelli.
Göngu- og fjallaferðir: Á Heklu, Sólheimajökul, Snæfellsjökul, Eyjafjallajökul, Hvannadalshnjúk, Hrútfjallstinda, Sveinstind, Þverártindsegg og Þumal.
Klettaklifur: Í Valshamar í Hvalfirði og á Hnappavöllum í grennd við Skaftafell.
Hjólaferðir: Í Reykjavík, Reykjadal og Skaftafelli.
Bátsferð: Á Fjallsárlóni og Jökulsárlóni.
Samsettar ferðir: Samblanda mismunandi afþreyingar á einum degi. Frá Reykjavík og Skaftafelli.


Með fyrirfram þökk…Við hvetjum þig til að taka fram gönguskóna og slást í för með okkur í næsta ævintýri.

Hvað er í boði