Björn Jónsson / Ferðaþjónustan Vorsabæ
Hestaferðir
Í Vorsabæ 2 er boðið er upp á hestaferðir þar sem lögð er áhersla á persónulega þjónustu og leiðsögn. Eingöngu er tekið á móti litlum hópum og það er tilvalið fyrir fjölskyldur eða litla vinahópa þar sem allir geta tekið þátt. Við tökum að okkur að teyma hesta undir minna vönum börnum í ferðum.
Allar ferðir hefjast inni í reiðhöll þar sem hver og einn getur kynnst hestinum sínum. Svo er farið og riðið út um næsta nágrenni á þeim hraða sem hentar hverju sinni.
Við erum með trausta og skemmtilega hesta við allra hæfi, bæði fyrir alveg óvana og vana knapa. Í boði eru 1, 2 og 3 tíma hestaferðir, en einnig eru í boði dagsferðir fyrir vana knapa sem taka 5 tíma.
Einnig bjóðum við upp á það að teyma hesta undir börnum inni í reiðhöll í um 10 mínútur fyrir hvert barn.
Sveitalíf / Heimsókn á bæinn
Hægt er að koma í heimsókn til að skoða dýrin og búskapinn á bænum. Tekið er á móti litlum og stórum hópum og gefst gestum kostur á að fræðast um dýrin og klappa þeim. Starfsemin getur verið nokkuð mismunandi eftir árstíma og t.d. á vorin geta allir séð nýfædda kiðlinga, lömb og folöld.
Orlofshús til útleigu á bænum
Húsið rúmar allt að 7 manns í gistingu. Þar eru 2 svefnherbergi, í öðru er tvíbreitt rúm en í hinu eru kojur. Auk þess er rúmgott 18 fermetra svefnloft og þar eru 3 rúm. Auk þess er hægt að fá lánað barnarúm án gjalds fyrir 2 ára og yngri. Eldhúsið er búið öllum nútíma tækjum og áhöldum og í setustofu er sjónvarp. Við húsið er skjólgóð verönd með garðhúsgögnum og gasgrilli. Ekki er aðgangur að heitum potti en hægt er að komast í sundlaug sem staðsett er í 2 km. fjarlægð. Upplögð staðsetning fyrir þá sem ferðast um Suðurland, þar sem stutt er til margra vinsælla ferðamannastaða og stutt í margskonar þjónustu.